Juuu hvað tíminn líður hratt

Jæja þá er nú mín komin heim í ruslaríishúsið sitt – hér er allt í voða og vitleysu því Ragnheiður og Jósep eru að flytja í stofuna og gera úr hennni lítið afdrep fyrir sig og ég er flutt með stofuna mína í herbergið þar sem allt mitt föndur, skóla og annað djásn var… Og hvar á það þá að vera? Hef ekki hugmynd og ég á áreiðanlega aldrei eftir að finna neitt framar.

Ég er búin að vera eins og landafjandi í allan dag að reyna að koma einhverju skikki á þessi mál en nú nenni ég ekki meiru! Sest hér niður og þykist vera að læra og vinna en kem engu í verk! En amk er aðstaðan orðin ákjósanleg og allt í þessu fína bara – sólin getur meira að segja skinið hér inn og samt sést í sjónvarpinu það sem þar er. Þetta verður fínt – bara þegar ég verð búin að finna út úr þessu með 9000 hlutina mína sem vantar nú heimili….

Ég fór til Baldurs sjúkraþjálfa í gær og sá var nú stoltur af sinni skjólstæðingnum sínum – enda full ástæða til. Ég fór nú á vigtina hjá honum og það var ekki sérlega góð tala miðað við að sú vigt ætti að sýna aðeins meira en sú á Reykjalundi – þá virðist sem sagt eitthvað vera að hægjast á léttingnum – en hver getur nú búist við því að léttast um 2 kg á viku – það er nú bara frekja. Ég sætti mig við hálft kíló – það er svona til að stefna á líka þegar heim er komið.

Ég er komin í smá meðferð hjá iðjuþjálfara – þeim þykir sem mín hafi full mikið á sinni könnu og eru að reyna að kenna mér að ég sé ekki löt kona… en mér hefur alltaf fundist ég svo ótrúlega löt… aldrei gert nóg. En nú hef ég sem sagt lært að ég er ekki löt… á frekar til að taka of mikið að mér og lenda í vandræðum útaf öllu saman. En nú er sem sagt markmiðið að semja góða dagskrá sem FARIÐ VERÐUR eftir þegar heim er komið.

Daglega lífið tekur sinn toll:

Versla
Elda
-en þetta tvennt verð ég að gera enn um sinn ef þetta á að ganga. Á móti getur komið að aðrir ganga frá og þrífa eldhús og bað t.d…. Jafnvel sett í þvottavélina við og við.

Nú svo þarf að hafa tíma fyrir heilsuræktina og reglan er sú að ef maður er í mikilli yfirþyngt og ætlar að nýta sér hreyfingu til að léttast þá þarf maður að hreyfa sigí 90 mínútur á dag. Það þarf sem sagt að koma því inn í dagsáætlunina. Þeim 90 mínútum á þann hátt að ég veit að ég fari þá og þegar ég á að gera það.

Svo þarf vinnan að passa inn í þetta allt saman…

Þetta er sem sagt verkefni næstu viku að búa til sannfærandi áætlun fyrir þetta allt saman. Ég er með ýmis ráð upp í erminni sem ég veit að ég get beitt – svo sem að vera einbeittari í vinnutímanum og vera klárari á því hverju ég ætli að sinna og hverju ég ætli að ljúka.

Og svo veit ég að ég þarf að hafa fínt heima hjá mér annars klikkast ég – og þá meina ég nú bara svona milli fínt… ykkur þætti það nú vísast ekki mjög fínt – það verður að hafa í huga að henni Ingveldi þykir heimilisstörf algjörlega ótrúlega leiðinleg og það er eins og hvert annað afrek af hennar hálfu að sinna þeim yfir höfuð…

Að svo mæltu er rétt að henda nokkrum flíkum í þvottavél og athuga hvort ekki megi þrífa hér eitthvað í kringum mig frekar!

2 athugasemdir á “Juuu hvað tíminn líður hratt

  1. Þú getur þetta!!!Hef fulla trú á þér!!Djö….. hefur þú staðið þig vel á Reykjalundi, en það kemur svo sem ekkert á óvart:) Þú stendur þig alltaf vel hvað svo sem þú tekur þér fyrir hendur!!Miss youKv Sigurlín

    Líkar við

Færðu inn athugasemd