Og svona lullar lífið

Samt er eins og það þjóti áfram. Og ég er bara sátt!

Ég léttist bara um 2,5 kg í febrúar – sem var skandall að eigin mati en margar sem ég hef spurt segja að þetta geti svo vel gerst. – En svo þegar ég fór af stað, þá hrynja þau af mér á ný – vúhú nýr tugur – sjá fjórði byrjaður og ég er mjög þakklát. Því maður má ekki frenjast og heimta og heimta.

Ég syndi 2 – 3 í viku sem er náttúrulega bara dásamlegt og vitið þið bara hvað – á föstudag eftir skóla gekk ég með báðar hækjurnar í 30 mín og svo gekk ég í gær – þó skemur væri, sunnudag og í dag vúhú fór ég í góðan göngutúr með hundana hér um svæðið. Og þreif magakveisu Bjarts upp með tilheyrandi óhljóðum!

Og núna finn ég mun. 30 kílóum síðar – ef með eru talin kílóin sem ég léttist um í haust. Ég vildi nú helst missa 30 kíló – fyrstu þrjá mánuðina en kroppurinn var ekki sammála. Kannski hafði það áhrif að ég hætti á blóðþrýstingstöflunum sem voru að hluta bjúglosandi – og ég fór að synda 1250 – 1500 metra nokkrum sinnum í viku. Og æti það sé nú ekki að hjálpa hve vel gengur – blessuð hreyfingin. Hún gerir mig líka svo glaða.

Nýr kafli

Eftir langa bið og mikla niðursveiflu líkamlega hef ég nú farið í efnaskiptaaðgerð – gastric-bypass-surgery. Hjáveitu með öðrum orðum. Ég var skorin á miðvikudag og í dag er kominn laugardagur 1. des.

RNY-compressor

Ég hef beðið lengi eftir þessari aðgerð og tækifæri til þess að komast í hana. Það var erfitt fyrir norðan að vera í undirbúningi fyrir hana svo ég sótti um að komast í hann ári áður en ég hætti þar, en sú beiðni varð einhvern veginn að engu – en lifnaði við þegar ég forvitnaðist um stöðuna. Það var svo loksins tveimur árum rúmum síðar sem ég komst að hjá þeim á Reykjalundi og þau hafa hugsað um mig síðan af stakri snilld og á afskaplega einstaklingsmiðaðan hátt. Mikil breyting hefur orðið á mörgu í offitufræðunum síðan ég var þar um 2008 – það hefur greinilega komið fram mikið af nýrri þekkingu á offitu, eðli hennar og þróun.

En hvað um það – nú er ég hjá Ása bróður mínum og Jónu í þvílíkt góðu yfirlæti, í þessum skrifuðu orðum setur verkfræðingurinn 200 ml af súpu í dollur til að frysta og í dag munum við svo gera aðra tegund af súpu sem ég get svo tekið með mér heim í heiðardalinn! Mig langar heim á morgun – hef áhyggjur af hundunum og svona – Bjartur minn er einn og Stormur í vist hjá kvennakórnum okkar á Þúfur.

Ég var nokkuð verkjuð fyrst eftir aðgerðina og sérstaklega var ég aum eftir uppblásturinn, aftan við herðablöðin sem olli því að vont var að liggja á bakinu – í þeirri einu stellingu sem ég gat legið í 😉 en ég fékk ágæt efni og svo jafnaði þetta sig nú.

Eftir að ég kom hingað hef ég sofið vel og nærst ágætlega.

 

 

 

 

 

Ganga!

Já haldið ykkur fast (reyndar les þetta enginn svo – það er bara tekið þannig til orða!). Fyrsti dagurinn sem var sæmilegt veður – og ég fór í 15 mínútna göngu – afar stutta en – fór samt! Var með kraftgöngustafina – og hlustaði á fuglasönginn. Og nú sit ég og svitna smá…. og stolið maður minn!

Meiri bekkur, fleiri sprautur

Hér gengur allt sinn vanagang, ég fór í vinnuna í dag aðeins að taka til þar sem við erum að flytja á milli rýma í skólanum.

ÉG fór líka í kaffi…. sem sagt nokkuð virk í dag.

Síðast en ekki síst fór ég í ropeyoga bekkinn og teygði vel á – eftir helgina fæ ég svo diskinn og þá rifjast  upp fleiri æfingar – en þessar dugar svo sem ágætlega þar sem teygt er á fótunum – og vitiði – eftir bara nokkur skipti er ég miklu betri að standa upp af gólfinu – það er nefnilega fjandi sárt að fara á hnén…. reyni að forðast það.

Framtíðin og núna

Ég fékk aftur löngun til að skrifa…. Það þýðir eitthvað, svo mikið er víst.

Nú er hafinn undirbúningur fyrir aðgerð í haust. Ég er komin með stungulyf sem veldur því að maturinn er lengur í maganum og þannig verður maður síður svangur. Á þessu lyfi ætti maður að léttast um 6 -8 prósent af líkamsþyngd á þremur mánuðum. Það væri afar kærkomið að léttast fyrir aðgerð þar sem hún tekur 1/3 af líkamsþyngdinni. Ef einhvers staðar á bilinu 5 – 10 kíló í viðbót er það gott forskot.

Ég er líka farin að nota robejoga bekkinn þrisvar í viku í um 15 mínútur í senn. Það dugar mér í bili – mesta gleðin er nú eiginlega að geta staðið upp af gólfinu eins og ástandið er.

Tvö afbrigði

Mig langar að deila með ykkur tvenns konar viðbrögðum við sömu flíkinni sem ég klæddist.

1. Þetta er svo mér skrautlegt jakki. Ekki myndi ég ganga í svona. Hann er samt Ingulegur….

2. Nokkru síðar. Annars staðar. Mikið ertu fín. Fallegur jakki sem líffæri upp á daginn og okkur.

Annað dæmi.

1. Inga mikið ertu alltaf smekklega klædd.

2. Þú ert svo sem bara ágæt í þessum kjólum þínum var svarið þegar ég spurði hvort ,,þessi“ gengi…

Ekki að fólk eigi að tala á móti sínum skoðunum heldur lýsir þetta afar vel mismunandi andrúmslofti og viðhorfum.

Söngurinn

Ég tók upp dáinn þrastarunga áðan.

Agnarsmáan

lífvana.

Ég hafði horft á hann

draga andann í síðasta sinn.

Bara rétt áðan.

Brjóstið lyftist, hratt –

seig.

Hann lagði höfuðið undir vænginn

og frá brjóstinu leið agnarsmár

lífsins neisti.

Hann bað ekki um meira

en fá að syngja um stund.

Ég hefði viljað heyra meira.

Í djúpinu

Það er best að líta í kringum sig þegar dvalið er í svartnættinu þó útsýnið sé takmarkað, jafnvel ekkert.

Draugar í hverju horni.

Vanmátturinn lamandi.

Meira að segja augun þreytast á myrkrinu.

Ljósgeisli kitlaði nefið, ,,það eru til hjálpartæki.“

En tilhvers?

Nú þegar allt er breytt

myrkrið svartara

þéttara

verra.

Hringavitleysan í huganum hefur náð yfirhöndinni.

Don’t believe everything you think,

sagði einhver.

Stundum þarf einfaldlega að viðurkenna

uppgjöf.

Sagði annar.