Bjargir

12495148_10205875965995361_618195820622227219_nÞað hef ég lært að ég þarf stuðning til þess að stíga upp. Og hann hef ég svo sannarlega.

Af öllum þeim sem áttu sinn þátt í því að ég náði árangri frá 2006 til 2012, var það sjúkraþjálfarinn sem skipti þar mestu – að öllum öðrum ólöstuðum. Og þó niðursveiflan hafi verið kröpp, lúrði það sem ég hafði lært og þjálfað og beið þess að vera nýtt á ný.

Það þurfti mikið til að leita til hans á ný, þyngri og þrekminni en þegar hann hafði mig síðast í meðferð. Miklu…. Um tíma gat ég hreinlega ekki hugsað mér að horfast í augu við hann – og þar með ósigur minn. En slíkur heigulsháttur dugir ekki. Til þess að sigur vinnist þarf að horfast í augu við sigur jafnt sem ósigur – og nú er ég komin undir hans hendur á ný. Og það finnst mér gott.

Fjölskyldan er mér líka stuðningur og hvatning. Hver vill ekki vera fær um að sinna barnabörnum sínum, ganga með þeim og sýna þeim náttúruna, kenna þeim um dásemdir náttúru, gróðurs sem staða? Minnka áhyggjur barna og maka? Það er íþyngjandi að hafa alvarlega offitusjúkling í fjölskyldunni – gleðin og stoltið sem sést í augum þeirra, þegar kerla kemur úr sundi eða ræktinni er umbun engri lík.

Vinir og kunningjar. Það er ótrúlegt hve mikil áhrif þetta fólk getur haft – líka kunningjarnir. Nú eftir að ég kom suður hafa margir komið að  máli við mig, og marga hef ég hitt – oftast í sundinu – og þeir muna eftir dugnaðinum og eljunni og eru vissir um að ég muni upp rísa – sannfærðir því hugmyndir þeirra um mig eru þær. Dásamlegt að finna þetta – því það að vera innan um fólk sem hefur þekkt mig og þekkir mig er góð tilfinning. Virðir mig vegna þess sem ég er og geri. Ómetanlegt.

Góð íþróttaaðstaða. Nú er ég komin í áskrift hjá WorldClass og í sundlaugina. Það er algjörlega nauðsynlegt og aðstaðan hér á Selfossi er hreint frábær. Ég vonast til þess að komast í vatnsleikfimi í haust og vetur – ég mun keyra frá Laugalandi og aftur til baka með glöðu geði  – tímanum frá sex að morgni vel varið!

Góðviðri

Það er sama hvort það rignir eldi og brennisteini, snjói eða skafi; það er komið vor. Þegar ég kom út í morgun þá bara hviss bang búmm. Grasið orðið grænt og hlýindi í lofti. Ekki slæmt.

Af þessu tilefni hef ég hengt þvott út á snúrur. Verst að það er ekki sérlega mikið sem þarf að þvo að þessu sinni – en það skemmir svo sem ekki að sleppa við þvotta. Ég sé til hvort ég finni ekki einhver rúmföt og teppi og slíkt sem gaman væri að þvo ;-). Yndislegt að geta hengt út og látið þorna þar nú þegar maður er þurrkaralaus. En hvað um það.


Ég fór í sund og buslaði í 30 mínútur og brenndi 550 hitaeiningum þannig að dagskyldan er að baki þar. Ég er á góðu róli varðandi markmiðin. Með styrkferðinni á morgun þá er ég í 1200 í plús sem er ágætt því sundleikfimin er dottin út en morgungangan 5 daga vikunnar ætti að vinna það upp – sérstaklega ef ég lengi hana svolítið. Best er að vera kominn upp í skóg rétt rúmlega sex þá hefur maður góðan tíma þegar heim er komið að finna til nesti og borða morgunmat.

Nýjustu fréttir að vöðvauppbyggingu er að nú er bakið að taka við sér. Það hefur breyst gríðarlega nú undanfarið, herðablöðin farin að standa út eins og á venjulegu fólki – og ég farin að sjá til þeirra í fyrsta skipti í áratugi held ég að ég megi segja. Vöðvarnir sem liggja við hrygginn – yfir rifbeinin og við mittið eru líka sprækir. (verður gaman að fá nýja tölu yfir mittisbreidd mína – ég hlýt að vera grennast þar svolítið um þessar mundir). Þetta gengur sem sagt rosa vel og ég fór ekki á vigtina í gær – onei og ætla ekki fyrr en á föstudaginn. Það verður bara að koma í ljós hvað stendur á henni þá. Kannski að víndrykkja og eitthvað slugs sé nóg til að skemma fyrir – en á móti kemur að ég hef verið nokkuð dugleg í mataræðinu – kvöldmaturinn er samt svolítið vesen, þarf að halda áfram að vinna að betrumbótum þar.

Í dag ætla ég að njóta lífsins, safna kröftum, fókusa, syrgja Sunnulæk og að þessu öllu loknu get ég farið að horfa til framtíðar. Hún bíður þarna með útilegur, göngur og sprikl. Ég hlakka mjög til að ári þegar vonandi verða farin 24 kg í viðbót. Ég verð ekki nein léttavara þó svo fari – en ég verð allt önnur trúi ég. Við þetta bætist allt að ég hef ekki bara grennst heldur hefur holningin á mér gjörbreyst. Manneskja sem æfir af sama kappi og ég hlýtur að hafa öðlast mikinn styrk og breytta líkamsbyggingu eftir 12 mánaða hörku púl. Ég held meira að segja að ég sé farin að finna það á eigin skinni.

Betrumbætur

Jæja – sá að mig langaði svo rosalega mikið í bikar frá Polla að ég ákvað að drífa mig í sund. Þar eyddi ég 1000 kaloríum – ég synti eins og brjálæðingur, gerði armlyftur á stökkpallinum alveg áreiðanlega 100 50 m skrið og svo 20 lyftur nokkrum sinnum. Svaka púls sem fékkst út úr því – næstum eins og á pöllunum, svo hljóp ég eins og fjandinn væri og tjú tjú 1000 kallar fuku – og ég er ekki nærri eins viss um að ég sé letihaugur eins og ég var fyrir stundu! Tjú tjú trallala.

Það gengur náttúrulega ekki að liggja bara og vera latur – eins og hún lata Stína á lækjarbakka!

Það var samt leiðinleg margt fólk í sundi. En maður lætur sig hafa það. Nú ætla ég að hugsa um hvort ég ætti að fá mér svolítinn vodka, vínber og ost eða bara vín – bara vínber eða eitthvað.

Ég gæti líka tekið til í geymslunni… Úff púff – er ekki viss um að Palli nenni því samt…

Sigh

En lífið er samt býsna gott. Oh yeah

Góður sunnudagur

Stjörnuspáin mín gerir ráð fyrir miklu rifrildislofti í kringum mig í dag – ég veit ekki við hvern ég ætti að rífast. Ég sit nú bara ein á mínum rassi – hef ekki mikinn félagsskap satt að segja nema af Bjarti þá helst. Og ekki má gleyma Aðalsteini sem virðist vera að finna sjálfan sig í fárviðri unglingsáranna. Það er þakkarvert. Blessaður litli unginn minn. Hann er stundum heima. Við erum þó oftar en ekki hvort í sínum heimi.

Ég gleymdi sundbolnum mínum og nemanum hans Polla í sundi í gær. Ég er farin að gleyma öllu mögulegu hér og þar. Svoldið leiðinlegt verð ég að segja. En vegna þess að beltið hans Polla er fjarri mér þá líður mér eins og það vanti eitthvað stórkostlegt í tilveruna – sjúkket að ég fattaði þetta ekki í gær – þá hefði ég ekki sofið af áhyggjum. Mér líður svolítið eins og þegar ég þarf að skilja bílinn einhvers staðar eftir. Það er skelfilegur aðskilnaðarkvíðinn skal ég segja ykkur ;-).

En svolítið um svefn: Mín er bara farin að sofa eins og engill. Rumska kannski við og við yfir nóttina en það er allt annað en vera að vakna margoft og nokkurn tíma í senn. Ég var t.d. bara farin að sofa svolítið snemma í gærkveldi og svaf í þokkalegum rikk til bara að verða sjö. Það finnst mér ekki amalegt. Alltaf 7 tíma svefn með smá meðvitund við og við. Batnandi konu er best að lifa.

Ég er með nettan seiðing og fiðring í herðunum eftir sundið en það helsta sem er að pirra mig líkamlega núna – því trust me – það er alltaf eitthvað sem ég finn fyrir, eru ristarnar. Mér er svooo illt í ristunum – það er sama hvernig ég teygi fetti og bretti upp á tærnar, kálfana og hvað þetta er allt saman alltaf er ég jafn aum í ristunum. En það hverfur nú áreiðanlega innan tíðar.

Hælsporinn liggur þarna niðri og dormir. Finn að ég þarf að passa mig verulega á honum – var t.d. aum eftir sundið í gær enda reyna blöðkurnar svolítið á fótinn. Mest þarf ég að passa að vera með mjúkt undir hælnum og teygja vel. Kannski bara hviss pang fer hann í langan dvala. Ég hef amk stórkoslega lagast við nálastungurnar – eins ógeðslega vont og það var á köflum. Það var þess virði samt.

En nú ætla ég að nota tímann vel og vinna svolítið – svona fram til tólf og reyna ekki að hugsa um beltið sem okkur Polla vantar. Það hlýtur að hafa verið tekið til handagagns eins og sundbolurinn.

Áfram svo

Ykkar Inga

Smá um hvað hælspori sé. Reyndar er það ekki alveg rétt þarna að það séu bara íþróttamenn sem stunda íþróttir sjaldan s.s. eins og bara um helgar sem fá þetta – þetta er mjög algengt hjá langhlaupurum til dæmis. En rétt er það sem segir þarna að þetta er ógeðslega vont 😉

Hvað er hælspori?
Spurning: Hvað er hælspori? Hvað veldur þessum sjúkdómi og hver er meðferðin við honum?
Svar: Fóturinn er eins og spenntur bogi þannig að maður stendur aðallega í hæl og tær. Það sem heldur boganum uppi er sinabreiða sem festist í tærnar að framan og hælbeinið að aftan. Í hvert skipti sem maður stígur í fótinn kemur álag á hælinn sem getur verið allt að því tuttuguföld líkamsþyngdin. Þetta álag dempast af fitupúða sem er undir hælbeininu og áðurnefndri sinabreiðu. Við langvarandi mikið eða rangt álag á fótinn geta orðið skemmdir á sinabreiðunni og festingu hennar á hælbeinið. Þessar skemmdir geta verið á formi tognunar, smásprungna og að lokum beinmyndunar í sininni þar sem hún festist í hælbeinið. Þarna getur myndast lítið beinhorn sem kallast hælspori. Einstaka sinnum finnst hælspori fyrir tilviljun án þess að hafa valdið óþægindum en oftast veldur hann óþægindum sem geta verið mjög mikil. Þessi óþægindi lagast í hvíld en þau eru vanalega mest á morgnana þegar farið er á fætur. Ef þrýst er undir hælinn er það mjög sárt.Orsakir hælspora eru of mikið álag á fótinn og oftast er um að ræða miðaldra, of þunga einstaklinga eða þá sem stunda erfiðar íþróttir einstaka sinnum, t.d. um helgar. Það eykur einnig áhættuna ef ekki er hitað upp fyrir íþróttaæfingar.Mestu máli skiptir að koma í veg fyrir að hælspori myndist strax og einkenni um óeðlilegt álag á fótinn gera vart við sig með þreytu og verkjum eftir áreynslu. Þá verður að minnka álagið og gera viðeigandi æfingar, einkum teygjuæfingar sem strekkja á kálfavöðvum og sinabreiðunni undir fætinum. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að það er ekki hælsporinn sem slíkur sem veldur verkjunum heldur er hann afleiðing af langvarandi of miklu álagi á fótinn. Sjúkdómsgreining byggist á sjúkrasögu með lýsingu á verkjunum, skoðun á fætinum og röntgenmynd.Þegar hælspori hefur myndast kann að virðast freistandi að fjarlægja hann með skurðaðgerð. Árangur slíkra aðgerða er slæmur og er reynt að forðast þær í lengstu lög. Í staðinn er ráðlegt að gera viðeigandi æfingar, nota heppilega skó og innlegg, taka bólgueyðandi lyf og stundum er sprautað bólgueyðandi barksterum í hælinn. Þetta ber venjulega einhvern og stundum góðan árangur.

Margt í mörgu

Sko ég elska samt Óla Stefáns -eða kannski einmitt vegna þess!

Ekki orð meira um handbolta.

Ég er ekki nógu dugleg í mataræðinu. Ég er hins vegar mjög duglega í hreyfingunni þó ég sé ekki eins yfirnáttúrulega dugleg og í sumar og haust en það á nú sér sína eðlilegu skýringu. Ég er í mjög erfiðri vinnu sem tekur út á mér.

Ég þoli ekki að ég sé að borða of margar hitaeiningar!

Af ofansögðu má sjá að ég steig á vigtina í gær! Það eru alltaf mjög slæmir dagar sem fylgja í kjölfarið. Það er alveg sama hvernig mér gengur mér finnst mér aldrei ganga nógu vel. Og þá skiptir engu máli að ég sé með hælspora dauðans og háls sem ber ekki uppi höfuðið. Set það ekki í nokkurt samhengi. Ef ég væri ekki að hreyfa mig svona mikið þá væri ég að þyngjast hugsa ég! Og samt þykist ég vera í einhverju aðhaldi – ja eða ekki…

Er líklega ekki í neinu aðhaldi því ég borða bara næstum það sem mér sýnist!

Ég bjó mér til matardagbók um daginn – sem náði yfir um 10 daga held ég. Þegar ég byrjaði að skrifa í hana ætlaði ég bara að skrifa niður allt það sem ég borðaði en ekki vera að breyta neinu til að fegra hana. Svo átti að hefja gáfulegt át með nýrri bók. Nú er komið að því.

Ekki í dag samt og ekki í gær- fuss og svei! Á morgun fer ég í Bónus og versla gáfulega inn og verð eins og manneskja í febrúar – reyni að taka þetta með trukki.

Baldur var svo sem ekki svo óánægður með bókarskrifið – finnst reyndar að hann hefði átt að vera óánægðari – held hann sé með aumingjagæsku í garð mín! Enda er ég svo sem ekki í neinum firna góðum gír.

Háls og herðar stífari en um langa hríð. Ég fékk nálar í gær og ég á alltaf góðan dag í kjölfarið. En þær virka svo sem ekki mikið lengur en það. En ég svaf fyrir vikið algjörlega dásamlega í nótt með smá hjálp lyfja að auki :-).

Ég fór svo í fínan göngutúr í Þrastarskóg í morgun og brenndi næstum 600 kal – fín ganga það. Sökk og rann og skautaði og því reyndi vel á kálfana. Hælsporinn bara þokkalegur. Við eigum eftir þrjú skipti í nálameðferðinni varðandi hann.

Baldur vill ég hætti að synda og sjái til hvort hálsinn lagist.

Ég fer þá í sundleikfimi, oftar í salinn (veit ekki alveg hvenær ég á að hafa tíma eða orku í það – sundið er nefnilega miklu meira slakandi en helv… salurinn).

Mér finnst ægilegt að hætta að synda. Það er svo gott að fara um kvöldmatarleytið… en það er kannski bara hreinlega ekki gáfulegt…

Ég svo sem hætti því í sumar þegar ég fékk í hálsinn og lagaðist en ég var ekki í sundi í haust þegar ég fékk í hálsinn síðast -en það er kannski ekki til að bæta ástandið.

En ég átti góðan dag í gær – fínan fram að þessu í dag.

Nú fer ég að hvíla mig og kannski get ég lært á morgun. Það væri frábært.

Það væri bara frábært ef mér gæti liðið svolítið betur punktur!

Og svo er ég búin að læra á ownzone hjá Polla. Polli er hins vegar með leiðindi við mig og skilur ekki að brennslupúlsinn minn er frá 96 eða svo – hann er með rugluna varðandi það og ég verð að reyna að koma vitinu fyrir hann.

annars vill hann stundum að ég sé á moderate hjartslætti en ég er alltaf í light að hans mati. Það er eiginlega þar sem okkur greinir á. En ætli mér takist ekki að gera hann meðvirkan eins og alla!

Af Polla og Ingu

Það tekur eitt æðið við af öðru! Nú er það Polli sem er æði. Hann sér um að halda utan um púlsinn minn á æfingum og telur samviskusamlega hitaeiningar sem ég brenn. Hann segir að á æfingum sé ég búin að brenna 2910 slíkar þessa viku. Ég er svo illa áttuð og vitlaus að ég veit ekki einu sinni hvað það merkir. Ég veit hins vegar að ég á að borða 3200 hitaeiningar á dag miðað við hreyfingu og þyngd og hæð og það þýðir að á æfingum hef ég næstum eytt dagsskammti af mat.

Og þá komum við að því sem er náttúrulega það sem er að pirra mig meira en ég kæri mig um að viðurkenna: Mataræðið. Ég náttúrulega verð að fara að skoða það ítarlega. Og það þýðir skráning og vesen alveg út í eitt og þá má hann Polli nú fara að vara sig – og gott ef ég tek yfirleitt eftir Kimi á rauða bílnum þegar að því kemur!

Í gær fór ég í afmæli hjá Árna á Bíldsfelli og það var svo skemmtilegt. Ég fór í pæjuskónum mínum og nýjum fötum með hárið mitt sérkennilega 😉 vel greitt – bara hugguleg. Og það var voða gaman að hitta alla vini mína þarna og þeir voru svo glaðir með mig og þótti ég líta svo vel út enda nokkuð um liðið síðan flestir þeirra sáu mig. Þetta var svona egóflipp kvöld – gott fyrir sálina vona ég. Virkilega skemmtilegt kvöld og gaman að hitta gömlu sveitungana.

Í dag fór ég í sund og gleymdi sundhettunni og gleraugunum og fannst þá bara rétt að fara í pottinn en hviss bamm þá fattaði ég að ég gæti hlaupið smá og synt á bakinu og ég gerði það og brenndi skoho helling af hitaeiningum og komst að því að ef ég syndi bakskrið þá næ ég púlsinum langbest upp og brenni þar af leiðandi meiru. Þannig að baksund here I come ;-).

Í fyrramálið er það sundleikfimi og þá kemur betur í ljós hvernig það kemur út. Ég veit að þetta er frábær tími að stunda hreyfingu en ég þarf að átta mig betur á því hvernig ég næ sem mestu út úr þessu. Ég þarf að sjá að þetta skili mér meiru heldur en t.d. 30 mín sund og hlaup í útilauginni en þá ber náttúrulega að hafa það í huga að ég er lengi að koma púslinum upp á morgnana. Ekki alveg sambærilegt.

Á morgun er sem sagt mánudagur og svo kemur hryllingsþrennan – þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur. Það er alltof mikið að kenna þrjá daga í röð frá 8 til 2 og þrjú. svona mörgum krökkum. Það ætti eiginlega að banna það!

Mont

Sko stundum þarf maður að pakka í vörn og verjast árás s.s. eins og pínu þunglyndis og jóla – og þá ekki síður áramóta og janúars!

Nú það er skemmst frá því að segja að ég hef ekki þyngst frá því fyrir jól og þar til nú nema ef ég skyldi telja með 200 grömm eða svo sem ég ætla ekki að gera!

Ég er rosa ánægð með það. Ég er svo sem ekkert himinlifandi með árangurinn í haust – það hefur lítið farið af kílóum síðan í október en ég ætla samt að vera ánægð að hafa náð því markmiði mínu að hanga á fengnum hlut yfir hátíðirnar.

Í dag brenndi ég 550 kal í sundi! Persónulegt met skal ég segja þér! Enda fékk ég bikar frá Polar vini mínum!
Í dag hef ég borðað tvær skyrdollur, banana, epli, kjúklingasalt, 400 gr grænmeti og fisk með smjörklípu. Ég hef líka drukkið rúman lítra af vatni.
Í dag fór ég í langþráð nudd og fékk bylgjur á hælinn. Er að vísu algjörlega ógöngufær eftir þær en af fenginni reynslu þá veit ég að þær hjálpa.
Í dag fór ég í toppsport og sá ekki Helgu Dögg og ég áttaði mig ekki neitt á neinu! Þeir verða nú að vinna svolítið meira í þessu svo ég fái einhvern botn í þetta. Finnst þetta allt mjög þröngt og sérkennilegt verð ég að segja.

Á morgun ætla ég að drekka meira af vatni og fara í sund.
Á morgun ætla ég að borða 600 gr af grænmeti!

Á miðvikudag ætla ég að byrja í sundleikfimi hjá Betu. Ég er í eitthvað svo miklu sundstuði.
Hún byrjar korter fyrir sjö og er búin hálf átta – sem þýðir að ég kem út í skóla sprikluð og fín og fæ mér eitthvað að borða þar :-).

Dagskrá

Nú dugir ekki annað en skipulag og afslappelsi hugans um leið:

Dagur 1 (í dag)

Þrífa húsið og koma því í jólabúning.
Þar með taldara skúffur í eldhúsi sem eru orðnar óleyfilega – já svona einhvern veginn öðruvísi en þær eiga að vera!
Klára Sörurnar sem döguðu uppi um síðustu helgi
Hringja og athuga með ísskáp
Koma jólatré inn
Fara í Blómaval og athuga hvort eitthvað fallegt skraut sé til á það (allt í einu á ég ekkert jólatrésskraut!)
Fara í sund og nudd – muna að frysta kortið mitt fram yfir áramót
Reyna að týna ekki sjálfri mér
Búa til merkilegan innkaupalista fyrir morgundaginn
Viðbót – gera ræðustúf
Vera tilbúin með Kiðjabergsdótið!

Dagur 2 (á morgun)

Fara til Reykjavíkur og versla ALLAR jólagjafir Þær eru allnokkrar!
Koma við hjá Ása
Koma við hjá Hlíf
Reyna að koma pökkum í Borgarfjörðinn
Fara í Hagkaup og athuga með matarinnkaup
Svo ekki sé minnst á BÓNUS!
Fara í fertugsafmæli um kvöldið – já sem þýðir að á degi 1 þarf ég að undirbúa hana
Vera komin ekki mjög seint heim

Dagur 3 – Þorláksmessa

Pakka inn gjöfum
Njóta lífsins
Fara í sund og SLAKA á
Sjóða hangikjöt ummmm nammi namm
Þorláksmessusnúningar

Þetta eru jólin!

Hóhóhó

Já já er þetta ekki bara allt að gera sig?

Ég fór í sund í dag og synti smá – en þó alltént í 20 mín og ég fór líka í mjög sérkennilega göngu með Bjart í morgun – þeir voru ekki margir metrarnir sem voru lagðir að baki frá húsinu en þeim mun fleiri á sama blettinum hér fyrir utan – ný tækni í uppeldi Bjarts – nánar um það síðar ;-). En frábært að fara út og hreyfa sig. Mér finnst það yndislegt að skondrast úti – miklu betra en að fara í Styrk á morgnana er bara ekki að fíla það um þessar mundir.

Sem sagt fyrirmyndardagur í hreyfingu í dag finnst mér miðað við allt og allt.

Er að fara að sofa – já já fyrir níu

Fer út með stubb í fyrramálið og já ég skrifaði allnokkuð af jólakortum – það væri þó ekki að jólakort yrðu send héðan ekki síðar en einum degi eftir síðasta séns? Ja það væri það 😉

Elska ykkur – verið góð og munið að slappa af og þið vitið – ég mæli með sundi ;-).

Ykkar Inga sem át 6 smákökur og 1 kakóglas…

SIGH

Sund er slakandi

Fór í sund og heitan pott.

Synti 800 metra og var sko með fínan brennslu púls.

Bara ánægð með mig og stefni á gott líf í næstu viku. Með sundi fyrst og fremst og göngu.

Er það ekki bara gott plan? Það er amk mjög slakandi að fara í sund svo mikið er víst og ég held ég þurfi smá slökun um þessar mundir.

Lof ja

Ingos