1 miljarður



Nú er annar dagur í verkfalli. Ég er búin að ná í bútasauminn minn – og fá mér ný mynstur og svona sem gaman væri að gera. Ég er með köku í ofninum – búin að fara einu sinni út á snúru og er búin að brjóta saman úr einum bala.



Ég hef líka farið niður á Eyrarbakka með bílinn minn í skveringu hjá þeim á Litla Hrauni – hann verður nú fínn á eftir sá græni skal ég segja ykkur. Ég fór líka með Hjördísi og Guðjón í sund – en ekki með – bara með þau að sundlauginni – smá tregða við að koma sér í sundið. En það kemur.



Ég hef sem sagt ýmislegt gert. Börnin mín ganga um húsið í forundran og skilja ekki hví hér er ekki dót og drasl um allt – sjá alls ekki samhengið í því að vera heima allan daginn eða vinna 12 tíma og koma heim örþreyttur. Blessuð litlu greyin.



Verst að ég er ægilegur verkfallsbrjótur að vera með Hjördísi – er ekki mjög góð í svona verkfallsbaráttu – á að fara í verkfallsvörslu á morgun – finnst áreiðanlega allt mjög eðlilegt – hef ekki þessa brennandi verkalýðsbakteríu – en hún ágerist vísast. Auðvitað á maður ekkert að vera að passa börn fyrir fólk – það á bara að bjarga sér sjálft og lenda í vandræðum svo það fari að rífast yfir því að við séum í verkfalli og koma þannig af stað pressu.



En komum nú að erindinu:



Við höfum eignast nýjan forsætisráðherra – hef nú ekki skoðanir á honum í sjálfu sér – annað en það sem flestir hafa sem ekki eru með honum í flokki en ekki þótti mér hann byrja valdaferilinn vel blessaður á öðrum degi í embætti. Þá var kappinn spurður að því hvort ríkið ætlaði að gangast í kjaradeilu sveitarfélaganna og kennara. Hann hélt nú ekki – þetta væri allt saman mál sveitarfélaganna en ekki ríkisins.



Það vita það allir sem vilja vita að sveitarfélögin sömdu af sér þegar þau tóku skólann yfir og hróplegt misræmi í launum kennara miðað við aðrar stéttir var ekki tekið með í reikninginn. Og annað hefur líka sett strik í margfrægan reikning sömuleiðis…..



Halldór sagði að skólinn væri nú miljarði dýrari hjá sveitarfélögum en hann var hjá ríkinu og það væri alfarið vandi þeirra sjálfra. En það vita þeir sem vilja vita að er ekki alfarið rétt….



Þegar sveitarfélögin tóku yfir skólann varð verkaskiptingin þannig að þau sæu um greiningu nemenda með hegðunarraskanir og eða þeirra sem þurfa greiningu í námslegri færni. Ríkið skyldi sjá um úrræðin og meðferðina. Skólasálfræðingar hér á Selfossi mega t.d. ekki hitta ,,skjálstæðing“ sinn oftar en 5 sinnum. Næsta skref er síðan Greiningarstöðin eða BUGL – og allir vita hvernig staðan er þar. Úrræðin inni í skólanum eru sárafá nema að auka stuðning með stuðningsfulltrúum og sérkennslu – sem skilar ekki endilega þeim árangri sem þarf að nást því einungis er tekið á einum þætti af mörgum sem líf barnanna er sett saman úr. Þau vandamál sem mest hvíla á kennurum eru tengd hegðun og slæm hegðun hefur mikil áhrif innan skólastofunnar.



Nú á barnið eða börnin ekki neina sök í þessu máli – heldur eru það aðstæðurnar sem valda vandanum – og skortur á meðferð á sviðunum þremur – heilbrigðis, mennta og félagslegu. Sveitarfélögin koma að menntasviðinu og hafa reynt að leysa brennandi vanda með aukinni sérkennslu og stuðningi eins og ég nefndi áðan – en ríkið stendur hjá og gerir ekki neitt – BUGL er brunnið yfir – nemendur eru heppnir ef þeir komast nokkurn tímann inn á Greiningarstöð og úrræðin eru sárafá sem ríkið hefur upp á að bjóða og vandamálin hlaðast upp og tölurnar blasa við. Allt að 90% fanga á Litla Hrauni eiga í fórum sínum greiningu vegna hegðunarvandamála og geðraskana í grunnskóla – fæstir þeirra eiga sér hins vegar nokkra sögu um það að tekið var á vandamálum þeirra á þreim þremur sviðum sem þurfa að vinna saman til þess að árangur náist.



Það er margsannað mál að þau brögð sem við beitum til þess að leysa vandann í skólastofunni og einstakra nemenda með hegðunarvanda séu ekki til þess fallin að árangur náist – hinar sem eru árangursríkari reynast er hins vegar ekki beitt – og þar hvílir ábyrgðin hjá ríkinu.



Halldór getur því gagnrýnt eyðslusemi sveitarfélaganna eða hitt þó heldur. Ég held hann ætti að setjast niður með Kristjáni Má skýrsluhöfundi Jóns Kristjánssonar og heyra hvernig þessi mál eru hér á landi. Hann ætti líka að setjast niður og skoða í heild sinni kostnað við grunnskólann með sveitarstjórnarmönnum. Þá og einungis þá geta sveitarstjórnarmenn sest niður og horft á heildina varðandi störf kennara og samið við þá. Kennarar eru nefnilega ekki fífl og þekkja sín störf mætavel og það er vel hægt að hlusta á það sem þeir segja þó maður sé í sveitarstjórnarmálum – já og jafnvel þó maður heiti Karl Björnsson.



En sem sagt – er farin í bútasauminn



sakna samt Bjarkar – hún er á Neskaupsstað í stað þess að sitja hér hjá mér og stúassast,



kveðja út í tómið,



IE

3 athugasemdir á “

  1. Blessuð,
    núna erum við í Sunnulækjarskóla á tölvunámskeiði til að gera eitthvað ;o)
    Vonandi leysist þetta sem fyrst svo þið getið farið að mæta til vinnu…
    Kv,
    Unna og hinir í Sunnulækjarskóla

    Líkar við

  2. Ég les sko bara víst bloggið þitt! Þó ég sendi kannski ekki endilega komment… mér fannst þetta mjög merkilegt og mér finnst að þú ættir að senda þessa grein í blöðin svo fleiri geti séð hana!

    Líkar við

Skildu eftir svar við Ingveldur Hætta við svar