Uppskrift að partýi :-)

Ja ég segi nú bara svona – það var partý hjá mér á föstudaginn, ég var að halda upp á eins árs afmæli þess að ég hef verið í líkamsrækt. Helstu þolendum þess var boðið til mín í léttar veitingar og hyggelighed. Það komu rúmlega 20 manns og það var voða gaman að minnsta kosti hjá mér. Vonandi fleirum.

Nú jæja en það þarf nú ýmislegt til, svo ég geti haldið partý. Það þarf að taka til og skreyta ef það er eitthvað svona þema – hjá mér vara bara einfalt litaþema með fjórum litum og ég hafði keypt svolítið af ílátum og kertastjökum, dúkum og kertum í fjórum litum sem allir settu svip sinn á heimilið. Og svo þarf maður að finna mat sem hæfir svona partýi -ekki mikið að skera því fólk er svolítið að borða á hnjánum eða standandi einhvers staðar og ekki mikið vesen fyrir mig að búa það til (því eins og ég kem að á eftir þá er ég alltaf svolítið á síðustu stundu), maturinn verður að vera þannig að hann geti staðið á borði lengi lengi og verið góður og svo átti hann náttúrulega líka að vera heilsusamlegur. Partýið var jú í tilefni af lífsstílsbreytingunni.

Nú voru því góð ráð dýr – ég ekki eldað góðan mat og frumlegan (það voru nefnilega nokkrir matgæðingar á leiðinni og maður verður að halda andlitinu!) lengi lengi lengi og það var því mikið hugsi hugs. Og mundi ég þá eftir einhverri salatbók sem ég hafði keypt hér um árið og þótt alveg frámunalega illa til þess fallin að nota þegar á reyndi (enda ég í algjörri afneitun, blindni og vitleysu varðandi lífsstílsbreytingar og vissi ekkert hvað til míns friðar heyrði í þeim málum). Og viti menn allt í einu voru bara þessi ókjörin öll af spennandi salötum í þessari bók – og ég átti bara í vandræðum með að velja! Merkilegt hvað bækur geta breyst upp í hillu.

En þar sem ég hef lært að af öllu því góða í heiminum er eitt sem er ekki mjög óhollt – þ.e. salsa og mexíkóskar flögur í litlum mæli eru ekki nærri eins óhollar og margt annað, valdi ég þessa uppskrift:

Mexíkósalat á hlaðborðið fyrir 8 – 10 manns

2 Avakadó (afhýdd og steinninn tekinn úr)
1 krukka þykk salsasósa (medium)
1 haus rauð salatblöð
700 gr kjúklinga eða kalkúnakjöt í ræmum
fajitakrydd
1 poki tortilla flögur brotnar í litla bita
2 dósir svartar baunir (skolaðar og sigtaðar)
4 vorlaukar
1 græn paprika
100 gr cheddar ostur (rifinn)
salt og nýmalaður pipar.

Með þessu fylgdu þessar leiðbeiningar:

Afhýðið aavókadó, skerið í tvennt og fjarlægði stein. Setjið kjötið í skál og merjið með gaffli. Bætið 1/3 af salsasósunni saman við og hrærið saman. Saltið og piprið. Kryddið kjúklingaræmurnar með fajita kryddinu og steikið á pönnu í örlítilli olíu.

Rífið salaltblöðin gróft og setjið helminginn af þeim í skálina sem bera á salatið fram í. Því næst fer helmingurinn af kjötinu í skálina, tortillaflögur, baunir, vorlaukur, papríka og ostur. Helmingurinn af avókadamaukinu og helmingurinn af salsasósunni er sett ofan á. Þetta er því næst endurtekið í sömu röð og áður með hinum helmingnum af öllu saman. Salatið má laga 3 klst. áður en það er borið fram. Geymið í kæli. Berið gjarnan fram með sýrðum rjóma.

Nú jæja – sjaldnast er nú lífið samt eins einfalt og uppskriftir þannig að minn réttur varð smá öðruvísi en þessi og þó það hefði verið sagt að hægt væri að gera hann þremur tímum ÁÐUR en hann væri borinn fram væri það mjög úr karakter við Ingveldi. Það er ekkert gaman að gera hlutina nema alveg algjörlega á síðustu stundu auk þess sem rétturinn varð að standa lengi á borðinu.

Mexíkósalat á hlaðborðið fyrir 8 – 10 manns – sem sagt það var byrjað að fara í Bónus eftir ísskápsþrif og vinnu (þegar það er partý þá er mjög mikilvægt að vera búinn að taka allar hillur úr ísskápnum, taka alla ramma utan af hillum, fara með eyrnapinnum í alla króka og kima og þrifa þetta mjög vel, skola og fægja. Veislan verður bara öll önnur!) En eins og allir vita þá eru Bónusferðir ekki mitt uppáhald og ég á bara svolítið erfitt með að versla og halda sönsum um leið. Sem betur fór var Ragnheiður með mér.

2 Avakadó (afhýdd og steinninn tekinn úr) Úff hvernig lítur Avakadó aftur út? Hvort var nú Avakadó eða Mangó? Hmmm stressið farið að segja til sín og dómgrindin farin að bila strax í A-inu. Sem betur fór eru myndir af ávöxtum upp á vegg í Bónus og úr þessu rættist.

1 krukka þykk salsasósa (medium) Krukka – hvernig krukka – stór lítil, mjó – christ erða nú leiðbeiningar – kaupi eina stóra stóra stóra og hef hana Hot – þetta átti að vera svo hot partý líka.
1 haus rauð salatblöð Bíðum nú við rautt kál – er það rauðkál? Eða hvað er þetta eiginlega???? Hmmmm kaupi bara Bónus salatblöndu – það leit vel út og kál er gott hvort sem það er rautt eða grænt – bara svo lengi sem það er ekki blátt.
700 gr kjúklinga eða kalkúnakjöt í ræmum Best að kaupa bringur – þær eru svo fitulitlar og þægilegar. Voru meira að segja til!

fajitakrydd – Hmmm hvað er nú það – er það ekki svona einhver blanda sem maður kaupir – júmm hélt það – fann það samt hvergi. Enginn vissi heldur neitt um slíkt. Sleppi því bara – fer í Samkaup og gái þar bara.

1 poki tortilla flögur brotnar í litla bita Það hlaut nú að geta beðið að brjóta þær þar til heim væri komið – keypti stóra poka bæði kryddaða og ókryddaða. Sjáum bara til hvort er betra.

2 dósir svartar baunir (skolaðar og sigtaðar) Ekki til – kíki á þær í Samkaup – sem ég svo gleymdi (Ragnheiður var mjög glöð með það – henni finnst baunir ekki góðar).

4 vorlaukar – vorlaukur, gaukur, staukur, hvað í fjandanum var nú aftur vorlaukur – hann var amk ekki til svo ég fékk mér nú bara rauðlauk enda finnst mér hann bara bestur hvort sem er.

1 græn paprika Mér finnst nú rauð betri svo ég keypti hana bara.

100 gr cheddar ostur (rifinn) Hmmm fann hann nú ekki heldur svo ég keypti bara pastaost tilbúinn í pokum.

salt og nýmalaður pipar.

Sem sagt komin heim – með sumt af því sem átti að vera í þessu 😉 klukkan að verða sjö og allt eins og það átti að vera. Ég get því vottað að það er vel hægt að búa til þrefalda svona uppskrift, bollu og kveikja á kertum og taka svoldið til á þessum klukkutíma með svolítilli hjálp frá góðum unglingum. En það þurfti að hafa hraðar hendur og því fóru leiðbeiningarnar nú svolítið fyrir ofan garð og neðan :-).

Með þessu fylgdu þessar leiðbeiningar sem ég svo þurfti að þrefalda – sem er náttúrulega heilmikið mál undir álagi…

Afhýðið aavókadó, skerið í tvennt og fjarlægði stein. Roger – skil það. Geri það – ekki nema eðlilegt að taka þennan hlussustein – hver vill svo sem borða h ann? Setjið kjötið í skál og merjið með gaffli. Hmmm ég brytjaði þetta í teninga – fannst það líklegra til að virka þegar ég færi að merja það – nennti því svo ekki neitt og setti bara gumsið í hæfilegum skömmtum í Kitchen aidið mitt sem bara hviss bang gerði úr þessu ægilega fínt mauk! Bætði 1/3 af salsasósunni saman við og hrærið saman. Gerði það – þessa hot – umm lítur vel út. En á kennarastofunni er sagt að Avakadó sé ægilega feitur ávöxtur svo þetta var kannski eins hollt og ég hélt… En fj… hafi það ávextir eru nú bara hollir svo skítt með það. Saltið og piprið. Sleppti því nú alveg – krydda bara kjúklingin og blandan var jú líka hot. Kryddið kjúklingaræmurnar eð fajita kryddinu og steikið á pönnu í örlítilli olíu.Ég hafði nú ekki tíma til að standa og steikja svo ég setti þetta bara í ofn og svona næstum sauð þetta, kryddaði með einhverju kryddi sem ég átti og þótti gott og engin olía kom nálægt þessum fínheitum. Ég skar þett líka í teninga 😉 Rífið salaltblöðin gróft og setjið helminginn af þeim í skálina sem bera á salatið fram í. Blöðin voru niðurrifin hvort sem var og það sparaði nú tíma og fyrirhöfn 😉 Klukkan alveg að verða átta. Því næst fer helmingurinn af kjötinu í skálina, tortillaflögur, baunir, vorlaukur, papríka og ostur. Helmingurinn af avókadamaukinu og helmingurinn af salsasósunni er sett ofan á. Þetta er því næst endurtekið í sömu röð og áður með hinum helmingnum af öllu saman. Úps svoldið erfitt að gera allt í réttri röð ;-). Gleymdi t.d. að setja meiri salsasósu sem ég held að hafi verið mjög gott því annars hefði þetta orðið of blautt – hana setti ég bara í skál með og gleymdi að setja sýrða rjómann með – sigh. En svona er þetta. Ég braut nú bara flögurnar eins og mér sýndist – sumar smátt og aðrar ekki neitt. Ég notaði þessar krydduðu en bæði er áreiðanlega gott. Salatið má laga 3 klst. áður en það er borið fram. Geymið í kæli. Berið gjarnan fram með sýrðum rjóma. Salatið stóð á borðinu til þrjú og var alltaf jafn gott fannst mér – og hollt :-).

Gríðarlega fljótlegt – ógó gott og flott á borði líka.


Holý molí fann þessa síðu um ætar gjafir jarðarinnar á netinu – ótrúlega flott sýnist mér!

Ég var síðan með bollu sem ég fann á netinu – hún er mjög góð – einföld og áhrifarík sérstaklega með 50 prósent vodka.

Klaki
1 líter vodki –
3 til 4 lítrar sprite (sódavatn dugar svosem)
2 dollur magic
2 appelsínur (skornar í sneiðar)
2 sítrónur (skornar í sneiðar)
1 lime (lítill grænn ávöxtur, svipaður sítrónu, náttúrulega skorið í sneiðar)
Vatnsmelónubitar
1 og hálfur til 2 bollar appelsínuþykkni
Slatti sykur (fer eftir því hvað bollan á að vera sæt)
1 poki perubrjóstsykur (gott er að mylja hann)

Ég setti vel af ávöxtum – bætti við jarðaberjum og bláberjum bara af því mér finnst það svo gott. Setti engan sykur en var með sykraðan djús – setti perubrjóstsykurinn (hvað spritið var með zero sykri) og hann gaf rosalega gott bragð. Það hefði alveg mátt hafa ósætan djús eða þykkni. Þetta var mjög góð blanda – fór vel í maga – hef reyndar aldrei drukkið bollu sem fór eins vel í maga. Hún var kannski aðeins of dauf hjá mér – enda fór enginn maður á hvolf :-).

Nú svo voru bollurnar mínar sem ég baka og baka og get eiginlega bara bakað. Verða alltaf góðar alveg sama hvað.

Smábrauð

1 poki perluger
100 gr smjörlíki eða smjör (ég nota alltaf olíu)
5 dl mjólk
1 tsk salt
2 tsk sykur
1,3 lítri hveiti

1 egg til penslunar
Birki eða sesamfræ, kúmen eða eitthvað annað til að strá yfir.

Gott er að setja hveitiklíð útí – gerir þetta allt saman hollara. Alls konar fræ saman við deigið er líka gott s.s. eins og sólblómafræ – ég er vitlaus í þau þessa dagana nú eða bara hörfræ.

Ég hita mjólkina og olíuna í rúmlega 37 gráður og set ger, salt og sykur saman við og leysi upp. Bæti við helmingnum af hveitinu og hræri vel saman. Læt hefast eins lengi og ég vil en aldrei skemur en þarf. Því lengur sem degið hefast því betri verða bollurnar.

Svo set ég afganginn af hveitinu saman við og hnoða. Best er að hæfa degið pínu blautt – þó það klessist ekki við fingurnar. Læt svo hefast aftur eins lengi og ég vil og get. Það má svo alveg hnoða aftur og láta hefast á ný en það er ekki nauðsynlegt. Þetta deig þarf bara sama hefingartíma og annað gerdeig.

Ég setti svolítið af hveitiklíð útí bollurnar núna – áreiðanlega sem nam 1 – 2 dl í hverja uppskrift – það er mjög trefjaríkt og gerir það að verkum að bollurnar verða hollari og fara betur í maga þó svo að hveitiklíð í sjálfu sér sé ekki einhver ofboðsleg hollusta. Vatnsupptakan verður bara meiri og því eru bollurnar auðmeltari og voila hollari. Hveiti er náttúrulega hálfgert eitur en ef maður notar heilveiti verða bollurnar svolítið þyngri. Eitthvað er til sem heitir trefjamjög gaman væri að prófa það líka.

Ég nota síðan lítið glas til þess að búa til bollurnar, hef aðeins hveiti á borðinu. Síðan er gaman að klippa mynstur í bollurnar með skærum til þess að láta þær fá skemmtilega lögun, búa til snúningslengjur og hvað eina sem ykkur dettur í hug.

Þær eru góðar nýbakaðar en það er líka hægt að frysta þær nýjar, hita þær svo í ofni við vægan hita í 20 mín frosnar og þá verða þær eins og nýjar á borðinu og ægilega góðar alltaf hreint og klikka ekki.

3 athugasemdir á “Uppskrift að partýi :-)

  1. Ooooh, þetta var sko aldeilis frábært partí hjá þér! Takk fyrir mig og takk fyrir síðast og takk fyrir salatið og takk fyrir bollurnar og takk fyrir BOLLUNA!Salatið var gegt – og mig langar í báðar bolluuppskriftirnar líka… ;o)

    Líkar við

  2. HæhæOg takk fyrir síðast. ÆÐI 🙂Ekkert smá gaman að fá síðan uppskriftirnar af öllum góðgætinu á netið.Frábær matur, frábært fólk og ekki síst frábær afmæliskona!!!Takk fyrir mig 🙂Kv Sigurlín

    Líkar við

Skildu eftir svar við Gerður Halldóra Hætta við svar