Upprisan (2)

Allt hefur sinn tíma – og oft er aðdragandinn ekki síður mikilvægur en upphafið sjálft.

Mín upprisa númer 2 hófst 1. júlí 2016 en leiðin að þeim degi er 13 mánaða gömul. Fram að því var niðursveifla sem endaði einmitt þá,  í maí 2015.

Það er auðvelt að harma hið liðna, en ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það – mikilvægara er að þakka allt það sem ég hef lært á síðustu 4 árum, njóta þess og nýta.

Ekki þýðir að sýta kílóin, hreyfihömlunina – bakslagið. Það er ekki til neins. Því vegurinn liggur fyrir framan mig – beinn og breiður, bara ef ég vil sjá hann og fara þá leið.

Ég hef ákveðið það. Sannarlega og hjartanlega.

Ég get nú ýmislegt

Ég hef nú misst 3 kíló tralalalala. Í fyrsta sinn í nokkrar vikur er ég að léttast annars hafði ég staðið af vísindalegri nákvæmi í nákvæmlega sömu tölunni sí og æ. Allt utanumhaldi danska mataræðisins (ekki gott að tala um kúr – dugar víst ekki að vera á kúr ef ég er ég) að þakka. Við Palli höfum bara staðið okkur rosa vel og áætlun hefur haldist.

Nú er bara að láta ekki deigan síga og hugsa um eldamennskuna. Hreyfingin er amk alveg svellköld inni. Ég meira að segja skunda í sundleikfimi á hverjum morgni alveg sama hversu lítið ég nenni því ekki ;-). En svo nenni ég því eiginlega alltaf svo mér er engin vorkunn.

Ég fór í Styrk í gær og bætti mér þar með upp mánudagstímann. Já og fékk þá þessa fínu tölu á vigtina loksins. Ég hef reynt að vera ekki buguð og beygð yfir þessu havaríi að léttast ekki heldur líta á það eins og hvað annað – svonalagað gerist, þetta er ekki áhlaup – ekki spretthlaup heldur langhlaup og vissulega er það gott að vera offitusjúklingur og matarfíkill og óreiðupési og hafa ekkert þyngst í 18 mánuði. Nú stefni ég á annað kíló að viku liðinni.

Mummu bróðir sagði að ég yrði bara að gera eins og Magnús – ákveða að labba á Mont Blanc og svo Kilimanjaro og gera það svo bara! Engin undankomuleið.

Hvað gæti ég sagt? 2 kíló á mánuði til áramóta eru sex kíló. Fyrstu fjórir mánðurinir eru önnur 8 kíló – þetta gera 14 kíló sem þýðir að ég hef lést um 18 -19 kíló á öðru ári mínu í lífsstílsbreytingunni… Það yrðu 42 kíló alls! Það er nú ekki svo slæmt – ég léttist að jafnaði um 2 kg á mánuði á síðasta ári og ég hlýt að geta það á ný…

Þá er það ákveðið. 2 kíló hið minnsta á mánuði – minna í desember þó og erfitt verður það í janúar en þá er líka bara að vera búin að taka aðeins meira af sér í annan tíma!

1. nóvember ætla ég að vera orðin 139 kíló og fagna nýjum tug!

Og takið þið eftir því hvað ég er farin að tala frjálslega um kílóin mín. Já ég verð áreiðanlega farin að standa á götuhornum og boða frelsun ykkar allra innan tíðar!

Er nýkliptt og litið – ógeðslega mikil pæja. Hefði annars þurft að vera innan dyra for ever – hárið á mér var hræðilegt! Og ég þar með.

Svo væri gott ef ég lærði að fara með peninga einhvern tímann í millitíðinni.

Don’t believe everything you think!

Það eru ákveðnar hugsanavillur í gangi hjá mér – já og svona ákveðin vafaatriði….

Einbeitingarleysi – afhverju?
Langar mig ekki í heilsbótina og kílóa-aflausnina? Jú ég verð að segja það. Vil að sjálfsögðu vera hraust – og good looking. Það væri áreiðanlega dásamlegt. Rétt að setja markið á það þá…

En leiðin að því að ná markmiðinu er einhvern veginn ekki mér að skapi. Stundum bara nenni ég þessu ekki. Þetta er ógnarinnar vesen og það er ekki einu sinni eins og kílóin hrynji af manni og heilsan sé alveg upp á glans. Heilsubótin lætur einhvern veginn bíða eftir sér….. Þó ég sé áreiðanlega ekki sama manneskjan og ég var. Áreiðanlega miklu betri – (ákveðins efa gætir þó í letrinu).

Trúi ég ekki að ég geti þetta?

Neibb – svo einfalt er það. Held að þetta sé glórulaust.

Þar er komin sú ruglaða hugmynd að Baldur eigi bara að gera þetta með mér og helst fyrir mig. Það er bara að ljúga að sjálfum sér að ætla öðrum að draga vagninn með mér. Enginn gerir þetta nema ég.

Einvera

Ég yrði ósköp glöð að hafa einhvern með mér í salnum. Gantast með og hlægja. Hvetja og berja mig áfram. Ipodinn getur verið einmanalegur félagi. Kannski hressir blakið upp á þá hlið…

Það er bara blekking að styðja sig við aðra. Það er bara blekking að horfast ekki í augu við það að ég léttist afskaplega hægt þessar vikurnar – og segja að þetta sé svo sem allt í fínum farvegi…

Ah kannski ekki….

Afsakanirnar hafa nú verið fínar síðar í vor: Skipsbrot í vinnunni, skipt um vinnustað, sýkingar í lungum og astmi (7 vikur af 13). Fótafúi dauðans. Sumarleyfi og ferðalög. Húsamálun…

En betur má ef duga skal – nú er að hrista af sér þessa berkjubólgu. Svona fyrst lappirnar eru ekki verri en þær eru…

Ég hef það nú bara ágætt og lifi fínu lífi. Ég set það á markmiðslistann minn að taka upp merkilega iðju þegar ég kem heim á kvöldin – ekki hlamma mér beint í sjónvarpsstólinn. Fara bara að snúa sér að handavinnu ha hu hummm?

Góða nótt

Ykkar Inga sem þrátt fyrir allt léttist örlítið þegar á heildina er litið og er virkilega að breyta um lífsstíl.

Kosningar, Evrovision, aðdáandi og prófagerð

…já og svo er einhver sjálfsmeðaumkvun þarna með líka! Hí hí það er sem sagt margt í mörgu.

Ég er pólitískt viðrini. Samfylkingarkona af lífi og sál og það allt saman – en mér finnst stundum ég sjái óþarflega margar hliðar á málunum. Er ekki nógu einstrengingsleg til að ná mér á almennilegt flug. En ég er krati af gamla skólanum.

Ég trúi á gildi og mátt almannatrygginga

Ég vil að samfélagið hugsi um þá sem minna mega sín og hlúi að þeim allt eftir því sem aðstæður hvers og eins bjóða upp á.

Ég vil hraðvirka og góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla og minnka kostnað fólks við hana. Það að fá blóðtappa í fótinn á ekki að kosta viðkomandi 18 þús krónur. Það finnst mér óforsvaranlegt.

Ég vil öflugt skólakerfi rekið af sveitarfélögum og ríki, þar sem áhersla er lögð á vellíðan nemenda, rólegt vinnuumhverfi og alúð sé lögð við hvern einstakling, hvort sem hann er nemandi eða starfsmaður.

Ég vil að skólinn sé vin í erli hversdagsins hjá börnum. Við þurfum að vega upp á móti flýtinum og stressinu í umhverfi þeirra með því að skapa þeim öryggar aðstæður þar sem samskipti skipta meginmáli. Í öryggi þroskumst við best þar sem við fáum krefjandi viðfangsefni og náum að láta ljós okkar skína. Í þessu finnst mér ýmislegt vanta í dag.

Skoðanirnar hér að ofan eru mér algjörlega inngrónar og ég hef skoðanir á mörgu fleiru. Ég hef hins vegar ekki leyft mér að fara á flug í stjórnmálunum því þá veit ég hvernig það myndi enda. Ég yrði stjórnmálanörd. Rétt eins og ég varð kennaranörd, bridgenörd eða F1 nörd – já eða líkamsræktarnörd. Ég nenni ekki að hafa áhuga á einhverju nema demba mér algjörlega í það. Þegar ég horfði á fótbolta þá sökkti ég mér algjörlega í það – þvældis á leiki hér og þar, og glápti á þennan fjanda í sjónvarpinu eins og ég kom því við. Úff sem betur fer gat ég bægt þeirri bakteríu frá mér og hef látið eins og hún sé ekki til – ætla að halda því sem allra mest áfram. Þarf samt að vera aðeins með á nótunum til að vera viðræðuhæf við krakkana!

Aumingja Palli fer illa út úr þessu ,,áhugaleysi“ mínu á stjórnmálum. Honum finnst svo gaman að tala um stjórnmál, fjargviðrast yfir stjórninni og þessar stefnu sem hefur fært ogkkur græðgi og aukið völd Mammons þannig að við erum eins strengjabrúður andskotans þegar kemur að peningum – og hjá okkur er eiginlega ekkert annað sem kemst að! Ég umla bara og humma og þverneita að nenna því að tala um þessi ósköp öll. Enda yrði ég líklega alveg vitlaus um leið.

Ég er nú svoldið spennt út af Evróvision – skyldi Eiki ná að koma okkur upp úr tapdeildinni? Hann hefur einhvern sjarma karlinn – ef honum tekst vel upp á sviðinu gæti vel farið svo – annars er ég orðin vonlítil með að við komumst nokkru sinni lengra en í undankeppnina. Það eru nokkur ágætis lög þarna innan um og saman við. Og ég elska þættina skandinavísku (hægt að líta á þá hér) sem eru á RUV – þvílík krútt sem þar eru saman komin. Eitt allra besta sjónvarpsefni síðari ára svei mér þá. Húrra fyrir þeim. Samfylkingin er með Evrovisonpartý á fimmtudaginn í Inghól – maður ætti kannski að skella sér? Annars skelli ég mér aldrei neitt…

Ég hitti aðdáenda minn á föstudaginn (vonandi má ég kalla hana það) Það var alveg frábært. Það er mjög gaman að vita að það sem ég skrifa geri einhverjum gott. Hún kom að máli við mig í Styrk og sagðist alltaf lesa bloggið mitt og það hvetti hana til að gera eitthvað í sínum málum. Ég var ótrúlega glöð að heyra það. Gaman að þessar langlokur mínar skipti einhverju agnarlitlu máli fyrir fleiri en mig. Þó ekki væri nema vegna einhvers skemmtanagildis. Baldur átti líka aðdáenda í henni. Amk vakti hann forvitni hennar ;-). Hann er vel þess virði að eiga aðdáendur – ég hefði aldrei farið af stað án hans tilstilli og ég hefði heldur ekki þraukað þetta án hans. Hann hefur hvatt mig áfram, stutt mig og sjúkrað. Það er mikilvægt að hafa einhvern með sér í þessu sem hefur áhuga á því sem er að gerast hjá manni. Komið ykkur í samband við einhvern. Kannski bara æfingafélaga, sjúkraþjálfara, einkaþjálfara eða verið í hóp – sumum finnst það gott. Þetta er í raun einfalt mál:

Þú þarft að taka frá tíma í hreyfinguna
Þú þarft að ætla þér að breyta
Þú þarft að fara aftur eftir fyrsta skiptið…
Þú þarft að fara aftur og aftur alveg sama hvað

Þú þarft ekki að vilja gera þetta
Þig þarf ekki að langa til að gera þetta
Þér þarf ekki einu sinni að þykja þetta skemmtilegt

Hið eina sem þarf er ákvörðunin: Ég ætla að gera þetta.

Við vitum öll að við eigum að hreyfa okkur og við erum jafnvel öll tilbúin til að trúa því að hreyfingin bæti líf okkar og auki lífslíkur. Sú almenna skynsemi sem við höfum öll til að bera dugar fyrsta kastið. Við vitum að við eigum að hreyfa okkur.

Þegar þú hefur brotist út úr vananum og er farin(n) að hreyfa þig reglulega þá kemur viljinn, markmiðin og áhuginn. Og ef ekki þá bara tough shit – þú verður bara að halda áfram samt. Sá munaður að halda að maður hafi val um að hreyfa sig eða hreyfa sig ekki, fleytir manni ekki áfram.

Það koma erfiðir tímar – þetta er stundum hundleiðinlegt og virðist ekki skila miklu, fyrir nú utan það að maður hefur bara engan tíma í þetta- og það er þá sem þarf að bretta upp ermarnar – og fara aftur og aftur alveg sama hvað. Og það besta við þetta allt saman er að þó eitthvað bregði útaf í mataræði eða hreyfingaráætlun þá er alltaf hægt að byrja aftur strax – maður bara stendur upp, dustar af höndunum rykið og heldur af stað á ný. Það er bara eðlilegt að hrasa. En það er líka gott að hafa einhvern til að styðja mann á fætur og blása á meiddið.

Við getum þetta öll, við finnum okkar takt og fetum okkur áfram veginn. Mér þótti hreint ekki skemmtilegt í Styrk fyrst og leið bara hroðalega illa þar. Ég vildi aldrei hitta Baldur aftur eftir að ég sá hann fyrst, Styrkur var óvinveittur staður og ég engdist um – eins og fiskur í neti. Eða minnkur í búri eins og upplifun Baldurs var af þessum fyrstu tímum okkar… Þessar aðstæður voru mér framandi og ógnvekjandi.

En einhvers staðar kraumaði svo vitneskja að ég yrði að gera eitthvað og kannski væri Baldur rétti maðurinn til þess að koma mér af stað – nógu dj… væri hann beinskeittur og lítt meðvirkur. Ég var lengi af stað en þessir 10 fyrstu nuddtímar þar sem Baldur rausaði og rausaði um hreyfingu var upphafið að ferðalaginu sem ekki sér fyrir endann á. Fyrst ég get þetta (ekki ef) þá getið þið það líka. Það er bara að ákveða að maður ætli að hreyfa sig, hvenær og hvernig. Ákvörðunin þarf að standa og hefur ekkert með vilja að gera – heldur common sense. Og svo er að mæta aftur og aftur og aftur þar til það er orðið manni eins eiginlegt og hitt – að mæta ekki.

Á einu ári hef ég misst 24 kg og 110 sentimetra af ummáli mínu. Ég hef styrkst, orðið yfirvegaðari, ekki eins stressuð og orðið meðvitaðari um sjálfa mig, þarfir mínar og mörk. Eftir ár verð ég búin að missa 48 kg og eftir tvö ár héðan í frá – eða þrjá ár alls verð ég búin að missa massa sem nemur eins og einni meðalkonu. Ég ætla ekki að hafa neitt ef í þessu en ég veit að kannski næst þetta ekki – kannski tekur það mig 4 ár að ná markmiði mínu og það verður þá bara allt í lagi. Ég hef nefnilega lært ýmsilegt um markmið líka á síðastliðnu ári.

We can do it.

Verum bara vel byrg af plástrum og öðrum björgum því stundum gefur á bátinn 😉
You go girl – aðdáandi minn. Það var ótrúlega hvetjandi að hitta þig og heyra frá þér. Takk fyrir það.

Skaðvaldurinn fundinn

…illa lyktandi bollu-limesneið sem hafði laumað sér hér í eitt hornið undir innréttingunni og spjó svo út úr sér allskonar ógeðseindum sem menguðu fyrir mér loftið. Fuss og svei! Drap kvikindið og kom því út í tunnu en þessi lime sneið var fölsk og viðsjárverð og hafði látið sér ryksugun, sópun og skúringu fram hjá sér fara. Eins og hún var falleg og ljúf á föstudaginn tuttugasta – þá var hún eins og þessi hér að ofan. Mynd af ófétinu í dag verður ekki látin fylgja!

Búin að fara í hjólatúr, Styrk og meira hjól í dag. Hreyfingaáætlun þessarar viku stóðst með ágætum. Það kemur svo í ljós á föstudag með afganginn. Það verður bara að taka hraustlega á í grænmetisáti og heilbrigðu líferni næstu viku. Maður er alltaf að reyna, alltaf að reyna. Og stundum tekst manni svo ljómandi vel upp!

Back to the basics

Ég og Bjartur vöknuðum árla í morgun en í gærkveldi bjó ég til lista yfir allt það sem ég þarf að gera næstu 7 dagana – hefur vísast valdið því hve snemma ég vaknaði. Það er ýmislegt- húslegt og garðlegt. Hér í garðinum er mikið rusl saman komið – jukkiti júkk bara – bæði frá okkur og svo fýkur mikið hingað inn líka – mjög sóðalegt og ég verð að gera eitthvað í þessu í algjöru snarhasti. Ja kannski ekki algjöru snarhasti en svona nokkru snarhasti….

Nú en það sem ríður mest á er að komast í taktinn í lífinu sjálfu aftur eftir hálf einbeitingarlausa viku síðast. Það dugir ekki að horfa bara á það sem betur má fara og gera ekkert í því heldur barasta koma sér í gírinn á ný.

Gærdagurinn var afleitur matarlega séð – en ég var mjög dugleg í ræktinni en fór ekki sundleikfimina. Var bara einfaldlega of þreytt – en það er nokkuð sem einkenndi mig í liðinni viku. Svo erfitt að vera í páskafríi ;-).

En þar sem ég var minnt á það að ég ætti hjól í gær og að ég ætti að nota það brá ég undir mig betri fætinum og hjólaði í morgun til að koma brennslunni af stað. Það var nú ekki sérlega gott veður og rigningin æði köld á köflum en ég náði að hjóla góðan spotta á móti vindi sem er sérlega æskilegt því annars næ ég ekki púlsinum upp nema með mikilli langkeyrslu. Ég hjólaði í um 25 mínútur og er bara ánægð með það nú þegar ég hlusta á nauðið í vindinum og sé dropana falla skáhalt hér fyrir utan.

Í dag ætla ég að horfa á tímatökur í F1, baka bollur, taka til í ,,skrifstofugeymslunni“ minni og slappa svo vel af inn á milli. Stefni á svolítið hlaup í lauginni um fjögur leytið – þarf enn að brenna um 400 hitaeiningum til að vera á áætlun dagsins. Vantar umtalsvert upp á að bæta hreyfingaleysi mánudags en þar sem ég fer í Styrk á morgun þá lítur jafnan ekki afleitlega út og ég hef snúið vörn í sókn.

Nú er bara að huga vel að mataræðinu og taka sig í gegn þar sem því er ábótavant. Auka grænmetisátið, minnka brauðát – helst setja það alveg út og borða ekki neitt nema grænmeti eftir kl 20 á kvöldin. Þá er ég í góðum málum.

Bless í bili

Hmm allt komið í vitleysu

Sögulegu hámarki hefur verið náð í þyngdaraukningu en það var svo sem við því að búast eftir páskana – það er nú meiri hátíðin og fermingaveislurnar voru síst til þess að bæta úr. Páskaeggið ekki heldur…. og allt sem því fylgdi. Og því ætlaði ég að spýta í lófana þessa viku en það hefur nú ekki tekist:

Mánudagur: Engin hreyfing
Þriðjudagur: Engin hreyfing
Miðvikudagur: Brennsla í 45 mín – hey og ég var í 25 mín samfleytt á stigvélinni – oh yeah
Fimmtudagur: Ekkert
Föstudagur: Ja það er sko eins gott – það er þó ekki sundleikfimi því í hana fór ég sko bara ekki neitt.

Mataræði: Gott en með alvarlegum misbrestum þó! Einbeitingin ekki í lagi.

Afraksturinn bullandi hálsverkir – sem líklega komu á undan hreyfingaleysinu og ég virðist ætla að láta þá stoppa mig að þessu sinni. Svefnleysi hefur verið viðvarandi þessa viku og alls konar böggl á næturnar enda þarf ég að setjast upp í hvert skipti sem ég sný mér þar sem ég get ekki snúið herðum og hálsi.

Ég man núna hvað var leiðinlegt að finna til í hálsinum!

Og nú þarf að spýta í lófana. Ég þarf helst að léttast um 2 kg þessa vikuna…

Aðgerðaáætlun 1 – uppfærð 11:30

Nú þarf að grípa til breiðu spjótanna:
Borða páskaegg hratt og vel og eiga ekkert eftir á morgun!
Reyna að ákveða hvort það var gott eða slæmt að McLaren vann 1-2 í Malasíu!
Enn engin niðurstaða þar.
Fara a.m.k. 2 sinnum út að hjóla í dag.
Oh yeah – fór Votmúlahringinn og hann er skoho langur og við hjóluðum stanslaust í klst. 1000 hitaeiningar þar í yndislegu veðri, úða og logni. Hæfilega aum í rassinum en í mun betra standi en aumingja Pallarass ;-).
Þvo margar margar margar þvottavélar og það sem er ekki minna um vert – hengja upp úr þeim (held ég ætti kannski að safna mér fyrir þurrkara – það er ekki hemja að vera hvorki með þurrkaðstöðu né þurrkara!).
1 búin
Finnast alveg æðislegt að vera í fríi.
Gengur vel.
Hugsa sem fallegast um þriðjudaginn!
ohhhh vil ekki af honum vita!!!!
Halda áfram að taka til í geymslunni sem á að verða skrifstofa…
Bjóða tengdó í svínslæri ala Helga Sigurðar!
Mallar í ofninum
Hmm þetta er kannski fullmikið verkefni fyrir einn dag…
Sjáum til sjáum til það þarf víst ekki að ná öllum markmiðum – alltaf, strax…
En þetta með hjólið stendur!!!!

Morgunstund gefur gull í mund

Góðan daginn

Nú er fyrsti í fríi :-).

Ekki leiðinlegt. Ég er vöknuð og svellfín árla morguns – það er nú ekki leiðinlegt heldur. Það verður nú að segjast ;-).

Þegar Palli er heima er alltaf ákveðin hætta á því að allt fari í vitleysu. Það er allt í einu ekki nærri eins einfalt að halda einstrengingslega áætlun mína þegar maður þarf að taka tillit til (eða ætti amk að gera það) annars. Ég þarf meira að segja að vera svolítið notaleg okkar allra vegna. Það er nú ekki gaman að koma heim til fúllar kerlu – eða fá fúlan karl heim. Annars er það náttúrulega ekki sérlega erfitt því ég er svo notaleg manneskja eins og þið vitið, híhíhí.

En sem sagt – mataræði, hreyfing, svefn gengur allt nokkuð úr lagi og ég má hafa mig alla við að halda áætlun. Annars á Páll ekki marga úrkosti blessaður. Hann getur jú verið heima á meðan ég sprikla eða komið með. Um helgina hefur hann komið með. Eiginlega alveg undrandi á því að rassinn á sér skuli enn halda eftir hjólreiðar helgarinnar.

Þegar nýtt hjól kemur í hús er náttúrulega ekki annað að gera en nota það og það hefur verið gert. Hún Þórunn elskuleg lánaði mér hjólið sitt í haust og Páll hefur verið að nota það – það er eins hjól og mitt. Frábærir gripir báðir tveir, takk Þórunn mín. Kannski get ég einhvern tímann launað þér greiðann.

Þar sem einu mjúki göngustígarnir sem mér hugnast hér í nágreninu eru í hinum blauta Þrastarskógi fer ég ekki þangað né annað því hælsporarnir mínir bjóða ekki upp á göngur. Á laugardaginn fórum við því í hjólreiðatúr og í gær var stefnan tekin á upphitun á hjólum og svo Styrkur.

Það fór hins vegar svo að eftir að við hjóluðum vítt og breitt um Selfoss, Laugardæli og nærliggjandi þjóðvegi í um 40 mín vorum við svo hrakin og köld að við sáum okkur ekki annað fært en fara í heitan pott. Sem við og gerðum og ég synti svolítið og hljóp í lauginni. Brennslan var þó ekki sambærileg á við Styrk – þ.e. eftir því sem Polli sagði en ég þarf að stilla hann þannig að hann taki mið að lækkuðum púls í vatni.

Eftir ferminguna hans Ingþórs var komið þetta ofsalega góða veður og fullur vilji til þess að hjóla svolítið meira og þá bættist við allnokkuð af kaloríubrennslu þannig að dagurinn í gær var mjög góður. Það er svo gaman að hjóla! Ég ætla svo að hjóla í dag og fara svo í Styrk – gaman að breyta aðeins til og sleppa við ógeðstækið við og við :-). Mér sýnist vera hið ágætasta veður – en það má svo sem alveg vera leiðinlegt – þá brennir maður bara meira – ef vindurinn blæs manni í fang.

Framundan bíður svo sex hæða fermingarterta fyrir Kristínu, Borgarfjarðar ferð en áður en það allt saman gerist þarf að taka til í eins og einni geymslu – sem klárlega verður allnokkur brennsla ;-).

Inga mælir með að allir fái sér Swhinn hjól og komi með út að hjóla. Munið bara eftir hjálminum því of seint er að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í :-).

p.s. Þess bera að geta að markmið síðustu viku náðist ekki varðandi þyngdina nema þá til hálfs… Nú tekur bara við damage conrol og hörku brennsla alla daga. Það er eiginlega ekki hægt að léttast um páska…

FATT

ég er hætt að hugsa um að léttast. Gengur hvort sem er ekki neitt. Ég ætla bara að verða massaðasta fitubolla á Íslandi.

Sounds good – yeah!

Ég geri bara það sem mér sýnist!

Þetta er vænlegt markmið ekki satt?

Áhyggjulaust líf here I come!

Ég er líka hætt í námi hjá KHÍ – ég ætla aldrei að læra neitt sem viðkemur kennslu framar? Tilhvers? Álíka gáfulegt og að henda peningum tíma og heilsu út um gluggann!

Vill einhver koma í slag? Ég er til 😉