Ég hef verið að hugsa um mömmu og pabba

Ég skrifaði minningargrein um mömmu. Merkilegar þessar minningargreinar – séríslenskt fyrirbæri víst. Kemur kannski í staðinn fyrir þann sið að fá einhvern til að tala við útförina. En hver svo sem ástæðan er og hversu furðulegt sem mörgum finnst það uppátæki að skrifa minningagrein þá hjálpaði það mér. Og mér finnst gott að lesa hana við og við. Ákveðin fróun í því. Ég held að foreldrar mínir hafi verið mesta lán ævi minnar um leið og ég segi hið sama um stubbana mína þrjá sem ég bý með.

Laugardaginn 27. febrúar, 1999
Sigríður Kristín Jónsdóttir
Barn fæðist í þennan heim og veit ekki af því. Það vex og dafnar og veit ekki af því. Þetta barn gengur um götu bernskunnar og nýtur hvers skrefs í fullkomnu öryggi þess er býr við ást og umhyggju, en veit ekki af því. Barnið fullorðnast og verður að manni og að lokum verður eitthvað til þess að augu þess opnast fyrir þeirri staðreynd, að góðar minningar eru ekki sjálfgefnar eða sjálfsagðar. Og barninu verður það ljóst að á bak við hverja minningu stóð móðir, móðir sem var engu lík. ‘

Þetta barn er ég. Gata bernsku minnar lá um þann fornfræga stað Þingvelli, sem var líf okkar allra. Árstíðirnar mótuðu líf okkar og starf ekki síður en umhverfið. Á sumrin var mikill fólksfjöldi og hinir fullorðnu litu vart upp úr verkum sínum. Það var símstöð, það þurfti að taka veðrið, það voru gestir og fleiri gestir og það voru störfin öll sem fylgdu því að annast þjóðgarðinn. Þessi störf vann hin stóra fjölskylda og saman bjuggum við í litlu rými í Þingvallabænum.

Ég lifði mínu lífi áhyggjulaus og naut þess að skondrast um hraunið og sinna búi mínu í bjarkarlundinum. Hver sumardagur var hlaðinn viðfangsefnum og viðburðum sem maður tók þátt í og naut. Þetta voru sumrin, – þrungin lífi, laufi og ljúfum stundum, síðan haustaði og fólkið fór og eftir urðum við þrjú í bænum. Mamma, pabbi og ég. Við tóku dagar rólegheitanna. Ég naut samvista við foreldrana sem um sumarið höfðu verið önnum kafnir við að sinna opinberum störfum sínum. Enn voru störfin fjölmörg og enn voru gestir sem litu inn. En viðbrigðin voru mikil, Þingvellir voru afskekktur staður í vetrarham og leiðin þangað var hvorki greiðfær né fjölfarin.

Árin liðu og viðfangsefnin breyttust hjá lítilli stúlku en héldust þau sömu hjá hinum fullorðnu. Mamma stóð í eldhúsinu sínu og sá um að öllum nálægt sér liði vel og að gestum væri vel sinnt. Vinnudagurinn var langur og verkefnin ótalmörg, hún sinnti okkur börnunum, hinum vinnandi mönnum og víðfrægum höfðingum á þann hátt sem allir er henni kynntust þekkja, af einskærri umhyggju, ást og hlýju. Og það var enginn munur á eftir því hver átti í hlut, hún gaf öllum jafnt og gerði engan mun á viðtökunum.

Hún var með stórt hjarta hún mamma og það fundum við kannski aldrei betur en er við stóðum hjá henni þegar hún kvaddi þennan heim. Hvert og eitt okkar átti sér stað í hjarta hennar, barnabörnin og barnabarnabörnin voru henni ofarlega í huga og voru henni lífið sjálft. Hún var mér lífið sjálft. Hún var mér jörðin er ég stend á, loftið er ég anda að mér, hún umlukti okkur öll með elsku sinni og einstakri manngæsku. Þetta þekkjum við sem kynntumst henni, hvort sem samveran var löng eða stutt. Hún var góðmennskan holdi klædd.Og nú er þessi mikla kona farin.

Veikindi hennar bar brátt að og er ég fylgdist með Björk og öðru hjúkrunarliði vinna að því að bjarga henni var ég viss um að sigur myndi vinnast, kannski var það líka þannig, kannski voru þessi endalok sigur. Það er gott að fá að fara þegar verkefnin eru framundan í stórum haugum, hugurinn heill og heilsan betri en oft áður. Ég veit að það eigum við eftir að þakka en í dag finnst mér hún hafa farið allt of fljótt. Hún var grunnur lífs míns og hvernig eigum við að fóta okkur án alls þess sem hún var okkur? Það verður verkefni framtíðarinnar.

Ég þakka þér elsku mamma fyrir lífið sem þú gafst mér og það veganesti sem þú hefur veitt mér af takmarkalausri rausn þinni og alúð. Palli, sjómaðurinn þinn, þakkar þér líka fyrir allar stundirnar sem þið áttuð saman, samtölin um sjóinn sem þú saknaðir alla tíð, sögurnar sem þú sagðir honum af hinu magnaða lífi þín, ást þína og prjónles.

Börnin okkar tvö vita ekki enn hvað verður um þau nú þegar amma er ekki lengur til staðar til þess að gæta þeirra. Ragnheiður kom til þín og bjó hjá þér fyrstu tvö árin með okkur foreldrunum og þú styrktir okkur í umönnun hennar sem ekki var alltaf auðveld vegna veikinda hennar. Hún þakkar þér matinn þinn góða, vettlingana, prjónakennsluna og umhyggjuna rétt eins og Aðalsteinn gerir. Hann naut þess að vera hjá þér, elsku mamma mín, rétt eins og við öll gerðum.

Við þökkum þér samfylgdina um götur lífsins, nú skiljast leiðir, þú ferð á vit pabba, Guðmundar litla drengsins þíns og hennar Ólafar. Við vitum að þeirri ferð kveiðst þú ekki.

Hvíl í friði, kraftur lífs míns.Ingveldur Eiríksdóttir.

2 athugasemdir á “Ég hef verið að hugsa um mömmu og pabba

  1. Þetta er falleg lesning, og svo rétt, ég finn það af orðum þínum, þó að ég hafi aldrei kynnst mömmu þinni. Ég á nefnilega eina svona, og hún er blessunarlega í fullu fjöri og auðgar líf allra sem þekkja hana.

    Líkar við

Skildu eftir svar við Helga Dögg Hætta við svar