Það var með semingi sem Palli minn samþykkti að mæla horfna sentimetra á frúnni enda fóru síðustu mælingar í nóvember ekki sérlega vel fram! Reyndar gekk svo mikið á að hvorki Bjartur né Páll hafa almennilega borið sitt barr síðan. Og málbandið var rétt að koma í leitirnar nú um daginn! Það voru sem sagt farnir eitthvað færri sentimetrar þá en frúin vildi.
Páll samþykkti þó með semingi að mæla en einungis með því skilyrði að vera með hjálm og auða útgönguleið úr stofunni. Ég gekk að öllum skilyrðum og hét mér og honum því að vera ósköp blíð og góð. Hann setti nú Bjart út engu að síður enda engin vörn til handa honum önnur en útveggirnir!
Frá því í ágúst hef ég misst samtals 28 sentimetra og um 18 síðan í nóvember.
Þetta er svolítið merkilegt því frá nóvember og til dagsins í dag hef ég sáralítið – ef nokkuð lést en frá ágúst og fram í nóvember léttist ég allnokkuð og töluvert meira en ekki neitt.
Þetta sýnir mér rétt eina ferðina að ég verð að vera róleg, þolinmóð og skynsöm. Ég er greinilega enn að byggja upp líkamann og fá mér svolítið af vöðvum fyrir svo utan það að þetta virðist bara ganga svona -upp og niður – stopp. Langa stoppið nú frá því í nóvember er þó ekki kyrrstaða því ég hef glatað þessum sentimetrum út til efnisheimsins.
Nú snýst allt um það að vera sæmilega sátt, sallaróleg og halda ótrauð áfram. Nú birtir óðum, hlýir dagar framunda og ég hlýt að komast í styrk tvisvar sinnum í næstu viku nú eða ég bæti mér það upp með svona líka svakalegri sundferð eins og í gær – kannski verð ég tilbúin að leggja 40 mín að baki í sundi og þá er ég að brenna eins og á hjóli og ógeðstækinu á sama tíma. Svona á góðum degi :-).
Ég vaknaði sæmileg í hálsinum í gær og í dag – ekki verkjalaus en ekki með þessa rosalegu lömunartilfinningu og harðræðistilfinningu í aftan í hnakkanum og niður í bakið. Ég er hins vegar strax farin að þreytast núna en það er skref fram á við að opna augun öðruvísi en ég haldi að ég sé í gapastokknum.
En sem sagt Bjartur og Páll komust vel frá mælingunum og una nú sáttir við sitt. Svo ekki sé minnst á konuna sem hefur misst 97 sentimetra all frá því í lok apríl þegar hún byrjaði að léttast.


Til hamingju með þennan árangur!!!
Þetta sýnir að þú getur gert allt sem þú villt og stendur þig frábærlega!!!!
Enn og aftur til hamingju með alla þessa cm sem eru farnir.
KV Sigurlín
Líkar viðLíkar við
Frábært Ingveldur – frábært.
kv Erla
Líkar viðLíkar við