Hellishólar, frost og funi

Ég var í útilegu með Ástu Björk og ungunum þremur í Hellishóla á fimmtudaginn – árleg útilega okkar að verða!

Ég tjaldaði vagninum ein og sér og það gekk frábærlega vel og svo komu þau og við gengum frá í sameiningu. Mjög skemmtilegir dagar. Anna Katrín litla dóttirin heldur nú samt að ég sé gjörsamlega óalandi og óferjandi- ja hún er næstum viss satt að segja…. Það setti smá strik í reikninginn ;-).

Yndislegt veður – svolítið kalt og MJÖG kalt á nóttunni – ein tvær gráða í frost – en við fundum nú ekkert fyrir því, heldur kyntum vel áður en við fórum að sofa og sváfum svo í flísinu – frábært að vita að manni þarf ekki að verða kalt! Við fórum í sund á Hellu í gær og ég synti 500 metrana, á fimmtudag varð tjöldunin, búðarferð og snatt að duga – enda vissi ég svo sem alveg af göngunni á miðvikudaginn. Í dag verður samantektin sömuleiðis að duga enad heilmikið stúss í svona tjaldvagnsfrágangi. 🙂 bara gaman að því.

Og svo kom ég barasta bara heim í dag – að drepast í öxlinni – já eiginlega bara hægri höndinni eins og hún leggur sig – allt frá fremstu kjúku á vísifingri og upp í öxl.

Annars á Magnús bróðir innlegg vikunnar:

Inga verður þú ekki að fara að taka betur á matræðinu og minnka hreyfinguna, þetta er nú kannski full mikið hjá þér – og vísaði þá bólgins hnés og almenns heilsuleysis míns ;-). Ég brást nú ekki sérlega vel við…

Hrokinn var skammt undan…

En þessi ummæli passa alveg við annað – nú þarf ég einmitt að huga af fullum krafti að mataræðinu og hætta að borða of mikið því ég geri það fyrst og fremst frekar en að verða sinkt og heilagt að borða vitlaust – bara of mikið af öllu… því flest verður óhollt í óhófi.

Nú jæja … Baldur stakk líka upp á því að ég finndi mér annað markmið en að léttast – auðvitað yrði ég að léttast en áherslan yrði að fara á eitthvað sem væri líklegra til árangurs en það – fá nýja vídd… Það þarf einhvern annan hvata því mig vantar greinilega meiri innspýtingu, hvatningu. Og nú sem sagt skal tekið á þessu áti – gengur samt ekki sérlega vel en það verður bara barningur – maður hlýtur að geta tekið þann slag!

Verst að framundan er gríðarleg óregla, ferðalag og vesen… omg.

Ég er svolítið óraunsæ satt að segja…

Hestfjall

Á miðvikudaginn fórum við Áslaug á Hestfjall í algjörlega stórkostlegu veðri. Útsýnið var á köflum óþarflega gott ;-).

Við lögðum bílnum rétt hjá brúnni hjá honum Steina í Vatnsnesi, það hefði þurft að vera á jeppa til að komast í malarnámuna hjá honum. Þannig að það var svolítill gangur að uppgöngustaðnum. Þetta virtist nú ekki mikið mál!

Ég var bara ansi góð í fótunum og Ari Trausti segir að þetta sé auðveldasta ganga í heimi. Hvað gat þá verið að!?

Nema hvað hann Steini sagði að þetta væri nokkuð auðvelt, fjárgata alla leið og svona…

Og við stefndum á fjárgötuna – og mig rámaði ekki í að íslenskar né færeyskar kindur ef út í það er farið væru hreint ekkert lofthræddar heldur skælast utan í þar sem þeim finnst bent henta –
og sú leið hentar mér ekki!

Þannig varð þetta pínulitla fjall – auðveldasta gangan í 101 fjalli… Gjörsamlega piece of cake…

Nú ég hélt ég gæti nú allt eftir að hafa gengið í þessar nokkru mínútur upp Ingólfsfjallið… Ég held ég hafi ofmetnast og geti nákvæmlega ekkert af því sem ég held að geti…

Og svo var vinkona mín að segja mér að hún hefði verið gengið í Reykjadalnum, og þegar ég skoðaði gönguleiðina þá var sagt að hún lægi utan í bröttum skriðum – BAMM ég get ekki einu sinni gengið í Reykjadalnum…

Ég er nú eiginlega á bömmer yfir þessu…

En þessi Hestfjallsganga var nú alveg ágæt! Svona eftir á skal ég fara aftur upp á þetta leiðinda fjall… Bara ekki eftir fjárgötum… o nei…

Þetta var heilmikil ganga – við fórum ekki alveg upp á hæsta toppinn en útsýnið var samt frábært – og svo er bara hægt að renna sér niður fjallið alla leið ef vill :-).

Smá samtalsbútur frá ferðinni, augnablikið var cirka þar þegar tárin streymdu niður sólbrenndan vangann, hnén neituðu að styðja við neitt það sem ofar var og sviminn olli því að hörmungarhyggjan náði nýjum hæðum (í öfugu hlutfalli við litla hæð Hestfjalls samt):

,,Áslaug!“ snökkt, ,,ertu vönn að vinna með geðsjúkum?“

,,Nei, ekki get ég nú sagt það“ svaraði hún á sinn snaggarlega hátt

,,Jah, þú ert samt rosalega góð í því“ sagði fjallakiðlingurinn þá og hélt áfram að skríða upp brattann, þá að íhuga fasta búsetu á fjallinu, eða labba niður faxið að Kiðjabergi – því öðruvísi kæmist konan vísast ekki niður af fjallinu!

Sem sagt stærsta og háskalegasta ganga á minnsta og auðveldasta fjall Suðurlandsins að baki! 4 tímar svona allt með öllu – tók svoldinn tíma að skríða þarna vælandi eftir götunni…

Þetta tók svo mikið á að ég komst ekki alveg á toppinn en við gengum samt heilmikið upp á fjallinu og þetta varð að rosa hreyfingu og ristin gaf sig ekki fyrr en eftir þrjá og hálfan tíma svo þetta er alltaf að batna!

Svo er það Ingólfsfjall í næstu viku – hvað ætli ég taki mörg fit þar…

Díuss…

Allt og ekki neitt

Búin með skýrsluna – þeas les hana í fyrramálið, geng frá fylgiskjölum, efnisyfirliti og heimildum og sendi svo jihí!

Enn er sól – en vindurinn blæs svolítið en ekki til skaða.

Ég ætla svo að taka pínu oggu ponsu til og njóta svo lífsins alveg í botn!

Þarf smá að vesenast í vinningum fyrir tombóluna og svo bara meira sumarfrí. Þetta er nú svoldið skemmtilegt allt saman.

Frábærlega skemmtileg útileiiii

…og notaleg líka. Já og nokkuð viðburðarík. Við Páll, Bjartur, Ragnheiður og Jósep fórum á Þingvöll og vorum þar í alveg stórkostlegu veðri um helgina! Hitinn var þvílíkur – guðs drottins blíða í einu orði sagt.

Á laugardaginn gekk ég Fögrubrekku, með Áslaugu, Bjarti, Ragnheiði og Jósep og út að Þingvallabæ – það var nú meiri upplifunin! Úff púff… ég verð að segja frá því síðar. Þarf að melta upplifun mína betur af því! En þetta var yndisleg ganga og hún gekk vel! Jósep var líka svo mikið yndi að halda í Bjart – þetta hafa verið alveg um 5 km sem við gengum þann daginn.

Á föstudaginn fengum við okkur 45 mínútna göngu – sem ég hélt að hefði verið í 15 mín svo gaman var í henni og það gekk svo vel! Veðrið alveg stórkostlegt.

Á laugardaginn komu sem sagt Áslaug og Hjörleifur í heimsókn og í hópinn bættust Sigurlín og Hrafnkell og þau voru í eina nótt með okkur.

Í dag undum við svo hag okkar hið besta, borðuðum saman og vorum í rúmlega 22 stiga hita (það var hitinn klukkan 17:30 þó engin skini sólin). Frábært í einu orði.
´
Og þar sem ég er svona endurnærð ætla ég að gera allt sem ég þarf að gera á morgun ;-).

Fer létt með það!

Fjallageitin

…er alveg að hætta að vera kiðlingur og fer að verða geit – þegar Ingólfsfjall er undir þá er ég orðin geit! Oh yeah, ég og Áslaug fórum á Mosfell í dag – Bjartur líka. Hann fór að vísu nokkrum sinnum upp 🙂 …og niður! Og varð rosalega þreyttur. Litla grjónið. Okkur Áslaugu var líka heitt enda fórum við býsna hratt þegar við vorum á ferðinni. Ég fann mikinn mun á mér, miklu miklu hressari bara heldur en þegar ég fór í fyrsta sinn í sumar. Þó hafði ég farið í ansi mikla göngu á þriðjudaginn oh yeah Þá gengum við 7,5 kílómetra, frá þjónustumiðstöðinni að Hrauntúni, frá Hrauntúni niður í Skógarkot og þaðan Sandhólastíg að þjónustumiðstöðinni. Ég hélt ég myndi drepast í ristinni síðasta legginn, en ég komst þetta! Þetta tók 4,5 klst, svona með öllu! Yndislegur dagur í dag skondruðumst við svolítið um á toppnum á Mosfelli – enn einn dagurinn sem blíðan strýkur manni um vangann! Gælir við lund og kropp!

En ég nenni nú ekki miklu öðru þó ég stússist í hinu og þessu!

Í næstu viku er það Hestfjall og og útilega með Ástu Björg og grísunum… Oh yeah!

Og í vikunni þar á eftir er það Ingólfsfjall – og svo er það Norðurland, verslunarmannahelgin og svo eru það Grímsævintýrin…

Letidagur svei mér þá en samt…

eitthvað baukað 🙂

Nú gólfin voru þrifin svona flest…
Þvotturinn er alveg tilbúinn til samanbrots
Rababarinn er kominn í fat
Búin að synda og hjóla (sem ég gat næstum því alveg, með mjög lítilli áreynslu þó)
Fór örlítið í Bónus,
tók til í eldhúsin og fór að ráði sálfræðinga og bjó um 🙂
Horfði á mynd með Ragnheiði
Stússaðist aðeins í Grímsævintýrum
…og eitthvað svona svoldið meira,
já skvetti vatni framan í Bjart en garðslangan er það eina sem honum finnst þess virði að þagna fyrir – finnst verulega viðbjóðslegt að fá ískalt vatnið framan í sig.

Og þess vegna nota ég þetta svo hundkvikindið þegi úti og ég geti notið lífsins hvort heldur sem er utan dyra eða innan án þess að hafa áhyggjur af líðan nágrannanna minna 🙂

Mánudagur par excellence :-)

Er það ekki bara – fullt af verkefnum sem bíða úrlausna svo ekki þar mér að leiðast neitt í dag:

Skýrsla
Gólf
Þvottasamanbrot
Eldhússkúffur sem þurfa að hitta ryksugu

Hreyfing og mataræði – sem vel að merkja gengur svona líka ljómandi vel – nú er ég enn á ný alveg að verða komin niður í hin gullnu 132 kg enn á nú en eftir útilegur bæti ég á mig ómældu vatni og vandræðum sem nema jafnavel 4 kílóum eða svo – svakalegt en nú ætla ég bara að vera heima fram yfir næstu helgi og borða hollt og gott og koma jafnvægi á kroppinn minn og sálartetur -þetta snýst allt um það maður minn…

Ég ætla að prófa að hjóla í sund núna á eftir – langar svo að geta hjólað….

En geri það ekki ef ég finn til því þá verður mér bara ennþá meira illt ;-).

Frábært veður – skýjað en sólin kíkir undan skýjunum með gullnu brosi sínu rétt til að minna á að víst er sumarið yndislegt og við skulum njóta kossanna!

Sól og sumarylur

Ég man skoho þegar það lag var vinsælt…

Í sól og sumaryl
Í sól og sumaryl, ég sat einn fagran dag.
Í sól og sumaryl, ég samdi þetta lag.

Fuglarnir sungu og lítil falleg hjón,
flugu um loftin blá, hve það var fögur sjón.
Í sól og sumaryl sér léku lítil börn,
ljúft við litla tjörn.

Í sól og sumaryl, ég sat og horfði á,
hreykna þrastamóður mata unga sína smá.
Faðirinn stoltur, hann stóð þar sperrtur hjá,
og fagurt söng svo fyllti hjartað frið.
Í sól og sumaryl sér léku lítil börn,
ljúft við litla tjörn.
Í sól og sumaryl, ég samdi þetta lag,
hve fagurt var þann dag.

1972 – eftir Gylfa Ægisson, þá var ég sjö ára. Ég held varla að annað lag hafi heyrst í útvarpinu það sumar….

Ég hef verið tónlistarlega þenkjandi þetta sumar – því þetta sama ár var Sóley Sóley vinsælt (tengill) og ég held að allar dúkkurnar mínari hafi heitið Sóley eftir það 😉 Mér finnst þetta enn flott lag svei mér þá…

Ekki hefur nú mikið gerst í garðinum í dag – nema hvað ég hjó niður tvær viðjur sem voru orðnar ótrúlega framlágar eitthvað – það svo sem er allt í lagi – nema þær voru innan í miðju hekki – en hvað getur maður annað gert en fjarlægt það sem er dautt…? Ekkert held ég – svo er bara að sjá hvað þetta verður.

Úff það er frétt í sjónvarpinu um Valhöll – sigh ég er nú eiginlega alveg að klepera yfir þessu….

Aumingja litla Valhöllin mín…

En back to the work in the garden – híhí – ekkert var kantskorið meðfram stéttinni – hefði svooo mikið viljað að það yrði gert en kannski um næstu helgi… En það er búið að laga beðin sem snúa að götunni og það er nú frábært.

Ég er handónýt eftir allt þetta stúss – sólbrennd eins og tómatur, hnéð í mauki og strengir hér og þar – hlýtur allt að vera hreint afbragð…

Nenni ekki að hafa áhyggjur af þessu með hnéð – það lagast áreiðanlega. Mataræðið er í góðu standi – ég fór og fékk mér grænmetisrétt á grænu og grilluðu sem er nýr matarvagn hér Selfossi – langaði bara einhvern veginn alls ekki í skyr í hádeginu, en í kvöld er það kjúklingur og salat.

Ég gef mér límmiða ef ég stend mig vel og þetta hefur allt gengið ágætlega – fengið marga límmiða í matardagbókina – er lang oftast undir 42 stigum, oftast í kringum 32 – 38 stig sem ætti að duga mér til að léttast miðað við hreyfinguna sem ég er í. Ég ætti að vera í 32 stigum en það lendir oft eitthvað upp í mér – eins og t.d. lakkrísrúlla í gær…. en oftast er það nú einni bruðu of mikið- of mikið af osti eða eitthvað slíkt – telur allt saman.

Og enn er meira frí framundan – og ég hugsa að ég líti aðeins á eldhússkúffur með ryksugu í hönd…