Fyrsti spinningtíminn að baki!

Þegar ég fór að nota skó-myndir á bloggið mitt var þetta fyrsti skórinn sem ég notaði. Óskiljanlegt satt að segja – mér finnst hann ekki flottur en pistillinn var samt jákvæður – var í ágætri uppsveiflu í maí. Var að ná áttum eftir að hafa verið meðvitundarlaus eftir hverja Styrksferð – var að byrja að synda og bara spræk. Svo átti náttúrulega eftir að syrta í álinn en það birtir alltaf til – vona ég 😉

En ástæðan fyrir því að ég set þennan skó er af því að hann var notaður þegar ég var kannski ekki í alveg eins góðu standi og ég er núna, og líðan mín núna minnir mig kannski svolítið á líðan mína eftir fyrstu viðureignirnar við salinn!

Ég fór sem sagt í spinning tímann – heltekin af stressi og kvíða og minnug allra þeirra sem gripu andann á lofti þegar ég sagðist ætla í spinning! Oh my god var eiginlega það eina sem ég hugsaði í allan heila dag ;-). En ég fór nú samt og Sigurlín var líka – það var nú ágætt að hafa einhvern með sér (ég er nefnilega í svona brennslu átaki í huganum amk, finnst ægilega mikilvægt að brenna um þessar mundir – ein manían til myndu sumir líklega segja!). Fegnust af öllu í heiminum er ég samt að Baldur skyldi hafa farið með mér upp í dag og kennt mér á hjólið… Ég held ég hefði nú ekki orðið eldri ef hann hefði ekki fundið það upp hjá sér – ekki hafði ég vit á að biðja um það (ægilegt að viðurkenna rauverulega veikleika) Þá líka minnkaði kvíðinn aðeins – ja hann kom svona meira í holskeflum:

Ég yrði mér til ævarandi skammar innan um einhver þvengmjó sportidjót – gæfist upp eftir 30 mín (já eða 10) og gæti ekki baun í bala. Reyndi svo að segja við mig að ég hefði nú verið að hjóla niðri og oft alveg án þess að stoppa og á einhverjum prógrömmum – ekki bara svona að gaufast. Ég meina það er enginn sem stillir hjólið fyrir mann eða lemur mann áfram með svipu þannig að varla væri þetta spurning um líf eða dauða- ég gæti þá bara hætt ef ég gæfist upp. Já og ég tæki nú stundum 50 mín í brennslu án þess að stoppa nema til að færa mig af skíðunum á hjólið…

Ég segi nú ekki að þetta hafi verið – ekkert mál, en þetta var ekkert stórmál. Verst var að ég fékk undir iljarnar – hef eitthvað stigið vitlaust í – þarf að laga það næst. Því ég ætla nú aftur nema ég sé því verri á morgun og hinn :-).

Sem sagt mín bara búin að sigrast á þessum hjallanum – svona þar til næst! Nú veit ég hvað hver tími er langur og að það er stoppað eða allt að því á milli laga og að ég kemst bara ágætlega í gegnum þetta. Er kannski ekki sérlega sleip í sprettunum en því því betri þegar þyngdin er meiri. Nú veit ég um hvað þetta snýst :-).

Það rifjast upp fyrir mér hvernig mér leið fyrst eftir að ég fór í Styrk – það eru svona þreytuverkir vítt og breitt um kroppinn – og mest langar mig bara að fara að sofa – og svo er mér skítkalt – er það ekki merki um brennslu 🙂 Það held ég að mér hafi einhvern tímann verið sagt. Ok þetta er ekki NY maraþon en samt áfangi 🙂 Enda margir broskallar í þessu bloggi!

Einu vandræðin við þetta eru að ég þarf að fara voða oft í sturtu á dag!

Hálsinn á mér er heldur betri held ég – nema nú lýsir þetta sér eins og vöðvabólga – bara nokkrir smellir og brestir en ekki þessi rosalega ofboðslega þreyta sem einkenndi síðustu 2 vikur. Get jafnvel á köflum hugsað skýrar!

Nú þarf ég ekki að gera neitt annað en komast niður úr verkefnalistanum sem er bara býsna impressive satt að segja.

En ég er bara ánægð – og svoldið undrandi á að Baldur og Dísa systir hafi verið alveg viss um að ég gæti þetta – ég er nú ekki frá því samt að Baldur hafi haft svoldlar áhyggjur af þessu hjá mér 🙂 enda kannski full ástæða til. Mín reynsla er nú annars sú að fyrsta skiptið sé ekki svo slæmt – oft sé annað skiptið erfiðara – en ég fer nú ekki aftur fyrr en í næstu viku og engin Styrkur fyrr en á föstudag – ja nema á morgnana náttúrulega. Svo er ég ekki alveg í standi til að leggja mat á þetta – er á egóflippi

Kannski fer ég nú líka að labba með Bjart ef ég næ því að verða góð í hálsinum – einhvern tímann.

Kveðja Inga monthæna

1 athugasemd á “Fyrsti spinningtíminn að baki!

  1. Frábært að heyra hvað þetta gekk vel hjá þér. Eins og ég sagði – þá verður ekki aftur snúið eftir að maður hefur prófað. En já – það þarf að passa sig hvernig maður hjólar. Átakið á að far í gegnum hælinn – ekki tærnar – og svo þarf líka að passa hnén (snúi fram en ekki út eins og maður sé hjólbeinóttur).

    Áfram Inga,
    kk ET

    Líkar við

Færðu inn athugasemd