Inga uppgefna á sjálfri sér

Sko þetta gæti verið skór dagsins.

Ég er nú bara í nokkuð góðum gír nefnilega. Ég er nokkuð vel áttuð í skólanum – búin að senda 100 tölvupósta til ýmissa foreldra um hitt og þetta – bara gaman að því :-).

Ég svaf vel í nótt – það er nú ekki alveg á hverjum degi sem ég geri það. Er í nýjum fötum sem passa þokkalega.

Er bara betri af hælsporanum mínum og veit hvað ég á að hafa í kvöldmatinn og ALLT. Var á þrælskemmtilegum fundi um skólamál þar sem maður ræddi sín hjartansmál – líka gaman að því.Gaman ef maður fær að tala – það vantar nú ekki.

En svo er ég einhvern veginn svo glötuð líka – eins og þessi skór – sko hann gæti verið fín á öðrum en ekki MÉR. Þetta er svo erfitt líf á köflum að ég get dáið. Ekki dáið dáið en vorkennt mér dáið.
Það eru bara ákveðnir hlutir sem eru ekki að gera sig og mér finnst ég eiga óþarflega stóra sneið í þeim hlutum. Jukkiti jukk…
En það verður bara að bretta upp ermarnar og snúa helv… vesenið niður :-).
Ég hef ekkert hreyft mig í dag – fór ekki með Bjart heldur lá í bælinu eins lengi og ég gat því ég var svo þreytt og uppgefin. Ætla svo ekkert að gera í dag – kannski bara í heita pottinn en ég meira að segja efast um það. Ég geri heldur ekkert á morgun þó ég ætli nú að labba í fyrramálið.
Ég er bara svo uppgefin og þreytt. Ég var það nú líka í gær og það var eins og ég væri með heilt fjall í stærri kantinum á herðunum. Ég minnist þess bara ekki að það hafi verið svona erfitt að hjóla eins og í gær, úff. Fór nú samt í Styrk því annars hefði ég bara farið á föstudaginn næsta. Það er bara ekki nóg. Onei… Held samt að það hafi ekki verið sérlega gáfulegt ráðslag satt að segja. En ég beið svo sem engan skaða af því. Fór bara í hádegishléinu mínu eftir að hafa mætt út í skóla rúmlega sex.
Það er kannski hluti af þessu öllu, búin að mæta í vinnuna á milli sex og sjö síðustu tvo daga og vinna til að verða níu og er enn að vinna í dag. Kannski er það hluti þess að ég sé þreytt. En ég er líka ánægð með það því ég hef getað gert svo mikið og verið fókuseruð á það sem ég er að gera. Maður bara verður stundum að vinna. En maður verður náttúrulega líka að vera duglegur að hvíla sig og ég hef nú svo sem ekki verið fræg fyrir annað í gegnum tíðina.
Á morgun er fimmtudagur. Þá er stutt í föstudag og helgina! Ég þarf að vinna svolítið um helgina held ég – skila einhverju af mér og svo bara verð ég að fara að læra smá. Er ekki að gera sig að sleppa því lengur.
Ekki var nú vigtin skemmtileg við mig í gær. Stundum afber ég þetta ekki. Það eru margir sem segja við mig að þeir skilji ekki að ég léttist ekki meira miðað við hvað ég hreyfi mig mikið! Og ég sekk stundum í það að skilja það ekki heldur – þó ég viti að jafnaðar þyngdartap upp á 700 gr eða svo á viku sé ekki slæmt á hálfs árs basis. Það skilar fínu á ársgrundvelli. En ég sekk stundum alveg niður í þetta að vorkenna mér þessi ósköp og fæ nagandi sektarkennd því ég er náttúrulega viss um að ég sé í raun og veru ekki nógu dugleg og mataræðið sé allt í volli og ég þá þar með orðin aumingi. Stundum finnst mér eins og ég geti aldrei verið ánægð – þurfi alltaf að finna skuggahlið á allri gleði.
Sko – ég er í aumingja ég stuði – en samt er ég frekar hress bara – en það er einhver hóll sem skyggir á útsýnið!
En ég færist vonandi úr stað- nú eða hóllinn verði grafinn í burtu – sem væri náttúrulega best líka.

Ég held ég fari að sofa

……

…er þetta ekki svefnlegur skór. En megaflottur mar! Ég er svo syfjuð að ég er að kafna.
Enda sef ég aldrei meira en 5 – 6 tíma á nóttu og ég þverneita að það sé nóg. Bara þverneita því. Enda bæti ég mér það oft um helgar sem er ekki minn stæll hingað til.
En sem sagt ég borðaði síðast kl 20 – og nú er bara að sjá hvað ég ét fram til miðnættis. Vonandi ekkert nema ibufen og vatn. Það væri óskastaðan…
Ég fór með Bjart í morgun og komst að því að ég vorkenni Eyjafjallajökli. Það er bara fínasta fjall – en hann býr við hliðina á þvílíkri dívu að ekkert annað kemst að. Hekla sjálf. Í morgun var sólin akkúrat á bak við Heklu þegar ég fór í hellisskóginn. Og vitið þið það – það var töfrum líkast. Appelsínugulur heimur og blá fjöll – blárri en allt. Mér fannst ég sjá inn um gluggan hjá þeim í Eyvík – svo vel sá ég Hestfjall.
Ég var alveg staðráðin í því að fara ekki að labba í morgun þegar ég fór að sofa í gær – ég var svo þreytt – en mér fannst ég ekki geta sjálfsvirðingar minnar vegna (já og sjálfrar mín) sleppt því. Og við Bjartur sáum ekki eftir því. Frábær stund.
Svo hjólaði ég í skólann og heim aftur – og ég snerti ekki bílinn nema allra fyrst á morgnana upp í skóg. Geðveikt.
Krakkarnir í skólanum eru svo stoltir af mér að það er yndislegt. Þau eru algjörlega bergnumin af dugnaðinum í mér og þeirri fáránlegu hugmynd að kona eins og ég hjóli um allt og sé með hjálm eins og þeirra. Yndisleg. Hreinlega. Og dagurinn í dag var svo yndislegur að það var ótrúlegt að maður væri að kenna í strikklotu frá 8:10 – að verða þrjú. Þetta eru bara meistarar. Var svo að vinna til rúmlega sjö og gat gert heilmikið. Ég er svo glöð með þetta sem ég kemst yfir í skólanum þó ég myndi vilja að það væri miklu meira. Maður getur alltaf gert betur – það er áreiðanlegt.
En jæjæ ef ég hendist ekki í að éta eitthvað eftir að ég ætti að vera sofnuð þá er þetta bara flottur dagur:
7 hafragrautur og 100 gr blóðmör – 9:30 ab og hafraflögur einhverjar – 11:30 appelsína 13 saltkjöt og rófa+uppstúfur. 19 rækjur, brauð og grænmeti og svo 6″ subway.
Góður hver dagurinn er það ekki?
Kveðja frá hjólreiðadísinni 🙂

Ógeðslega mikil hjólapæja!!!!

Og þá byrja hjólreiðarnar

Jæja – ég er komin með lás og hjálm. Nú er ekkert að gera annað en muna leyniorðið á lásnum og vona það besta. Annars fann ég síðu á netinu sem finnst að of mikið sé gert úr gildi hjálma – kannski hefði ég bara ekkert þurft að fá mér hjálm! Þetta er svolítið merkileg síða verð ég að segja – sérstaklega fyrir mig öryggisfíkilinn. Sigh…


En í dag hef ég hjólað og hjólað 😉 Verð áreiðanlega með harðsperrur á viðkvæmum stöðum á morgun – þ.e.a.s. þó er það ekki víst því ég er búin að lengja tímann á hjólinu út í Styrk og ekki fæ ég harðsperrur af því… hmmm vonum það besta enn.


Ég var eiginlega búin að gleyma hvað mér finnst gaman að hjóla. Ég hjólaði og hjólaði í nokkur ár þegar ég var unglingur – en svo einhvern veginn lagðist það af – maður átti einhvern veginn aldrei hjól – og ef maður átti hjól þá var því stolið – svo það kemur á sama stað niður.

En sem sagt þetta eru hjólreiðar dagsins: Hjólaði út í Sunnulæk með því að fara Fossheiðina, Tryggvagötuna og svo Erlurimann og Langholtið út í Bónus.

Þar verslaði ég mér laugardagsnammi og svo var nú komið fyrir mér að ég vissi ekki einu sinni hvar nammið var í Bónus lengur. Ja það er af sem áður var. Nú þar keypti ég þvottaefni upp á 2 kg og snaraði því í bakbokann (ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég er mikil pæja, með hjálm og bakpoka!). Þá og þar komst ég að því að það munar um 2 kg. Og varð hugsað til þeirra 15 sem eru farin hjá mér. Það hefði nú verið svei mér erfitt að hjóla með þau öll því nóg fannst mér um þetta þvottaefni sem var að dingla þarna á bakinu á mér.

Nú heimleiðis fór ég Langholtið og Fossheiðina – hrikalega mikil pæja. Ekki var nú nóg með þetta heldur fór ég svo hjólandi í sund því mig langaði svo í pottana (synti sko 1000 m í gær og fannst nóg að gert í þeim efnum). Þaðan fór ég svo hjólandi til Gerðar í Dverghólana og át brauðrétt og spjallaði við hana um nema hvað – breytt lífsform. Og svo heim. Og ef þetta er ekki dugnaður þá veit ég ekki hvað. Ég hef því hjólað í um klst í dag en ekki nema 20 mín í samfelldu. Veit ekki alveg hvernig það virkar. Að vera að þessu svona við og við upp á brennsluna – maður verður líklega að hjóla svoldið stíft svo þetta geri eitthvað fyrir mann. Enda fann ég svo sem ekki fyrir neinu á fer minni í sund og til Gerðar – það var langi spottinn í Bónus sem kostaði einhverja svitadropa.

Pönnukökur í morgunsárið

Þetta hefur annars verð ágætur dagur -bakaði 100 pönnukökur í morgun fyrir kvenfélagið í Grímsnesinu – það er úr næstum 3 l af mjólk og 1 kg af hveiti – það er sem nemur einni og hálfri hræriskál hjá Kitchen Aid – allnokkuð bara. Fór svo með það að Borg og tralala fór svo að hjóla 🙂 Mér finnst mjög gaman að hjóla og ef ég næ nú aukinni færi að koma mér á milli sætis og stýris og svo þaðan aftur þá er ég viss um að ég eigi eftir að snara hjólinu í ýmis smærri viðvik. Ég þarf að hafa hnakkinn aðeins hærri því ég finn pínu oggu oggu pons fyrir hnjánum en ég ætla að verða svoldið klárari fyrst :D.

Ein

Ég er hér ein að rolast eina ferðina enn – Ragnheiður með Jobba og Aðalsteinn hjá Fúsa og Dísu í Borgó. Við Bjartur erum því hér bara tvö. Ég reikna með að ég fari með hann í Þrastarlund á morgun í smá göngu – við höfum bæði gott af því.

Ég hef komist að því að ég elska þvottavélina mína. Kurrið í henni er vinalegt verst að mér þykir ekki alveg eins vænt um að eiga engan þurrkara lengur – því verður bara að kippa í liðinn sem fyrst.

Matar-æði

Ég er nú eiginlega ekki hægt…

Nú er ég á þeim stað að borða helst ekki neitt. Og finnst það frekar fínt. Mátti náttúrulega ekkert vera að því að borða í morgun því ég var að baka pönnukökur í einu hendingskasti.

Ekki gat ég heldur borðað hádegismat því ég varð að fara með pönnsurnar og þá ætla ég nú ekki að tala um vesenið á minni í gær. Fuss og svei.

Grænmeti? Hvað er nú það? Heitur matur? Kannast ekki við hann…

Brauð -já, skyndimatur passar fínt og svo jafnvel ekki neitt bara. Það er líka fínn möguleiki.

Sigh…. Mér er ekki viðbjargandi. Nú þegar allt hefur gengið svo vel í því að léttast þá náttúrulega er um að gera að haga sér eins og idiot – maður á það jú inni.

Stóra játningin: Ég verðlauna mig með mat.

Lengra er ég nú ekki komin.

En ég er nú samt hjólapæja…

Skór fyrir Helgu Dögg

Í Styrk vinnur fagurt fljóð að nafni Helga Dögg. Ég hef lengi ætlað að setja inn mynd af skó sem minnir mig svo á hana – og nú gerist það. Ef Helga Dögg væri skór þá kæmi þessi sterklega til greina. I swear…
Svo er allt annað mál hvort Helga Dögg líti nokkurn tíma hér inn – en skórinn er amk hennar – það er klárt.
Takk fyrir að vera eins og sólin sjálf á bak við afgreiðsluborðið. Það hjálpar ;-).
And I sure need all the help I can get!