Svona líður nú tíminn hratt á Þunguvöllum.
Síðasta dýfa stóð í einhverjar vikur – tvo mánuði kannski. Hún svona rjátlaðist af mér og mér finnst ég bara vera nýfarin að skynja litina í veröldinni á ný. Og þá kemur önnur. Og allt er þetta náttúrulega mjög aumingjalegt (takið eftir hvaða orð ég nota – vinsælasta orðið í síðustu dýfu). Þetta er ekki einu sinni almennilegt þunglyndi. Bara blues sem ég þoli ekki nema hæfilega vel.
Fór á vigtina í dag – var tveimur kílóum þyngri en ég var fyrir hálfum mánuði – það var nú alveg til að toppa liðanina. Enda í skemmtilegum takt við aumingjabraginn á mér. Ég veit ekkert hvaðan þessi kíló koma. Verð bara að skrifa dagbók og taka almennilega í lurginn á mér hvað mataræðið varðar. Kannski er þetta bara líka að breyta um æfingar – ég hef tekið eftir að það hefur alltaf smá áhrif. Kannski er þetta bara áfengið sem ég neytti um síðustu helgi. Þessi kíló eru ekki einu sinni stóra málið – veit alveg hvað þarf að gera til að losa mig við þau. Þau taka heldur ekki frá mér að ég er búin að brenna 3300 hitaeiningum þessa viku og brenndi 5400 í síðustu viku. Þau taka heldur ekki frá mér að ég fer alltaf í ræktina, gönguna, sundleikfimina og hvað þetta heitir allt – alls 7 skipti á viku. Það á ég bara og kalla mig samt aumingja. Svona getur þetta verið.
Geri bara eins og Sáli sagði – fylgist með ástandinu – kortlegg það og reyni svo að bregðast við eftir mætti. En það má víst ekki streitast á móti heldur vinna með þessum fjára. Ég get skilið það. (get samt eiginlega ekki skilið þessi 2 kg en skítt með það).
Það er matarboð á vegum skólans í kvöld. Ég get ekki hugsað mér að fara – og ég get ekki hugsað mér að fara ekki.
En stundum er maður bara ekki upplagður.
Og mér finnst hræðilegt að fara bara einu sinni í nudd á viku – þó mér finnist í sjálfu sér ekki svo hræðilegt að þurfa bara að fara einu sinni :-).


