…já og mikið er Mogginn skemmtilegt blað. Það er bara bókstaflega hægt að lesa og lesa og lesa og lesa þetta blað út í eitt. Svei mér skemmtilegt!
En Bogi Ágústs verður bara að fara að fá sér nýjan jakka! Hann er bara orðinn slitinn og ljótur – jakkinn þeas – Bogi svo sem samur við sig.
Ég er búin að vera með magakveisu síðan á fimmtudag. Er hálf drusluleg og kemst svona varla fram úr því að vorkenna mér minna en á nokkurra mínútna fresti! En það er nú kannski ekki aðalmálið – heldur bíómynd sem hún Ragnheiður fékk foreldra sína með sér á og vá vá vá vá vá vá vá vá vá vá:
Þið bara verðið að sjá Mamma Mia!
Hún er algjört æði. (hlekkur). Gjörsamlega frábær. Hún er óður til middle age – og ég er steinhætt að hafa áhyggjur af því að eldast, hrukkum eða keppum því myndin er hreinlega óður til gleðinnar og þess að vera eins og maður er. Brosnan er nú svo sem ekkert ljótur og Maryl kannski ekki alveg dæmigerð miðaldra kona…. En vá hvað hún hefur ekki farið í lýta-aðgerðir eins og þær Nicole Kidman og Jodie Foster. Hressandi tilbreyting. Húrra fyrir henni!
Og Abba svíkur engan. Frábær mynd – farðu og láttu þér líða vel – hún er fyrir alla, mjúka karla og hressa karla og konur sem vilja elska að vera konur. Sigh og svo eru svo sætir strákar/karlar í myndinni! Skemmir ekki.
Iss það getur kannski enginn sungið í myndinni og þau eru öll pínu halló og lítil skynsemi eða raunsæi í söguþræðinum – þá bara var mér alveg sama. Stundum er bara gaman að því að hafa gaman – gamansins vegna. Abba vegna. Mín vegna – okkar allra vegna. Farið því endilega.
Á morgun eru ný verkefni sem bíða. Ég fagna því. Hjól og sund er fyrirhugað og ganga þegar styttist upp og svo verður maður að koma blómunum niður.
Tombólusöfnun og vefsíðuvinna. Saumar og slór og slugs – já mér þarf ekki að leiðast.