Preláti og kverúlantar

Preláti er í raun embætti í kaþólskunni – og kverúlant á ég nú eftir að finna á google 🙂 Fór allt í einu að hugsa hvort ég hefði verið að misnota og búa til nýtt orð með prelútum – sem var að hluta til rétt því ég held að réttara sé að segja preláti. En hvaðn ætli kverúlant sé kominn?

Allt þetta út af brunanum í Valhöll – því þetta olnbogabarn þinghelgarinnar er nú loksins brunnið og bíðið bara – þeir eiga eftir að hafa skoðun á þessu – kverúlantarnari og prelátarnir 🙂

Garður, hné og pottur

Já og ekki má gleyma veðrinu maður minn! Meiri blíðan….

Ég var í garðinum í 6 tíma í dag og áreiðanlega 3 í gær og litla vinstra hnéð mitt er alveg á bömmer yfir þessari meðferð – hugsa að ég geti ekki hjólað á næstunni – og varla gengið á fjöll…

Fjandinn hlaupinn í það – eins og ég segi þetta er rosa merkilegt ég hef aldrei verið svo slæm í hnénu að ég gæti ekki hjólað…

Sigh… svolítil vonbrigði verð ég að segja….

En annars líður mér svo vel að vera búin að rótast í þessum beðum sem eru hér út við götu og vorum okkur til skammar svo ekki sé meira sagt. Það er svo heill dagur á morgun sem við getum notað í garðinn líka og þá erum við nú í æ betri málum :-).

Ég er nú svoldið leið yfir þessu með Valhöll ég verð að segja það….

það verður fróðlegt að heyra í Þingvallanefnd og prelútunum um þetta mál – best væri ef ekkert fólk væri á Þingvöllum frekar en grenitré…

Bita vantar nú í lífsins púsl

Það er með ólíkindum að verða vitni að því að Valhöll brenni – fá hús hef ég oftar barið augum en einmitt Valhöll – útsýni út um svefniherbergisgluggann minn á Þingvöllum til 16 ára, vinnustaður á sumrin, – órjúfanlegur hluti af þeim Þingvöllum sem ég þekki – og ég þekki þá býsna vel!
Mikið finnst mér þetta sorglegt – víst var húsið óttalegur kofi – með viðbyggingu á viðbyggingu ofan – en engu að síður þykir mér ótrúlega vænt um húsið – enda margar margar minningar sem tengjast því. Já næstum óendanlega sorglegt, ég vissi ekki einu sinni að mér þætti svona vænt um Valhöll fyrr en ég rakst á fréttina um brunann rétt fyrir fimm hér á mbl.is.
Nöfn koma upp í hugann – fólk sem vann þar, rak hótelið var hluti af bernskunni – meira að segja Lási kokkur kemur upp í hugann – ógleymanleg persóna. Ragnar og Júlíana… Stundum fóru nú hgasmunir Valhallar ekki alveg saman við hagsmuni Þjóðgarðsins og ekki urðu nú allir glaðir þegar Valhöll fékk vínveitingaleyfi – úff púff… þá gekk nú ýmislegt á og margt breyttist. En jafnvægi náðist nú með tímanum og vísast hafa drykkjusiðir landans batnað síðan þá….
Í nokkur sumur vann ég í Valhöll á símstöðinni og pósthúsinu og í enn fleiri sumur skokkaði ég með hádegisverð til þeirra sem unnu þar á undan mér – já ég var held ég bara síðasti talsímavörðurinn á Þingvöllum…
Með Valhöll hefur nú glatast bitar í lífsins púsl og ég á eftir að sakna þeirra…
Ég man enn eins og gerst hefði í gær þegar ráðherrabústaðurinn brann fyrir 39 árum, ég vaknaði upp um miðja nótt og sá logana dansa á fataskápunum – Dísa og Ási voru úti í glugga og sögðu mér hvað var að gerast – og allir óttuðust að Bjarni Ben væri í húsinu … Það var óttaleg nótt og hörmuleg aðkoma daginn eftir – meira að segja fyrir 5 ára stelpuhnokka sem lagði land undir fót til að skoða – vísast án þess að láta nokkurn vita enda nokkuð löng leið fyrir ekki eldri manneskju. Kannski ég hafi þó verið með systkinum mínum í för.

Valhöll brennur

Eitt helsta hús bernsku minnar brennur nú á Þingvöllum – þau voru ófá sporin sem maður átti út í Valhöll fyrst sem barn að sendast með nesti til stelpnanna sem unnu á símanum – seinna jafnvel að kíkja þar inn þegar enginn mátti vera þar – og allt var lokað – ég vann þar líka 1 haust og nokkur sumur þá á símstöðinni.

Ég vissi ekki hve vænt mér þótti um staðinn fyrr en ég sá hann brenna – óumræðileg sorg einhvern veginn – tregi. Þetta er einn af hornsteinum bernsku minnar – þó oftast hafi þetta nú verið óttalegur sorapyttur….

Kvenféalgsböll, Hlín gifti sig, og fleira og fleira tengist þessum stað þar sem maður sniglaðist iðulega 16 ár af ævi sinni…

Mikið á ég eftir að sakna þess að sjá Valhöll ekki framar….

Skipulag og verkefni

Nú jæja konan er nú þannig að hún getur ekki hjólað – hnéð bara beygist ekki nema smá og ef ég beygi það meira þá bara meiði ég mig ógeðslega mikið – og get það bara eiginlega alls ekki….

Aldrei verið svona slæm í hnénu – svoldið álag að ganga greinilega! Nú til þess að bæta mér upp hjólaleysið fór ég í sund í dag – og synti í 30 mínútur – ánægð með það – gat notað blöðkurnar smá en meiddi mig undan þeim í ristinni hægra megin – hún er alltaf að stríða mér! Sigh…

Það var því bara ein ganga hjá okkur Álaugu í þessari viku – við syndum 1000 metrana eða svo á morgun og svo er það garðvinnan. Hér er verkefnalisti heimaverunnar næstu 2 vikurnar (sem er nú orðin ein og hálf- úff hvað tíminn flýgur.

Kantskera meðfram stéttinni heim að húsinu
Hreinsa meðfram sökklinum
stinga upp grávíðisbeðið og eyða þar fíflum sem hafa sest þar að
kantskera það beð
Stinga upp álfakollsbeðið og taka til í því af miklum krafti 🙂
kantskera það beð
hreinsa í kringum safnkassana
Taka upp rabbabarann
hreinsa beðið undir húsveggnum og fá fjölærarplöntur frá Dísu í það – nelliku og jarðaberjamuru til dæmis – silfurhnapp líka….
mála garðhúsgögnin
laga borðið
hreinsa grillið
snyrta svolítið bak við hús þegar allt annað er búið….

Jam nóg að gera útivið og ég þarf mjög margt að gera inni líka…

Letidagur

Jæja það er ekki hátt á minni risið núna – nenni ekki í sund en það er nú ekki útséð með það – ég get ekki hjólað þó veðrið sé svo sannarlega þannig að maður ætti að skella sér á bak – nei þá er hnéð bara alveg ófært um að beygja sig eins mikið og þarf – afar svekkjandi satt að segja og því ætti ég að vera dugleg að hreyfa mig en nei….

En það er nú ekki of seint að fara í sund fyrr en 21:00 í kvöld :-).

Ég hugsa að ég labbi ekki upp á neinar hæðir á morgun heldur syndi 1000 metrana – best að hvíla hnéð í nokkurn tíma enn – og svo verð ég að fá göngustafi það léttir á þegar það er farið niður….

Ég er nú búin að koma blómum í pott – það tók nú ekki nema mánuð 🙂 og ég er búin að finna garðvettlingana og nú er bara að búa sér til stundaskrá og vinna eftir henni – en ég ætla að eiga einn enn svona – ég geri það sem mér sýnist dag enn….

Dásamleg tilfinning að geta bara ráðið hvað maður gerir þann daginn :-).

Frábært veður dag eftir dag og þvotturinn blaktir á snúrunum, gólfin hrein, ég prjóna við og við, sái í Farm Town og les svo jafnvel inn á milli – ríf upp einn njóla – já svona um það bil bara eitthvað út í loftið og ef ég myndi nú fara í sund þá væri samviskan hrein því mataræðið er ekki arfavitlaust heldur…

Veitir ekki af að ná af sér lopanum sem kom á mann um helgina! Meira hvað mér gengur illa að léttast – um leið og það er ekki rammi utanum mig þá bara búmmiti búmm

En ekki gefast upp og ég er bara að gera það gott í hreyfingunni þrátt fyrir allt!

Barningur

Já eins og ég var nú á góðu róli hér fyrir helgina í minni magakveisu þáááá hefur útilega og óregla í mataræði svona cirka skilað mér á byrjunarreit á ný! En um það er ekki að fást – ég hef þrjár vikur til þess að koma þessu í eitthvað skikk og nú ætla ég að vera með reglufestu dauðans og standa mig vel! Ó já – fara lítið og fara fátt – vinna í garðinum og húsinum og koma einhverju sumarfríis skikki á líf mitt :-).

Er annars að skoða gönguleiðir – annars var nú mín þannig á föstudaginn var að hún gat ekki einu sinni hjólað – hnéð á henni var svo messað eitthvað að það beygðist ekki nema af hlytist ofsa sársauki þannig að þetta var sneipuför hin mesta og hjólið teymt heim!

Var í fjölskylduútilegu – hún var frábær og meira en það – fann nýja gönguleið upp með Rauðsgili og það ætla ég aftur í sumar og þá alla leið – frábær leið og frábær ganga – en nú er ég að fara í Þrastarskóg – við ætlum að liðka okkur stöllurnar og koma okkur í gang – erum hálf stirðar eitthvað blessaðar hnáturnar.

Það er því ekki seinna vænna að klæða sig og koma sér á þokkalegt ról :-).

Takast á við kílóin og svæla þau út með heilbrigðið að vopni – einhvers staðar á ég uppskriftabók frá danska kúrnum – best að líta á það og fara nú í smá húsmæðra leik 🙂

Mikil blíða í dag?

Það segir amk veðurstofan okkar. Ekki það mér finnst stundum eins og það sé ekki aaaaaaaalveg að marka hana alltaf – er ekki hægt að segja bara alltaf svoldið hlýtt og kannski rigning? Finnst nú ekki þurfa mikla menntun til þess – :-). Eða kannski er það bara Siggi stormur sem ég hef verið að hlusta á.

Ég er að verða svo þreytt á þessu Icesave máli að ég er að kafna – ég bara skil ekki hvað fólk hélt að myndi gerast? Afhverju þessi læti núna – það er ekki eins og þetta hafi verið að gerast í júní 2009 – o nei við fengum múrsteininn – já jafnvel heilt háhýsi jafnvel í hausinn í október. Og nú er allt vinstri mönnum að kenna – ótrúlegt!

Ég skil ekki hvað fólk heldur að ríkisábyrgð merki og það er gaman að heyra í sjálfstæðismönnum núna – já já það eru allt aðrar aðstæður núna – núna er allt breytt og þeir gætu alveg reddað þessu í dag – í dag er allt öðruvísi en áður!¨

Ég held að fólk ætti aðeins að rifja upp hvað orðið kreppa merkir – sjá svo hvort það skilur hvað djúp kreppa merkir og svo rifja upp dýpstu kreppu sem skollið hefur á vestrænu landi – ja svona sirka síðan í móðuharðindunum! Ég bara meina það! Hvað heldur fólk í alvöru að myndi gerast – við gætum bara haldið áfram og keypt og farið og gert allt sem fyrr?

Við vorum að fá greiðslubreytingu í bankanum, og við þurftum að ganga í gegnum alls konar þetta og hitt og stússast heilmikið og stúlkan í bankanum sagði að það þyrfti að vera svo mikið ferli í þessu öllu saman vegna þess að fjöldi fólks sæktu um breytingar svo það geti farið til útlanda í sumar – svo það eigi nú fyrir sumarfríinu og kannski einhverju nýju í húsið – þetta er ótrúlegt! En svo sem gott, að fólk sjái bara fram á áframhaldandi góðæri.

Nei góðir hálsar – við eigum eftir að verða skítblönk – fólk á eftir að fara á hausinn, missa húsin og bílalánin ganga af mörgum dauðum! Þannig verður þetta bara!

En að öðru – ég fór í Hellisskóg í gær í göngu – það var rosa fínt – næstum klst ganga um ýmsar hæðir – vissi ekki að það væri svona mishæðótt í þessu flatlendi öllu saman. Heilmikil brennsla við að reyna að halda uppi sæmilegum gönguhraða (amk sjá í hnakkagrófina á Áslaugu :-)).

Annars er bakstur, salatgerð og stúss í kringum fjölskylduútileguna um helgina. Mikið stúss og mikið gaman og ekki skemmir veðrið fyrir.

Krakkarnir verða heima og passa húsið – en hvað um það- bless í bili 🙂

Dj….

Ristilkrampi dauðans maður! Ég hef ekki verið svona slæm í maganum síðan um tvítugt svei mér þá – ég er bara annan hvern dag að drepast!

Mér sýnist ég alls ekki mega borða neitt sem er feitt – þarf bara að muna það! Fékk mér kjúklingabita áðan og ég held ég sé að drepast! Dísuss….

Held ég verði að fá lyf við þessu – það er ekki hægt að vera svona….

En ég er bara flott eftir gönguna og ég er svo sæl með skóna – það er nú meira hvað munar um að vera í gönguskóm – ótrúlegt!

Ingólfsfjall heimsótt

Hóhó jæja þá var að yfirstíga fóbíuna gagnvart Ingólfsfjalli – við Áslaug töltum í 35 mínútur upp hlíðar þess og klöngruðums aðeins um í grjótinu – það gekk vel – í næstu viku ætlum við að ganga í 45 mínútur upp og svo í þriðju atlögu skal það bara klifið :-). Ég fékk mér nýja gönguskó – Askja heita þeir og þvílíkur munur – ég hefði ekki trúað því! Ekkert illt í rist, ekkert illt í hæl eða ökkla einungis svolítið illt í boganum undir ilinni! Gjörsamlega heilluð af því hve miklu skór geta breytt- ég svo sem vissi það áður en ég hélt að Ecco skórnir mínir væru nú bara býsna góðir en my oh my – þeir eru ekkert miðað við þessa snilld!

En nú er að taka til í húsinu og slappa svo vel af eftir skyr og ber í hádegisverð. Mér gengur vel þessa dagana í mataræðinu og það er bara gott og gaman! Vigtin tosast niður og það eru engir galdrar viðriðnir þetta – bara borða skyr í hádeginu sem oftast og þá á maður inni fyrir ýmsu stigalega séð!