Það er svo sem skemmtilegt til þess að hugsa að ég skuli eiga mér líf – meira að segja svo innihaldsríkt að ég blogga sjaldnar ;-). En ég er ekki viss um að það sé gott að minnka það. Mér veitir í raun ekkert af því að halda hugsunum mínum til haga – og geyma þær á einhverjum þeim stað að ég geti rifjað þær upp þegar ég man ekki eftir þeim lengur – ég held nefnilega stundum að ég sé alveg í fyrsta skipti að upplifa hluti. Hef bara aldrei lent í neinu svipuðu um ævina.
Það hjálpar líka að sjá heildarmyndina. Þetta er ferðalag og það er gott að doka við og íhuga, velta fyrir sér og svo jafnvel bregðast við.
Ég hef nú ákveðið að taka mataræðið svolítið föstum tökum. Það eru ýmsir í fjölskyldunni sem hafa náð frábærum árangri í því að léttast á síðustu vikum og þó það sé algjörlega borðliggjandi að mér sé ekki hollt að léttast meira en um 500 – 750 gr á viku langar mig nú að léttast um kannski heldur meira en ég hef gert. Kannski er það bara rangt af mér.
Kannski langar mig bara meira að vera með hreina samvisku. ,,Svindla“ með opin augun, borða hollt og hámarka þar með árangurinn – kannski ekkert endilega léttast um svo miklu meira – heldur ná því sem ég get. Rétt eins og Polli – púlsmælirinn minn heldur mér við efnið í æfingunum. Mér leiðist að erfiða og ná ekki þeim árangri sem ég ætti að gera.
Vinna
Ég er líka að hugsa um vinnuna mína. Ég get ekki unnið annan vetur svona mikið eins og í vetur og þar með er ég með um 156 þús útborgaðar næsta vetur. Töluvert minna en ég hef í dag – en ég vinn líka allt of mikið og ég ætla aldrei að vinna svona mikið – svona erfiði get ég ekki upplifað eftir.
Ég hef ákveðnar hugmyndir um þau laun sem Palli þarf að hafa en ég hef einhvern veginn aldrei gert þær launakröfur til mín – litið meira á mín laun sem náttúrulögmál. En nú er ég að hugsa um þetta. Ég held í raun að ég ætti að hætta að kenna og þá kemur nýtt starf til mín. Ég ætla þó ekki að gera það næsta vetur – en ég ætla í alvöru að íhuga þetta. Ég er kona með ágæta greind, fína hæfileika á ýmsum sviðum og afhverju ætti ég ekki að reyna að fá meira út úr þeirri blöndu?
Jamm ég ætla að hugsa þetta svolítið meira. Kennslan er hvort sem algjörlega að drepa mig – ræð ekki sérstaklega vel við álagið orðið… En þetta er nú ekkert að gerast á morgun eða hinn. Bara svona að gerjast…
Ég held ég sé komin með hælspora hægra megin líka – amk er ég að drepast undir hælnum – en þó grunsamlega mikið til hliðar….
Kannski er þetta bara sinin að pípa. Ég er eiginlega öll úr lagi gengin en þetta jafnar sig nú allt saman á endanum. Kannski þarf ég bara að drífa mig að léttast meira – til að minnka álagið sem er víst ærið að koma sér í form í mínum þyngdarflokk.
Þegar ég verð orðin 99,9 kg þá held ég að ég geti ekki skilið hvernig ég gat þetta! Ég held þetta sé svolítið erfitt…
En svona ljómandi skemmtilegt 😉
Þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur framundan. Skyldi ég lifa þá af?
Skildir þú lifa þá af? – Ég held það nú og með glæsibrag!>Kveðja frá Erlu í Englandi þar sem GOLF vorið er heldur betur hafið
Líkar viðLíkar við