10 dagar í Hveragerði

Jæja!

Það er af mér að segja að vistin er öll að venjast – hún er samt önnur en ég hélt. Ég var kannski með kollinn fullan af ranghugmyndum –  það þarf að miða sig við sjálfan sig en ekki tálmyndir.

Ég hef ekki verið nærri eins dugleg og ég hélt ég yrði – hef þurft að ýta til hliðar ýmsu – en þær eru að kenna mér hér að sá dugnaður sem ég sýni í hvert eitt sinn sé hinn eini sanni, minn og ekki annarra – og nægur í hvert eitt sinn.

Hætta að berja á mér sinkt og heilagt. Já það væri það.

Ég fór á vigtina í dag og það var afar gleðilegt – 2 kg farin og það þó mér finnist vera heilmikill lopi á mér enn – það segir mér að hreyfingin sem ég hef náð að stunda – sé næg! Þrátt fyrir þreytu og bakverki, aumt hné og annað vesen.

Það hefur ekki alltaf verið svo að ég missi 2 kg. Best að umvefja það og halda áfram.

Það er alveg magnað með þetta mataræði hér – mér verður ekki illt af því!

Það er afar merkilegt og ég verð að grafast fyrir um hvers vegna!

En nú er rétt að fara að sofa! og ekki meiri upphrópunarmerki 😉

Hveragerðiskrónika fyrsta vikan að líða

Þess ber þó fyrst að geta að Björk á afmæli. 😉

Á fimmtudaginn fór ég í afmæli til Mumma og Dagmar í Borgarnes með Palla mínum. Það var indælt. Verst var þó hve illa ég hafði sofað þær nætur sem ég hafði verið hér – að afmælinu loknu ákvað ég því að sofa hjá Ragnheiði og Ingvari á Selfossi og vinna svo í því að fá eggjabakkadýnu hér á heilsusetrinu. Sem ég og gerði á föstudeginum, sem fór að mestu í svefn, spil og smá andlega uppörvun en andlegt atgervi mitt var ekki gott. Kvíði yfir göngum og getuleysi – en þó skein þarna einhvers staðar ljóstýra því í æfingatímanum í salnum hafði allt gengið betur en ég átti von á!

Eftir aðeins betri svefna aðfaranótt laugardags, góðan hádegismat skeiðaði ég með töskuna hennar Ragnheiðar í eftirdragi, smekkfulla af alls konar sund og íþróttadóti. Ég fór í ræktina og þar átti ég frábæra stund í miklum rólegheitum.

Gangan í salan, 10 mín, á hjóli og 5 mín á ógeðstækinu mínu (Baldurs) – skiðavélinni auk tveggja hringja og teygja í lokin 600 hitaeiningar. Meðalpúls 122 hámarkspúls 144

Teygjur og ganga til laugar 316 – meðalpúls 94, hámark 130

Þá fór ég í sund og synti 300 metra 476
Ganga  og sprikl í lauginni, 171, meðal 96 – hámarkspúls 120
Pottur 164 meðalpúls 92 og hámark 131 (í víxböðum)

Þegar þetta er talið saman – var þetta frábær dagur og ég himinlifandi með getuna! Gat svo miklu meira en ég hélt!

Og ég elska enn að lyfta!

Og sundið er náttúrulega bara dásemd.

Í upphafi æfinga í sal tók ég 2 treo. Hjálpaði mikið held ég.

Eftir þetta kom Palli í kvöldmat og við fórum til Eiríks Inga og pössuðum hann. Þar fékk ég mér ís sem nammidagstreat. Eiríkur var eins og ljós – en afar vinnusamur í morgun!

Eftir hádegi fór Palli svo með mig hingað og ég hef eiginlega bara sofið síðan og hvílt mig – ásamt því að taka upp kartöflur náttúrulega.

Maginn er þokkalegur – og ég er ekki eins kvíðin og ég var – og búin að skipuleggja morgundaginn og tel mig komast í allt sem ég þarf að fara í – gangandi með mína fínu hjólatösku í eftirdragi – en hvort ég nái í morgunmatinn verður að koma í ljós, því ég er enn slæm fyrst á morgnana. 

En þetta er allt að koma!

Þar er langur gangur

og lengri gangar sömuleiðis.

„Það er langur gangur fyrir hann svanga Manga
að bera þang í fangi fram á Langatanga.“
Ég leyfi mér hér að breyta langa tanga í Langatanga því ég ímyndaði mér alltaf að þetta væri Maggi bróðir að skælast fram Langatanga með veiðistöngina og ekkert í veiðitöskunni nema sært stolt. 
En hér eru sem sagt gangar – margir og langir. Þeir eru frekar leiðinlegir fyrir konu í ásigkomulagi eins og ég er, hnéð mitt, þrek og þol er ekki alveg að meika þetta! En þá er ráðið að skipuleggja sig og leggja ekki upp í neinar óvæntar ferðir vegna gleymsku eða annars óskipulags!
Ég hitti lækni í morgun, steig á vigt – reyndist mér furðu auðvelt og líklega var blákaldur sannleikurinn heldur verri en ég bjóst við – en hann útskýrir líka margt! Það þýðir ekki að gráta Björn bónda heldur safna liði – og það höfum við nú hér gert. 
Ég svaf mjög illa, og því lagði ég mig eftir læknaheimsóknina, tók þá strauið á ný og hitti sjúkraþjálfara, þaðan lá leiðin í sund – og pott. 1000 kal. brenndar í dag þó ekki sé öll ganga dagsins tekin með. Ánægð með það. – Þær eru þá líklega um 1500 sem hafa farið.
 Palli minn kom aðeins, með fleiri handklæði, perur og appelsínutopp. Það er cold Turkey á pepsi max, kaffið var komið út að stórum hluta og sætindi nema ávexti. Á degi tvö er þetta bara í lagi ;). 
Verst var að ég missti af hádegisverðinum í dag en það slapp svo sem alveg til. Lúrarnir í daga hafa verið þrír, stuttir en góðir og ég vonast til að sofa vel í nótt albúin að fara í vatnsleikfimi, fyrirlestur, í tækjasal og fræðslu. Þetta gætu orðið 4 ferðir fram í gömlu álmu! Fór tvær í dag og þótti nóg um! En allt mun þetta nú gerast – og það er hægt að setjast niður á leiðinni ;).

5. bindi

Nú er ég komin í Hveragerði í fyrsta sinn á ævinni. Öll í skralli náttúrulega, fer ekki fyrr!

En hvaða bindi eru þetta? Ef við segjum að sagan endalausa hafi byrjað í febrúar 2006 þá er annað bindi hennar Reykjalundur, hið þriðja er hið heldur leiðinlega tímabil sem tók við skömmu eftir Reykjalund- en þó ekki alslæmt. Þá kemur skólastjórabindið og nú erum við komin með lesendur til Hveragerðis. Ég komin í sjúkraleyfi og stefni á að gera sumarið 2015 að miklu uppreisnartímabili.

Allt hefur þetta nú gerst hratt – á þriðjudag athugaði ég með hvort eitthvað væri að frétta og þá var mér sagt að ég gæti komið á mánudaginn (í dag) eða í júlí ellegar ágúst….

Nú voru góð ráð dýr – skólastjórinn saup hveljur og ákvað í kjölfarið að hugsa sinn gang nokkuð. Til þess fékk hann sólarhring. Og þið sjáið hvert við erum komin!

Í dag hef ég svo sem ekki gert margt, heldur innritað mig fengið verkefnalista fyrir morgundaginn og keypt mér íþróttatösku, nú þarf bara að finna Polla junior og skella sér í söguskrifin!

Á morgun er það morgunmatur afar árla, þá læknisheimsókn, þá ætla ég að fara í sund og svo hitti ég sjúkraþjálfara og næst á eftir er þá matur og ég ætla að fara svo aftur í sund með afmælisbarni morgundagsins, honum Palla mínum!

Sund er lykillinn

Jæja – newsflast! Nú er markmið númer 1 – 1000 að fara ekki yfirum – en það hefur aldrei verið auðveldara – þeas það er búið að leggja góðan grunn að því – óþarflega góðan ;). Síðasta vika – þeas þessi – er búin að vera fín. Etið 1 lakkríspoka og 1 súkkulaðistykki. Borða of lítið á daginn, en of mikið á kvöldin, t.d. smjör með harðfiski 😉 ekki öfugt. En dásemdin er að ég hef farið með Herdísi á leikskólann þessa viku og það er nú meiri sælan – og oft hef ég náð í hana líka – og bara það litla rölt í upphafi dag og um miðjan dag er hin ágætasta byrjun, einnig hef ég farið í sundleikfimi stýrðri af mér sjálfri tvisvar sinnum í þessari viku og hreyft mig í tæpa klst í hvort sinn. Franskar hef ég fengið mér 1x í þessari viku en annars er þetta að mestu í lagi matarlega séð. Mikið áunnist – en nóg eftir. Ég er alsæl með mína hreyfingu þessa viku og veit að þetta er góð byrjun – og ef allt gengur vel ætla ég í smá leikfimi 2x í viku með Halldóru – ég tek það bara rólega og geri eins og ég get og fer svo í pottinn á milli.

Ofurkonur á ferð

Nú fóru þær tvær í sundleikfimina sína – sem þær stjórna sjálfar ;). Ægilega fínt og gaman, stigið upp af fundi og út var skundað. Pottur á eftir og konunni líður eins og fimleikadrottningu!

Mataræði er í lagi – borða of lítið fyrri partinn samt – en sleppur til allt saman!

Sunnudagur og Bjartur í fýlu

Ég undra mig á athafnaleysi mínu dag hvern og oft á dag. En reyni svo að segja mér að fyrst mér líði eins og hvíldar sé þörf, þá sé nokkuð eðlilegt að bregðast við þeirri líðan með hvíld. Fyrirgefa mér það.

Ég reyni þó að paufast hér heima í einu og einu viðviki, það er jólaskrautið núna – en mér vex allt í augum.

Ég held að geðið sé ekki upp á sitt besta þessa dagana.

Þá er gott að minnast þeirra orða að gott er að líta niður í tómið og virða það fyrir sér, fylgjast með og rísa svo með hægðinni upp og dusta af sér sortann smám saman. Ekkert gerist með offorsinu í þeim efnum.

Sundleikfimin er ekki komin af stað því það var náttúrulega eins og við manninn mælt – sundlaugin bilaði um leið og ég ætlaði að nota hana – en þannig hefur það verið frá upphafi sundiðkunar minnar hér, og hvekkt mig mikið því ég þoli alls ekki að vera í kaldri sundlaug – það fer alveg með alla liði.

Morgunleikfimin á ruv gengur lítið betur og ekki er það hitastiginu að kenna – heldur hinu fyrrnefnda, en þar er nú alltaf góðra frétta að vænta. – Það er bara að ýta á play takkann. Annað kemur af sjálfu sér!

Mataræðið gengur hins vegar ágætlega – ég er svo slæm í maganum að ég þoli hvorki mikið né fjölbreytt – en held þó að ég sé að lagast eftir mikla magakveisu á föstudagskvöldið  – það minnti á gamla tíma!

Vinnan – já vinnan 😉 þar er nóg að gera – ég á voðalega fínan lista þar sem bara lengist og lengist. Það kannski skýrir líðanina að einhverju leyti.

Nú er það runnið upp 2015

Og það er alveg spurning hvort það sé gott! Jú jú auðvitað er það gott  – ég hef bara ekki verið alveg upp á mitt besta.

Staðan á mér er betri en oft áður en mjög slæm. En ég er á niðurleið í vigtinni og markmið ársins liggja fyrir.

Meginmarkmiðið er að ná heilsu. Það skal gert í smáum skrefum.
Það snýr að þyngd, meltingarvegi, hné, baki og geði. 

Áfangamarkmið er að léttast um 1 kg á mánuði.
Það skal gert með:
Morgunleikfimi á ruv a.m.k. einu sinni á dag, helst tvisvar.
Sundleikfimi 2x í viku með Oddnýju – mánudaga og föstudaga klukkan 15:00 Ekkert mun stöðva mig þar.

Elda 3 sinnum í viku og neyta herbalife með soyjamjólk í skólanum ásamt því að borða ríkulega af ávöxtum og prótein stykkjunum þeirra sem millimál.

Nammidagar eru föstudagar.

Um þetta virðist vera nokkur sátt í mínum kolli.

Herdís og amma magakveisa

Í dag er blíða – skýjað en afar hlýtt.

Í dag er mér líka illt í maganum.

Í dag labbaði Herdís lengri leiðina alein til ömmu – nokkuð stolt af sér sú stutta. Móðirn uppgötvaði þó strokið og fylgdi í kjölfarði.  Herdís er afar dugleg að passa sig á bílunum og það er léttir.

Í dag hef ég borðað

3 finn crips með smjöri og osti

Turntölvan

Nú er mín sest við turninn – því hún er að koma sér í startholurnar með að skrifa eins og eina ritgerð – þeas rifja upp og kláa – og stökkva til baka um tvö ár! Það finnst mér ekki galin hugmynd – og því er rétt að líta á nokkrar myndir frá því fyrir 2 – 3 árum: