Hún Gústa systir mín á Króknum hringdi í vikunni og sagði mér að koma til sín núna um helgina. Mér fannst það nú svoldið bratt – vil gjarnan hugsa málin aðeins nú í seinni tíð en einhvern veginn fann ég á henni að ég gat ekki sagt nei. Mín væri þörf fyrir norðan. Ég settist því í minn lillaða Subaru og fór af stað.
Gústa mín var nú svoldið lasin í gær – slæpt og léleg í lungunum sínum lösnu. En það var ekkert miðað við nóttina og morguninn. Ég sagði nú við hana í morgun að hún væri lasnasta manneskja sem ég hefði séð sem væri ekki á sjúkrahúsi. Og hvað haldið þið. Vinkona hennar og vonandi ég með tuðinu og vorkunnsemi minni í allan dag kom henni á spítala í dag. Þetta var bara ekki að gera sig ég segi það satt.
Mér líður strax betur þó það sé svolítið undarlegt að vera hér í heimsókn og enginn heima nema Trýna. En ef það að ég hafi verið hér hafi á einhvern hátt verið liður í því hjá almættinu að koma Ágústu á sjúkrahús þá er þetta góð ferð. Og ég bara slappa af og nýt lífsins í fullkomnu trausti þess að fólkið á spítalanum geti betur hugsað um Gúggu mína en ég.
Við Trýna erum því hér bara í vellystingum. Allt í góðu hjá okkur. Hún er yndislegur hundur sem minnir á marg á hann Bjart minn þó hún sé nú stilltari – þó mörgum þyki nú nóg um óþægðina :-).
Ég fer svo til Gústu í fyrramálið og heim um hádegið. Þá verð ég komin nógu snemma til að taka aðeins til og ná áttum.
Framundan er mikil vinnuvika hjá mér – margt sem ég á eftir ógert.
Stærðfræði gátlisti
Enska – námsmat smiðjulok
Stærðfræði námsmat – lotulok
Enska -uppsetning svæðis
Námsvísar
Sem sagt nóg að gera
Og svo þarf nú kannski að vera sæmilegt þegar Pallinn minn kemur heim.
Svo bara getur Gústa vonandi tekið veturinn í það að koma heilsunni í sæmilegt lag – þetta er náttúrulega ekki að gera sig hjá konunni. Hún er búin að vera veik síðan mamma var jörðuð. Mamma getur þú ekki hjálpað til – og gott væri ef pabbi leggði hönd á plóginn líka.

Gott hjá þér að skella þér bara norður, verra að heyra með systur þína en henni batnar vonandi fljótt. Keyrðu nú varlega heim á morgunn. Gangi þér vel.
kv Sigurlín
Líkar viðLíkar við