Mamma, Inga og Palli

Það eru komin 17 ár síðan við Palli giftum okkur – við erum nú búin að vera í 23 ár saman – ég meina pælið í því – og hann er ennþá þessi asni sem ég kyssti þá ;-). Að það skuli vera hægt að segja að það séu 23 ár síðan eitthvað í mínu lífi – ja hérna hér.

Dagurinn var bjartur og fagur, yndislegir haustlitir. Þingvellir skörtuðu sínu fegursta. Séra Úlfar sem gifti okkar segist aldrei gleyma þessum degi slík var fegurð Þingvalla. Í ár sjáum við varla eitt einasta rautt laufblað, rok, rigning og svo til að toppa allt – snjór. Eiginlega alveg í stil við annað ;-).

Mamma hefði orðið 91 árs í dag. 9 ár síðan hún dó blessunin. Það er líka ótrúlegt hvað það er stutt síðan – hún er alltaf hjá mér alla daga. Allt um kring og umlykjandi. Ég skil ekki hvernig það er hægt að komast fram úr því að missa mömmu sína. Ég man að ég sat stundum og horfði út um gluggann á bílnum og virti fyrir mér fólkið vitandi að einhverjir þeirra höfðu einnig misst mömmu sína – og það sást ekki á þeim! Fólk breytist ekki hið ytra en verður varla samt hið innra. Mér finnst eiginlega alveg ómögulegt að eiga ekki mömmu og sæmt er líka að eiga engan pabba. Ég var rúmlega tvítug þegar pabbi dó og rúmlega þrítug þegar mamma dó. Ég þakka fyrir þau ár. Hvert og eitt einasta.

Takk fyrir árin með þér líka Palli minn!

Mælingar

Það var með semingi sem Palli minn samþykkti að mæla horfna sentimetra á frúnni enda fóru síðustu mælingar í nóvember ekki sérlega vel fram! Reyndar gekk svo mikið á að hvorki Bjartur né Páll hafa almennilega borið sitt barr síðan. Og málbandið var rétt að koma í leitirnar nú um daginn! Það voru sem sagt farnir eitthvað færri sentimetrar þá en frúin vildi.

Páll samþykkti þó með semingi að mæla en einungis með því skilyrði að vera með hjálm og auða útgönguleið úr stofunni. Ég gekk að öllum skilyrðum og hét mér og honum því að vera ósköp blíð og góð. Hann setti nú Bjart út engu að síður enda engin vörn til handa honum önnur en útveggirnir!

Frá því í ágúst hef ég misst samtals 28 sentimetra og um 18 síðan í nóvember.

Þetta er svolítið merkilegt því frá nóvember og til dagsins í dag hef ég sáralítið – ef nokkuð lést en frá ágúst og fram í nóvember léttist ég allnokkuð og töluvert meira en ekki neitt.

Þetta sýnir mér rétt eina ferðina að ég verð að vera róleg, þolinmóð og skynsöm. Ég er greinilega enn að byggja upp líkamann og fá mér svolítið af vöðvum fyrir svo utan það að þetta virðist bara ganga svona -upp og niður – stopp. Langa stoppið nú frá því í nóvember er þó ekki kyrrstaða því ég hef glatað þessum sentimetrum út til efnisheimsins.

Nú snýst allt um það að vera sæmilega sátt, sallaróleg og halda ótrauð áfram. Nú birtir óðum, hlýir dagar framunda og ég hlýt að komast í styrk tvisvar sinnum í næstu viku nú eða ég bæti mér það upp með svona líka svakalegri sundferð eins og í gær – kannski verð ég tilbúin að leggja 40 mín að baki í sundi og þá er ég að brenna eins og á hjóli og ógeðstækinu á sama tíma. Svona á góðum degi :-).

Ég vaknaði sæmileg í hálsinum í gær og í dag – ekki verkjalaus en ekki með þessa rosalegu lömunartilfinningu og harðræðistilfinningu í aftan í hnakkanum og niður í bakið. Ég er hins vegar strax farin að þreytast núna en það er skref fram á við að opna augun öðruvísi en ég haldi að ég sé í gapastokknum.

En sem sagt Bjartur og Páll komust vel frá mælingunum og una nú sáttir við sitt. Svo ekki sé minnst á konuna sem hefur misst 97 sentimetra all frá því í lok apríl þegar hún byrjaði að léttast.

Posted by Picasa

Damage control

Jamm…

Það er ekki hátt risið á minni núna! Ég er svo þreytt að ég er með appelsínugula bletti á milli tánna og græna sveppi í eyrunum! Ég get svona með góðu móti unnið til 11 en þyrfti þá að hætta og fá að leggja mig í um 10 tíma!

En þó ég hafi verið svo þreytt eftir daginn í dag að ég mundi ekki að ég væri að ná í úlpuna mína í fatahenginu þar sem ég stóð þar og horfði í kringum mig þá fór ég nú samt í sund! Og ég synti í 30 mínútur! Mjög afslappandi og dásamleg ferð. Var í tvo tíma að stússast í Sundhöll Selfoss og ég var eini gesturinn í búningsklefanum og í útilauginni – imagine that. Nammi namm.

Elska sund. Það er svo afstressandi þegar ekki eru margir.

Nú að öðru ekki eins afstressandi. Hann Palli minn er að verða mesti hrakfallabálkur ever! Nú hér í den þurfti að skipta um mjaðmalið í karlinum því hann er með einhvern erfðagalla sem veldur því að þeir spænast upp eins og hálendið. Nú það gekk bara vel en hann var lengi heima að jafna sig eftir einhvern steyptan lið. Nú hann var nú varla farinn að vinna aftur þegar hann klippti framan af fingri – það var einmitt sumarið sem við fluttum á Selfoss – eða þegar ég flutti á selfoss og þau hin fylgdu með ;-). Nú ekki liðu mörg ár – kannski bara eitt þegar hann fékk járnflís í gegnum augað og missti þar með sjónina á því – fyrir utan kvalirnir og helvítið sem við gengum í gegnum það sumarið – og ég segi við því sambúðin held ég að hafi aldrei verið erfiðari en þá – úff hvað hann fann til og hvað ég fann til að þurfa að vorkenna honum svona mikið og lengi! Það var álag skal ég segja ykkur!

Og nú hefur litla ljósið gengið fram af vinnupalli í 4 m hæð, steypst niður með hausinn á undan fjóra metra – hann bar fyrir sig hendurnar – braut aðra þeirra og skrambúleraði sig hægri vinstri á hinni og andlitinu – og vísast annars staðar þar sem hann fór kollhnísa niður klöppina þar sem hann lenti!

Jamm hann er sem sagt að koma heim í dag í sjúkraleyfi. Eitt á ári er nú lágmark…

Er að verða pínu þreytt á þessu en afskaplega glöð að hann sé ekki meiddari og næstum heill á húfi.

Og svo er bara að halda áfram að beita sig aga til hreyfingar – það er víst mín sáluhjálp sem annarra væntanlega!

oh yeah – hvernig gengur með markmiðin?

Það er nú eitt og annað búð að gerast hér í þessu húsi í dag skal ég segja ykkur. Seríur komnar í alla glugga nema tvo. Búin að taka til í eldhúsinu og losa mig við ýmislegt torkennilegt dót þaðan sem hefur safnast þar upp í gegnum tíðina.

Fór í pottinn í lauginni því ég er aum í fótunum eftir skóna og labbið, dansinn og fjörið í gær (þó ég hafi nú lítið dansað) og svo er ég bara svona almennt aum í fótunum. Mikið álag á þeim greyjunum :-). Þeir standa sig nú vel stólparnir atarna þó þeir verði ekki næstu árin notaðir í sokkabuxna-auglýsingar :-).

Svoldið snemmt að hafa kveikt á seríunum en ég ákvað nú bara að gera það samt. Æ það er eitthvað svo dimmt og svo finnst manni þær alltaf hana of stutt þegar maður tekur þær niður eftir jólin. Gaman að sjá líka glampandi gluggana – þeir eru bara svolítið óhreinir að utan – þyrfti að koma hlýindi svo ég gæti gert eitthvað í því.

Já og svo er ég ekki með neinn óhreinan þvott í vaskahúsinu!

ÉG þarf að fá mér svona, það er bara ekki hægt að þvo hér og þurrka í þessu húsi. Onei. Þetta er efst á óskalistanum. þegar ég verð búin að grafa mig niður úr skuldafeninu þá fæ ég mér svona :-).

Það er eiginlega sáluhjálparatriði. Kannski kemur einhvern tímann eitthvað út úr augnslysinu hjá Páli – hver veit.

Afhverju ætli maður verði aumur í fingurgómunum og svo sár ofan á fingrunum að hárið á manni sker í mann sár? Já og svo þurr á kálfunum að það nálgast klikkun? Hef nú bara ekki lent í svonalöguðu fyrr ég verð að segja það og kalla ég nú ekki allt ömmu mína í þurrk á kálfunum málum!

En nóg um þetta og nú að erindinu – meta hvernig gengur með markmiðin mín sem ég man eiginlega aldrei alveg hver eru!

Markmið:
Skammtímamarkmið sem yrðu nú fín lífstiðarmarkmið fyir kaos-istann Ingveldi

Rautt gekk vel
Blátt gekk verr

Matur
Versla reglulega inn (það fer um mig hrollur)
Palli hefur séð um það – allt í góðu!
Elda (er einfaldara ef maturinn er til – þá er ég ekki svo slæm í því sko)
Fæ fínan mat hjá Palla nema einu sinni einhvern skyndimat, feitan og ógeðslegan!
Vera komin heim ekki seinna en 18 til að elda
Var nú annasöm vika og þar að auki Páll heima en ég var oftast komin heim um sex 🙂 eða aðeins seinna!
Borða skyr – jukk
Heyrðu eitthvað borðaði ég af skyri en ekki nóg
Útbúa nesti og eiga eitthvað gáfulegt í skólanum
Ekki einu sinni vísir að því – borðaði nammi og drakk kaffi í staðinn
Endurskoða nammidagana – eitthvað annað en nammi!
Sbr hér að ofan þá náttúrulega var þetta ekki alveg að gera sig en… það var nú leynivinivika og ég fékk mér enga sæta köku í erfinu í gær og ekki heldur í asíska kennarapartíinu í gærkveldi! Á ég þá ekki eiginlega inni nammidag?
Hreyfing
Fara í Styrk alla sunnudaga
Fór síðast og fer á morgun!
Fara í morgunbrennslu/göngu með Bjart á mánudögum
Done – brennsla
Spinning á þriðjudögum
Done
Hvíld á miðvikudegi
zzzzzzzz
Morgunbrennsla á fimmtudegi (og mig langar gasalega prófa að fara tvisvar í viku í spinning við og við en það verður nú svoldið í það – miðtímamarkmið kannski ;-))
Done
Föstudagur er uppáhaldið í Styrk.
Jarðaför þannig að ég tók 40 samfellda brennslu áður en kennsla hófst – æði!
Og svo er kominn sunnudagur enn á ný.
Jebb!
Ganga með Bjart á laugardegi og helst á sunnudegi líka.
Ekkert labbað með Bjart í dag en ég labbaði í nótt 😉 telst það ekki með? en við förum aðeins í skóginn á morgun
Þarf ekki endilega að vera mjög langt en amk 20 – 40 mín.

Það er meira blátt matarmegin – ha hu humm – skrítið

Hreyfingin er alveg að gera sig samkvæmt markmiðum. Best að halda sama tempói næstu viku. Kannski má lengja morgunbrennsluna þegar því er við komið og maður er í stuði!

Þarf að halda matardagbók – þá kannski held ég betur utanum þetta og segi ekki bara að þetta sé í lagi. Hef þá ákveðna sönnun 😉

Palli heima liggaliggaló!

Mynd frá Rúnavík í Færeyjum þar sem ég held að Pallinn minn sé að smíða eitthvað – brú eða eitthvað…. Hmmmm ætti nú kannski að spyrja að því hvað hann sé að sýsla þar. Ég held reyndar að það hljóti að hafa verið teknar margar myndir þennan dag í Rúnavík – ég held satt að segja að það sé aldrei snjór í Færeyjum nema í algjörum undantekningartilfellum. Palli myndi amk vilja frekar hafa snjó en rigningu alltaf hreint. Hann er að verða smá oggu þreyttur á henni. Anganóran mín. En svona lítur nú Rúna vík út núna:

Og hér má finna fullt af vefmyndavélum í Færeyjum sem er náttúrulega krúttlegasti staður í heimi.

En þar sem hann Páll verður í allnokkru stoppi núna eða 10 daga þá stendur nú mikið til og ekki gengur að liggja í þunglyndi, vonleysi, volæði og aumingjaskap þannig að það var sett á hold þar til á mánudag amk! Vona að sunnudagurinn sleppi… Það er svo fín og merkileg tiltektaráætlun hjá okkur hjónunum þá að minnsta kosti.

Nú er verið að færa til og breyta og voða gaman og gaman. Langþráð stund runninum upp. Erfiðast hefur verið að koma Páli út úr bílnum en ég virðist á köflum vera orðin mun hraðskreiðari en hann og vippa mér af meiri fimi út úr bílnum stend svo og dáist að sjálfri mér fyrir flýtinni og lipurðina á meðan hann paufast þetta út úr bílnum blessaður!

Jamm, við fórum í göngutúr í 13°C frosti í morgun í Þrastarskógi með Bjart – förum aftur á morgun og þá er líka Styrk dagur – vonandi kemur Palli með, hann vill þó meina að hann eigi ekki viðeigandi klæðnað. Það eru svo fáir á sunnudögum að hann gæti alveg verið á sundskýlunni bara tíhíhi. Það myndi honum nú finnast svei mér skemmtilegt! Og ég fékk mér hafragraut í morgun eftir langt hlé. Þetta hlýtur að vera á uppleið. Ég er amk búin að fatta smá afhverju ég hef verið svona ómöguleg og þá er bara að taka á því. Það tengist líkamsrækt ekki neitt, mataræði svolítið mikið og öðru enn meira.

En þið sjáið hvað gerist – ég hressist og blogga þá aðeins meira… enda svo sem ekkert gaman að lesa endalaust væl og sögur af aumingjaskap mínum. Ég verð eiginlega líka að hætta að enda allar hugsanir á því að ég sá aumingi… og svo þarf ég að setja mér markmið, ég held ég þurfi meira að segja að setja mér þrjú ólík markmið stutt, lang og milli eitthvað… Það segja allir að það sé ægilega mikilvægt. Og svo þyrfti ég að finna mér ástæðu líka – það væri gott.

Alltaf nóg að sýsla.

Lof jú Ingos

Ok ok nokkuð fyrirsjáanlegt kast en samt…

Er að fá nett fitt hérna!

Skyldi það vera vigtin sem ég steig á og var sú hin sama vigt bara með tóman skæting! Hugsi hugsi hugs – gerði ég eitthvað vitlaust í þessari viku ha hu hummmm! (gæti það verið???)
Hef líklega borðað í minnsta lagi – og eitthvað var síðasta helgi sérkennileg en annað ekki – ég fer sko ekki ofan af því! Kannski miðvikudagskvöldið samt…. hummm

Nú…
Hvað hef ég verið að hreyfa mig? Sunnudagur- fínn, ekkert á mánudag – var jú svo syfjuð eftir Mýrina sjáiði til – um morguninn, þriðjudagur brennsla um morguninn og hinn margrómaði spinningtími, nú svo var ég náttúrulega svo þreytt að ég gat ekki gert neitt á miðvikudegi ja nema labba til Dísu og til baka , í gær fór ég í brennslu og í dag – bramm ekki neitt! Og föstudagarnir eru sko skotheldu og bestu og flottustu dagarnir mínir sem ég hef ALDREI klikkað á.
Sem sagt ekki góð vika í hryeyfingu en maturinn ekki svoooooooooooooo slæmur en ég verð að bæta mig!
Dj.. ég þarf alltaf að vera að bæta mig – hundleiðinlegt helv..

en þá er nú svei mér gott að vita að það er gott að léttast hægt því lífstíllinn þarf að breytast með ha hu humm- sá er nú að breytast mar en bara aldrei alveg nóg ha hu hummm!!!!!!

Best að éta nammi og vín og osta og mat þangað til mig langar að æla og vera svo eins og manneskja það sem eftir er vikunnar.
En hvort hefur nú betur – afskanirnar góðu í næstu viku eða líkamsræktin? Er það raunveruleg spurning? Ég veit að mataræðið bíður lægri hlut – og svo kemur Palli heim í kjölfarið og þá er hin ultimate afsökun komin til að geta ekki gert neitt. Það er svo flókið lífið þegar hann er heima sjáið þið til!

God hvað ég á langt í land með að taka mig í gegn þannig að það skili einhverju!

Slagurinn sem sagt – slagurinn!

Það dugir ekki að láta svona

Sem sagt ég er haldin einhvers konar sjálfseyðingarhvöt. Ég hef komist að því.

Baldur hafði rétt fyrir sér að ég ætti ekki að vera alltaf á vigtinni heldur hugsa um að koma mér í stand og hafa léttinginn on the side því vigtin gerir mig mjög geðvonda.

Nú steig ég á hana á föstudaginn og hitti ekki á góðan dag! Og ég er búin að vera alveg vitlaus síðan. Gott ef ég er ekki búin að bæta á mig öllum 16 kg sem voru farin og gott betur allt fyrir afli hugarorkunnar.

Og ég held að ég sé meira að segja búin að fatta ástæðuna fyrir þessu. Ok það er í sjálfu sér ekki neitt mál að gera það sem ég er að gera – það þarf ,,bara“ að gera ákveðna hluti og s.s. eins og breyta vinnutímanum sínum, ganga í gegnum ýmsa líkamlega verki, taka til í sálarlífinu, fást við þá bresti sem koma í ljós undir álagi – og vísast valda því að maður er eins og maður er -og ég er viss um að það eru fleiri en bara offitusjúklingar sem hafa sína bresti. Þetta er sem sagt svolítið mál allt saman 😉 en ég er viss um að það sé ekkert sérlega erfitt að léttast. Maður þarf einfaldlega að finna brautina sína – og það er erfitt.

En þarna komum við einmitt að kjarnanum. Ég hef í gegnum tíðina verið fullkomlega sátt við að synda sundsins vegna og áhrifa þess á mig. Ég hef verið alsæl með golfið golfsins vegna og sjálfs mín vegna. Og framan af í vor var ég alsæl með Styrk og ferðirnar þangað hreyfingarinnar vegna en svo fór það að léttast að skipta öllu máli. Ég er heltekin af því og allt í einu er ég bara að þessu til þess að léttast – kannski vegna þess að ég er ekki lengur það flak sem ég var og finnst ég vera hressari.

Það er góð og gild ástæða fyrir því að ég hef aldrei á ævinni farið í megrun. Það bara hentar mér ekki. En nú er ég allt í einu farin að haga mér eins og ég sé í henni án þess þó að hafa mataræðið þar inni. Ég vil bara að ég léttist vegna þess ég hreyfi mig og ég borða ekki eins vitlaust og ég gerði. Ég er farin að hreyfa mig á morgnana, verða svöng árla dags, hætt að borða eftir 8 á kvöldin og samt finnst mér ekkert gerast. Afhverju léttist ég t.d. ekki meira núna en ég gerði í sumar? Ekki labbaði ég fyrst á morgnana þá – ekki var brennslan komin af stað þá og ekki hjólaði ég svona mikið þá – og ég borða ekki tóma vitleysu núna – ég get bara sagt ykkur það strax.

Allt í einu er allt farið að snúast um þetta – hreyfingin og áhrif henna á mig hætti að skipta mig máli – ég varð bara heltekin af því að léttast en gerði þó ekkert róttækt í því hvað mataræðið varðar enda nenni ég því ekki. Og nú þarf ég að breyta þessu – ég þarf að skipta um sjónarhorn.

Ég þarf að hugsa um hreyfinguna og hvað hún gerir mér gott og hve skemmtileg mér finnst hún vera. Mér finnst ótrúlega gaman að hjóla og reyna á mig í salnum, gaman og gott að hitta Helgu Dögg og þá sem eru að æfa þar svo ekki sé minnst á hvetjarann minn og bjargvætt. Ég hef lést vel og ágætlega – þeir á Reykjalundi þverneita að það sé gott fyrir mann að léttast meira en um 500 gr á viku og það er MARGsannað að þeir sem missa meira en það safna fljótar á sig aftur fitu.

Afhverju er ég þá ekki ánægð? Afþví ég er haldin sjálfseyðingarhvöt.

Ég held að ég sé að leita að ásætðu til að hætta þessu og fara í sama farið – ég get ekki beitt hreyfingunni fyrir mig en léttingurinn er ekki að gera sig að því er ég tel mér trú um og þetta sé vonlaus margra ára barátta. Ég geti svo sem bara hætt þessu strax þetta sé hvort sem er ekki hægt – ég geti þetta ekki – ég sé ekki manneskja í þetta. Ég verði því bara að borða það sem hendi er næst og láta þetta sigla sinn sjó. Það að stíga á vigtina færir mér heim sanninn um það – það eru sveiflur upp á 1 kg búnar að vera alveg síðan í vor – sumar vikur er ég að bæta við mig og svo hrapa ég niður og bæti aðeins við mig aftur og svo koll af kolli. Ég veit alveg hvernig mynstrið er en samt læt ég það trufla mig – eyðileggja fyrir mér. Kannski af því ég veit að ég gæti alltaf gert betur í mataræðinu og hreyfingunni. Og ég lem á mér fyrir það að vera ekki fullkomin – gera ekki allt rétt – fá mér stundum óhollan mat. Það er náttúrulega fullkomin ástæða til þess að hugsa neikvætt – maður hlýtur að sakna þess eins og ég barði á mér hér í eina tíð fyrir að geta mig varla hreyft og láta rétta mér allt eftir að ég kom heim útkeyrð úr vinnu – farin á sál og líkama. Þá var nú aldeilis hægt að lemja á sér – ókeypis og af ákefð. Nú get ég sakað mig um að vera allt annað en fullkomin. Það er náttúrulega dauðasynd.

En aftur á móti þarf ég að laga nokkra hluti og það er kannski bara rétt að gera það og vera ekki að lemja á sér vegna þeirra. Ég þyrfti að léttast um 2,8 kg í október og það lítur ekki vel út – en ef ég geri það ekki – þá hef ég hreyft mig fullt, orðið betri af hælsporanum, hjólað mér til yndisauka og upplifað haustið og litina í göngum með litla krílið mitt hann Bjart – ekki svo slæmt! Hitt kemur – það hlýtur að koma eins og það hefur komið hingað til og ég verð hraustari og hraustari!

Svona ætla ég að reyna að hugsa í dag – taka því fagnandi þegar einhver segist sjá mun og þakka honum fyrir það. Og vona svo að Pallinn minn komi heim í dag. Þetta er nú búin að vera meiri biðin eftir ljósinu mínu.

Sigh barasta

Jæja gott fólk. Ekki gengur nú of vel að fá fólk til að skrifa á fallega ljúfa póstinn minn en þeir sem hafa gert það veit ég að sumir hverjir hafa verið undrandi á því hvað þetta er erfitt. Ég er t.d. enn að hugsa eitthvað fallegt um mig til að setja þarna inn. Finnst það einhvern veginn ekki auðvelt og ég hélt ég væri að drepast úr sjálfumgleði. Og kannski er ég það – en gleðin sú er þá byggð á heldur veikri undirstöðu.

Ég er á bílnum í vinnunni í dag því ég ætla að vinna svo ótrúlega lengi að það verður komið kolniðamyrkur þegar ég fer heim! Tíhíhí. Verð að vinna upp allan vinnutímann minn sem ég ,,skulda“ Maður má náttúrulega ekki láta eiga inni hjá sér – eins og mesta hættan sé á því.

En nú skal segja af hreyfingaáætlun Ingveldar. Sem kunnugt er gekk nú ekki sem best að hreyfa sig í síðustu viku og ekki var nú helgin hjá Gústu – og í hennar húsi sérlega kræsileg heldur varðandi hreyfingu og mataræði.

Ég borðaði t.d. heilan poka af Nóa rindlum eða vindlum eða hvað það heitir á leiðinni norður og svo heim. Svolítið af lakkrís og 15 makkinstosh mola um helgina en meira var það ekki. Jú 10 walkers karamellur á leiðinni norður líka. Ok ok svoldið mikið nammi verð ég að segja – en það verður bara að taka á í vikunni til að losa sig við það.

Ég eldaði þó ógeðslega hollan mat í gærkveldi þegar ég kom heim og borðaði mikið grænmeti með. Og borðaði ekkert eftir 21 og bara popp fram að því. Svoho þessi vonda helgi var nú ekki verri en þetta. Labbaði 20 mín með Trýnu litla grjónið. Hefði átt að labba með hana í gær líka en geri það síðar ;-).

Ok svo nú er ég búin að setja upp æfingaprógramm fyrir vikuna því nú þarf að taka á því:

Mánudagur:

Labba með Bjart í Hellisskógi – gekk vel

Fara í fulla brennslu í Styrk og heilan fótaæfinga hring og svo í nudd – Dásamlegt nema hvað ég var í svo ótrúlega sleipum buxum að ég hélst varla á hjólinu svo brennslan var 17 mín á hjólinu, 10 mín á ógeðstækinu (sem reyndi helling á hælinn vel að merkja en það lagaðist er á leið) og 10 mín á stigvélinni – yeah – samtals 37 mín – er í 13 mín skuld.

Þriðjudagur

Labba með Bjart kl 7 í Hellisskógi
Hjóla í vinnuna eins snemma og ég get göngunnar og hafragrautsins vegna
Hjóla í 15 mín amk og fara í styrk kl 12:10 og taka efrihlutaæfingar og taka 10 mín sprett á ógeðstækinu (og stigvél (ef ég er nógu spræk))
Hjóla svo í skólann í 10 mín. Samtals brennsla 30 – 40 mín. Dugir vegna þess að ég er á hjólinu í skólanum.

Hjóla heim fyrir myrkur (fínt aðhald)

Miðvikudagur

Labba með Bjart
Hjóla í vinnuna og heim
Hjóla í sund og synda 400 metra með blöðkum mest

Fimmtudagur

Labba með Bjart og hjóla í skólann ef það er gott veður.
Ef ég hjóla ekki fara þá og hjóla í Styrk í 25 mín.

Föstudagur

Labba með Bjart í Hellisskógi
Fara á hjólinu í skólann ef ég mögulega get vegna veður
Fara á hjólinu í Styrk og bæta við túr um hólahverfið til að lenga túrinn eða Tjarnirnar.
Taka rosalegan fótapakka 🙂
Hjóla heim og fara svo á Súbbanum til Rvk og sækja Pallann minn.

Svo myndi ég gera það að tillögu minni að ég fengi skáp í Styrk – þessi burður á sjampói, handklæðum, og alls kyns drasli er alveg að gera mig vitlausa!

Helga Dögg getur þú ekki bara tekið að þér að hugsa um handklæðin mín. Vera að drösla þessu hægri vinstri hér um allan bæ. Frekar lítið spennandi verð ég að segja.

Svo verður konan að hvíla svoldið um helgina. Ætli það sé samt ekki hægt að labba í morgunsárið báða dagana? Er það of mikið?

Hmmm ætti kannski að spyrja að því þar sem ég hef ekki sérlega mikið vit á eigin mörkum.

Hvernig á kona eins og ég að hafa tíma til að hugsa um bæ, börn og vinnu? Vitlaust að ætlasts til þess bara verð ég að segja!

En mér finnst þið frábær, ég er líka frábær amk er ég með fallegar tær ;-). Ég verð að finna upp eitthvað fleira sem ég er góð í og er gott við mig. Ég er bara á þessu stigi ekki alveg nógu góð manneskja eitthvað… Þarf að endurhugsa þetta vel og vandlega

Þreytt, þreyttari, þreyttust en brúðkaupsafmæli :-)

Mynd fyrir Ingu í tilefni dagsins
Oh my god frost í morgun. Ekki að ég hefi ætlað að hjóla eða labba með Bjart – öðru nær. En ég vil samt hafa gott veður áfram – alltaf.

Ég er sko enn að hvíla mig og ég held mér sé ekki vanþörf á því svei mér þá. Því meira sem ég hvíli mig því þreyttari verð ég svo ég hef ekkert sérstaklega góða reynslu af því ennþá. En það hlýtur að koma ;-).

Gústa var að bjóða mér til sín á morgun – og ég er game sko – en veðrið er nú ekki fýsilegt og hælsporinn minn espast allur við það að hvíla í bílstjórastellingunni og allt…

Eins og mig langar hræðilega. Athuga þetta betur á morgun. Verst hvað er dýrt að setja vetrardekkin undir til þess eins að taka þau svo aftur undan þegar heim er komið- en ekki það – það fer nú að verða allra veðra von hvað úr hverju.

En sem sagt – þreytt Inga kveðjur

Ojá – ég á brúðkaupasafmæli í dag – konan hefur verið gift í 15 ár – hmm er það ekki eitthvað svona fínt afmæli? Það þýðir að við Páll höfum verið saman í 21 ár – meira en helming ævi minnar. Svona fer að halla á hina hliðina!

Júbb kristallsafmæli í dag. Ja hérna. Það er geggjað bara.

Einu sinni gerði ég vefsíðu – þetta skrifaði ég þar í den tid…
Árið 1985 sá ég mann með miklar herðar, breiðan kassa og þau bláustu augu sem ég hafði séð og varð alveg bálskotin. Seinna varð ég síðan ástfangin því sjómaðurinn minn hafði líka góðan mann að geyma. Þessi maður er Páll Skaftason, fæddur og uppalinn á Selfossi. Foreldrar Palla eru Skafti Einarsson og Sigrún Guðveigsdóttir. Þann 5. október 1991 á afmælisdegi mömmu giftum við okkur í yndislegu veðri á Þingvöllum. Haustlitirnir skörtuðu sínu fegursta rétt eins og þeir gerðu nú í haust. .Saman höfum við eignastRagnheiði,litla kraftaverkið okkar f. 03.01.89. Hún hefur kennt okkur að erfiðleikarnir eru til þess að sigrast á þeim og ef við getum ekki lagt þá, þá verðum við að aðlagast þeim. Ragnheiður er hetja og hefur kennt okkur að það góða í lífinu er langt frá því að vera sjálfsagt.
Tæpum tveimur árum seinna, eða þann 13.12.90 kom lítill ljóshærður drengur í heiminn. Á næst síðasta degi þess árs var pilturinn sá skírður og gefið nafnið Aðalsteinn. Pilturinn sá er í raun ekki síðra kraftaverk en systir hans og foreldrarnir undruðust það lengi og undrast það raunar enn hve fæðing hvers heilbrigðs barns er stórfengleg.