Það er svo merkilegt að stundum er bara hreinlega eins og það eigi fyrir manni að liggja að gera a. ekki neitt eða b. eitthvað.
Í dag er svona eitthvað dagur. Mér finnst einhvern veginn eins og það sé ár og dagur síðan ég hafi haft heila helgi fyrir framan mig og ég geti gert það sem mér sýnist við hana. Sú er þó auðvitað ekki raunin. Ég geri svo sem aldrei neitt um helgar og hef unun af því.
Ætli léttirinn felist ekki í því að stormviðri heilabúsins míns sé um garð gengið – um tíma amk. Ég hef verið að hugsa svo margt.
vinnuna mína
Launin mín
Nám eða ekki nám
Verkir
Fyrirkomulag æfinga
Skómál
Mataræði
Börnin mín
Heimilið
Sjúkraþjálfun/nudd
Sem sagt allt sem við öll erum með á okkar könnu – mér er bara lagið að gera svolítið vesen úr þessu
Vinnan. Á ég að kenna áfram? Hvað á ég að kenna? Verð ég ánægð ef ég a. hætti að kenna b. hætti umsjón? Er ég ánægð að kenna?
Finnst mér ásættanlegt að fá í laun fyrir fulla vinnu um 160 þús kr. næstu árin? Liggur minn metnaður þar?
Til hvers að læra eitthvað meira sem tengist kennslu? Í skólum er engin goggunarröð, annað hvort ertu bara kennari eða kennari. Þú getur líka orðið deildarstjóri en langar mig eitthvað að vera deildarstjóri? Og ekki langar mig að vera skólastjóri þannig að…
Fyrir mastersnám fær maður 12 þús kr launahækkun. Skólagjöldin kosta 45 þús krónur hvern vetur. Þetta tæki mann með vinnu um 6 ár. Maður er bara allnokkurn tíma að vinna sér upp í skólagjöldin. Fyrir masterinn fengi ég svo sem ekki neitt, mig langar helst að vera kennsluráðgjafi starfandi innan skóla eða semja námsefni og það er hreint ekki á vísan að róa í þeim efnum. Mér sýnist ekki að kennsluráðgjöf sé á leið inn í skólanum og námsefnisgerð er í besta falli ókönnuð lönd.
Verkir eru slítandi. Sá sem finnur alltaf til verður alltaf lélegri og lélegri að þola þá – alveg öfugt við það sem mætti ætla. Hálsinn er skaplegur en býsna snúinn oft og úthaldið ekki sérlega mikið í herðum og hálsi. Þar býr spennan mín og af henni á ég víst nóg. Hælsporarnir eru orðnir tveir eða amk eru þeir orðnir einn og hálfur. Vöðvakerfin í fótunum eru að ibba sig – sundfimin ýtir við þeim og þreytan liðir við mig. Verkir stundum, teygjur og tog virðist duga upp að ákveðnu marki en svo tekur bara stirðleikinn við. Nenni ég þessu? Er þetta það sem ég vil? Já var og er svarið nokkuð einarðlega.
Er ég að æfa of mikið? Er ég að æfa rétt? Er ég að gera æfingar sem mér finnast skemmtilegar? Er ég á réttu róli í þessu öllu? Svarið var já – með áherslu á að fara að hjóla þegar veðrið batnar. Ég hlakka til þess.
Skórnir blandast svo inn í þetta alls staðar og allt um kring – ekkert verður úr neinu nema vera í góðum skóm og þeir kosta sitt. Hvernig skóm á ég að vera í, inniskór kosta líka ógó mikið 😉 og óþarflega langt í mánaðarmót en ég fann nú lausn á þessu sem betur fer. Vonandi líður mér betur í fótunum fljótlega.
Mataræði er klassískt. Ég verð að taka það fastari tökum til að ég verði ánægðari með mig. Ég verð að vera einbeittari – það er kannski helst spurning um það. Það gekk ágætlega þessa viku en betur má ef duga skal. Ég lít þó á það með stóískri ró að það er vel ásættanlegt að hafa lést um 2o kg eða svo á ári. Það er minn hraði og sá hraði sem ég ætla að halda mér við. Það væri amk allnokkuð í mínum huga ef það hefði bæst á mig á liðnu ári. Á þessum hraða lifi ég því lífi sem ég vil og hef ánægju af. Matur skiptir jú máli og gefur mér gleði. Fjölbreytnin mætti hins vegar aukast og einbeitnin varðandi sumt sömuleiðis. Enda hver er fullkominn en to tre?
Börnin mín og börnin mín. Hver hugsar ekki um börnin sín?
Heimilið er allt í voða og vitleysu og nú þarf ég að fara að gera eitthvað í því. Ég geri það kannski í dag og svo í páskafríinu 😉 – ásamt því að fara í allnokkrar fermingar.
Sjúkraþjálfun og nudd? Þarf ég á því að halda? Ég þarf amk á sjúkraþjálfaranum mínum að halda. Enginn í veröldinni hjálpar mér að halda kúrsi eins vel og hann og ég veit nú ekki alveg hve góð ég væri í því að halda honum óstudd. Ég er alveg orðin sannfærð um að þessu verkefni dugir ekki að vera einn. Samspilið er svo kannski eitthvað sem maður bara lætur þróast. Rétt eins og það hefur þróast. Stundum þarf svo kannski að koma til nudd og eitthvað til að laga það sem fer úr lagi. Kannski hjálpar það bara ekki neitt, hreyfingin dugar. En nú er ég sem sagt að minnka nuddið og þar með fækkar fundunum með sjúkra þó Baldur sé ótrúlega duglegur að tala við mig þegar ég er í salnum að bauka. Eftir ár er líklega kominn tími til að standa á eigin fótum og horfast í augu við það að vöðvabólgan þarfnast ekki nudds við heldur hreyfingar, slökunar og skynsemi. Ég verð líklega að skríða upp úr vasanum á honum og standa á eigin fótum 😉
Annars var ég að reyna eina æfingu í gær sem Valgerður kenndi mér úr jóganu – halla höfðinu og láta það hvílast á milli herðablaðanna (sem ég veit núna hvar eru á mér ;-)), hún sagði að það væri svo ægilega gott og ég horfði á hana gera þetta – virtist ekki vera mikið eða merkilegt en afskaplega afslappandi og fínt. Prófaði þetta svo í gær og ég kom höfðinu varla hálfhring án þess að hálf drepa mig. Púff það er sem sagt ekki alveg farið vesenið í herðunum og klárlega ekki í hálsinum en það er ekkert víst að neitt nudd bjargi því. Einhver sagði mér að nudd væri hvort sem er alveg tilgangslaust ;-). Ég gæti hugsað mér að trúa því næstu dagana meðan ég er í afnuddeitrun ;-))
Og nú ætla ég annað hvort í sund eða taka til í einhverjum skápum hér á heimilinu. Nóg er af draslinu í þeim.
Þá er bókhaldi yfir líf Ingveldar lokið að sinni. Helgin bíður ekki lengur og ég þarf að nýta tímann vel ef ég ætla að brenna 600 hitaeiningum í dag, taka til, hugsa um þvottinn, hundinn, börnin og sjálfa mig :-). Á morgun eru það 1400 hitaeiningar, vinna og kannski meiri tiltekt og í kringum þetta allt er svo eldamennskan ljúfa.
Og ég held ég sakni hans Palla bara svolítið. Já mikið verð ég fegin þegar ég fer í páskafrí það segi ég satt.






