Það hef ég lært að ég þarf stuðning til þess að stíga upp. Og hann hef ég svo sannarlega.
Af öllum þeim sem áttu sinn þátt í því að ég náði árangri frá 2006 til 2012, var það sjúkraþjálfarinn sem skipti þar mestu – að öllum öðrum ólöstuðum. Og þó niðursveiflan hafi verið kröpp, lúrði það sem ég hafði lært og þjálfað og beið þess að vera nýtt á ný.
Það þurfti mikið til að leita til hans á ný, þyngri og þrekminni en þegar hann hafði mig síðast í meðferð. Miklu…. Um tíma gat ég hreinlega ekki hugsað mér að horfast í augu við hann – og þar með ósigur minn. En slíkur heigulsháttur dugir ekki. Til þess að sigur vinnist þarf að horfast í augu við sigur jafnt sem ósigur – og nú er ég komin undir hans hendur á ný. Og það finnst mér gott.
Fjölskyldan er mér líka stuðningur og hvatning. Hver vill ekki vera fær um að sinna barnabörnum sínum, ganga með þeim og sýna þeim náttúruna, kenna þeim um dásemdir náttúru, gróðurs sem staða? Minnka áhyggjur barna og maka? Það er íþyngjandi að hafa alvarlega offitusjúkling í fjölskyldunni – gleðin og stoltið sem sést í augum þeirra, þegar kerla kemur úr sundi eða ræktinni er umbun engri lík.
Vinir og kunningjar. Það er ótrúlegt hve mikil áhrif þetta fólk getur haft – líka kunningjarnir. Nú eftir að ég kom suður hafa margir komið að máli við mig, og marga hef ég hitt – oftast í sundinu – og þeir muna eftir dugnaðinum og eljunni og eru vissir um að ég muni upp rísa – sannfærðir því hugmyndir þeirra um mig eru þær. Dásamlegt að finna þetta – því það að vera innan um fólk sem hefur þekkt mig og þekkir mig er góð tilfinning. Virðir mig vegna þess sem ég er og geri. Ómetanlegt.
Góð íþróttaaðstaða. Nú er ég komin í áskrift hjá WorldClass og í sundlaugina. Það er algjörlega nauðsynlegt og aðstaðan hér á Selfossi er hreint frábær. Ég vonast til þess að komast í vatnsleikfimi í haust og vetur – ég mun keyra frá Laugalandi og aftur til baka með glöðu geði – tímanum frá sex að morgni vel varið!