Slæmar fréttir úr Borgarfirðinum

Þær eru slæmar fréttir úr Borgarfirðinum sagði Hildur systir við mig þegar hún renndi upp að hliðina á bílnum mínum í gær þegar ég kom í hlaðið eftir að hafa verið uppi á Ljósuborg að stússast fyrir Þórunni mína – en ég átti að vera veislustjóri hjá henni í gær í 60 ára afmælisveislu.

Hann Nóni er dáinn. Hann varð bráðkvaddur í nótt heima í rúmi. Við skulum koma til Dísu….

Það eru engin orð sem geta lýst hve sárt ég finn til með elsku Dísu og pabba-strákunum, Gaua og Fúsa.

,,Hvaða vitleysa er þetta bara?!“ sagði ég. Og enn spyr ég hvaða vitleysa er þetta eiginlega? Nú þykja mér byrgðarnar sem lagðar eru á herðar Sturlu-Reykjafólksins vera orðnar nægar. Einhvern tímann linnir slæmu fréttunum – mér þykir amk vera komið nóg.

Ég hef verið heppin með mitt fólk. Ég hef þó misst báða foreldra mína – ég var svipuð að aldri og Sigfús er núna þegar pabbi dó og mömmu hafði ég til rúmlega þrítugs. Nóni verður ekki við fermingu Guðjóns… Svo dó hún Trítla mín. Annars hef ég verið heppin með fólkið mitt en nú eldumst við öll – það má búast við öllu fyrir utan svo þessi slys sem verða og gera ekki boð á undan sér.

Engin viðbrögð kann ég við slíkum fréttum.

Maður leggst til hvílu eftir að hafa átt góða stund með vinum og vaknar ekki aftur. Fötin liggja saman brotin á stól, tannburstinn á hillunni, skórnir í forstofunni. Minnislistinn við símann….

Og hann vaknar ekki meira. Eiginkonan liggur við hlið látins manns síns og verður einskis vör í myrkrinu – ekki fyrr en það tekur að birta. Biður vísast Guð um hjálp, hleypur í næsta hús og nær í lækni sem býr þar – ekkert hægt að gera Nóni var löngu dáinn. Hún hringir í prestinn og biður hann að koma og veita ástinni sinni líf á ný.

Enginn má sín nokkurs og áfallið síast in. Hægt fyrstu dagana en hversdagsleikinn tekur við og stórt stykki er horfið úr heildarmyndinni sem verður að taka á sig nýtt form.

Hvort sem við viljum eður ei.

Hvað á þetta eiginlega að þýða?

Farið vel með ykkur elskurnar, endurskoðið samskiptin, heilsuna, skoðum hvað við raunverulega viljum fá út úr lífinu.

Ég ætla að rembast við að vera almennileg við mitt fólk – eða eins og Aðalsteinn orðaði það – á meðan við höfum hvert annað.

Það veit enginn hvað verður.

3 athugasemdir á “Slæmar fréttir úr Borgarfirðinum

Skildu eftir svar við Anonymous Hætta við svar