Hva bara tveir dagar liðnir

Svona líður nú tíminn hratt á Þunguvöllum.

Síðasta dýfa stóð í einhverjar vikur – tvo mánuði kannski. Hún svona rjátlaðist af mér og mér finnst ég bara vera nýfarin að skynja litina í veröldinni á ný. Og þá kemur önnur. Og allt er þetta náttúrulega mjög aumingjalegt (takið eftir hvaða orð ég nota – vinsælasta orðið í síðustu dýfu). Þetta er ekki einu sinni almennilegt þunglyndi. Bara blues sem ég þoli ekki nema hæfilega vel.

Fór á vigtina í dag – var tveimur kílóum þyngri en ég var fyrir hálfum mánuði – það var nú alveg til að toppa liðanina. Enda í skemmtilegum takt við aumingjabraginn á mér. Ég veit ekkert hvaðan þessi kíló koma. Verð bara að skrifa dagbók og taka almennilega í lurginn á mér hvað mataræðið varðar. Kannski er þetta bara líka að breyta um æfingar – ég hef tekið eftir að það hefur alltaf smá áhrif. Kannski er þetta bara áfengið sem ég neytti um síðustu helgi. Þessi kíló eru ekki einu sinni stóra málið – veit alveg hvað þarf að gera til að losa mig við þau. Þau taka heldur ekki frá mér að ég er búin að brenna 3300 hitaeiningum þessa viku og brenndi 5400 í síðustu viku. Þau taka heldur ekki frá mér að ég fer alltaf í ræktina, gönguna, sundleikfimina og hvað þetta heitir allt – alls 7 skipti á viku. Það á ég bara og kalla mig samt aumingja. Svona getur þetta verið.

Geri bara eins og Sáli sagði – fylgist með ástandinu – kortlegg það og reyni svo að bregðast við eftir mætti. En það má víst ekki streitast á móti heldur vinna með þessum fjára. Ég get skilið það. (get samt eiginlega ekki skilið þessi 2 kg en skítt með það).

Það er matarboð á vegum skólans í kvöld. Ég get ekki hugsað mér að fara – og ég get ekki hugsað mér að fara ekki.

En stundum er maður bara ekki upplagður.

Og mér finnst hræðilegt að fara bara einu sinni í nudd á viku – þó mér finnist í sjálfu sér ekki svo hræðilegt að þurfa bara að fara einu sinni :-).

Feeling the blues

Það læðist að manni…

Maður veit að því verður ekki á móti mælt…

Engan skugga ber á þá vissu að einmitt núna sé maður að missa tökin…

Framundan séu þessir fádæma leiðinlegu dagar þar sem ekkert gengur, allt er ómögulegt -, enginn frekar en maður sjálfur.

Og maður má ekki streitast á móti heldur á maður að umvefja ástandið -fylgjast með þróun þess.

Sjá hver hún verður og þegar það er ljóst þá grípur maður í taumana og reynir að fleyta sér upp á yfirborðið. Sú ferð er sjaldnast einföld, bein eða auðveld.

Sérstaklega ekki þegar efasemdirnar um eigið ágæti herja á, dómgreindin bregst manni á ótrúlegustu stundum. Já og svo er eins og sunddtökin beri mann bara af leið, eða eitthvað sé á botninum sem hreinlega dragi mann til sín…

Svona er þunglyndið mitt. Ekki svo mjög alvarlegt – ekki lamandi nema stutta stund í einu. En svona líka dj… leiðinlegt á köflum. Verst er þetta með aumingjann. Aumingjahugsanirnar gjósa upp og sé sé ekkert nema það sem ég geri rangt. Það sem ég ætti að gera öðruvísi, láta vera að gera eða geri ekki nóg af.

Ég bara hreinlega fann þetta laumast að mér í gærkveldi. Hef barist á móti í dag – einfaldlega vegna þess að maður þarf að standa sig. Það er heldur engin ástæða til annars.

En svo verður þetta bara allt snúnara. Það þrengist um æðarnar í hálsinum. Höfuðið kvartar, axlirnar keyrast upp, hálsverkurinn gerir vart við sig. Maður jafnvel kaupir sér sælgæti á miðvikudegi og drekkur jafnvel kók með sykri á þriðjudegi. Undarlegir hlutir gerast og þeir fara á aumingjareikninginn sem alltaf getur tekið við og virðist aldrei vera lokað.

Mikið vildi ég, að ég gæti verið glöð og ánægð marga daga í röð. Eins og ég er búin að vera sæl með mitt undanfarið.

En svona er þetta – nú er bara að leita til þeirra sem styðja mann með ráðum og dáð eða bara hreinlega tilveru sinni. Þið eruð allnokkur.

Í krafti ykkar skrifa ég þetta hér og reyni að skrifa mig inn í ástandið og út úr því aftur

Og ég sem var svo kát í fyrradag, dagana þar á undan… Hvert flutti sú Inga?

Blaðaviðtöl ímynduð – eða ekki

Látum aðeins gamminn geysa:

30 kílóum léttari: Allt annað líf!

Hefur öðlast nýtt líf eftir að hafa lést um 50 kíló!
Ung kona segir reynslusögu sína

Hef losnað við áralanga vanlíðan
,,,, sss dóttir segir sögu sína af baráttunni við aukakílóin, eineltið og félagslega eingangrun!

Þetta eru allt uppdiktaðar fyrirsagnir en þær hafa vísast allar verið notaðar, nóg er amk af viðtölunum við fyrrum óhamingjusamt fólk sem hefur öðlast hamingjuna við að léttast.

Flest-allir rekja ástæðu offitunnar til einhvers sem þeir urðu fyrir enda lítið gaman að taka viðtöl við einhverja sem hefur ekki lent í neinum áföllum. Offitan er sem sagt ein og sér ekki nægilega spennandi viðfangsefni – heldur verður hún spennandi þegar hún er horfin og var tilkomin vegna einhverra hörmunga.

Ef þú hefur dvalið á biðstofu þá hefur þú séð þessi viðtöl í afskaplega mörgum en gömlum tímaritum. Þau eru líka í dagblöðum og sjónvarpi. Fólk kemur og segir reynslu sína og spyrlarnir sem sjaldnast hafa bætt á sig meira en 5 kg um ævina sitja bergnumdir og vilja heyra af stórsigrum viðkomandi.

Og það er stórsigur að léttast. Það eru svo aftur á móti ekkert minna engaldrar að ekki er nóg með að fólk léttist heldur hverfur öll óhamingjan. Nýja lífið inniheldur ekki lengur vanlíðan, þunglyndi né hvað þá vandræðin sem olli spikinu.

Allt í einu er eineltið sem olli því að fólk datt í ofát ekkert issue – ekki þegar maður er mjór á ný, þá virðast engin vandamál vera til.

Kynferðislegt ofbeldi tilheyrir bara fortíðinni – það viriðist ekki skipta máli nú þegar viðkomandi er orðinn mjór. Ja amk er ekki látið fylgja sögunni

Þrekið er meira – fötin eru fallegri, svefninn betri og andleg líðan svona miklu miklu betri.

Ég bara skil þetta ekki. Nú hef ég ekki lent í nokkrum áföllum í mínu lífi. Átti ágæta fjölskyldu, hef aldrei orðið fyrir ofbeldi og bara hamingjusamlega gift í þokkabót. Svoldið blönk stundum en það er nú ekki verra en gengur og gerist. Samt á ég í þessu ógnarinnar basli. enda hef ég bara misst fjórðung þeirrar þyngdar sem þarf til að ég komist í kjörþyngd. Þriðjung af þeirri þyngd sem ég þarf að missa til að ná þeirri þyngd sem langar að vera í og get sætt mig við að sinni.

Mér finnst sem sagt að hamingjustigið ætti þá að hafa aukist um 33% prósent og þá ekki minna en 25% fyrst fólk getur losnað við heilu og hálfu ofbeldisverkin með kílóunum.

Málið er að mér finnst þetta fáránlegt. Við sem erum feit eigum alltaf að vera svo vansæl og skelkuð, heilsulaus og firrt. Étandi allan daginn, í ljótum fötum, með minnimáttarkennd, óáreiðanleg og hreinlega heims. Ja það er amk þannig ef marka má ímyndina sem er gefin í sjónvarpinu og bíómyndum. Og svo um leið og kílóin fara – hviss bang þá er allt gott í veröldinn. Illska bernskunnar skiptir ekki lengur máli. Ég held það gleymist nú stundum að athuga þá betur þessa ástæðu sem fólk gefur fyrir spikinu – hvort kom á undan kílóin eða ástæðan? Ef ekki er fengist við ástæðuna og fólk einblínir bara á myndir og sjálfan sig í speglinum þá er hætta á að sársaukinn sé alveg samur.

Ég þekki amk grannt fólk sem dettur ekki um hamingjuna í hverju skrefi. Mér hefur nú bara sýnst að lífið geti verið strembið á fleiri bæjum en Offituvöllum.

Ég er hætt að leita að ástæðu fyrir mínu spiki. Ég veit hana og hef alltaf vitað:

Ég borðaði of mikið og hætti að hreyfa mig á krídískum tíma eftir að hafa verið mikill göngugarpur og útivistar barn.

Þess vegna varð ég feit.

Ég er leið afþví ég ræð ekki alveg við vinnuna mína, vildi vera milli og finn til í hálsinum.

Einu sinni var ég leið yfir því að hafa ekki lokið við Kennó – ég held varla að það hefði hjálpað mér að losna við kílóin þar.

Ég er samt viss um að með því að vera duglegri að hreyfa mig hef ég sótt í mig veðrið. Hvert sumar frá 32 ára aldri hefur fært mér meira þrek og sjálfsánægju.

Síðasta ár hefur hins vegar fært mér heim sanninn um það að þetta sé ekki flókið – jafnvel bara einfalt – en þetta er ekki auðvelt.

og þetta þetta er ekki að missa kílóin heldur að breyta um hugsunarhátt, lífsstíl og áherslur.

Ég er að hugsa um að vera svolítið stolt af því að við Baldur eigum bráðum eins árs afmæli. Það er ár síðan sáðkornum var fyrst sáð í huga minn – nú er breytinga þörf. Ég hef styrkst jafnt og þétt og kjölfarið hafa 20 kg farið hægt og bítandi og þau virðast ekkert vera á leiðinni til baka. Ég stend samt í stríði við þunglyndið, vanlíðanina og orkuleysið.



Ég held það hafi í sjálfu sér ekkert að gera með spikið á mér. Vandi minn felst í því hver ég er – en þar er líka styrkur minn og því felst lausnin innra með mér en ekki í því að minnka það sem hangir utan á mér.

Í dag er miðvikudagur

Í gær fór ég í tíma til sálfræðingsins. Það var nú svei mér merkilegur tími. Tók greindarpróf – mmig hefur alltaf langað til þess að taka svoleiðis og það útskýrir ýmislegt í mínu lífi – niðurstaðan sem sagt. O jamm.

Það sem að mér er svona helst, svo ég opinberi það nú bara á síðum veraldarvefsins, er þessi þunglyndistendence og orkuleysi. Orkuleysinu finn ég mæta vel fyrir og finnst það ekki henta mér sérlega vel – það er heldur ekki sérlega líkt mér, þunglyndið er lymskufyllra og ekki alltaf sem ég átta mig á því. En með því að fá það svart á hvítu og nokkrar skilgreiningar og ábendingar þar um hefur mér tekist að halda í halann á því og jafnvel tjónka svolítið við það enda er það ekki hyldýpis pyttur heldur meira léttur blues.

Það sem hefur hjálpað mér hve mest eru þau orð sála að maður megi ekki streitast á móti því þegar maður finnur að það rekur nefið inn – ekki henda því viðstöðulaust út aftur heldur taka á móti því, greina líðanina og bregast svo við. Þennan gest er ekki hægt að reka á dyr án þess að sinna honum. Mér finnst þetta hafa hjálpað – ég er betur áttuð á líðan minni og því færari um að breyta henni en loka ekki bara og læt sem ekkert sé. Fyrir vikið bregst ég við – eða reyni það að minnsta kosti.

En sem sagt í gær talaði ég við sála um eitt sem hann sagði í síðasta tíma um að orkuleysið og þreytan væri af því að ég væri feit og þegar ég sagði að ég þekkti nú fullt af fólki sem væri þreytt en ekki feitt hafði hann líka svör á reiðum höndum við því. Síðasti tími fór mikið í að tala um fíkn og matháka og ég sat og reyndi að innbyrgða þetta allt þó ég sæi ekki nema hæfilega mikið af mér í þessu öllu saman. Og ég er algjörlega óssammála því að ég sé orkulaus, þunglynd eða hvað þetta er allt saman af því ég sé feit. Ég bara kaupi það ekki – og ég var að segja honum það í gær. Ef mig langaði til að fá svona frasa frá honum – rétt eins og reykingafólk fær alltaf um sína líðan þá myndi ég bara fá mér sjálfshjálparbók og lesa hana.

Sigh það var nú svei mér gott að bregða þessu upp og láta hann vita af þessu! Hann tók þessu bara ágætlega og sagði að ég greinilega heyrði sumt og annað ekki því hann hefði nú sagt ýmislegt fleira en þessa frasa sína. Til að mynda að væri það mikilvægt að ég væri þunglynd og orkulaus og það væru þeir þættir sem þyrfti að taka á og þeir tengdust ekki fitunni á neinn hátt annan en þann að sú sem er svona er feit í þessu tilfelli. Annað sem væri mikilvægt er að ég geri mér grein fyrir því að ég lifi í öðrum hugarheimi – sé stundum fljótandi utan við stað og stund.

Og minni fannst það nú ekki alveg passa heldur! Þá setti hann mig í greindarprófið og notaði það til þess að útskýra fyrir mér þennan hugarheim sem ég leita í – hann sé ekki óraunsær eða science fiction heldur þvert á móti oft hinn raunverulegasti og mikilvæg verkefni fá úrlausn þar, en hann sé ekki endilega tengdur þeim aðstæðum sem ég er í – heldur flóttaleið. Jább ég kaupi það. Mér finnst þetta ótrúlega merkilegt sem hann sagði – og ég fer nú ekki að endurtaka hér 😉 og það útskýrir svo margt í mínum viðbrögðum og líðan. Nú ætla ég að fylgjast með mér og sjá hvenær ég bregst svona við í staðinn fyrir að taka á aðstæðum sem mér finnst á stundum ekki þess virði að breyta eða vekja hjá mér bjargarleysi. Ég hugsa nefnilega oft að það sé betra að þegja og láta sem ekkert sé, en að halda máli mínu til streitu – eyða í það tíma og orku og uppskera svo kannski eitthvað sáralítið. Amk miðað við orkuna sem ég legg í málið.

Ég fór ekki í sundleikfimi – ákvað að blogga í staðinn – brenni nú líklega ekki neinu svipuðu. Ég hef verið algjörlega ómöguleg síðustu daga í hálsinum – finnst ég ekki eiga mér viðreisnar von go skil ekki afhverju ég er í vinnu yfirleitt. Dagurinn dugar mér ekki til neins og orkuleysið er algjört.

Eftir nálarnar á mánudaginn lá ég fyrir og leið eins og ég væri fótbrotin. Ég missteig mig svo oft á vinstri fæti þegar ég var krakki og unglingur og nálarnar lögðust á liðböndin þannig að ég gat ekki gengið nema með staf svo ekki sé minnst á hælsporann sjálfan sem bókstaflega var eins og logandi hnífur í hælnum á mér. Ég var enn mjög aum í gær en er miklu skárri í dag og ég finn fyrir undarlegum léttleika í hælnum – kannski er bólgan að minnka – nálarnar að bera árangur. Þær virka amk alla jafna ákaflega vel á mig.

En nú ætla ég að fara að búa mig fyrir skólann kennsla til þrjú í dag – hrein klikkun náttúrulega. Vonandi kemst ég í gegnum þennan dag – og þann næsta líka.

Takk fyrir að deila lífi mínu með mér

Ings

Nú árið er liðið I

Nú nálgast uppgjör ársins. Þetta hefur verið viðburðaríkt ár í meira lagi og full ástæða til þess að gera því skil. En það er e.t.v. ekki úr vegi að skella stöðunni í dag upp á þetta blessaða blogg.

Mér líður á stundum sem ofskreyttu jólatré og miðarnir eru ekki allir sérlega fallegir eða skemmtilegir. Sumir þeirra eru eldri en aðrir en allir eru þeir mér á einhvern hátt ókunnuglegir þó svo að ég hafi átt að kannast við þá suma.

En amk er staðan sú í dag að mér finnst eins og þeir hafi aldrei þvælst fyrir mér sem nú :-). En það er líklega vegna þess að ég er að gera eitthvað í þeim.

Áramótaheitin hljóta að tengjast þessum miðum öllum saman – svo mikið er víst.

Með því að smella á myndina er hægt að sjá hana stærri

Góðan daginn!

Ég held það séu 7 dagar til jóla.

Það eru 3 dagar eftir í skólanum.

Og ég á eftir að gera mjög margt:

  • Kaupa allar jólagjafirnar og sýsla með þær – pakka inn og koma á sinn stað
  • Skrifa jólakortin – öll 70 eða hvað þau eru
  • Gera nokkrar jólagjafir sem mér finnst endilega að ég ætti að gera!
  • Kaupa allt inn til jólanna
  • Finna á mig einhver föt sem ég get verið í sem og fyrir Pál
  • Vorkenna Páli svolítið – það er heilmikil vinna skal ég segja ykkur
  • Athuga með jólatré – afhverju langar mig allt í einu í gervijólatré – nokkuð sem ég hef aldrei þolað?
  • Hætta að vera svona þreytt – afhverju er ég svona þreytt? ÉG meina hvers þreyttur getur maður verið.

Verst af öllu er að ég er á sælgætisfylleríi. Hef ekki guðmund um hvernig ég á að stöðva það. Og Styrkur er svo ógó staður að ég get ekki hugsað mér að stunda neina hreyfingu þar innan daga.

Áformin eru þó fögur og fín – sund og göngur næstu daga. Ég treysti á að Páll hjálpi mér við að koma mér af stað í þær – því mig svo sannarlega veitir ekki af hvatningunni og jafnvel toginu út fyrir hússins dyr.

En nú ætla ég að smyrja kremi á sörur, kíkja á pippmarengeið og jafnvel finna til handavinnuna og stilla henni upp á vel sýnilegan stað og ég geti gripið í hana á milli þreytuofsakastanna.

Lof jú Inga þreytta sem er búin að fatta allt mögulegt en er nú ekki farin að nýta sér það á nokkurn hátt – ja nema þá þannig að ég er ekki að drepast úr geðvonsku – bara þunglyndi 😉