Bitið í skjaldarrendur

Aðgerðir síðustu 2 – 3 vikna eru ekki að skila árangri. Það þarf því að bregðast við og gera betur. Bæta við ýmsum björgum eins og að herða sig í því að skrifa matardagbók. Ég er samt alveg svakalega svekkt því ég er búin að vera að standa mig þvílíkt vel… En árangurinn mun skila sér… Einn daginn og marga þá næstu :).

Spennandi dagur í dag!

Sumarbústaðalíf

Eftir ýmis skipbrot í annars vel skipulagðri árás á ofát og leti ákvað mín að koma sér í skjól og lifa lífi einsetukonunnar. Ég hef  hreiðrað um mig í sumarbústað – dregið að mér heilsusamlegar vistir, skóladót og prentara – og ætla nú að hefja skriftir. Smá setbakk í skipulaginu í dag – þarf að hugsa þetta eitthvað aðeins öðruvísi en ég hef gert – en klárt er að ég verð að fara að skrifa eitthvað af viti – ég get ekki vonast eftir þessu koma til mín með dúfu…

Ætli sé ekki best að lesa svoldið meira fyrst…

Ástæðan fyrir veru minni hér er fyrst og fremst mataræðið – þegar ég er ein þá gengur mér betur að borða það sem er mér hollt og eftir þær fréttir að brjóskið væri verulega eytt í mínu vinstra hné – veit að það er ekki björgulegt í því hægra heldur – þá bara veit ég að nú er komið að því.

Ég man enn hvar ég stóð og hvar Baldur stóð þegar hann var að reyna að fá mig til þess að taka átakið alvarlega – blása lífi í baráttuna við kílóin. Hann nefndi ýmsa þætti sem ég gæti nýtt mér – líðan, heilsuna, – hjarta og æðakerfi, liðina og reyndi að fá mig til þess að líkja þessu við reykingar….

Ég stóð þver og í afneitun – og sagði bara að mér liði ágætlega og ég gæti ekki nýtt mér neitt af þessu því þetta væri ekki raunverulegt fyrir mér – heldur svo sem bara vitneskja sem jú kannski dræpi mig á endanum en það bara var ekki nóg… Kannski ef mér væri illt í hnénu eða einhvers staðar myndi það hjálpa….

Og þar er ég nú stödd – ógöngufær að mestu – ófær um að fara í blak og hvað þá golfið í sumar ef ekki léttir verulega á. Og þá þarf bara að létta verulega á – litli ofvirki heilinn minn ræður ekki við hvunndaginn nema hann sé mjög einfaldur og því gefst þetta mér vel – amk er dagurinn í dag búinn að vera ágætur. Mikið vatn og soðið grænmeti í hádeginu. Perur og meira vatn ;).

Ég þarf nú samt alltaf að vera á einhverju Selfossrandi – þannig að það verður spennandi að sjá hvað ákvörðunin um að borða bara hollt (og í hæfilegu magni) er sterk…

Það er núna….

Beðið eftir Ragnheiði

Jæja þá er hvunndagurinn runninn upp – joga, vatnsleikmi og blak – já meira að segja blak. Ég hef ekki spilað blak af neinu viti síðan fyrir jól – áreiðanlega 2 mánuðir síðan ég var fulla æfingu… Ég hef sem sagt verið algjörlega frá í hnénu – og ég er að reyna að beina því í þann farveg að ég hugsi nú af alvöru um að léttast. Það gengur hins vegar á ýmsu. Ég verð að skrifa matardagbók – það er ekki nóg fyrir mig að passa mig og halda að ég sé að gera allt rétt en svo er oft einhver sprengja… Það kemur – það þýðir ekki að gefast upp….

En ég er mjög glöð yfir því að fóturinn er að lagast – ég fer í myndatökuna á morgun og svo sjáum við til hvað verður gert með hnéð. En svarið er alltaf það sama – léttast léttast og léttast – og halda svo áfram að hreyfa mig og styrkja. Ekki flókið eða hvað?

Matardagbókarskrif

…ganga skrikkjótt 🙂 – En þau eru nú samt gerð. Og skulu vera gerð. Algjört lykilatriði að telja þetta saman og hafa í lagi! Dj… sem maður er fljótur að sleppa tökunum annars….

Ég er alveg handónýtí hnénu og búin að vera síðan fyrir jól – það er alltaf eitthvað. Nú hefur rope yogað hjálpað mér með mjaðmirnar þannig að ég veit varla af þeim – og þá kemur náttúrulega hnéð inn. Vonandi nýtast þeir verkir og helti mér til þess að leggja harðar að mér í því að léttast. Það þarf að styrkjast en ekki veikjast í andanum 🙂

Nú er norðurferð í pípunum – mikið hlakka ég til! Við Dísa verðum í viku við nám og kannski svona eilítið kigg á Herdísi Maríu – eða hvað ;).

Þar hlýtur mataræði að vera í algjöru himnalagi – býst ekki við öðru.

Bara spennandi.

Kveðja Inga fótalausa sem fann hækjuna hans Palla og styður sig við hana.

VIGTUN!!!


Þetta var það sem Baldur sagði við mig – einhvern tímann þegar mér ofbauð líkamsræktarálagið! Ég trúði honum svo sem – enda var hann ekki að skafa utan af því þá né nú!

Það er ekki nein hálftíma hreyfing við og við sem fellur honum í geð…

En það var nú ekki aðalmálið. Ég hef kviðið svo svakalega fyrir því að fara á vigtina eftir desember og jólin… Var helst á því að fara ekki neitt – en er nú orðin nokkuð þjálfuð í að eiga við  mína. Niðurstaðan er að 1,5 kg hafa bæst við – og það er innan marka þess sem mér var kennt að mætti búast við af slíku át tímabili. Ég er því sátt – og held áfram að paufast við að halda í við mig. Það er allmikið mál að minnka matarskammtana hjá konunni – en verður gert. Þetta er nefnilega bæði spurning um skammtastærðir og hvað er borðað þó síðari liður stæðunnar sé sem betur fer oftar í lagi en hitt…

Ekki bæði haldið og sleppt

Gærdagurinn var ágætur um margt! Ég fór í sundleikfimi, blak og sund. Blakið er held ég alveg út úr myndinni í bili – ég get ekkert notað vinstri fótinn og kem mér því ekki frá A til B – sama hversu stutt er á milli þeirra staða og snöggar hreyfingar eru alveg út úr myndinni. Ég get hins vegar synt og eftir að hafa verið smá í blaki – eða um 40 mín fór ég og synti í hálftíma eða svo. Þannig að hreyfingin í gær var 150 mínútur – sem er gott! En ég borðaði eins og hestur! Cok og prins – er maður í lagi – ónei. En þetta var allt skráð samviskusamlega niður og mér sýnist ég ekki hafa farið yfir orkuþörf dagsins en þessi dagur var ekki nýttur til þess að léttast – og ætlaði ég að hafa það svoleiðis – uuuuuuuuu held ekki!

Þannig að það er smá svigrúm til bætingar 😉 Dagurinn í dag er góður – eina er að ég er svakalega þreytt og lufsuleg eitthvað – já og get svona illa gengið, en ég skrifa hið fyrr nefnda á hve skart maður er að minnka skammtana eftir jólin – smá svona syfja kemur yfir mann.

En þetta er allt að koma – engin hreyfing í dag samt sem þýðir sund á morgun!

Þannig er það bara.

Áætlun hrint í gang!

Jæja markmið ársins eru ekki flókin:

Léttast 12 kg.

  • Leiðir:
    • Matardagbók
    • Vigtun sjálf eða hjá öðrum
    • Hreyfing
    • Taka ábyrgð á innkaupum og matseðlum

Stunda hreyfingu 6 daga vikunnar í 90 – 120 mínútur.
Ljúka mastersgráðunni.
Taka 1 áfanga í stjórnun næsta haust

fara á 4 – 6 vikna fresti til Akureyrar

Nýta mér vel bjargir:

  • Sjúkraþjálfun
  • Efni frá Reykjalundi
  • Stuðningsnet vina og kunningja
  • Blogg

Leiðir sem opnaðar hafa verið núna 4. janúar:

Blogga 😉
Hreyfingaáætlun

  • Rope yoga í  Lifandi húsi 2 x  í viku
  • Sundleikfimi hjá Vatni og heilsu 
  • Salur á Borg – lyfta
  • Sund – hjól 2 x í viku
    • Má gjarnan vera þrisvar segir sjúkraþjálfarinn blessaður.
  • Blak 1 x í viku (hnéð leyfir varla tvær æfingar).
Hér þarf að bæta við æfingum heima fyrir hné og mjaðmir á dýnu.

Viðfangsefni lokaverkefnis er ljóst
Búin að koma mér í samband við þrjár lykilmanneskjur vegna þess

Ég er einnig búin að skrifa matardagbók í þrjá daga.

Þannig að áætlunin er bara nokkurn veginn á áætlun 🙂

Gaman að því!