Labb, sund og…. BÓNUSFERÐ!!

Þarna eru þeir karlarnir mínir! Ja annar meira en hinn satt að segja. Schumi og Mika. Nú er annar Finni að koma inn hjá Renault – Koveleinen – eða eitthvað svoleiðis, og hann er sagður jafn fyndinn og Mika – eða amk með svipaðan húmor á meðan Kimi minn hefur ekki sérlega mikinn húmor en hann er sérlega fyndinn karakter.

En Schumi sem sagt hættur í Formúlunni – að keyra amk – ég er bara stolt af honum. Þetta er rétt ákvörðun hjá honum – maður á að hætta leik þá hæst stendur. Tek ofan fyrir honum.

Í morgun er ég búin að sofa út, fara í Þrastarskóg í smá labb – upp og niður en bara í 20 mín. Fór svo og synti 200 metra rétt til að liðka ristarnar og ökklana og mýkja kálfana. Er mikið orðin betri í fótunum. Að langmestu leyti er ég laus við verkina en mér er enn illt undir hælnum og með svona pirring í fótunum. En allt á réttri leið og ég er svo glöð að ég er farin að geta labbað aftur þó það sé bara hægt og rólega og ekki langt í einu. Dugar til að koma mér af stað á morgnana. Alsæl með það.

Nú þarf ég bara að hugsa hvað ég ætla að slugsa í dag – ætti að taka svolítið til og fara þannig glaðari inn í vikuna. Jebb kannski geri ég það – kannski geri ég bara eitthvað allt annað – já eða bara ekki neitt. Það er líka ljúft.

Labb á ný og helgarFRÍ já og KIMI Á RÁSPÓL


…en það skiptir nú engu máli – ég hef ekki áhuga á formúlu lengur 😉

Eftir mikla sjálfsvorkunn, tilfinningasveiflur og neikvæðnisaumingjahugsanir vegna fótaveikinnar minnar er ég heldur að lagast. Ég hef reynt að hugga mig við það að hraustasta fólk – fær verki í fæturnar eftir æfingar – ég sé ekki heimsins mesti offitusjúklingur sem sé eina manneskjan sem fái verki í fætur. Er sko að reyna að segja mér að verkirnir hafi komið vegna þess að ég var dugleg en ekki aumingi – held mér sé að takast að tala við aumingjahliðina í mér og segja henni að þegja. Ja það væri það.

Nú ég er komin með góða skó sem ég gat notað í vinnunni – annars hefði ég nú held ég ekki getað verið þar, svo er ég komin með gelpúða og set þá undir hælana – ægilega gott líka. Sef í lopasokkum – mjög sexý satt að segja, ef ekki bara hreinlega smart (en það er nú önnur saga), og er barasta að lagast í fótunum. Ég fór í stuttan göngutúr í gærkveldi og annan hægan en lengri í morgun á mjúkum stígum Þrastarskógar. Svo fórum við Palli til Þórunnar og bjuggum til dýrindis grænmetissúpu – sem Palla finnst nú ekki sérlega góð – hann er eiginlega ekki neitt hrifinn af grænmeti – en hann verður bara að sætta sig við þetta grænmetisát allt (ætli hann sé ekki í pylsuvagninum þegar þetta er ritað – þóttist ætla að fá sér sodastreamhylki en er búinn að vera óratíma :))

Sem sagt – fæturnir að lagast – ég er sko alveg að verða búin að greina þetta – er illt framan á sköflungnum, í ristunum, ökklunum (ætli ég þurfi þá nokkuð nudd), stundum örlítð í kringum hnén í festingunum þar – held ég. Jamm. Þannig held ég að það sé. Er meira að segja bólgin í kringum ökklana og með smá bjúg – en það er fyrirbæri sem ég sé nánast aldrei og held að ég sé mjög langt úr alvarlegum sjúkdómi ef ég sé eða finn fyrir. Svo eru kálfarnir stífir en ég er ekki viss um að þeir séu verri en þeir hafi verið – jafnvel betri. En allt að lagast og ég er svo fegin að geta labbað á morgnana því ég finn svo rosalegan mun. Alveg gasalegan. Mataræðið hefur bara gjörbreyst til hins betra – þ.e.a.s. hvenær ég borða mestan part dagskammtsins – það er eiginlega dásamlegt til þess að hugsa. En ég veit líka afhverju ég byrjaði ekki fyrr – og kannski byrjaði ég bara of snemma (já!) því ég er viss um að labbið hefur ekki sérlega góð áhrif á litlu táslurnar mínar.

Heyrið þið mig svo hef ég verið að hugsa svo ljótt um kálfana þar sem mér tókst að herja út kálfanudd hjá Baldri – eða hann að koma því upp á mig – nema hvort tveggja sé og mér finnst það svo ómöguleg tilhugsun (um leið og ég tel mig vita að mér veiti ekkert af því) Ég hef sko aldrei farið í nudd annars staðar en á axlirnar- og mér finnast kálfarnir á mér svo ljótir og leiðinlegir – feitir og allt að því já ógeðfelldir, og hef því ekki nema hæfilega mikinn áhuga á því að láta þá vera miðpunkt athygli minnar eða nuddar (nú eða sjúkraþjálfara). En svo fór ég að hugsa – aumingja kálfarnir mínir – þeir hafa ekkert til saka unnið – þeir hafa bara staðið sig vel að bera mig uppi og kvarta sára sjaldan. Ég ætti bara að vera stolt af fótunum á mér í staðinn fyrir að hugsa illa til þeirra. Þær hafa bara staðið sig vel – rétt eins og ég 🙂

Nú ætla ég að fá mér Br**er og ost, vínber, pasta og grænmeti. C’est la vie.

Ykkar Inga

Stigvélin þann 4. sept og vigtin

Það er svolítið síðan ég sagði eitthvað um kg. mín sem eru farin. Þau eru nokkur og jafnast út að vera um 700 gr á viku frá því ég byrjaði að léttast í lok apríl. Er það ekki bara eitthvað sem ég get verið sátt við – sumarið er jú ekki endilega besti tíminn til að stunda reglulega hreyfingu og gæta mataræðisins eins og minu lífi er háttað amk. Já ég ætla bara að vera stolt af þessu. Á ekki nema um 6 kg í að 1. áfanga sé lokið. Þá er mér sagt að ég eigi að gera eitthvað skemmtilegt fyrir mig. Með sama áframhaldi eru það 2 mánuðir þangað til – þ.e. í byrjun nóvember. Nú er bara að standa sig.

Skrambi sem lífið er flókið

Awwwwwwwwww…….

Þetta er óskaplegt. Tíhíhí…. Ég kemst ekki út að labba – (hefði nú einhvern tímann verið fegin því), get hreint ekki farið í neitt sem reynir á fæturnar og varla í vinnuna því ég er skoho ekki göngufær. Er alltaf með einhverja bévaða verki í ökklunum og þar í kring, fyrir neðan og ofan. Sigh… Álagsverki… tíhíhí er það ekki fínt orð. Kannski hef ég farið of geyst – held samt að ég hafi ekki hlustað á það sem kroppurinn sagði og alls ekki brugðist við því. Því sit ég uppi með það að vera með þessa verki. Er eiginlega ekki vinnufær.

Og þó ég gæti hugsanlega mögulega þorað í kálfanudd þá er það ekki fyrr en á miðvikudag og ef kálfarnir á mér eru nuddaðir þá eru ekki herðarnar á mér nuddaðar á meðan né hálsinn og ég sem er orðin svoldið aum þar á ný og farin að fá smá hausverk við og við – sem er svo sem í lagi nema mér lærðist í sumar að svona hausverkur bara ágerist. En ég veit líka að þetta er allt tímabundið og ég á klárlega eftir að jafna mig – þetta er ekkert hættulegt. Þarf bara að breyta svoldið til. En skítt með þetta allt -þetta er allt hluti af ferlinu mínu. No pain no gain. Verð bara að skipta um takt – ég get það vel.

Pallinn minn kemur heim á morgun – litla grjónið. Færeyski gaukurinn minn. Alltaf gott að fá hann heim þó í stutt stopp sé. Mér tókst líka að koma ísskápnum í viðgerð – það hefur nú ekki tekið nema 3 vikur. Aldrei að vita nema mér takist að ganga frá tjaldvagninum á morgun líka.

En stoltust er ég nú yfir því að hafa kosið Magna út í eitt hér eina nóttina – horft á hvað hann var glaður að komast í lokaþáttinn – þá bara fannst mér þetta allt þess virði. Það munar ekki um eina viku enn. Já ég er bara stolt af okkur Íslendingum þessari þjóð sem getur komið Magna til bjargar þegar okkur finnst það henta best en látum öryrkjana sitja á hakanum, Kárahnjúka rísa og hálendið fjúka burt. En Magna skulum við bjarga öll sem eitt – nema þau sem gera lítið úr því áhugamáli okkar og finna því allt til foráttu. Það er eins og maður megi aldrei hafa gaman að neinu – þá sé það svo hallærislegt og lame að skömm er að. Iss ég er bara stolt af þessu – þessi litla Hobbitaþjóð sem vill bara vinna, éta og kjósa Magna má bara alveg uppskera eins og hún sáir. Ojá

Ég ætla að reyna að fara með Bjart í fyrramálið. Gá hvernig ég verð – það er rólegur dagur í skólaum þannig lagað á morgun. Mig langar svo að halda áfram á sömu braut – hreyfa mig að morgni og stunda salinn um miðjan daginn, vinna svo í bland og hitta unglingana mína við og við – og léttast. Mér fannst þetta allt vera komið á svo góðan skrið – en ég má ekki láta þetta slá mig útaf laginu.

Jæja ég er farin að sofa – þetta er orðið gott í dag. Hitti systurnar í bústaðnum hjá Gústu, það er elskulegt að umgangast þær. Dísa er að prjóna á mig legghlífar, Hildur er góðmennskan holdi klædd og Gústa eins og ferskur andblær með smá ádeilu í bland. Það er gott að eiga góða að.

Bestu kveðjur til ykkar hinna,

Inga

Beinhimnubólga eða…


svei mér ljótur skór. Hrumpf…

Eftir örstutta uppsveiflu – sem er reyndar enn í gangi – það er ekkert að mér nema óþarflega gott skap – er kærulausari en andsk… en sem sagt Fótaverkir. Ekki alveg eldrauðir en verkir samt.

Ég hef verið hálf svefnlaus undanfarið úr pirringi og óþægindum í fótunum. Fæ þreytuverki í ökklana og neðst í sköflunginn sem ég svo gleymi bara á milli – nema þegar ég finn til. Eins og núna. Er alveg ferlega illt eitthvað.

Björk frænka heldur að þetta sé beinhimnubólga og Grímur segir að þetta sé bara einn áfanginn sem þurfi að yfirstíga og vera stoltur af þegar allt er yfirstaðið :D. Sigh. Ég er að verða svo merkilegt líkamsræktartröll…

Ég er búin að nota skóna tvisvar og ég finn mun (annað hvort væri það líka – þvílík verðlagning Asics er ekki gefins mar…)

Skref 2 til að bæta úr ástandinum varðandi fæturna er að verða ekki kalt á fótunum, minnka tímann á ógeðstækinu – hjóla frekar, og hvíla mig vel fram á föstudag. Ég labba nú samt með Bjart og svona. Kannski er ég bara svo slæm núna því ég fór bæði í gær og dag í ræktinga og labbaði mikið um helgina. Ja svona svoldið mikið.

Ég ætti kannski að minnka það að fara í styrk og synda frekar – þá er það hálsinn. Ég er öll í steik bara – það er nú meira fárið að vera svona mikil pæja 🙂

Skref 3 er kannski að fá nudd á kálfana…. Er nú samt ekki mjög hrifin af þeirri hugmynd… Nudd á axlir er eitt en…

En hvað lætur maður ekki hafa sig útí?….

En sem sagt – vigtin er vina mín þessa viku. Búin að missa 1 kg – en talan rís vafalaust aftur á föstudag en þetta er samt ákveðin vísbending um að – eins og maðurinn sagði – að eitthvað er ég að gera rétt.

Kveðja elskurnar

Nimbus eigandinn Ingveldur

Og þetta er allt annað líf

2. ágúst skrifaði ég pistil um það hvort líkamsræktin hefði í raun fært mér allt annað líf en það sem ég átti. Það er sem sagt mánuður síðan ég var í þeim pælingum.

Það er svolítið gaman að skoða stöðuna núna. Þá þótti mér sem þetta væri allt heldur erfitt – og fram að því hefði þetta verið miklu meira erfitt en gaman og gott. Og kannski er það enn svo en þó held ég ekki. Mér finnst síðustu vikur hafa orðið gríðarleg breyting á mér. Breyting sem ég átti í raun ekki endilega von á að yrði strax -já eða nokkurn tímann. Lítið veit sá sem ekkert veit verður mér stundum á að hugsa þegar hreyfing er annars vegar.

Ég er samt ómöguleg í fótunum. Ekki svona fitubolluverkir held ég – enda finn ég ekki oft til í fótunum þó stundum hafi maður nú orðið þreyttur hér í den. Nei þetta eru einhverjir undarlegir verkir – framan á kálfanum en þó nokkuð neðarlega, þreytuverkir í ökklum – ekki nema von eins og ég missteig mig hér í den – það var nú meira fárið. Það var svona fyrir tvítugt.

Ég veit af hnénu sérstaklega því vinstra þessa dagana en mér finnst ég geta stýrt álaginu á það – en kannski ber ég mig þá eitthvað vitlaust.

Ég vissi þó alltaf að ég myndi finna fyrir því að labba – enda stympaðist ég nú lengi við, en sumir höfðu betur ;-).

1. aðgerð við fótaverkjum var að kaupa skó sem kosta á við hús.

Sjáum hvað það gerir.

…já og ég fór í sund – synti 600 metra á ansi góðum skrið – og sæluveran í pottunum – alein að busla. Ég elska sund, vatn já og lífið sjálft.

Einbúi


Halló allir á sunnudegi. Ég er farin að kunna betur við sunnudaga en ég gerði. Þegar ég var lítil já og langt fram eftir aldrei var einhver depurð tengd þeim – þeir voru endir á einhverju góðu – helginni, fríinu. Mér er orðið betur við þá nú í seinni tíð. Þeir eiga margt gott til.

Ég var að drepast í hnénu í nótt – vinstra. Ég fann einhvern pirring í því og spennti það um of í ranga átt og var bara illt í því og mátti mig svona varla hreyfa. Verandi sá göngugarpur sem ég er ákvað ég nú engu að síður að ganga svolítið sunnan megin í Þrastarskóginum – ekki mjög góð leið – Bjarti fannst hann ekki komast af veginu því kjarrið var svo þétt og lítið um brekkur fyrir mig. Það var hins vegar svo sem ágætt þar sem ég ætlaði að hlífa hnénu og labba bara í 25 mín. Ég stóð við það en mér finnst það helst til stutt svona um helgar en ég lét þetta gott heita. Svo ætlaði ég til Gústu systur í bústaðinn en þá sváfu allir þar á sínu græna og engan morgunamat þar að fá. Þá ætlaði ég að heyra í Þórunni – var búin að lofa henni að hjálpa henni í dag en þá var hún farin eitthvað út í loftið og svaraði engu. Við Bjartur áttum því engan annars úrkosti en að fara bara heim og horfa á spólu. Keypti samt gott í matinn ef einhverjir af þeim sem eru skráðir hér til heimilis skyldu koma. Það er náttúrulega ekki víst. Ég er orðið mikið ein – Aðalsteinn fer út og kemur sólarhring síðar heim – og ég veit aldrei almennilega hvaðan á mig stendur veðrið. Ragnheiður er hjá kærastanum svo við Bjartur erum bara að lulla þetta í rólegheitunum. Ég hlýt að fara að snúa mér að áhugamálunum ef ég held áfram að vinna svona lítið eins og ég gerði í síðustu viku – þ.e. bara vinnutímann sem ég á að vinna!

Næsta vika verður samt annasöm og með sanni ætti ég að vera að vinna núna og koma mér upp enskusvæði á miðrýminu en það bólar ekkert á því að ég hafi mig í það. Verð bara að reyna að fara snemma að sofa í kvöld og fara snemma út með hundinn og dúndra mér svo í uppstillingavinnu þegar ég kem í skólann. Ekki á morgun heldur hinn er hinn dásamlegi þriðjudagur – allra besti dagur vikunnar vinnulega séð. Undursamlega dásamlegur. Ég held meira að segja að ég eigi nuddtíma þá – og það verður nú gott því ég er farin að finna fyrir hálsinum eins og í sumar – ekki spennandi tilhugsun.

Annars er ég gasalega syfuð – hvort finnst ykkur að ég ætti að svamla í sundi eða fara að sofa? Ég ætla að hugsa þetta svoldið.

Inga garpur

Gangur – í tiltekt


Sumar og sól – yndislegt veður þó svolítill rembingur sé nú í honum hvað blásturinn varðar.

Ég fór skoho út í morgun – upp í Þrastarskóg og labbaði Birkistíginn allan og rúmlega það í svo yndisfögru veðri á milli 9 og 10, þar var blankalogn sól og áreiðanlega 15 stiga hiti. Við Bjartur vissum eiginlega ekki hvaðan á okkkur stóð veðrið þetta var svo geggjað.

Ég talaði við Þórunni og sagði henni frá fyrirhuguðum þrifum hér í Heimahaganum og hún barasta sló til og skellti sér til mín mér til aðstoðar í 2 – 3 tíma svei mér þá.
´
Hér er því búið að ganga, þrífa og gvuð má vita hvað. Svo fór ég og skoðaði skó fyrir mig og fann eina hrikalega líklega til afreka en svoldið mikið dýrir – svona með kortinu í Styrk en við skulum sjá hvað gerist á mánudaginn. ÉG verð amk að fá mér skó – ég er farin að finna til á ýmsum stöðum í fótunum sem ég hef verið laus við hingað til. Puma skórnir mínir áttu svo sem aldrei að vera til langstíma í Styrk en svona þróaðist það nú.

Nú er ég að fara til Magga í bústaðinn en þar ætluðum við systkinin víst að hittast.

Þetta hefur verið góður dagur. Vonandi gengur Ragnheiði vel að keyra á Ljósanótt þrátt fyrir slappleika – litla lúsin. Segi meira af því öllu síðar.

Kveðja Inga göngugarpur

Út…

Please gefið mér styrk til að komast út að labba nú í morgunsárið. Komst ekki (og í alvöru komst ekki) í Styrk í gær. Ég bara verð að koma mér út en ég er svo þreytt….

En ég veit það gerir mér svo gott…

Ég er á leiðinni…

…því ég vil fara út. Veit það er svo æðisgengið…

(hugsi hugsi hugs… er að rifja upp þetta með æðið – trúi því ekki alveg á þessu augnabliki).

Ings

Uppgefin



Halló – föstudagur næstum liðinni. Besti dagur vikunnar að mínu mati alla jafna. Þessi var samt óvenju strembinn og minnti mig á gamla tíma.

Þetta hefur verið svefnlaus vika hjá Ingveldi og þykir mér sem gengið sé full gróflega á það þrek og aukna orku sem hún hefur þó öðlast með breyttum lífsháttum. Ég bara hreinlega hef ekkert sofið síðustu þrjár nætur. Ja sko ekki nema 2 – 3 klst amk og það ekki einu sinni í einni lotu. Og mér líður svo sannarlega svoleiðis núna – enda ekki að furða.

Í nótt hringdi dóttir mín í mig algjörlega miður sín af verkjum og vanlíðan og sagði að sér hefði liðið illa í tvo daga. Ég bað hana að koma heim frá kærastanum kæra og vera hjá mér svo ég gæti fylgst með henni. Ekki leist mér nú á blikuna og úr varð að við fórum til Reykjavíkur til gömlu góðu læknanna á barnadeildinni og Ragnheiður fór í alls kyns rannsóknir frá 11 að morgninum til 10 um kvöldið. Þetta var nú meiri maraþon dagurinn.

Útilokaðir voru nýrnasteinar sem þeir héldu að e.t.v. hefðu getað verið að hrella hana og vonandi dugir henni bara að skipta um lyf. Stóra rannsóknin fer svo fram síðar í mánuðinum eða í október.

Þessi ferð rifjaði upp bernsku hennar – og spítalaferðirnar, námið í Kennó, Palli á sjónum, blankheitin og ég bara skil ekki hvernig ég komst í gegnum þetta. Þvílíkar hetjur sem við höfum verið – og Ragnheiður að sjálfsögðu sú mesta. Þetta var ekki alltaf auðvelt skal ég segja ykkur. Langveik börn krefjast gríðarlegrar umönnunar og heimilið er allt mótað af umönnun þess. Og ég sver að mér þótti þetta ekkert mál á meðan á þessu stóð – þetta var bara eins og hvað annað – ekki vandamál heldur bara verkefni.

Einn dagur með veikt barn sem þó er allt í einu orðið 17 ára var kærkomin áminning um það hvað við eigum gott, hvað allt gekk vel og hvað við erum heppin að eiga hvert annað og söguna okkar saman. Við höfum svo sannarlega komist vel frá þessu verkefni.

Guð gefi að framhald verði á.