Eitthvað að frétta?

Sigh

Það hefur svo margt gerst og ég hef hugsað svo margt að það er ekkert venjulegt! Það er heldur ekkert venjulegt hvað ég er þreytt á mér! Í grunninn er allt í voða og vitleysu. En ég ætla ekki að tala um það. Ekki strax að minnsta kosti. Ég ætla að segja ykkur frá öðrum spinningtímanum mínum – en eins og má lesa hér hef ég farið í einn tíma áður!

Þriðjudagur var annasamur dagur. Ég var mætt út í skóla fyrir sjö, var eitthvað að stússast og já reyna að gera fyrirlesturinn fyrir Grandaskóla þar sem ég átti að tala í 60 mín en ekki 30 því meðfyrirlesarinn minn forfallaðist. Það gekk allt vel.

Svo kenndi ég svoldið og stressaði mig svolítið upp og taldi mér trú að það væri ægilegt mál að tala við aðra kennara um sjálfa mig – sem það var nú svo sem ekki. Bara gaman að hitta þau. Og það er líka gaman að tala um sjálfa sig oh já. Nú jæja nóg um það – brunaði heim og var komin að verða hálf sex.

Og þar sem ég er svoldið klár og farin að þekkja mína þá skráði ég mig og Sigurlín í spinning á mánudaginn því ég VISSI að ég myndi skoho ekki gera það á þriðjudag – of margar afsakanir komnar þann daginn – annir og það allt saman þið vitið.

Þar sem ég kom heim reifst ég svolítið við yndið mitt og ást – soninn, hljóp svo út með tárin í augunum yfir því að vera ekki betri í samskiptum og skilningsleysi hans og veraldarinnar á nauðsyn þess að stundum bara þyrfti ég aðstoð við einföldustu verk – stundum væri þetta mér bara ofviða. Nú þar sem ég þurrkaði tárin hentist ég af stað svo þreytt að ég reyndi að hugsa ekki einu sinnum það sem biði mín. Strúts-syndromið getur komið sér vel you know!

Henti mér upp á fákinn og beið þess sem koma skyldi (ég man eitt – mér fannst stiginn upp á loft í Styrk einu sinni alveg ógeðslega langar og ég er viss um að ein ferð upp hann í febrúar hefði farið með mig í margar mínútur – verið mér næg heilsurækt þann daginn) Ég var búin að æfa mig að stíga rétt á pedalana og halda það út á sunnudaginn og vissi því hvað beið mín – verkir í ökklum, ristum og KÁLFUM – er bara vont fyrst þið vitið. Það var ekki liðið nema svona korter af tímanum þegar við Sigurlín litum á hvor aðra í gegnum svitataumana og mæltum næstum í kór: ,,Er þetta ekki svoldið erfiðara en síðast?!“ O jú dear þetta var það skoho.

En við vorum nú glaðar í kjölfarið því þjálfarinn sagði að nú biði stutt lag og við bara sögðum enn í kór ,,Hjúkket“. En lengra stutt lag hef ég nú ekki komist í tæri við og ég hélt ég myndi andast þar og þá – stíga niður með hælunum, halda hnjánum beint fram – halda andlitinu! Ég skyldi sko ekki gefast upp þarna fyrir framan þátttakendur oh nei og ég skyldi ekki heldur hjóla hægast eða með léttara en aðrir – öðru nær. Reyndi svona að líta sæmilega út við hliðina á Sigurlín hetjunni minni. Verða henni ekki til skammar. Lagið reyndist 6 mín og með lengsta sólói sem fyrirfinnst í lokin! Og þá átti að hjóla hratt! Og þar sem ég sá að sjálfsvirðing mín yrði of dýru verði keypt eða vernduð af dauða mínum ákvað ég bara að hætta – skrækir þá ekki þjálfarinn: ,,ÁFRAM!!!!“ og hvað gat ég annað gert en sett upp hetjusvipinn og hjólað sem aldrei fyrr. Ætlaði sko ekki að vera með einhvern aumingjabrag á þessu – nóg að feitt fólk sé mesta heilsufarsáþján vestrænna þjóða þó ég opinberi það ekki á almannafæri! Og tíminn var bara ekki svo langur eftir allt saman! Og ég var á lífi! Og gat gengið! Haldið jafnvægi og andað með alveg ágætum!

Í skemmstu máli skjögraði ég niður stigann á heilaumum iljum og ökklum og ég var enn móð þegar ég kom úr sturtu! Sigurlín brenndi 580 kaloríum í tímanum! Verð ég ekki að vona að ég hafi verið hálfdrættingur – nóg dj… lagði ég á mig.

Ég komst út í bíl og emjaði undan hverjum steini sem ég steig á, aumari í ökklunum en leyfilegt er og hvað er þetta eiginlega þarna undir fótunum – hælspori og hvað fleira???? Ég íhugaði það af fullri einurð og hjartans einlægni að sofa í bílnum þegar ég var komin í hlaðið heima en þá sá ég á hitamælinum að frostið væri líklega meira en svo að ég færi vel út úr því. Opnaði hurðina, setti annan fótinn varlega út og reyndi að koma hinum líka – sem tókst, opnaði afturhurðina og horfði á íþróttatöskuna – lyfti henni með báðum höndum 3 cm frá sætinu og lagði hana þá frá mér – hún var of þung til að ég gæti bætt henni á mig inn. Hún yrði að bíða næsta dags blessunina.

Steig inn fyrir þröskuldinn og sagði: ,,Það verður Pizza í kvöld Aðalsteinn!!!“ Reyndi svo að vera á stjákli þar til ég gat farið að sækja hana því ég vissi að þegar ég settist þá myndi ég aldrei geta staðið upp aftur!!!!

Hafi ég sagt að spinning væri easy í fyrri pistli mínum í ofsafenginni gleði yfir því að lifa hann af, þá er það ekki allskostar rétt elskurnar – það er púl! En svo fattaði ég að til að bæta gráu ofan á svar að ég hafði ekki teygt nóg (-Muna verð að teygja meira eftir tímann) gerði svolítið af teygjum í gærkveldi og það má segja að ég sé göngufær í dag 😉 En harðsperrur er ég með í fótunum maður lifandi -holy molly.

Sem sagt viltu alvöru púl?- Farðu þá í spinning og gerðu þitt besta og aðeins meira – til að halda feisinu!

Annað læt ég liggja á milli hluta, það er ekki í sem bestum farvegi 😉

Fyrsti spinningtíminn að baki!

Þegar ég fór að nota skó-myndir á bloggið mitt var þetta fyrsti skórinn sem ég notaði. Óskiljanlegt satt að segja – mér finnst hann ekki flottur en pistillinn var samt jákvæður – var í ágætri uppsveiflu í maí. Var að ná áttum eftir að hafa verið meðvitundarlaus eftir hverja Styrksferð – var að byrja að synda og bara spræk. Svo átti náttúrulega eftir að syrta í álinn en það birtir alltaf til – vona ég 😉

En ástæðan fyrir því að ég set þennan skó er af því að hann var notaður þegar ég var kannski ekki í alveg eins góðu standi og ég er núna, og líðan mín núna minnir mig kannski svolítið á líðan mína eftir fyrstu viðureignirnar við salinn!

Ég fór sem sagt í spinning tímann – heltekin af stressi og kvíða og minnug allra þeirra sem gripu andann á lofti þegar ég sagðist ætla í spinning! Oh my god var eiginlega það eina sem ég hugsaði í allan heila dag ;-). En ég fór nú samt og Sigurlín var líka – það var nú ágætt að hafa einhvern með sér (ég er nefnilega í svona brennslu átaki í huganum amk, finnst ægilega mikilvægt að brenna um þessar mundir – ein manían til myndu sumir líklega segja!). Fegnust af öllu í heiminum er ég samt að Baldur skyldi hafa farið með mér upp í dag og kennt mér á hjólið… Ég held ég hefði nú ekki orðið eldri ef hann hefði ekki fundið það upp hjá sér – ekki hafði ég vit á að biðja um það (ægilegt að viðurkenna rauverulega veikleika) Þá líka minnkaði kvíðinn aðeins – ja hann kom svona meira í holskeflum:

Ég yrði mér til ævarandi skammar innan um einhver þvengmjó sportidjót – gæfist upp eftir 30 mín (já eða 10) og gæti ekki baun í bala. Reyndi svo að segja við mig að ég hefði nú verið að hjóla niðri og oft alveg án þess að stoppa og á einhverjum prógrömmum – ekki bara svona að gaufast. Ég meina það er enginn sem stillir hjólið fyrir mann eða lemur mann áfram með svipu þannig að varla væri þetta spurning um líf eða dauða- ég gæti þá bara hætt ef ég gæfist upp. Já og ég tæki nú stundum 50 mín í brennslu án þess að stoppa nema til að færa mig af skíðunum á hjólið…

Ég segi nú ekki að þetta hafi verið – ekkert mál, en þetta var ekkert stórmál. Verst var að ég fékk undir iljarnar – hef eitthvað stigið vitlaust í – þarf að laga það næst. Því ég ætla nú aftur nema ég sé því verri á morgun og hinn :-).

Sem sagt mín bara búin að sigrast á þessum hjallanum – svona þar til næst! Nú veit ég hvað hver tími er langur og að það er stoppað eða allt að því á milli laga og að ég kemst bara ágætlega í gegnum þetta. Er kannski ekki sérlega sleip í sprettunum en því því betri þegar þyngdin er meiri. Nú veit ég um hvað þetta snýst :-).

Það rifjast upp fyrir mér hvernig mér leið fyrst eftir að ég fór í Styrk – það eru svona þreytuverkir vítt og breitt um kroppinn – og mest langar mig bara að fara að sofa – og svo er mér skítkalt – er það ekki merki um brennslu 🙂 Það held ég að mér hafi einhvern tímann verið sagt. Ok þetta er ekki NY maraþon en samt áfangi 🙂 Enda margir broskallar í þessu bloggi!

Einu vandræðin við þetta eru að ég þarf að fara voða oft í sturtu á dag!

Hálsinn á mér er heldur betri held ég – nema nú lýsir þetta sér eins og vöðvabólga – bara nokkrir smellir og brestir en ekki þessi rosalega ofboðslega þreyta sem einkenndi síðustu 2 vikur. Get jafnvel á köflum hugsað skýrar!

Nú þarf ég ekki að gera neitt annað en komast niður úr verkefnalistanum sem er bara býsna impressive satt að segja.

En ég er bara ánægð – og svoldið undrandi á að Baldur og Dísa systir hafi verið alveg viss um að ég gæti þetta – ég er nú ekki frá því samt að Baldur hafi haft svoldlar áhyggjur af þessu hjá mér 🙂 enda kannski full ástæða til. Mín reynsla er nú annars sú að fyrsta skiptið sé ekki svo slæmt – oft sé annað skiptið erfiðara – en ég fer nú ekki aftur fyrr en í næstu viku og engin Styrkur fyrr en á föstudag – ja nema á morgnana náttúrulega. Svo er ég ekki alveg í standi til að leggja mat á þetta – er á egóflippi

Kannski fer ég nú líka að labba með Bjart ef ég næ því að verða góð í hálsinum – einhvern tímann.

Kveðja Inga monthæna