

Upprisa Ingveldar 2

Og þá byrja hjólreiðarnar
Jæja – ég er komin með lás og hjálm. Nú er ekkert að gera annað en muna leyniorðið á lásnum og vona það besta. Annars fann ég síðu á netinu sem finnst að of mikið sé gert úr gildi hjálma – kannski hefði ég bara ekkert þurft að fá mér hjálm! Þetta er svolítið merkileg síða verð ég að segja – sérstaklega fyrir mig öryggisfíkilinn. Sigh…
En í dag hef ég hjólað og hjólað 😉 Verð áreiðanlega með harðsperrur á viðkvæmum stöðum á morgun – þ.e.a.s. þó er það ekki víst því ég er búin að lengja tímann á hjólinu út í Styrk og ekki fæ ég harðsperrur af því… hmmm vonum það besta enn.
Ég var eiginlega búin að gleyma hvað mér finnst gaman að hjóla. Ég hjólaði og hjólaði í nokkur ár þegar ég var unglingur – en svo einhvern veginn lagðist það af – maður átti einhvern veginn aldrei hjól – og ef maður átti hjól þá var því stolið – svo það kemur á sama stað niður.
En sem sagt þetta eru hjólreiðar dagsins: Hjólaði út í Sunnulæk með því að fara Fossheiðina, Tryggvagötuna og svo Erlurimann og Langholtið út í Bónus.
Þar verslaði ég mér laugardagsnammi og svo var nú komið fyrir mér að ég vissi ekki einu sinni hvar nammið var í Bónus lengur. Ja það er af sem áður var. Nú þar keypti ég þvottaefni upp á 2 kg og snaraði því í bakbokann (ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég er mikil pæja, með hjálm og bakpoka!). Þá og þar komst ég að því að það munar um 2 kg. Og varð hugsað til þeirra 15 sem eru farin hjá mér. Það hefði nú verið svei mér erfitt að hjóla með þau öll því nóg fannst mér um þetta þvottaefni sem var að dingla þarna á bakinu á mér.
Nú heimleiðis fór ég Langholtið og Fossheiðina – hrikalega mikil pæja. Ekki var nú nóg með þetta heldur fór ég svo hjólandi í sund því mig langaði svo í pottana (synti sko 1000 m í gær og fannst nóg að gert í þeim efnum). Þaðan fór ég svo hjólandi til Gerðar í Dverghólana og át brauðrétt og spjallaði við hana um nema hvað – breytt lífsform. Og svo heim. Og ef þetta er ekki dugnaður þá veit ég ekki hvað. Ég hef því hjólað í um klst í dag en ekki nema 20 mín í samfelldu. Veit ekki alveg hvernig það virkar. Að vera að þessu svona við og við upp á brennsluna – maður verður líklega að hjóla svoldið stíft svo þetta geri eitthvað fyrir mann. Enda fann ég svo sem ekki fyrir neinu á fer minni í sund og til Gerðar – það var langi spottinn í Bónus sem kostaði einhverja svitadropa.
Pönnukökur í morgunsárið
Þetta hefur annars verð ágætur dagur -bakaði 100 pönnukökur í morgun fyrir kvenfélagið í Grímsnesinu – það er úr næstum 3 l af mjólk og 1 kg af hveiti – það er sem nemur einni og hálfri hræriskál hjá Kitchen Aid – allnokkuð bara. Fór svo með það að Borg og tralala fór svo að hjóla 🙂 Mér finnst mjög gaman að hjóla og ef ég næ nú aukinni færi að koma mér á milli sætis og stýris og svo þaðan aftur þá er ég viss um að ég eigi eftir að snara hjólinu í ýmis smærri viðvik. Ég þarf að hafa hnakkinn aðeins hærri því ég finn pínu oggu oggu pons fyrir hnjánum en ég ætla að verða svoldið klárari fyrst :D.
Ein
Ég er hér ein að rolast eina ferðina enn – Ragnheiður með Jobba og Aðalsteinn hjá Fúsa og Dísu í Borgó. Við Bjartur erum því hér bara tvö. Ég reikna með að ég fari með hann í Þrastarlund á morgun í smá göngu – við höfum bæði gott af því.
Ég hef komist að því að ég elska þvottavélina mína. Kurrið í henni er vinalegt verst að mér þykir ekki alveg eins vænt um að eiga engan þurrkara lengur – því verður bara að kippa í liðinn sem fyrst.
Matar-æði
Ég er nú eiginlega ekki hægt…
Nú er ég á þeim stað að borða helst ekki neitt. Og finnst það frekar fínt. Mátti náttúrulega ekkert vera að því að borða í morgun því ég var að baka pönnukökur í einu hendingskasti.
Ekki gat ég heldur borðað hádegismat því ég varð að fara með pönnsurnar og þá ætla ég nú ekki að tala um vesenið á minni í gær. Fuss og svei.
Grænmeti? Hvað er nú það? Heitur matur? Kannast ekki við hann…
Brauð -já, skyndimatur passar fínt og svo jafnvel ekki neitt bara. Það er líka fínn möguleiki.
Sigh…. Mér er ekki viðbjargandi. Nú þegar allt hefur gengið svo vel í því að léttast þá náttúrulega er um að gera að haga sér eins og idiot – maður á það jú inni.
Stóra játningin: Ég verðlauna mig með mat.
Lengra er ég nú ekki komin.