Kannski maður ætti ekki að vera að blogga

Ég þarf alveg að rembast við að vera ánægð með 2009. Það ætlar svei mér ekki að vera mér þægilegt til að byrja með! Ég er eiginlega á algjörum bömmer og ég meira að segja veit ekki hvort ég eigi að gera eitthvað í því eða halda bara áfram að liggja og rísa svo upp þegar þörfn er brýn (ofan í kaupið þá er ég ótrúlega léleg í y – dísuss!) En er ekki best að vera heiðarleg – horfast í augu við bolann sem maður glímir við. Maður er jú í góðum höndum og fullt af fólki að hugsa um mig og hjálpa til að koma mér í stand! Það er víst bara meira mál en ég hélt fyrir þremur árum síðan – þó mér hafi vissulega liðið þannig þá að ég hafi verið að drepast – sem líklega hefur bara verið raunin.

Æ mann langar bara svo að allt sé í lagi.

Ég vildi óska að Jón væri enn lifandi og Dísa ætti manninn sinn, Guðjón föður sinn og Sigfús sömuleiðis. Ég vildi óska að góður drengur hér á Selfossi hefði verið örlítið öðruvísi staðsettur og þannig haldið lífi, börnin hans tvö ættu enn sinn góða föður og konan hans maka sinn og vin. Sekúndubrot…. ,,Ég er farinn út að hlaupa…“ stóð á Facbook hjá honum og nokkrum mínútum síðar er hann allur. Ég vildi óska að sorgin vitjaði ekki svo margra. Ég vildi óska…

Ég er einhvern veginn öll í þvi að ég vildi að hlutirnir væru öðruvísi – auðvitað leiðir það svo þangað að nú er seinni hálfleikur að hefjast og það þarf þá bara að spila öðruvísi ef maður er óánægður – kannski verður maður líka sáttur einn daginn því vísast hefur nú líf manns ekki verið nein katóstrófía… ég sé það áreiðanlega á endanum! Bráðum…

Ég fór í þolpróf á Reykjalundi í dag og það gekk nú svei mér illa. Ég var svo stressuð þegar ég byrjaði í því að púlsinn minn var þá þegar orðinn 100 en venjulega er hann í hvíld um 65. Læknirinn þráspurði mig hvenær ég byrji að hreyfa mig og ég sagði alltaf það sama – ég væri búin að hreyfa mig í 2 og hálft ár linnulítið – en hann sá þess fá merki. Nema úthaldið virtist vera sæmilegt og ég var fljót að fara niður í púls. Nú ég var látin hætta í prófinu því ég var með slíka hjartsláttaróreglu nú svo kom í ljós að ég er kannski með væga þrengingu svo ég þarf líklega að fara í einhverjar rannsóknir vegna þess og kannski eru til lyf sem laga þessa óreglu sem kemur við álag.

Og ég er svo hundfúl yfir þessu – vissulega veit ég að það er kannski ekkert að marka þolprófið því ég var næstum köfnuð úr stressi því mér leið eins og ég væri að fara í gapastokkinn! En hvergi örlaði á því að ég væri í nokkri þjálfun – og vissulega veit ég að ég hef ekki verið í neinum stórkostlegum þolæfingum en fjandinn…

Að vísu var spurt um líðan í fótum og hvort ég hefði getað haldið áfram lengur og svona – og ég fann ekkert fyrir löppunum og vissulega hefði ég getað haldið áfram lengur…

Þannig að nú þarf maður virkilega að fara að hugsa sinn gang, maður á jú að passa hjartað sitt eins og dæmin sanna…. Kannski er þetta nú ekkert og voða er bara fínt að fara í rannsókn og það allt saman – en vissluega vildi ég óska að ég væri hreystin uppmáluð og ekki með óreglu og ekki hefði verið einhver of lág mínustala þarna einhvern staðar…

Það hefði verið ákjósanlegra – en veröldin er ekki alltaf ákjósanlega. Og vissulga get ég litið á þetta þannig – já það er nú svei mér gott að ég snéri blaðinu við fyrir þremur árum og fór til Baldurs – já og svei mér er gott að ég er að fara á Reykjalund og líklega þarf ég bara vissulega á því að halda – því ég er kannski bara eftir allt saman helsjúkur offitusjúklingur.

Já ekki er það fallegt. Eða kannski er þetta bara afskaplega fallegt og gott…

En helv… sem ég er eitthvað lítið borubrött og bara eiginlega hundfúl og ónýt. Og ég að fara í námið mitt á fimmtudag og föstudag og einhvern veginn ekki alveg í gír með það – né allt það sem ég á eftir að gera til þess að skila af mér í skólanum – úff puff en bráðum fer ég til sála og enn styttra er þangað til ég fer á Reykjalund – á mánuadag fer ég þangað.

Og jamm mér líður betur eftir að hafa skrifað mig frá þessum smá harmleikjum mínum því þetta er jú bara líf mitt en ekki dauði eins og þeirra góðu drengja sem nefndir voru hér að framan og lífið er svo dýrmætt.

…en einhvern veginn finnst mér ég vera annars flokks ef ekki þriðja flokks….

3 athugasemdir á “Kannski maður ætti ekki að vera að blogga

  1. Elsku Inga mín! Já það er ekki alltaf réttlátt þetta blessaða líf. Heyrist samt að þú sért á réttri leið og í góðum höndum á Reykjalundi. Hef mikla trú á starfseminni þar. Verðum í bandi.Baráttukveðja, Erla

    Líkar við

  2. Viltu hugsa vel um sálarkyrnuna þína dúllan mín. Ef maður er sorgmæddur er maður sorgmæddur og má vera það. Það er auðvitað þyngra en tárum taki að sjá á eftir ungu elskuverðu fólki og svoleiðis hefur áhrifa mann. En það er nauðsynlegt að sjá fram á eitthvað annað, svona til að vernda sjálfan sig- svo hugsaðu um eitthvað ljúft og spennandi sem þú getur glaðst yfir. Viltu líka muna að þú ert að fara á Reykjalund til að byggja þig upp og það er ansi mikil vinna ef þú ert búin að drepa þig á að vinna 4 vikna vinnu á 3 dögum – bara svo þú getir farið með góðri samvisku úr vinnunni! Maður má fá frí í vinnunni án þess að vera búinn að hugsa fyrir ÖLLU sem upp getur komið næstu vikurnar!Knús og góðar kveðjur, Ásta Björk

    Líkar við

  3. Inga, þú ert fyrsta flokks og búin að semja innganginn í bókinni „Að ná tökum á lífinu“ Svo kemur annar kafli og þriðji kafli……… og vo endar bókin vel og mun þess vegna seljast eins og heitar lummur og verða þýdd á hundrað tungumál. Hvernig getur fólk sem á að vera gott við sjúklingana sína skilið það eftir niðurbrotið inni í miðri bók og ekki einu sinni búið að lesa innganginn, Asnar! Það vantar alla nærgætni í þetta lið.Dísa

    Líkar við

Skildu eftir svar við Anonymous Hætta við svar