Jólin jólin alls staðar

Þá eru þau í miðjum klíðum blessuð jólin.  Dísa og strákarnir voru hér hjá okkur á aðfangadagskvöld og allt gekk eins og í sögu.  Þess á milli lúra þau í sumarbústað við Álftavatn.  Afskaplega notalegt hef ég heyrt. 

Við höfum haft það rólegt hér hjónin – svona á mörkunum að maður hafi það framúr og á stundum er bókin hreinlega of þung til að bera og augnlokin of þung til að haldast uppi – síga niður og þar með bókin líka – stundum jafnvel dettur hún niður á gólf og þá smella þau hin sömu augnlok aftur upp og hjartað tekur smá sprett.  En allt nær jafnvægi á ný og svefninn tekur völdin.  Erfiðasta verkefni síðustu daga er að afla sér fæðu en sem betur fer er nóg af henni og ísskápurinn virðist geyma birgðir sem gætu enst langt fram eftir nýju ári.  2010.  Skrítið ártal það.  Er að átta mig á því að ég er að verða jafn gömul og Sigrún var þegar við Palli kynntumst.  Það er nú svei mér mikil uppgötvun.  Mér fannst fólk á hennar aldri vera háaldrað og varla til viðræðu um nokkurn hlut – komið að fótum fram jafnvel.  Svipuðum aldri og mamma og pabbi svei mér þá.  Og nú er ég orðin jafn gömul, áreiðanlega jafn mikið komin að fótum fram og jafn innilega lítið spennandi og mér fannst fólk á mínum aldri vera…  Já krakkar mínir það er eins gott að nýta tímann vel. Allt í einu er maður komin með hrukkur, orðin jafn gamall tengdamóður sinni, tannlaus, gráhærð, forpokuð og hvur veit hvað.  Eini bjarti punkturinn er að ég reyki ekki.  Skil ekki það lán.  En á mann sem reykir og heldur bætir í – og er nú farinn að hafa opið inn í hús – ógeðslegur ósiður verð ég að segja og ég hef ekki mikinn áhuga á því að búa við þetta.  Ógeðslega viðbjóðslegt! 

Í dag er það svo jólaboð í minni fjölskyldu – á jóladag var boð hjá Palla og hans fólki – haldið hjá Grétu – mjög fínt, notalegt.  Í dag ætla ég að reyna að spila og spila og spila.  Bara ef bíllinn kemst í gang en hann er rafmagnslaus – rafgeymirinn er gjörsamleag ónýtur og dugir varla til að þess að lýsa upp bílinn á meðan hurðir eru opnaðar og þar til hann er ræstur.  Greyið.  Áreiðanlega ömurlegt að vera ónýtur rafgeymir. 

Inga veit sínu viti

Jæja nú er kominn listi yfir það sem þarf að gera og gott ef það eru ekki tilteknir útgjaldaliðir líka svo maður standi nú ekki uppi alveg krunk :-).  Fyrsta verk var að fara með blöðin – það er búið – svo var að keyra Pál í vinnuna – það er búið.  Svo var að fara í sund og fara í pottinn og nudda mjaðmir(engin krafa um sund því þá fæ ég mótþróaþrjóskuröskunarkast).  Það er búið og ég syndi 700 metra.  GOTT MÁL INGVELDUR

Þá er að stússast smá í leyndarmálum og fara svo eina ferð í búð og pósthús.  Vona að póstur norður á Húsavík sé ekki of seint á ferðinni.

Yndislegar jólaannir

Jæja þá er skólinn búinn og einkunn komin úr kenningaverkefninu.  Ekki sú sem ég hefði kosið en ásættanleg í sjálfu sér.  Fegin að þetta er búið.  Ég hef gert margt nú í desember og mikið stússast, verið nokkuð góð nema hvað ég hef fundið mikið til í mjöðmunum.  Einhver lítill vöðvi þar utan á sem er alveg helaumur.  Enda mikið setið.  Á morgun ætla ég að hefja hreyfingu eftir áætlun en ekki geðþótta.  Best væri líklega að fara í sund fljótlega eftir gönguna með blöðin.   Ljúka því af.

Ég er búin að gera jólakortin og þau farin í póstkassann – það er nú svei mér snemmt…. 

Mánudagur, þriðjudagur og miðvikudagur eru klárlega til stefnu.  Best að nýta tímann vel því margt er eftir að gera og margt sem löngunin stendur til.

En upp upp og nú er að taka til í vinnuherberginu en þar kemst eiginlega enginn inn ;-).

Sunnudagur og tvær seríur

Ah ég var í brúðkaupsveislu, og 50+50 afmæli hjá Ása og Jónu og það voru nú meiri fínheitin, mikið notalegt og gaman.  Enda mesta heiðursfólk – gjörsamlega gegnheilt…  Jamm eitthvað til að líkjast

Ég er búin að setja upp tvær seríur sem er mjög skemmtilegt því það er svona hvíldarverkefnið – þegar ég er búin að læra svolítið stend ég upp og set seríu í einn glugga og svo fer ég aftur að læra og svo koll af kolli – eða þannig á það að minnsta kosti að virka…

Ég er mest í því að gaufa… að vísu er ég búin að búa til alls konar hugarkort af því sem gæti gerst á Þingvöllum og í aðdraganda – og kjölfar ferðar þangað… búin að kortleggja og kortleggja og kortlegga…

Og nú er ég að hugsa um fræðilega kaflann – hvernig þetta eigi allt saman að líta út – en ég ætti ekki að gera það því ég þarf bara að hringja í kennarann og spyrja hann út í þetta – því ég finn ekkert um svona verklega á vefnum.  Ég get gert alls konar verkefni – alls konar lista og dóterí án þess að hafa þær upplýsingar.  Þetta er voða skemmtilegt – þarf bara að komast svolítið á skrið… jólin eru oggu pínu pons að trufla mig…

Og svo er ég að hafa pínu smá oggu pons áhyggjur af hinu verkefninu en annars er ég að mestu hætt því….  Við Áslaug hittumst í dag og vinnum það – það verður nú mjög gaman :-). 

Mér er mjög illt í  mjöðmunum og sef illa vegna þeirra – vöðvafestingarnar eru eitthvað að hrekkja mig alveg drep vont á köflum – það er eitthvað að gerast þar – ég er ekki óvön því að vera illt og hér og þar í þessari bráðum fjögurra ára vegferð minni (hmmm 10 kg á ári er það ekki ferlega lítið….) – kroppurinn minn litli er svolítið viðkvæmur á stundum og maður lærir bara að það er allt í lagi….

En gaman að segja frá því að fólk mátti vart mæla þar sem því fannst ég hafa minnkað umtalsvert – já væri bara að hverfa sögðu margir – en vigtin er nú leiðinleg við mig og mér líst ekki alveg á að ég verði orðin fis þann 1. des eins og ég ætlaði mér – en það verður bara að hafa það – ég er á réttri leið og í mínu tilfelli er ferðahraðinn bara svona svakalega hægur 🙂

Laugardagur til læris (náms)

Jæja þá er málgagn Davíðs komið í hús og svolítill eftirlúr að baki sömuleiðis. Námsgögn komin í þokkalega stafla, teið komið í brúsann, jóladiskur á spilaranum og því fátt annað eftir en að byrja…





En það er nú svoldið erfitt …

Ég held ég þurfið að fókusa svolítið – og jafnvel kristna mig í útikennslufræðum en ég er svolítið þreytt á hybinu í kringum þau…

Sigh…

En ég svo sem veit um gildi þess að fara til Þingvalla og læra svolítið 😉

Jamm….

Byrja svo
Koma nú…

…átti ég ekki malt og appelsín einhvers staðar?
…….hmmmm er ekki rétt að kíkja aðeins fram?

Það er sem sagt ekkert eftir annað en að byrja að læra….

Mjaðmatitringur

Ég fór til sjúkra í dag og fékk í annað sinn mjaðmatitring mikinn – það var ekki nærri eins vont og í síðustu viku en áhrifin af þeirri píningu gætti lengi fram eftir þessari viku – svínvirkaði sem sagt og ég vona svo sannarlega að ég geti bara heilmikið lagast við þetta í mínum aumu mjöðmum – það væri nú meiri sælan….

Annars er ég ekki alveg að hitta á hið eina rétta þessa viku – er alveg rosalega þreytt. Kem mér ekki alveg í að gera það sem ég á að gera en á móti kemur að ég hef aðeins verið að paufast hér heima við að ýta drasli yfir á nýja staði – það kallast stundum að taka til en ég svona held það sé of fínt orð fyrir athöfnina.

Hreyfing hefur verið í lágmarki en ég labba þó alltaf 25-30 mín á hverjum morgni með blöðin því við Palli förum orðið sameiginlega í öll hverfin. Ég fór svo sem ekki oft í hreyfingu aðra – blak, og svo einu sinni í sund… en gangan sem sagt bjargar mér ;-).

Ég fór í skólann eftir hádegi á mánudag, var á þriðjudaginn og svo fór ég á kertanámskeið á Sólheimum á vegum kvenfélagsins, á miðvikudag held ég bara svei mér þá að ég hafi ekki verið til stórræðanna… færði til svolítið dót ;-). Á fimmtudag var vinna og blak og í dag var same old same old – en um helgina er það afmæli og læri læri læri – gera námsefnispakka um vettvangsferð á Þingvelli 🙂

Rok og lognmolla

Lognmollan er í kolli mínum, rokið úti.  Þetta veit ég því ég þarf að lifa í þessari lognmollu og hjólaði í rokinu!  Ég sem sagt ætlaði í sund og pottinn klukkan fjögur en námsfundur klukkan fimm stoppaði mig í því – ákvað því að gera bara ekki neitt því það er jú svo mikið að gera við að læra – og berjast við lognmolluna….

Nú þar sem ég sat yfirkomin af einhverri vanlíðan í maganum (er búið að vera illt í honum síðan á föstudag – svona bara smá ekki hryllings eins og í sumar og haust), ofáti óhollustu og alls þess sem getur hrjáð vesenisfræðing dauðans, stóð ég upp úr drullupollinum, setti á mig hanska og hjálm, um leið og hurðin lagðist að stöfum benti Páll mér á að það væri rok út… ah já það er nú svo lygnt hér á Selfossi hugsaði sú stutta og lagði í hann.

Ég lenti sem sagt í stormi – og það var ekki nemahæfilega hressandi – en ég er öll að hressast núna eftir að ég kom heim, einhverjum hitaeiningum fátækari og vissulega vindblásnari en held ég alveg jafn lygn….

En nú ætla é gað halda áfram með Basil Bernstein.

Já grunaði ekki Gvend!

…auðvitað er ég jafn þreytt í dag og í gær!  Langar sko ekki í hreyfingu núna því get ég lofað.  Ég er í mauki.  Þreyttar en allt sem þreytt er.  Hvað þýðir að hlusta á það – maður þarf bara að halda áfram og gera það sem gera þarf.  Ég held ég neyðist samt til þess að slaka aðeins á – ég ætla að koma mér vel fyrir í kompu minni en fyrst ætla ég að taka svolítið til – en áður þarf ég að láta hausverkinn batna :-).  Er í því núna!

En ég á eftir að segja ykkur góða sögu af vetrardekkjunum mínum – ætlaði að gera það núna en held ég geri það síðar. 

Víhí og vóhó

Sko ég hef svolítið – obbupons pínku bissí…  Og þá er maður svo ótrúlega upptekin af því… sér ekki upp úr haugnum.  En ég er sem sagt á þeim stað sem ég var hér um árið þegar ég kláraði lokins grunnnámið – að það var hvíld að fara og brjóta saman þvott og taka til… sigh.  Nema nú gef ég mér ekki tíma til þess – bara vinn og vinn og vinn og læri svo og læri svo og læri svo…  og ákvað að hreyfa mig bara ekki neitt…. það er allt of tímafrekt.  Og það að hreyfa sig ekki neitt merkir sko samt að ég fer með moggann í svona 30 mínútur (við palli erum sko farin að fara í bæði hverfin saman svo það taki því að fara þetta – þetta var bara orðið 10 mínútur hvor helmingur og það er allt of lítið til að það taki því að dubba sigupp árla morgun..) og í blak .  En síðan 3. nóv hefur lítið annað verið í hreyfingunni.  Þetta var alveg meðvituð ákvörðun því ég hafði svo ofboðslega mikið að gera og ég ætla ekki að renna á rassinn með þetta…  20 einingar skulu í hús nú í haust.
Og ég skal sko segja það upphátt og í hljóði að þetta geri ég mér aldrei aftur!  Ég skal drullast í sund, ræktina eða hvað eina sama hversu langan tíma það tekur því ég er gjörsamlega ónýt eftir þessar æfingar mínar – eða æfingaleysi öllu heldur.  Ég var að vísu farin að finna til í mjöðmunum áður, hnén aum og svona sitthvað af vöðvafestingum að frétta – en boy oh boy, þetta var of mikið.  Ég er með þvílíkan höfuðverk, sé varla úr augunum út svona á stundum – dísuss.  Herðarnar bólgnar og háslrígur og vöðvabólga dauðans … hljómar allt frekar kunnuglega!  Þangað ætla ég ekki!
Ég fór til Baldurs í dag – þetta er nú meira yndið þessi sjúkraþjálfari sem ég á – ja eða amk hef ;-). Alveg þangað til hann tók eitthvað tæki og beindi því að mjöðmunum á mér!  Ég hélt ég dræpist. Kálfanuddið hér um árið var ekki neitt neitt – já svona ekki mikið.  Ja kannski svipað en þetta var samt ógeðslega vont!  Ég er svo aum í vöðvafestunum í kringum mjaðmirnar að það er ólýsanlegt!  Ég held ég ætli aftur í svonalagað því þetta kom svo sannarlega einhverju af stað.
Nú þar sem ég lá þarna og játaði allar mínar yfirjónir, fúslega og afskaplega grreiðlega fannst nú Baldri eitt og annað hafa breyst frá því ég kom fyrst – í ekki ósvipuðu ástandi, en heldur hressari með líðanina – bara svolítil vöðvabólga sem að mér væri, og ég þyrfti að fá á því bót 🙂 – með nuddi!.  Í dag vissi ég svona meira hvað til míns friðar heyrði vildi hann meina ;-).  væri aðeins betur áttuð híhí.  Kannski það, ég var samt alveg ágæt fyrir næstum fjórum árum síðan, bara fín kona sko!  En vissulega ákveðin viðhorfsbreyting 🙂  hmmm svoldið margir broskarlar.  En jæja sem sagt, ég lifði tímann af og gat jafnvel gengið.  Og þar sem ég kvaddi þá stakk Baldur upp á því að ég færi í ræktina á eftir og léti svo buna á mjaðmirnar nudtækið…  hmmmm það fannst mér nú svolítið góð hugmynd en alveg vonlaus um leið því það var alls ekki á áætluninni.  Þetta átti að vera heima og hvíla dagur eftir að hafa mokað út mestri drullunni….
Passaði sem sagt ekki alveg….
Og þar sem ég kom heim og vissi að ég gat hvorki setið né legið – yrði enginn tími betri en núið að fara og hreyfa sig amk smá… ég yrði jafn þreytt á morgun og það yrði ekki minna að gera þá…
Svo mín dreif sig bara og fór í 27 mín á ógeðstækið sem er sko afrek með mjaðmirnar eru eins og þær eru – ég lyfti ekki enda aum alls staðar eftir nudd og píningar, en fór þess í staðinn í pottinn og synti svo 400 metrana.  Og nú er ég búin að vera – get ekki gengið, get ekki setið, en svona ægilega sæl og ánægð og allt mögulegt!  Og svo á ég líka verkjatöflur og allt mögulegt svo ég er bara í góðum málum…. híhíhí. 

Sem sagt ætla aldrei aftur að halda að lausnin í önnum sé að hætta að fara skipulagða hreyfingu (og þó ástandið sé slæmt hreyfi ég mig nú 6×25 mín á dag plús blakið(já og þetta voru svo sem bara 16 dagar …)

Ég er svolítið þakklát fyrir hvatninguna!