Viðtengingarháttur e. Kristján Árnason

Það er greinilega ekkert grín að rannsaka viðtengingarhátt og hvort Kristján hefur gert það á öðrum stað, með enn fleiri orðum og bollaleggingum veit ég ekki – líklega þó ekki samkvæmt heimildaskránni. Þessa grein kallar KÁ erindi (en líka grein) en það er alveg klárlega víst að ég hefði ekki haft gáfur til að skilja helminginn af því sem höfundur sagði í hlustun. Nóg átti ég með lesmálið. Ekki það að erindið sé á tyrfnu máli – öðru nær en það er farið býsna vítt yfir.

Greinin sem gæti verið mun ítarlegri og með lengri útskýringum og þær oftar endurteknar og útskýrðar með fleiri afbrigðum og dæmum, er mjög áhugaverð og í henni eru afbragðs pælingar um viðfangsefnið. Hún er tyrfin þótti mér – þó ég hefði allnokkuð hugsað um fyrirbæri og krafðist þess að vera lesin nokkrum sinnum.

Kristján kemst þó að þeirri sömu niðurstöðu og ég hafði komist að þegar ég var að nýta mér heimildir í lokaritgerðinni, þ.e. að viðtengingarháttur sé viðhafður þegar þarf að sýna að það sem í aukasetningunni er kemur ekki frá þeim sem talar (eða skrifar í mínu tilviki) og ekki endilega hans skoðun.

Ég hef slumpast til þess að komast að sömu niðurstöðu og Kristján um viðtengingarháttinn hér um árið, þar sem hann segir að notkun hans dragi ekki endilega úr því að um staðreynd sé að ræða heldur er þetta spurning um ábyrgð á hinu sagða/ritaða í mínu tilfelli.

Það að takast á við íslenskuna í skrifum finnst mér afskaplega skemmtilegt og því varð ég svolítið glöð þegar þessi leikfimi hófst í ritgerðarsmíðinni. Mér fannst svo gaman að því hve eitt og sama orðið getur breytt blæ og jafnvel merkingu setningarinnar bara með því að taka hana úr framsöguhætti og yfir í viðtengingarhátt.

Kristján segir í lokin að víst hefði mátt gera lengra mál um viðfangsefni greinarinnar og að e.t.v. sé vonlaust mál að finna hið eina merkingareinkenni viðtengingarháttarins. Engu að síður tekst honum ágætlega að færa rök fyrir niðurstöðu sinni.

Greinin er í sjálfu sér ekki löng og niðurstaðan nokkuð ljós – því læt ég hér staðar numið í umfjöllun minni – sem vísast gæti verið lengri.

E.t.v. er ég farin að sveiflast fullmikið endanna á milli í lengd á bloggi – hef reyndar frekar haft orð á mér í umfjöllun fræðileg málefni að vera með heldur knappan stíl en er kemur að sjálfri mér á ég á hætt að verða full langorð hugsa ég.

Blogg er líklega augu sálarinnar á netinu – það má að ýmsu komast með lestri þess um þann sem skrifar,

vonandi eigið þið eftir að njóta sunnudagsins lesendur góðir og annarra þeirra daga er í kjölfar hans koma,

Áður en lesturinn hefst um viðtengingarhátt

Ég hlakka svolítið til að hefja lesturinn eftir hann Kristján einkum vegna þess að ég og viðtengingarhátturinn háðum svo skemmtilegan bardaga saman er lokaritgerðin mín var samnin, rituð og gerð fyrir tæpu ári síðan.

Þar sem ég er ekki sérlega akkúrat manneskja þá hafði nú gerð hennar vafist fyrir mér árum saman – eins og ýmislegt annað í Kennó, sérstaklega uxu mér tilvitnanir beinar og óbeinar í augum.

Þegar samning verksins hófst varð mér snemma ljóst að viðtengingarháttur er hrein snilld – þó ég hafi áður haft þá megin reglu í lífinu að nota hann sem minnst. En þegar maður skrifar heimildarritgerði og hefur óbeint eftir þá er hann betri en enginn. Hann gerir bæði stílinn og textann auðskiljanlegri. –Ef einhver skilur hvað ég er að fara þá á hann heiður skilinn eða á hann heiður skilið?

En nú ætla ég að lesa greinina áður en ég dembi mér í bridge-ið á eftir,

kveðja,

Tilvísunarfornöfn? II/II

Höskuldur fer ítarlega í gerð tilvísunarsetninga í íslensku og fleiri málum og þar er niðurstaða hans sú – eins og annarra á undan honum – að tilvísunarsetningar koma á eftir því orði sem tilvísunarsetningin vísar til – og að tilvísunarsetningar séu tengdar með fornöfnum eða óbeygjanlegum smáorðum (bls. 65). Hann rekur síðan og gerir grein fyrir orðum sem tengja saman tilvísunarsetningar í íslensku og fer síðan að fjalla um vandræðaorðin sem og er.

Líkt og í öðrum tungumálum sem eiga sér sömu orðin, hafa menn löngum sagt þau vera tilvísunarfornöfn og kosið að líta fram hjá þeirri hegðan þeirra að beygjast ekki. Sumir hafa reyndar kosið að kalla sem og er tilvísunarorð og sloppið þannig við þann óþægilega sannleika að orðin haggast ekki þó reynt sé að beygja þau.

Stundum hefur verið reynt að kalla þau annað hvort samtengingu eða fornöfn en margir hallast að því að betra sé að láta orð tilheyra einum flokki ein tveimur. Þó svo að málvísindamenn um víða veröld hallist að því að flokka sambærileg orð í öðrum tungumálum – smáorð hjálpar það lítt enda margir lækir sem renna í það fljót.

Höskuldur færir fyrir því sannfærandi rök að sem sé í raun tilvísunartenging en ekki tilvísunarfornafn.

1. Þau beygjast ekki (slíkt á þó við um nokkur fallorð sem þó eiga heima í þeim flokki)

2. Þau geta ekki staðið í forsetningarliðum eins og fallorð

3. Sem og er geta ekki verið hiðstæð – þ.e. þau geta ekki staðið með fallorðum – eins og önnur fallorð geta

4. Þau standa fremst í setningum og líklegt er að samanburðartengingin sem hafi smám saman verið farið að nota sem tilvísunartengingu sem er mun eðlilegra en hún hafi verið notuð sem tilvísunarfornafn.

5. Sem tekur með sér –að- líkt og aðrar tengingar en fornöfn gera ekki

6. Sem og er yrðu að geta vísað til næstum hvers sem er ef nota ætti merkilegalega skilgreiningu en það gera fornöfn ekki – þau vísa í eitthvað ákveðið orð.

Grein Höskuldar er svolítið eins og stærðfræðiformúla aflestrar. Hún er rökföst – ef þetta þá þetta og varla að finnist glufur í röksemdafærslunni – enda ég sammála manninum, hvers virði það nú er ;-).

Engu að síður hefur Höskuldur skemmtilegan stíl í þessu rakaregni sínu og því fannst mér gaman að lesa skrifin rétt eins og mér finnast kennslubækur hans góðar aflestrar.

Ég er hins vegar fegin að ég er ekki íslenskufræðingur að atvinnu, mikið held ég maður þurfi að vera gáfaður 😉

Bestu kveðjur og beint í næstu grein,

Ingveldur

P.s: Það er reyndar ekki nein tilviljun að ég las greinina yfir aftur nú í morgunsárið og skrifaði punktana þá – ég er held ég komin á þann aldur að svona formúlulestur leggist best í mig þá!

Íslenskufræðingar

Höskuldur Þráinsson hefur verið afkastamikill í skrifum sínum undanfarin ár og kennslubækur hans að ógleymdri handbókinni hans hafa nokkuð komið við sögu í minni kennslu og námi. Ég þekki nokkuð vel til skoðana hans og finnst þær flestar afskaplega gáfulegar.

Ég er hins vegar eins og ég sagði fyrr í bloggi ekki sérstaklega mikil reglumanneskja og verða alltaf pínu rugluð þegar langar útskýringar koma á reglum íslenskunnar. Tala nú ekki um þegar margar skammstafanir koma saman í einni setningu 😉 – reyndar nokkuð sem hjálpar mér að skilja hvernig blessuðum börnunum líður á köflum í þeirra námi.

En hvað um það – Höskuldur fjallar um SEM í grein sinni – Tilvísunarfornöfn og ég er mikil áhugamanneskja um sem. Ég flýg því yfir lesmálið og röksemdafærslur Höskuldar sem flestar eru mér kunnuglegar úr fyrra grúski mínu.

Þegar íslenskir málfræðingar fóru af stað að kortleggja íslenskuna var eðlilegt að þeir styddust við það tungumál sem í mestum metum á akademískum vettvangi – og það tungumál sem þeir höfðu lært – Latínuna. Það hefur síðan komið á daginn að þessi aðferð er ekkert sérstaklega sanngjörn gagnvart íslenskunni og margt í ,,gömlu” málfærðinni sem passar ekkert sérlega vel við og verkar undarlega á menn nú til dags.

Þegar nemendur hefja sína orðflokkagreiningu – strax í 4. bekk og halda svo áfram því –stagli-liggur mér við að segja, allt fram í 10. bekk, þá beita kennarar og námsefnishöfundar gjarnan þeirri aðferð að kenna nemendum merkingarlegan mun á orðflokkunum. Mér sjálfri fannst það ágætt að læra þá svoleiðis en fannst þó undantekningarnar, slaufurnar og ,,en-in” fullmörg á köflum. Enn er ég þeirrar skoðunar. Tökum t.d. bara einfalda skilgreiningu á nafnorðum – þau eru heiti á einhverju – og þá halda börnin náttúrulega að hér séu á ferðinni sérnöfn og langar útskýringar hefjast á því að ……

Ekki eru sagnorðin betri – þau segja frá því hvað einhver er eða var að gera, eða hvernig ástand einhvers er– og í flokkuninni fer óðum að slæðast með lýsingarorð og allt er komið í vitleysu fyrr en varði. Maður þarf ekki að vera búinn að kenna lengi til þess að sannreyna þetta. Merkingarleg atriði hjálpa þó til á tíðum við að læra blessaða orðflokkagreininguna og skipta vissulega máli.

Til er miklu skynsamlegri leið og að henni víkur Höskuldur í sinni grein. Hver og einn Íslendingur er sérfræðingur í málinu og notar sitt mál sem slíkur. Nemendur kunna heilmikið í íslensku – og ég bendi þeim gjarnan á að þeir kunni þetta allt saman – þeir þurfi bara að ganga með merkibyssu á allt heila klabbið og merkja það.

Við getum fundið orðflokka með því að skoða stöðu þeirra í setningu og myndanfræðileg atriði og orðmyndun.

Það eru einmitt þessi atriði sem hjálpa nemendum hve mest að nálgast þá vitneskju sem býr innra með þeim. Þ.e. nafnorð bæta við sig greini – lýsingarorð bæta við sig endingum og stigbreytast og sagnorðin eru á ákveðnum stað – oftast ekki fjarri nafnorðinu eða persónufornafninu – sem ég vel að merkja kenni svona jöfnum höndum þar sem þau fara snemma að þurfa að þekkja þau í sínu enskunámi.

Rétt eins og Höskuldur bendir á í sinni grein hafa merkingarleg einkenni misst vægi sitt frá því sem áður var en engu að síður eru þau á tíðum eitt af því sem orð í ákveðnum orðflokki eiga sameiginlegt og heiti þeirra eru venjulega dregin af því.

Enn er ég of langorð – en þessir þættir sem að ofan eru nefndir hafa skipt mig miklu máli í kennslu og áreiðanlega börnin í námi,

meira síðar um grein Höskuldar – Tilvísunarfornöfn?

Je minn eini….

Dísösss……

Nægar eru nú syndir mínar til að ávinna mér alls konar ávirðingar kennara þó ég láti ekki bláan lit (þó ekki bláa hönd) koma mér í koll.

Á þær er sem sagt ekki bætandi og ég ætla rétt að vona að þetta útlit falli háæruverðugum kennara vel í geð…..

(skil ekki alveg hvernig henni dettur í hug að ég lesi ekki bloggið hennar – er búin að fara mjöööööög oft inn til að fá frekari fregnir af bauki hennar – er eiginlega orðin svona Þórunnar.blogspot – fan….)

Ástæða þessarar síðust breytingar (þ.e. á undan þessari) var sú að ég vildi reyna að lengja línurnar…..

Ég held nefnilega að ég skrifi alltof mikið og of mörg skjáskroll séu ekki til þess fallin að ég eignist svona blogspot aðdáanda eins og Þórunn Blöndal….

sem sagt búin að kippa þessu í liðinn

sigh,

Uppsveifla

Tíhíhíhí

Ég er að lesa grein sem hefur spurningarmerki fyrir aftan – og það gleður mitt sinni. Er að hugsa um að ramma hana inn einhvers staðar – yfir fáu hef ég fjargviðrast meira um dagana í íslenskunni. Það bara er ekki nokkur skynsemi í þessu semi.

Ekki það – inná þetta hafa íslenskufræðingarnir í Kennó komið nokkrum sinnum á minni ægilöngu skólagöngu þar – en þó helst nú síðustu árin.

Áfram Höskuldur

kveðja þangað til næst,

Þágufallið einn góðan ganginn

Það var með nokkurri mæðu sem ég hóf lestur greinarinnar hennar Ástu Svavarsdóttur um þágufallssýkina. Víða hefur verið tæpt á þeirri sótt í skrifum mínum og daglega stend ég frammi fyrir henni og veit svo sem ekki alveg hvort ég eigi að há þessa baráttu penselínslaus manneskjan.

Ekki minnkaði mæðan og þyngslin er ég uppgötvaði að gjarnan vantaði 2 bls. hér og þar, innan í greinina sem var ekki til þess að auðvelda fyrirframþreyttum huga mínum að renna í gegnum skrifin. Kannski hafði vikan í skólanum bara haft þessi áhrif, mörg vandamál sem koma upp og sigrarnir oft á tíðum smáir og fáséðir.

Eftir að hafa rennt í gegnum greinina sem mér fannst satt að segja ekki sérlega skemmtilegt (reyndar skammaði ég mig nokkrum sinnum í huganum fyrir að ætlast til þess að grein um þágufallssýki sé skemmtilegt – og hugsaði til þess sem ég segi nokkrum sinnum á ári við blessuð börnin að nám sé ekki skemmtunin ein) eru nokkur atriði sem standa uppúr:

1. Svo virðist sem þágufallíleitni manna sé hið eðlilegasta mál og e.t.v. ekkert til þess að amast við heldur eðlileg þróun máls.

2. Þágufallsíleitnin er ekki eins algeng og maður skyldi ætla og oftar en ekki tilkomin vegna mjög skynsamlegrar ómeðvitaðrar málvitundar.

3. Þágufallsíleitnin færir okkur heim sanninn um það að málið er bráðlifandi og sífellt að þróast.

4. Líklega er vonlaust að berjast á móti henni þar sem þær sagnir sem harðast er hamrað á að séu ópersónulegar eru þær sem algengast er að nota ,,vitlaust” – hver þekkir ekki – LANGA – HLAKKA?

Og nú sit ég hér og velti því fyrir mér hvort ég eigi að segja syni mínum einn góðan ganginn að hann hlakkar til þess og hins eða hann langi til þess að verða þetta eða hitt.

Niðurstöðu er að vænta í málinu en hún liggur ekki fyrir.

Ég veit heldur ekki hvort ég tjái mig meira um þessa grein – ég er í svolítilli fýlu út í hana – bæði er hún æði fræðileg og miklar vísanir í prófin sem lögð voru fyrir og því ekki sérlega vel til þess fallin að vekja með mér innblástur. Eins skemmir fyrir að hafa ekki nema svona eins og 80% af henni með höndum.

En greinin er góð í bland við annað – og verður áreiðanlega til þess að auka mér vit og víðsýni.

Kveðja úr hálkunni,

Lestur bloggs

Blogg er svolítið sniðugt – og gríðarlega sniðugt fyrir kennara til að nálgast efni frá nemendum sínum. Ég er farin að nýta mér það í enskukennslunni alveg heilmikið og einnig í umfjöllun um Harry Potter bækurnar en hann er ég að kenna í valnámskeiði nú í vetur.

Mér finnst þetta hins vegar svolítið einmanalegt. Það er fullt sem hvílir á manni eftir lestur greinanna og maður skrifar og skrifar (áreiðanlega á köflum allt of mikið) en maður fær engin comment…..

Ég veit ég er voða sein að skila þessu öllu og ætlast ekki til að vera búin að fá alls konar ummæli – en ég sé það á webct að ekki er mikið brugðist við skrifum okkar hér – af samnemendum (ekki mér heldur).

Þess vegna fannst mér hugmyndin hennar Þórunnar svo frábær að við myndum meta bloggið hvert hjá öðru – en það fellur ekki í sérlega góðan jarðveg. Sigh…..

Ég er líklega orðin of kennaramiðuð – búin að kenna svo lengi að ég sé orðið bara með þeim gleraugum….

En ef við myndum meta hvert annað – þá áynnist fullt. Bloggið okkar yrði lesið – af gagnrýnum huga, ja og yfirleitt bara lesið…. Við kynntumst hugmyndum annarra betur en bara þegar við skimum yfir greinarnar. það er ekki eins og nemendur í þessu námskeiði þyrftu að lesa ofan í kjölinn hvert einasta blogg heldur bara þau sem vekja sérstakan áhuga viðkomandi.

Er ekki svolítil synd að við séum ,,bara“ að skrifa fyrir Þórunni en ekki hvert annað – því ég veit að önnum kafnir fjarnámsnemendur geta vel hugsað sér að láta langar blogglengjur víkja fyrir öðru námi.

En þetta var nú bara smá pæling….

Svíar komust ekki á Ól na na na na na na na

(amk ekki í þessari lotu)

kveðja,

Vont mál og vond málfræði II/II

Það er nokkuð gaman að lestrinum og Gísli fer mikinn í gagnrýni sinni á málveirusinna og litlu má muna að hann sé jafn dómharður í dómum sínum um þá og þeir um hina ,,veirusýktu“.

Gísli rekur nokkuð ítarlega baráttuna gegn flámæli – en saga þess var að nokkru rakin í Tungunni. Hann fjallar einnig um nokkrar beygingar sem gjarnan er ,,rangt” farið með og við erum að berjast við að ,,lemja” úr blessuðum grunnskólabörnunum. Svo ekki sé nú minnst á þágufallssýkina sem ég var nú síðast að leiðrétta hjá syni mínum en honum langaði þessi býsn að við ynnum Júggana. Hvort hann langi til þess sama er við mætum þeim næst veit ég eigi – en tel þó það vera mjög líklegt.

Ég er líklega svolítil málveirína í mér – a.m.k. hef ég það fyrir sið að reyna að vanda mál mitt – sérstaklega hið skriflega (nema bévaðar ásláttarvillurnar – þær eru einhvern veginn bara í mínum karakter:-()– en ósköp voðalega myndi mig líka langa til þess að vera laus við beygingarvillur úr talmáli mínu. Ég svona stefni að því en tekst ekki alltaf.

En er það til nokkurs og eitthvað til þess að monta sig af? Er eitthvað rétt bara af því það er gamalt? A.m.k. er gamalt smjör ekki betra en nýtt. Ekki er þó víst að sú regla gildi um málfar – harla hæpið reyndar 😉

Gísli segir málhreinsunarmenn hafa tengt saman stöðu manna í þjóðfélaginu og hversu vel þeir töluðu og hefði búseta þar sitt að segja sömuleiðis. Hörðustu málhreinsunarmennirnir – og þeirra frægustu voru náttúrulega uppi á nokkuð öðrum tímum en nú eru – og tengdust fordómar þeirra nokkuð þéttbýlismyndun þess tíma og sollinum sem henni tengdust – svona að því er hermt var. Sveitarómantíkin réð sem sagt lögum og lofum.

Gísli gerir þetta reyndar nokkuð að umfjöllunarefni sínu sjálfur og vísar til ýmissa rannsókna þá nýrra – sem gerðar voru í lok 8. áratugar síðustu aldar. Þær niðurstöður sem þar fengust notar hann til þess að hnykkja á þeirri skoðun sem hann setur fram í upphafi máls síns – þ.e. að íslensk tunga sé ekki og hafi aldrei verið algjörlega einsleit og það séu hindurvitni veirusinna að halda því fram. Það hafi þeir gert til þess að réttlæta það að kýla niður allar breytingar á málinu og telja þá er þær mæltu vaða í villu og svima. Íslenskan sé ekki og hafi ekki verið eins alls staðar – sama af hvaða sauðahúsi menn voru upp sprottnir.

Gísli ræðst mjög harkalega að þeirri skoðun margra málverndunarsinna sem héldu því fram að málvillur stafi af heimsku og lágu greindarstigi þeirra sem þær mæla. Þetta minnir mig nú reyndar á þá fordóma sem við íslenskir höfum gagnvart þeim sem ekki tala móðurmálið eins og innfæddir – nýbúunum okkar. Þeir segja – og ég finn það reyndar á sjálfri mér – að umburðarlyndi gagnvart þeim sem tala ekki eins og þeir hafi fæðst hér og alist upp sé ekki sérlega mikið.

Það er allt öðruvísi hjá þeim Englendingum sem ég þekki – þeim finnst frábært hvað ég skuli tala vel ensku og segjast gjarnan sjálfir sakna þess að læra ekki fleiri tungumál í sínu grunnskólanámi en bara sitt móðurmál.

Ég tel nú margt hafa breyst frá þeim tíma er Gísli skrifar grein sína – samfélagið allt hefur tekið þvílíkum stökkbreytingum að annað væri sérkennilegt.

Hver staða málverndunarsinna í sínu (mínu?) stríði er þessa dagana og árin þekki ég ekki svo mjög – ég les ýmsa dálka um málefnið og hái svo mína eigin baráttu innan veggja heimilisins og skólastofunnar. Hvort hún er gáfuleg – eða yfirleitt til einhvers veit ég ekki, – en mér þætti gott ef svo væri,

góðar stundir –

Vont mál og vond málfræði I/II

Maður þarf ekki lengi að læra íslensku á æðri menntastigum til þess að finna smjörþefinn af því að sumt er ekki sem áður var í málfræðinni.

Mér er löngum minnisstæðar orðræður milli mín og vinkonu minnar – mikillar íslenskukonu um ,,sem” – orð sem annað tveggja er fornafn eða samtenging. Þessi kona er búin að kenna í 20 ár og þar af verið mikið á efsta stigi grunnskóla. Hún kann allar reglur málfræðinnar aftur á bak og áfram. Ef eitthvað er óklárt spurði ég bara hana – þau ár sem ég naut þess að kenna með henni. Við hins vegar gátum aldrei alveg orðið sammála um sem-ið – hún hafði lært að þetta væri fornafn á meðan ég sagði að það væri bara ekki mögulegt að troða þessu orði þar á meðal þar sem það fallbeygðist ekki – nema þá eftir einhverjum óskaplegum fjallabaksleiðum.

Fleiri urðu umræðurnar um málfræðina á milli okkar – afar gáfulegar allar saman en umfram allt sérlega skemmtilegar. Hún hafði lært málfræðina hans Björns Guðfinnssonar (sem svo snilldarlega er vitnað í, í greininni hans Gísla) og fannst á stundum sem fallvaltleikinn sem væri verið að innleiða væri fullmikill á meðan mér fannst frjálsræðið svo dæmalaust gott. Við sammæltumst reyndar um það að hvor leiðin um sig hefði sína kosti og til beggja þyrfti að líta.

Ég er ekki mikil reglumanneskja (drekk þó í hófi og á tíðum ekki neitt ;-))og lærði ekki reglur í grunnskóla heldur bara kunni ég. Mér fannst því gaman að læra hina ,,nýju” málfræði í hinum ýmsu námskeiðum í KHÍ þar sem litið er á tungumálið sem lifandi afl og að til þessi þurfi að líta við kennslu málfræðinnar – íslenskunnar, reyndar í allri umfjöllun.

Gísli Pálsson fjallar um í sinni grein – Vont mál og vond málfræði ægivald hreinleikans í íslenskri málstefnu þar sem allt er fordæmt sem ekki fellur að hinni rómantísku mynd sumra af íslenskunni. Og víst er að hamfarir hafa átt sér stað í baráttunni gegn ýmsum hlutum. Ég sagði í umfjöllun minni um Ytri aðstæðurnar ef mig minnir rétt, að slettur og slangur séu ekki það sem ég hafi mestar áhyggjur af – þó svo að ég sé svolítill málhreinsunarmaður. Það eru miklu heldur svona grundvallarbreytingar sem teknar eru beint upp úr enskunni sem valda mér óþægindum. Vísast útaf reynslu minni af þeim síðustu árin.

Gísli bendir réttilega á að margir hinna egghvössu þyrna sem stingast í hörund málhreinsunarmanna fái heldur gasaleg heiti – og endi gjarnan á sýki eða villu. Hann kallar þá reyndar MÁLVEIRUFRÆÐINGA – ansi gott heiti, þeir séu svona svolítið eins og lúsakambar – leiti að óhroðanum og geri svo hvað þeir geti til að uppræta hann.

Það þurfa hins vegar ekki allir að vera sammála því að það sem finnist sé óhroði þó svo fáir dásemi lúsina í dæminu hér á undan.

Togstreita veirufræðinganna og manna eins og Gísla – færa okkur vonandi hið gullna jafnvægi sem við sækjumst eftir. Ekki er gott að fljóta sofandi að feigðarósi en það má heldur ekki kalla úlfur úlfur sí og æ.

Með því að rísa upp á móti þeim röddum sem hæst hafa á hverjum tíma – athugið að grein Gísla er komin nokkuð til ára sinna og málfræðingar nútímans – menn eins og t.a.m. Höskuldur Þráinsson hafa fært okkur nokkuð aðra mynd af raunveruleikanum, þá fáum við nauðsynlegt mótvægi.

Hvort sem það er Gísli, Hallgrímur Helgason eða einhver annar sem rís upp og gagnrýnir gildandi viðhorf og aðferðir – og fá á stundum bágt fyrir, þá verður niðurstaðan sú að einhverjir fara að hugsa sinn gang. Kannski skiptir einhver um skoðun – en það er þó minna um vert. Gagnrýnin sjálf er góð í sjálfri sér.

Mest um vert að með því að skoða gildi samtímans gagnrýnum augum náum við lengra í leit okkar að hinum gullna meðalvegi.

Meira um vont mál að loknum einhverjum handboltaleikjum – bronsið og gullið varð ekki okkar en mikið verður forvitnilegt að sjá hverjir hljóta djásnin,