Viðtengingarháttur e. Kristján Árnason
Það er greinilega ekkert grín að rannsaka viðtengingarhátt og hvort Kristján hefur gert það á öðrum stað, með enn fleiri orðum og bollaleggingum veit ég ekki – líklega þó ekki samkvæmt heimildaskránni. Þessa grein kallar KÁ erindi (en líka grein) en það er alveg klárlega víst að ég hefði ekki haft gáfur til að skilja helminginn af því sem höfundur sagði í hlustun. Nóg átti ég með lesmálið. Ekki það að erindið sé á tyrfnu máli – öðru nær en það er farið býsna vítt yfir.
Greinin sem gæti verið mun ítarlegri og með lengri útskýringum og þær oftar endurteknar og útskýrðar með fleiri afbrigðum og dæmum, er mjög áhugaverð og í henni eru afbragðs pælingar um viðfangsefnið. Hún er tyrfin þótti mér – þó ég hefði allnokkuð hugsað um fyrirbæri og krafðist þess að vera lesin nokkrum sinnum.
Kristján kemst þó að þeirri sömu niðurstöðu og ég hafði komist að þegar ég var að nýta mér heimildir í lokaritgerðinni, þ.e. að viðtengingarháttur sé viðhafður þegar þarf að sýna að það sem í aukasetningunni er kemur ekki frá þeim sem talar (eða skrifar í mínu tilviki) og ekki endilega hans skoðun.
Ég hef slumpast til þess að komast að sömu niðurstöðu og Kristján um viðtengingarháttinn hér um árið, þar sem hann segir að notkun hans dragi ekki endilega úr því að um staðreynd sé að ræða heldur er þetta spurning um ábyrgð á hinu sagða/ritaða í mínu tilfelli.
Það að takast á við íslenskuna í skrifum finnst mér afskaplega skemmtilegt og því varð ég svolítið glöð þegar þessi leikfimi hófst í ritgerðarsmíðinni. Mér fannst svo gaman að því hve eitt og sama orðið getur breytt blæ og jafnvel merkingu setningarinnar bara með því að taka hana úr framsöguhætti og yfir í viðtengingarhátt.
Kristján segir í lokin að víst hefði mátt gera lengra mál um viðfangsefni greinarinnar og að e.t.v. sé vonlaust mál að finna hið eina merkingareinkenni viðtengingarháttarins. Engu að síður tekst honum ágætlega að færa rök fyrir niðurstöðu sinni.
Greinin er í sjálfu sér ekki löng og niðurstaðan nokkuð ljós – því læt ég hér staðar numið í umfjöllun minni – sem vísast gæti verið lengri.
E.t.v. er ég farin að sveiflast fullmikið endanna á milli í lengd á bloggi – hef reyndar frekar haft orð á mér í umfjöllun fræðileg málefni að vera með heldur knappan stíl en er kemur að sjálfri mér á ég á hætt að verða full langorð hugsa ég.
Blogg er líklega augu sálarinnar á netinu – það má að ýmsu komast með lestri þess um þann sem skrifar,
vonandi eigið þið eftir að njóta sunnudagsins lesendur góðir og annarra þeirra daga er í kjölfar hans koma,