Staðan enn svipuð

Jæja það ætlar að ganga seint að slá í gegn í mataræðinu – og þar með að léttast. Kannski það sé bara kominn tími á matardagbók? Líklega – byrjum á því á morgun – öðruvísi gengur þetta ekki. Eitt jákvætt er þó í þessu – ég er ekki að lemja á mér fyrir bresti mína á kvöldin heldur heiti mér því að gera lágmarka skaðann og gera betur á morgun. Það dugir hins vegar ekki að gera það endalaust – heldur verður að skipta um verkfæri ef morgundagurinn verður aldrei betri en gærdagurinn. Því eru það bjargirnar sem gilda – nefnilega matardagbókin.

Hreyfingin er hins vegar í fínu lagi og ég er í mikilli framför líkamlega. Ég er sterkari, verkjaminni og minni um mig. Ég lyfti af krafti og brenni 2x í viku og tek svo 2 skverlegar blakæfingar þar sem ég hita vel upp fyrir þær. Ég þarf að vísu að skella í mig tveimur treo en skítt með það! Mjaðmirnar kvarta ekki á meðan.

Ég er aðeins farin að finna til í bakinu – það gæti verið vegna óhoflegrar notkunar á Lazy boy stól þeim er ég fékk lánaðan fyrir jólin – ;-). Ætla að skoða það líka að gera meira heima hjá mér þegar ég kem heim á kvöldin og helgarnar gæti ég vissulega nýtt betur en til þess að hvíla mig voða mikið í þeim góða stól:-)

En nú er ég í Grímsnesinu góða að hita upp fyrir vinnutörn sem hefst einmitt núna klukkan 12:00 svo over and out 🙂

Vinna á ný

Jæja nóg að sýsla í minni heittelskuðu vinnu… Svei mér mikið um verkefni 🙂 Gaman að því…

Þá er ekkert annað en gera þau híhíhí

Annars er þetta bara í lagi – frábær æfing í gær – gjörsamlega geggjaðslega skemmtilegt!

Mataræði ekki í lagi – nokkrir lakkrísmolar og kvöldmaturinn ekki við hæfi megrunarfræðinga 🙂 en ég er ekki af baki dottin.

Og svolítið meira af kílóum

…úff svaka mikið af kílóum…

En hvað um það frá öðrum degi jóla hafa bæst við 3 kg en miðað við tölum í byrjun des hef ég staðið í stað – en ég veit að 3 kg talan er nær sannleikanum. Maður er útþaninn, bólginn og vatnaður í hel eftir letilíf og át. Það er engin spurning þó það hafi verið betra en oft áður – mikið um vínber og mandarínur þessi jólin og nokkur hreyfing – ekki næg og alls ekki þær göngur sem mig langaði í – en engu að síður allt á réttri leið. Maður biður ekki um meira :-).

Nú er að finna til allar græjurnar í töskuna og hypja sig af stað í blakið – nýársteiti hvað sem það nú er þegar blak er annars vegar!

Kíló

Ah jæja ég var að skoða kílóin mín  – ég ætlaði að léttast um 6 kg í ár en mér hefur nú fundist ég bæta við mig svona eins og 15 en það er nú orðum aukið – ég hef bætt á mig nákvæmlega 3 kílóum, þegar upp er staðið – og ég ætla að setja mér 9 kg markmið þetta árið. Sjálfstjórnin hlýtur að hjálpa mér við það!

Áramót 2010-2011 litið til baka

Markmið ársins 2010

Ná balance í námi, vinnu og áhugamálum.  – Smávægilegt markmið það!
Púff þetta gekk alls ekkki… bætti á mig verkefnum og kílóum og ALLT fékk svoldið vitið í lok sumars. Vann ekkert að áhugamálum.

Innkaup, tiltekt og matreiðsla

Blessuð verið þið – þetta er alveg vonlaust… Tiltektin gekk þó betur en oft áður…


Taka 10 – 20 einingar í náminu í ár og ljúka við námskráráfangann – þarf að skila einu verkefni þar.

Tók aðferðafræðina en á eftir að skila inn námskráráfanganum – verð að gera það fyrir janúarlok 2011

 Leggja grunn að mastersverkefni
Ákvað að hægja á mér í náminu og leggja áherslu á að fá námsleyfi – hef ekki heilsu í að læra, vinna og halda inni lífsstilsbreytingunni… 

Sækja um námsleyfi
oh yeah það gerði ég og FÉKK

Hreyfa mig 6 daga vikunnar og 3x langar æfingar.

Hreyfingin var alls ekki nógu góð en með haustinu lagaðist hún mikið. Ég hjólaði mikið í sumar en það dugði ekki til að halda þyngdaraukningu frá…


Ganga upp að steini í Esjunni

Fór ekki í neinar göngur – var að drepast í mjöðmum

Önnur hugsanleg fjöll:
Búrfell, Grímsnesi
Arnarfell
Ingólfsfjall amk 3 x
Vörðufell
Hestfjall – Fór eina ferði í haust með skólanum
Mosfell – fór tvær ferðir í sumar
Ganga um Þingvelli
Ganga um Reykjadal – Hengilsvæði
Ég gekk sáralítið enda var þetta ár hinna aumu mjaðma!
Hjóla að Borg hjólaði mikið í vor og sumar – þó aldrei alveg að Borg en fram og til baka frá Kerinu og svo í Þrastarlund og heim aftur – það gekk vel- Seyðishólarnir eru svakalega góð þrekæfing. Hjólaði líka mikið Votann og niður að Seljatungu.

Léttast um a.m.k. sex kíló á árinu – ef það gengur vel þá stefna að því að ná 120 kg  – þá hef ég misst 50 kíló en mikilvægt að hafa þetta raunhæft.
Úff þetta gekk svakalega illa – þyngdist alveg bunch en tókst að snúa því við undir haust – og lærði orðið sjálfstjórn sem menn vænta að skili sér vel – ef næst 🙂
Fara ekki á hausinn

Ah það tókst nú – svona næstum því 😉

Blak á milil hátíð

Jæja mitt í öllum hátíðahöldunum þá er nú nóg að gera. Hér verður haldin 50 ára brúðkaupsafmæli á morgun! Hvorki meira né minna – það eru tengdaforeldrarnir sjálfir! Hér verður hádegisverðarpartý – og svo er áframhaldandi dagskrá út daginn eins og vera ber.

Og nú í augnablikinu er ég bara of löt til að gera nokkuð af því sem ég á að gera – en það lagast nú eftir að hafa horft á Despó smávegis. Endurnærist maður ekki við það 🙂

Jæja en ég er stolt af mér að hafa farið í blak á milli hátíða! Það er þó alltaf það!

Ég þarf að æfa spretti á næsta ári – koma mér úr sporunum! Standa ekki eins og klessa og það allt saman. Auk hins gamalkunna – léttast. Það er allt eins og það á að vera barasta.

Sjálfstjórn er málið líka – má ekki gleyma því – er svoldið fljót til þess 🙂

Líður að áramótum

Það er ekki rismikið líf mitt um þessar mundir – en það er ekki heldur neitt rislágt. Það eru þó greinilega einhverjar breytingar í farvatninu.
Ég hef t.d. fengið námsleyfi næsta haust – sem er algjörlega með ólíkindum, því þó mér hafi fundist ég eiga það mest í heimi skilið þá trúði ég því ekki nema hæfilega að slík undur gætu gerst að ég fengi slíkan happdrættisvinning! En ævintýrin gerast enn. En á móti kemur ýmislegt á debet hliðina svo debit og kredit jafnast út á núllið vænti ég – en ekki mikið undir það:-)

Ég hef verið dugleg að hreyfa mig í desemer. Ég lyfti 2 sinnum í viku og fer á blakæfingar tvisvar. Minn kæri sjúkraþjálfari telur þó að ég eigi að hreyfa mig ögn meira en ég geri – brenna eitthvað svolítið flesta daga vikunnar – ég get deilt þeirri skoðun með honum en nenni því ekki… En ég er alveg ákveðin í því að fara aftur með moggann í mars ef Guð lofar með Páli mínum og hundunum. Ég tala nú ekki um ef ég verð svona góð í fótunum eins og ég er núna þá verður það ekki mikið mál í sjálfu sér.

Mjaðmirnar á mér eru með besta móti – hafa lagast gríðarlega eftir síðustu meðferðarlotu hjá Baldri og átak af minni hálfu að sitja ekki endalaust við  og ef ég fell í þann fúla pytt þá verð ég að hreyfa mig á móti. Setur eru sá verknaðu sem fer allra verst með mjaðmirnar á mér. Ristar, beinhimnubólga, hné og slíkt og þvílíkt hefur allt skánað mikið og er á tíðum alveg til fyrirmyndar. Fyrir það er ég mjög þakklát.

Ég stóð í stað í þyngd í desember og léttist jafnvel svolítið – kannski um kg. Það finnst mér sigur. Nú um hátíðar syng og ég hamra á hinu klassíska orði sjálfstjórn, um það snýst mitt líf um þessar mundir. Það er lykillinn að því að minnka átið. Ég kæri mig nú ekki um að hafa enga sjálfstjórn – það er náttúrulega ekki flott :-).

ég hef haft það dásamlegt á aðventunni, börnin mín tvö voru hér um jólin og ég fíla það alveg að vera miðaldra með tvennt fullorðið sem ég kalla þó börn mín með mér í liði. Ekki amalegt. Aðalsteinn hjálaði mér heilmikið með hluti sem Palli hefur ekki getað gert og Ragnheiður mín er alltaf drjúg blessunin. Saman eru þau mergur míns lífs náttúrulega :-). Páll beininn líklega híhí.

Á morgun er það leikur í salnum – líf og fjör í blakinu – og áðan fór ég í göngu með báða hundana og það gekk vel – og ég fékk úlpukorn í jólakorn og ég hef ekki átt úlpu síðan rauða ullarúlpan mín var og hét! En hún var nú líka æði!

Nú fer að halla í áramótaáheitin – það verður gaman að sjá hver þau voru fyrir 2010 – en amk veit ég að ég náði því ekki að léttast um 12 þetta árið – ónei!  Úpsi púps en annað hefur nú verið á uppleið svei mér þá!

Hvunndagurinn

Jæja lífið heldur víst áfram -í raunheimi sem á fésbókinni þó bloggið fái ekki miklar fréttir þar um eða af;-). En það þýðir nú ekki að mín hafi gefist upp öðru nær. Hvunndagurinn minn er þannig að ég vinn og fer svo í hreyfingu 4 daga vikunnar – massalyftingar þannig að ég er farin að vippa hér til húsgögnum sem voru ill færanleg áður. Eða það segir Palli a.m.k. :-). Blakið er firna skemmtilegt og við erum svo heppnar að fá til okkar 2 ,,stráka“ til að þjálfa okkur tvisvar í mánuði -það hefur ótrúlega mikið að segja náttúrulega – reyndar ekkert ótrúlegt við það ;-). Hver veit nema maður geti tekið á móti bolta einn daginn á sómasamlegan hátt.

Mataræði er í þokkalegu standi – ekki nægilega góðu til að léttast en nokkurn veginn til þess að halda þeim fjórum kg sem hafa farið síðan í sept. Markmiðið nú er að þyngjast ekki um jólin og stunda mikla hreyfingu þessa daga svo ekkert fari nú úr skorðum. Áramótaheitið er svo fullmótað – og það tengist vissulega blaki og maí 🙂 svo það þarf að bretta upp ermarnar.

Annars er ég í tónlist.is alsælu því ég er áskrifandi þar – bara að íslensku efni reyndar sem er nú svoldið leiðinlegt en það hefur eitthvað með símann minn að gera :-).

En sem sagt, jólaundirbúningur á fulluskriði, með hógværð og sparnað í huga náttúrulega.

JÁ OG ÞAÐ FRÁBÆRASTA ER NÁTTÚRULEGA AÐ ÉG FÉKK NÁMSLEYFI NÆSTA VETUR!!!

MIg vantar púða…

…í kringum setbeinið. Og það þýðir að allir þessir verkir sem ég hef eru ekki bara vegna mjaðmanna heldur vegna festinganna á aftanlærisvöðvanna sem eru allar marðar í klessu út af þessu púða leysi mínu! Og nú ætti ég að fá mér kút til að sitja á! Hann kemur til landsins í lok mánaðarins. Gaman að prófa það. A.m.k. er ekki hægt að vera svona sigh!

Eftir að hafa misst af lyftingaæfingum í síðustu viku þá fórum við Alice í dag og vó vorum við duglegar!  Annars á ég afleitar nætur núna eftir að hafa einhvern veginn rifið upp þessa festu þarna í rassinum Mínum – í blaki á mánudaginn. Ég sat líka allt of mikið um helgina við sörugerð og sláturgerð ein magnaðasta blanda allra tíma!

Og nú er bara að vona að ég verði sæmileg á morgun.

Já og sjúkraþjálfarinn minn er æði! oftast ja amk stundum 😉

Súbbinn minn í klessu

Já já stýrisdæla og stýrismótor bara farið – dautt búið ekki nema svona um 250 þús sem kostar að gera við það smáræði! Bjartur með sykingu í auganu og af þessu leiðir að ég er gjörsamlega á bömmer. Kem heldur litlu í verk þykir mér og eyði of miklum tíma í tölvunni. Þarf að minnka það. Þarf maður ekki líka að fara í jólaskap. Mér sýnist að ef það verði gefnar jólagjafir á þessu heimili þá verði það heimagert svei mér þá! 

Ég er nú eiginlega í klessu yfir þessum bíl…. já og svona fjármálunum yfirleitt. Greiðslubyrðin helst til mikil miðað við tekjur satt að segja.

Æ það þýðir ekkert að væla yfir því. Gleðjast bara yfir því hvað var svakalega gaman í blaki og að maður er að hressast í fótunum. Já og svo gengur svona ljómandi vel að skrifa matardagbók – og stigin ekki alltof mörg – þó þau séu mörg sem í hana rata.

Hreyfingin gengur bærilega – fór í dag þó ég væri svakalega sein af stað. Bara fínt.