Baldur er stundum að reyna að koma vitinu fyrir mig – alltaf jafnvel og reynir að finna ýmis rök og líkingar máli sínu til stuðnings. Stundum er Ingveldur alveg mát í upphafi tafls og því þarf hann að byrja á því að raða mönnunum upp fyrir hana á ný. Það gerir hann stundum með líkingunni við barn sem er að læra að ganga. En á betri dögum vísar hann til maraþonhlauparans sem þarf að hafa ákveðna áætlun til að hlaupa eftir – ákveðin markmið til skemmri og lengri tíma – það er ekki byrjað á því að demba sér til New York og hlaupa hjá þeim Björk og Grími!
Í mörg horn að líta
Eftir því sem hefur liðið á haustið hefur mér orðið það betur og betur ljóst að þetta verkefni mitt – lífsstílsbreytingin, er ekkert sérlega auðvelt. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að mæta í ræktina, einblína á að léttast og það allt saman – ég hef gert það – en það sem er erfitt er að halda út, missa ekki sjónar á því hvert skal haldið – vera viss um að maður vilji ná þangað. Mesta erfiðið er að breyta lífsmynstri sínu frá a til ö from now until eternity. Það er ekki bara mataræðið, heimilislífið, áhugamálin, lífssýnin – heldur það sem mér reynist kannski hve erfiðast – viðhorfið til vinnunnar. Þar þarf meira en lítið að ganga á, áður en ég næ lendingu. Ef maður er ófullnægður á einu sviði smitast það yfir á önnur svið. Maður getur sett upp augnhlífar eins og dráttarklárarnir einblínt á þyngdina, æfingarnar og saltað allt hitt en það kemur þá bara í hausinn á mér seinna. Það er bara ein leið til að gera þetta – og það er með því að taka á öllum hliðum mínum og þær eru margar, margbreytilegar og snúnar sumar hverjar. Kannski eins og hjá okkur flestum. Mesta kúnstin er þó að ætla sér ekki að gera það allt á sama tíma – og á sem skemmstum tíma!
Líkt er Ingveldi og íþróttamanni á leið á ÓL
The Mind Makes a Champion
Nú síðast þegar við Baldur spjölluðum þá var hann mér alveg sammála um það að verkefnið Lífsstílsbreyting Ingveldar væri vissulega erfitt – tröllaukið. Það var ákveðin fróun í sjálfu sér að fá staðfestingu á því fannst mér. Það væri ekki bara minn vesaldómur sem héldi því fram. Af því tilefni benti hann mér á að þetta væri eins og íþróttamaður ákveddi að fara á ÓL. Og mér fannst það nógu merkilega viðlíking til að hugnast hún vel ;-). Lífsstilbreytingin verður mín vegferð til Olympíu.
Það þarf að taka þátt í mörgum mótum, ná mörgum áföngum, þjálfa líkama og kannski ekki síður huga áður en settu marki er náð. Það eina sem truflar mig við þessa líkingu er að líklega hefur íþróttamaður sem ætlar sér stóra hluti traustari undirstöðu fyrir sinni ákvörðun en ég varðandi lífsstílsbreytinguna– ja að því gefnu að hann eigi eitthvað erindi á mótið – geti eitthvað í sinni grein en sé ekki eins og hvert annað nutcase!
Mér finnst ég bara hafa verið ferlega klár að hafa ekkert gert í mínum málum á skalanum almennilega fyrr – ekki eins klár að hafa látið hlutina þróast eins og þeir gerðu á bilinu 15 – 30 en um það er oft seint að fást núna. Ég hefði ekki komist úr sporunum ein – þetta er ekki eins manns verk það er alveg klárt og ekki heldur einhver hugdetta sem manni finnst eins og gæti verið sniðugt að framkvæma! Á einhvern undarlegan hátt hefur mér ekki dottið í hug fram að þessu að snúa ferlinu við, fara úr kyrrstöðu fíkilsins yfir á heilbrigða helminginn. Fyrir vikið er ég þó ekki með 100 skipsbrot á bakinu og veit blessunarlega lítið hvað bíður mín – annars gæti nú hörmungarhyggjan náð yfirhöndinni af enn meiri krafti en fyrir er! Ég hef sem sagt ekki skýra mynd af því að mistakast þetta verkefni í huganum – engin fyrirframgefin úrslit byggð á biturri reynslu.
Grunnurinn skiptir máli
En aftur að grunninum sem ég nefndi áður. Minn grunnur andlega er ekkert sérlega sterkur held ég ef við lítum til þess sem ég þarf að horfast í augu við. Lengi vel hef ég lítið leitt hugann að ókostum mínum og brestum. Hef haldið áfram á því sem ég hef talið mínar sterkar hliðar- falið hitt í algleymi þess sem þykist ekkert vilja af þeim vita nema þegar myrkirð sækir að. Þegar birtir er aftur horft fram á veginn og brestirnir víkja fyrir hinu sem ég get gert. Það þykir orðið nokkuð ljóst að ég er fíkill – það verður víst enginn svona feitur eins og ég nema hann sé fíkill. Mér finnst að vísu ekkert fínt að vera fíkill – myndi gjarnan vilja sleppa við þann stimpil en ég skal alveg venja mig við hann – tækla málin útfrá því. Er ég þá ekki komin með eina afsökunina enn? Ah mér er nú ekki sjálfrátt og því ætla ég bara að fá mér svolítið nammi og ,,njóta“ lífsins? Ég tek því svo bara af þolinmæði og umburðarlyndi og geri eitthvað í því þegar ég er í betra standi til að berjast við fíknina? Fíklum er jú oft á tíðum ekki sjálfrátt!
Ekki er nóg með að ég sé fíkill heldur er ég óþolinmóð og óvægin. Ég skal alveg kaupa það að ég sé óþolinmóð og flumbra. Ég t.d. sleit í sundur jólaseríu í fyrrakvöld bara af því mér hugkvæmdist ekki að athuga afhverju hún væri föst – heldur væri ráðið bara að toga fastar. Meira vinnur vit en strit hjá hinum þolinmóðu trúi ég en mér. En ég held ekki óþolinmæðin stjórni lífi mínu, og hún er líka ákveðinn drifkraftur. Og hún er hluti af persónuleika mínum og ég vil helst ekkert breytast mikið í grunninn heldur vera færari um að takast á við sjálfa mig – og þá þarf víst þessa margfrægu þolinmæði og títtnefnt umburðarlyndi.
Glíman núna er sem sagt að finna þennan meðalveg í umburðarlyndinu. Ég held mér sé ekki hollt sérlega mikið umburðarlyndi. En ég má heldur ekki skjóta mig í tánna í hvert eitt sinn sem mér verða á mistök en einhvern veginn finnst mér þau vera óleyfileg hvað mig varða – í sumu að minnsta kosti.
Ofan á allt annað er ég móðursjúk – sem mér finnst nú kannski verst af þessu öllu því það vil ég síst af öllu vera. Sáli reyndi þó að útskýra fyrir mér að þessi móðursýki fælist í næmni fyrir umhverfi mínu og slík en ekki almennri hysteríu – og mér finnst það nú ekki vera neitt ljótt eða slæmt, nema náttúrulega þegar maður verður fyrir slæmum áhrifum vegna þessa. Ég tel hins vegar að þessi næmni sem ég hef – og ég hef mikið af henni það skal viðurkennast, geri mig að góðum kennara en hún getur líka verið slítandi. Og svo nemur maður ekki alltaf allt rétt. Það er náttúrulega ekki gott – þá verður maður kannski svolítið móðursjúkur!
Ég efast um að íþróttamaður sem ætlar sér í fremstu röð hafi þessi ósköp öll, – nema þau séu þá hluti af styrk hans og þori – hann hafi lært að nýta sér skrattakollana sína sér til framdráttar og það er það sem mig langar að gera. Þess vegna fór ég til sálfræðings og þess vegna tel ég mig hafa fullt erindi þangað.
En ég hef líka kosti sem hjálpa: Ég get séð skondnu hliðarnar á málunum, ég er úrræðagóð, ég horfi á heildina, ég hef kroppinn í verkefnið, ég hef líka keppnisskap þó ég vilji helst ekki viðurkenna það og kunni lítið með það að fara! Ég get hrundið ótrúlegustu verkefnum af stað og það sem meira er ég get fylgt þeim eftir (ef ekki áður þá héðan í frá ;-)). Ég er dugleg!
Meðganga lífsstílsbreytingarinnar
Það eru komnir 9 mánuðir – heil meðganga síðan ég fór fyrst í salinn. Það telst ekki langur tími af mannsævinni og það er ekki langur tími í samanburði við þann tíma sem ég eyddi utan ræktarinnar.
Mér finnst þetta samt vera langur tími – og mér finnst eins og mér hafi átt að miða lengra en raun ber vitni. Ég sit hér og hef ekkert hreyft mig í síðustu viku – hvorki gengið úti, farið í salinn, né synt. Ét sælgæti núna – þó skammturinn hafi átt að vera etinn í gær og það sem verra er mér finnst eins og ég standi frammi fyrir þeim valkosti að halda áfram að éta nammi og hætta að hreyfa mig. Mér finnst það raunverulegur möguleiki að hætta að leggja þetta á mig – það sé hreinlega ekki framkvæmanlegt að gera þetta hvort sem er og því sé það í boði að halda áfram fyrri háttum, vinna, reyna að bæta mataræðið og hreyfa mig á sumrin.
Ég veit samt alveg hvað ég vel – ég vel að hreyfa mig og halda áfram að róa með í átt að bættri heilsu en afhverju er ég að sökkva? Og hvenær hefst ferðin upp á yfirborðið?
Ætti ég að hafa farið vigtina – mér finnst eins og hún veiti ákveðið aðhald og ekki veitir mér af aðhaldinu? Eða á ég að hugsa um að ná mér á flot og ekki vera að lemja á mér fyrir það sem ég veit að er ekki í lagi – einbeita mér að því að laga það og sækja svo fram og hafa þá vigtina með mér í sókninni frekar en að hafa hana sem andstæðing eins og staðan er óneitanlega núna?
Mér finnst hver dagur sem ég léttist ekki, hver vika sem ég stend mig ekki vera nagli í líkistuna – sönnun þess að ég geti þetta ekki. Sé ekki fær um að breyta mínum háttum. Sé aumingi. Ég horfi til þess að ég ætti að vera orðin 24 kílóum léttari 1. apríl 2007 en ég var 1. apríl 2006. Hvað ef ég verð það ekki? Þá hef ég fullkominn stimpil á rassinum sem á stendur auli!
En um leið og ég skrifa þetta þá kannski finnst mér nú kannski að ég nái þessu… 2 kg á mánuði og það eru kannski farin 15 – 20 kg þá kannski á ég möguleika. Þegar ég set dæmið svona upp…
Kannski bara get ég þetta? Kannski er ég bara fær um að gera eitthvað í mínum málum eftir allt saman! Kannski gengur þetta bara svona – niðursveifla og íhugun, sókn og dirfska.
Nú stend ég bara frammi fyrir því hvort ég fer í Styrk á eftir eður ei á eftir. Eða nei – ég stend ekki frammi fyrir því. Ég stend frammi fyrir því að ég fer í Styrk á eftir. (Fór ekki þar sem ég sofnaði fram á lyklaborðið eða því sem næst. Annað stendur óbreytt – óhaggað. Fyrri einbeitni verður tekin upp!)Næsta vika bíður með hreyfingu og vonandigóðri líðan. Vonandi fær Bjartur að njóta góðs af því – hann er búinn að vera í hálfgerðri einangrun því enginn labbar með hann ef ég geri það ekki. Ef ég næ ekki að hreyfa mig eins og hér segir hafa markmiðin verið of mörg. Markmið þar næstu viku gætu verið önnur bæði með tilliti til þess hvernig gengur að ná þessum en þó ekki síður breyttar aðstæður, jólafrí og það allt saman.
Markmið
Sem sagt markmið næstu viku:
Sofa – sem hefur vel að merkja gengið vel síðustu 3 nætur eða svo þó ég vakni ótrúlega oft sérstaklega fyrri partinn.
Slaka á í vinnunni – Róm var ekki byggð á einum degi
Huga vel að mataræði – muna 1 nammidag!
Svona ætla ég að hreyfa mig því ég ætla að vera dugleg næstu viku – ekkert múður.
Sunnudagur – Styrkur
Mánudagur – morgunbrennsla – helst ganga með Bjart.
Þriðjudagur – spinning
Miðvikudagur – morgunbrennsla og/eða
Fimmtudagur – morgunbrennsla
Föstudagur – salur