Snör viðbrögð og ný aðgerðaráætlun

Það er margt sem getur ruglað litla sál eins og mína. Meira að segja fyrirfram þokkalega fyrirsjáanleg birtuskilyrði geta haft ótrúleg áhrif. Ég hef síðan ég byrjaði að vinna farið með Bjart á morgnana upp í Hellisskóg og gengið þar. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þá þarf ég ekki að halda í kvikindið sem er í meira lagi leiðinlegt verk eins illa og hann er upp alinn blessaður. Við getum því bæði um frjálst höfuð strokið.
Þetta gekk allt saman vel á meðan það var bjart. Ég gat verið búin að borða hafragrautinn og komin út í skóla bara rétt um sjö ef ég vildi. Náð andanum og hugsað minn gang og unnið svolítið líka ;-).
En svo fór þetta að verða erfiðara og erfiðara. Ég komst alltaf seinna og seinna og stressið jókst í samræmi við það. Nú svo fór ég að fara á hjólinu í skólann og hafði gaman af en það er ekki hægt í kulda og hálku snjó og slabbi. Og því fór að líta illa út með morgunbrennsluna mína (sem hefur samt skilað ótrúlega litlu í þyngdartapi miðað við væntingar verð ég að segja! en svöng er ég þannig að ég borða meira fyrri partinn en ég gerði og minna seinni partinn). Nú svo er bara svoldið mikið að gera í vinnunni og einhvern veginn er vikan þannig upp sett að ég þarf að vinna skrambi langt fram á kvöld á þriðjudögum og mánudögum sem voru báðir líkamsræktardagar.
Ég var líka hætt að hvíla um helgar heldur fór t.d. bæði í langa göngu í Þrastarskógi bæði laugardaga og sunnudaga enda veðrið og haustlitirnir eitthvað sem ekki var hægt að láta fram hjá sér fara. Þannig að ég var orðin ansi þreytt á miðvikudegi eftir vinnu, labb og líkamsrækt.
Smám saman dró því af mér. Ég átti erfiðara og erfiðara með brennslutímann og enn erfiðara með að halda í við verkefnin í skólanum. Þetta bjó svo um sig í mér og ég varð kvíðin og fannst ég ekki alveg ráða við þetta allt saman að því svo viðbættu að ég léttist ekki neitt svo árangurinn þeim megin var ekki góður. Fannst mér.
Eitthvað hefur þetta síast út í umhverfið og mínum helsta styrktaraðila var ekki farið að lítast á blikuna og hefur nú í nokkurn tíma bent mér að hætta að hugsa um vigtina heldur einbeita mér að heilsunni, mataræðinu og því hvernig mér líður eftir æfingarnar. Allt annað sé aukaatriði – bónus í besta falli. Ég get nú alveg fallist á að það sé rétt viðhorf. Það er ekki eins og það hafi einhvern veginn alltaf skipt mig svo miklu máli að léttast… Ég vil svo sem frekar vera heilsuhraust en best þætti mér að léttast líka. Mér finnst að ég eigi bara að gera það! En það er eitthvað sem skilar sér ekki þó mér finnst að það ætti að gera það! Baldur segir að það sé ekki línuleg fylgni á milli þess að hreyfa sig og léttast. Mér finnst nú samt að það eigi að vera rökrétt samhengi þar á milli – ég verð nú að segja það!!!! En ég þarf að venja mig við hina nálgunina – hún er hvort sem skynsamlegri og meira í mína veru. Ég er því komin með svar við því þegar fólk spyr hvort ekki gangi vel og ég sá alltaf jafn dugleg. Já og hvort ég sé ekki búin að léttast heilmikið og það allt saman. Ég ætla sem sagt að segja að ég sé alltaf jafn dugleg og ég styrkist með hverjum deginum! Þetta láti mér líða svo dáindis vel – en það segi ég nú bara ef ég er í rosa uppsveiflu! Gott plan ekki satt?!?
Og svo er ég komin með nýja aðgerðaráætlun varðandi hreyfinguna:
Passa mig gríðarlega í mataræðinu þessa viku!- Einbeiti mér að því að borða svakalega ofboðslega hollt og fínt viku og viku. Annars tek ég einn dag í einu og reyni að standa mig með að borða máltíðir með fullum grænmetisskammti sem allra oftast. Ekki borða á kvöldin – sem vel að merkja hefur gengið dásamlega vel í flestum tilfellum
Fer í Styrk (sem heitir eitthvað annað) á þriðjudögum


Fer í Styrk á föstudögum og djöflast vel og lengi – gæðatími
Prófa að fara í Styrk á sunnudögum eftir hádegið.
Í millitíðinni labba ég og hjóla – fer í morgunsárið í Styrk og hjóla smá ef mér finnst of kalt úti eða færðin úti leiðinleg!
Eyk brennslutímann upp í 50 mín þrisvar í viku en hef hann um 20 – 30 mín í hin skiptin.
Flott aðgerðaráætlun ekki satt?
Opinbert markmið Ingveldar er að léttast um 2 kg fram að áramótum. Það finnst mér lélegt markmið en Baldur segir að það sé nógu gott. Það sé þá bara ágætt ef það gengur betur en sé ekkert atriði. Já og sá böggull fylgir reyndar skammrifi að ég á að halda þyngd minni yfir jólin…
Ég er reyndar með ráð við því. Ég reyni bara að léttast meira, segi honum ekki frá því og þyngist svo bara sem því nemur um jólin! Klárt ekki satt?
Reyndar hef ég einhvern grun um að hann ætli mér ekki að stíga eftirlitslaust á vigtina hér eftir og halda reyndar fyrir augun á mér á meðan. Honum finnst ég verða eitthvað svo geðvond við að stíga á vigtina… Skil nú ekki afhverju hann kemst að þeirri niðurstöðu ;-). Vill taka þann þátt út. Ég á samt svolítið erfitt með að skilja hvað ég græði á því að hann sjái tölurnar en ekki ég – og til hvers þarf ég þá að vera að stíga á vigtina? Hvað þarf hann að vita hvað ég er þung ef ég veit það ekki sjálf? Skil þetta ekki alveg. En hann veit kannski hvað hann syngur. En bara kannski….
Nú jæja nóg er líklega komið af rausi í dag. Ég er bara ánægð með mig. Fór í 50 mín í brennslutækin á miðvikudaginn, 40 mín í gær (sem var svona auka sprikl því ég labbaði bara með Bjart en hjólaði ekki í vinnuna) og 45 í dag eftir að hafa hjólað í hálftíma um plássið í morgun í roki og rigningu – ja amk svolitlum vindi. Lærvöðvarnir mínir sem eru nú engin smá smíði voru þreyttir í dag, helvíta uppgefnir greyin þannig að það var mér töluvert mál að hjóla í 25 mín 😉 en ég gerði það. Og er stolt af mér.
Mér líður miklu betur í hálsinum þó ekki sé ég góð. Ég hef líka ekki mikið gert reyni bara að slæpast og hvíla mig. Borða svoítið Norgesic. Ægilega fínt efni! Og hælsporinn er að koma aftur. Orðin hölt og ferlega stíf fyrst á morgnana. eins og var gaman að ,,halda“ að ég væri laus við hann. En svona gengur þetta til.
Ætli ég fari svo ekki að fara í spinning? Ja það væri þa.

Leiðin mín

Það er skrítið með þessa vegferð mína sem lífið er. Er það ekki svo með okkur öll? Einhver sérkennileg undarlegheit sem saman mynda lífið.

Afhverju ætli ég geti ekki bara farið í megrun og látið þar við sitja. Afhverju þarf ég að leggjast í einhverja sjálfsskoðun. Glíma við fortíðina, mistökin, mótunaröflin?

Ég veit ekki svarið, ég veit samt að fyrir mér er engin önnur leið til. Ég einhendi mér í þetta, endurskoða, endurupplifi og set saman í myndina af mér. Hver er ég? Hvers vegna er ég feitari en maðurinn við hliðina á mér? Hvað get ég gert til að breyta því – sætta mig við eða fyrirgefa mér að vera sú sem ég var og umfaðma þá sem ég er og verð og ætla að verða?

Hið eina sem ég get gert er að takast á við þetta verkefni – mig. Sinna því eins og flestum öðrum verkefnum sem mér hafa verið falin um ævina; af kostgæfni og alúð. Nú er komið nóg af því að setja sjálfan sig í aftursætið, nú þarf að huga að og gefa sér tíma til að íhuga og ígrunda sitt líf. Einungis þannig get ég breytt því sem þarf að breyta.

Oft er erfitt að finna það sem er að, kannski er ekkert að sem orð er á gerandi en raunveruleikinn er þó sá að sjálfsmyndin og sjálfstraustið er ekki upp á sitt besta. Sjálfsmyndin myndast í bernskunni og unglingsárunum og þá gerðist margt sem ég finn núna að hefur skipt máli og flest gott – afskaplega gott. Ég átti 9 eldri systkini sem öll höfðu skoðanir á yngstu leiðinda frekjudósinni, dekurdúkunni og sjálfstæðisinnanum Ingveldi. Ég fékk eitt og annað að heyra og ég er sannfærð um að það sé allt satt enn þann dag í dag. Alveg sama þó ég reyni að halda öðru fram við sjálfa mig. Og einhvern veginn er það svo að hrós var í minna mæli en umvandanirnar. Ég var bara lítið barn sem gat ekki verið annað en ég var og systkini mín þau sem þau voru. Engum er um að kenna en eftir stendur það sem var sagt og sýnt. Sumt hafði neikvæð áhrif á stelpuhnokkann annað gerði mig að þeirri hetju sem ég er 😉 – sumt man ég enn og á eftir að fyrirgefa. Bara smá atvik, orð – fjölskyldulíf af bestu gerð en ég sver það er ekki auðvelt að vera yngst 9 systkina og eiga aldraða foreldra. það eru æði margir sem hafa álit á uppeldinu og afurðinni. Þetta myndar sjálfsmyndina og mín er hálf brengluð held ég. Og það er svolítið erfitt að takast á við þetta allt saman.

það er líka glíma að takast á við ræktina og hreyfinguna. Þar koma oft fram brestir á sál og líkama sem þarf að taka á, áður en næsta skref er stigið. Baldur þarf að laga hælsporann og auman háls, ég þarf að laga það sem er fyrir innan og styrkja það og efla í senn með hans hjálp og annarra. Dj… sem þetta getur verið erfitt. Og þegar steitir á er auðveldast að fara í gamla farið – það er ekki best en það er auðveldast.

Það sem er mér erfiðast núna er að sinna vinnunni, ræktinni, labbinu, heimilinu, náminu, Bjarti, börnunum, Páli þannig að allir fái sitt og mér líði vel. Það gengur ekki vel. Ég vildi geta unnið miklu meira. (minnumst ekki á allt hitt) Miklu miklu meira… Og verkefnin hrannast upp…

Það er líka erfitt að vera svo illt aftan í hálsinum og níður í bak og ætla sér að láta eins og ekkert sé. Þá er gott að hugsa með sér að hvíld sé nauðsynleg. Hægja á og ná sér góðri. En gerist það með hreyfingarleysi? Náði ég mér góðri þannig í vor spurði Baldur og svarið er reyndar nei…. Og þar sem mér varð það ljóst fór ég í Styrk í dag og tók 50 mín í brennslu þar af 12 á svitavélinni 😉 og þunginn hvíldi ekki allur á höndum takk fyrir pent.

Ég verð ekki ánægð nema ég stundin ræktina af þeim krafti sem ég veit ég þarf. Ég þarf bara að setja upp nýja áætlun – nýtt plan og hætta að væla. Ég bara missi stundum stjórn á mér í vælinu. Ég ætti að rifja upp það títtnefndur sjúkraþjálfari sagði við mig í sumar: Hættu að segja oh alltaf þetta er ekkert erfitt.

Það er hvort sem er bara skilgreiningaratriði.

En ég fór á vigtina í dag. Held mig langi ekki aftur á hana. hafði ekki þyngst frá síðustu vigtun. Ég hafði jafnvel búist við því. Og nú er bara að vera dugleg og hugsa um hitaeiningar. Og brennslu. Ég verð að brenna og brenna og brenna.

Ég fór í nálar í dag og ég sver að þetta er engu líkt. Þær held ég að hafi allar lent á sálinni í mér og ollu stormviðri þar. Svo ekki sé minnst á verkinn í vinstri hluta líkamanum frá toppi til táar en vinstra megin er hælsporinn sem er ekki eins góður og ég hélt hann væri orðinn, kálfi sem verkjar, vinstra megin í hálsinum er allt verra. Ólýsanleg tilfinning. Óskiljanleg líka

Það dugir ekki að láta svona

Sem sagt ég er haldin einhvers konar sjálfseyðingarhvöt. Ég hef komist að því.

Baldur hafði rétt fyrir sér að ég ætti ekki að vera alltaf á vigtinni heldur hugsa um að koma mér í stand og hafa léttinginn on the side því vigtin gerir mig mjög geðvonda.

Nú steig ég á hana á föstudaginn og hitti ekki á góðan dag! Og ég er búin að vera alveg vitlaus síðan. Gott ef ég er ekki búin að bæta á mig öllum 16 kg sem voru farin og gott betur allt fyrir afli hugarorkunnar.

Og ég held að ég sé meira að segja búin að fatta ástæðuna fyrir þessu. Ok það er í sjálfu sér ekki neitt mál að gera það sem ég er að gera – það þarf ,,bara“ að gera ákveðna hluti og s.s. eins og breyta vinnutímanum sínum, ganga í gegnum ýmsa líkamlega verki, taka til í sálarlífinu, fást við þá bresti sem koma í ljós undir álagi – og vísast valda því að maður er eins og maður er -og ég er viss um að það eru fleiri en bara offitusjúklingar sem hafa sína bresti. Þetta er sem sagt svolítið mál allt saman 😉 en ég er viss um að það sé ekkert sérlega erfitt að léttast. Maður þarf einfaldlega að finna brautina sína – og það er erfitt.

En þarna komum við einmitt að kjarnanum. Ég hef í gegnum tíðina verið fullkomlega sátt við að synda sundsins vegna og áhrifa þess á mig. Ég hef verið alsæl með golfið golfsins vegna og sjálfs mín vegna. Og framan af í vor var ég alsæl með Styrk og ferðirnar þangað hreyfingarinnar vegna en svo fór það að léttast að skipta öllu máli. Ég er heltekin af því og allt í einu er ég bara að þessu til þess að léttast – kannski vegna þess að ég er ekki lengur það flak sem ég var og finnst ég vera hressari.

Það er góð og gild ástæða fyrir því að ég hef aldrei á ævinni farið í megrun. Það bara hentar mér ekki. En nú er ég allt í einu farin að haga mér eins og ég sé í henni án þess þó að hafa mataræðið þar inni. Ég vil bara að ég léttist vegna þess ég hreyfi mig og ég borða ekki eins vitlaust og ég gerði. Ég er farin að hreyfa mig á morgnana, verða svöng árla dags, hætt að borða eftir 8 á kvöldin og samt finnst mér ekkert gerast. Afhverju léttist ég t.d. ekki meira núna en ég gerði í sumar? Ekki labbaði ég fyrst á morgnana þá – ekki var brennslan komin af stað þá og ekki hjólaði ég svona mikið þá – og ég borða ekki tóma vitleysu núna – ég get bara sagt ykkur það strax.

Allt í einu er allt farið að snúast um þetta – hreyfingin og áhrif henna á mig hætti að skipta mig máli – ég varð bara heltekin af því að léttast en gerði þó ekkert róttækt í því hvað mataræðið varðar enda nenni ég því ekki. Og nú þarf ég að breyta þessu – ég þarf að skipta um sjónarhorn.

Ég þarf að hugsa um hreyfinguna og hvað hún gerir mér gott og hve skemmtileg mér finnst hún vera. Mér finnst ótrúlega gaman að hjóla og reyna á mig í salnum, gaman og gott að hitta Helgu Dögg og þá sem eru að æfa þar svo ekki sé minnst á hvetjarann minn og bjargvætt. Ég hef lést vel og ágætlega – þeir á Reykjalundi þverneita að það sé gott fyrir mann að léttast meira en um 500 gr á viku og það er MARGsannað að þeir sem missa meira en það safna fljótar á sig aftur fitu.

Afhverju er ég þá ekki ánægð? Afþví ég er haldin sjálfseyðingarhvöt.

Ég held að ég sé að leita að ásætðu til að hætta þessu og fara í sama farið – ég get ekki beitt hreyfingunni fyrir mig en léttingurinn er ekki að gera sig að því er ég tel mér trú um og þetta sé vonlaus margra ára barátta. Ég geti svo sem bara hætt þessu strax þetta sé hvort sem er ekki hægt – ég geti þetta ekki – ég sé ekki manneskja í þetta. Ég verði því bara að borða það sem hendi er næst og láta þetta sigla sinn sjó. Það að stíga á vigtina færir mér heim sanninn um það – það eru sveiflur upp á 1 kg búnar að vera alveg síðan í vor – sumar vikur er ég að bæta við mig og svo hrapa ég niður og bæti aðeins við mig aftur og svo koll af kolli. Ég veit alveg hvernig mynstrið er en samt læt ég það trufla mig – eyðileggja fyrir mér. Kannski af því ég veit að ég gæti alltaf gert betur í mataræðinu og hreyfingunni. Og ég lem á mér fyrir það að vera ekki fullkomin – gera ekki allt rétt – fá mér stundum óhollan mat. Það er náttúrulega fullkomin ástæða til þess að hugsa neikvætt – maður hlýtur að sakna þess eins og ég barði á mér hér í eina tíð fyrir að geta mig varla hreyft og láta rétta mér allt eftir að ég kom heim útkeyrð úr vinnu – farin á sál og líkama. Þá var nú aldeilis hægt að lemja á sér – ókeypis og af ákefð. Nú get ég sakað mig um að vera allt annað en fullkomin. Það er náttúrulega dauðasynd.

En aftur á móti þarf ég að laga nokkra hluti og það er kannski bara rétt að gera það og vera ekki að lemja á sér vegna þeirra. Ég þyrfti að léttast um 2,8 kg í október og það lítur ekki vel út – en ef ég geri það ekki – þá hef ég hreyft mig fullt, orðið betri af hælsporanum, hjólað mér til yndisauka og upplifað haustið og litina í göngum með litla krílið mitt hann Bjart – ekki svo slæmt! Hitt kemur – það hlýtur að koma eins og það hefur komið hingað til og ég verð hraustari og hraustari!

Svona ætla ég að reyna að hugsa í dag – taka því fagnandi þegar einhver segist sjá mun og þakka honum fyrir það. Og vona svo að Pallinn minn komi heim í dag. Þetta er nú búin að vera meiri biðin eftir ljósinu mínu.

Geggjað stuð að sprikla

Hörkunagli eins og þessi skór.
Ég get bara sagt ykkur það, að það að ég skuli fara út á morgnana með hundinn er ekkert annað en stórkostlegur dugnaður. Já – og hana nú.
Ég nenni því aldrei, hef aldrei tíma til þess og Bjartur svo óþægur að hann gerir hvern mann vitlausan -rífur í öxlina á mér, hendir hausnum á mér til og ég veit ekki hvað og hvað – fyrir utan geðvonskuna sem hann veldur mér!! Fótafúin.
Samt fer ég á hverjum degi (já já nema í gær) og mér finnst það alveg makalaust. Og verður enn merkilegra í vetur þegar það verður dimmt og kalt.
Nú meira af ræktinni for the record – fór í Styrk í dag og var mjög dugleg. Ég er búin að sjá að ég get ekki unnið í götunum mínum á þriðjudögum í skólanum – enda bara ómögulegt að vera ekki frammi og hjálpa til – þar er fullt af börnum sem vilja læra og næg verkefni. Hef samt bara tíma fyrir 30 mín brennslu en það verður að hafa það – ég líka get ekki mikið meira eins og ég er í fótunum. Lærvöðvarnir voru eiginelga alveg búnir frá því í gær eftir hjólatúrana miklu í Styrk 😀 svo ekki sé minnst á þennan verk undir hælnum sem er nú þannig að það er eins og hnífur fari í gegn ef eitthvað snertir þar – ái bara.
Svo var foreldrafundur – kynning hjá okkur – ekker er nóg með að nemendur okkar séu þeir bestu heldur eru foreldrarnir það líka. Það er gott og gaman að vinna með góðu fólki.
Takk í dag
Inga hörkunagli sem léttist um 400 gr frá því í gær og þar til í dag. Svoldið mikill gangur í þessu – er á meðan er. Rétt að njóta þess á meðan – nóg verður stoppið síðar ef ég þekki taktinn í þessu rétt 🙂

Fótafúin Ingveldur í hjólreiðaham

Halið þið að það sé – þetta er mánaðarskórinn minn! Svei mér ljótur skór og á ekkert skylt við apríl – fuss og svei.
Jæja hjólið búið að vera í húsi í sólarhring. Vantar lás og hjálm – vil ekki hjóla hjálmlaus – fyrirmyndin og það allt saman. Hver veit nema ég fjárfesti í þessu tvennu innan tíðar.
Nú en ég fór í Styrk í dag eftir að ágætan vinnudag – mætti út í skóla kl. 06:00 og kláraði stöðvabækurnar sem ég byrjaði á í gær – vonandi eru þær réttar blessaðar. En sem sagt var komin í Styrkinn um 15 og það var bara ágætur tími en orðið alveg crowded um 17 þegar ég fór heim næstum rænulaus úr hungri – sulti og seyru (ælti það sé Y?) Púff – ég borðaði eitthvað grunsamlega lítið í skólanum í dag og ekkert frá 11:30 – mæli ekki með því – enda orðin algjör undantekning ef slíkt kemur fyrir.
Nú jæja sem sagt – þar sem mér er frekar illt í mínum fúnu fótum eftir göngurnar – sem styður enn þá bjargföstu trú mína að ég hafi EKKI getað farið út að labba fyrr en ég gerði – og ekki heldur þá reyndar., – þá ákvað ég að hjóla bara í dag í brennslunni en láta öll önnur brennslutæki vera. Og ég skemmti mér bara ágætlega. Hjólaði í 2X25 mín – og það var nú bara ekkert sérlega auðvelt – ekki þegar maður velur eitthvað svona fínaríis prógramm og þarf að halda ákveðnum hraða – assgoti gott bara. Ég svitnaði sem aldrei fyrr – með þessari dásemdar vellíðunartilfinningu samfara því- sem er einhvern veginn svoldið kinky.
Ferlega gott og hressandi – eldaði fyrir Ragnheiði og fór svo til Dísu systur að sauma smá en nennti því nú eiginlega ekkert. Talaði bara og talaði – það var ágætt líka. Hef ekki marga að tala við hér heima – Aðalsteinn segir að ég sé ekki viðræðuhæf ég sé svo leiðinleg og mikill tuðari og svo talar maður víst ekki um ákveðin málefni við móður sína – eins og kærustur og svoleiðis. Það takmarkar töluvert umræðuefnin verð ég að segja.
Ragnheiður leit nú hér við í dag – það er voða notalegt að fá hana heim við og við annars er hún mest hjá Jobba sínum.
Þar sem ég sit hér og slæ á lyklaborðið þá horfi ég á æðarnar á handabakinu á mér – ég vissi nú eiginlega ekki að ég hefði svoleiðis. En þær koma svona ægilega vel í ljós orðið.
Eins er það með rifbeinin. Ég var svo sem ekki sérlega vel áttuð á því að ég hefði svoleiðis heldur – var svona bara meira að ganga útfrá því en vita það.
Það var svo eftir sturtu um daginn að ég fékk hálfgert tilfelli því það var eitthvað hart á mér og ókennilegt í laginu sem heldur ónotalegt var að reka hendina uppundir. Var þetta þá ekki neðsta rifbeinið mitt sem er bara komið þarna í ljós. Ja hérna – ég veit það þá er með svoleiðis. Einu áhyggjuefninu færra ;-). Ég á líka orðið svoldið flotta holhönd tíhíhí….
Maður er bara að koma í ljós – í fyrsta sinn í mörg mörg ár – ja eða svona frá því að ég fór í kaf…
En sem sagt – bara ánægð með mig, lífið og tilveruna þannig lagað. Ég er eiginlega búin að sjá það að á meðan ég get labbað um í Þrastarskógi í veðurblíðu sem stormi, með Bjart skoppandi um kjarrið og jafnvel í eðal félagsskap Þórunnar þá er ekki hægt að kvarta undan neinu – heldur bara ástæða til þess að þakka fyrir lífið sjálft, Sogið og kjarrið. Þetta er bara næstum eins og heima enda ég tengd Soginu og vatni þess langt aftur.
En nú er ég farin að sofa – verð að fara að labba í fyrramálið – ekkert múður með það – fór ekki í morgun því ég taldi mig hafa svo mikið að gera – sem reyndist alveg rétt -mátti ekki miklu muna að ég næði ekki að gera það sem ég vildi.
Over and out…
Inga
P.s: Já og ég hafði jafnvel lést enn meira í dag – en ég á nú von á að fá sveiflutölurnar á ný – þannig gengur þetta. Upp og niður – en vonandi alltaf heldur meira niður.

Stigvélin þann 4. sept og vigtin

Það er svolítið síðan ég sagði eitthvað um kg. mín sem eru farin. Þau eru nokkur og jafnast út að vera um 700 gr á viku frá því ég byrjaði að léttast í lok apríl. Er það ekki bara eitthvað sem ég get verið sátt við – sumarið er jú ekki endilega besti tíminn til að stunda reglulega hreyfingu og gæta mataræðisins eins og minu lífi er háttað amk. Já ég ætla bara að vera stolt af þessu. Á ekki nema um 6 kg í að 1. áfanga sé lokið. Þá er mér sagt að ég eigi að gera eitthvað skemmtilegt fyrir mig. Með sama áframhaldi eru það 2 mánuðir þangað til – þ.e. í byrjun nóvember. Nú er bara að standa sig.