Ég er pólitískt viðrini. Samfylkingarkona af lífi og sál og það allt saman – en mér finnst stundum ég sjái óþarflega margar hliðar á málunum. Er ekki nógu einstrengingsleg til að ná mér á almennilegt flug. En ég er krati af gamla skólanum.
Ég trúi á gildi og mátt almannatrygginga
Ég vil að samfélagið hugsi um þá sem minna mega sín og hlúi að þeim allt eftir því sem aðstæður hvers og eins bjóða upp á.
Ég vil hraðvirka og góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla og minnka kostnað fólks við hana. Það að fá blóðtappa í fótinn á ekki að kosta viðkomandi 18 þús krónur. Það finnst mér óforsvaranlegt.
Ég vil öflugt skólakerfi rekið af sveitarfélögum og ríki, þar sem áhersla er lögð á vellíðan nemenda, rólegt vinnuumhverfi og alúð sé lögð við hvern einstakling, hvort sem hann er nemandi eða starfsmaður.
Ég vil að skólinn sé vin í erli hversdagsins hjá börnum. Við þurfum að vega upp á móti flýtinum og stressinu í umhverfi þeirra með því að skapa þeim öryggar aðstæður þar sem samskipti skipta meginmáli. Í öryggi þroskumst við best þar sem við fáum krefjandi viðfangsefni og náum að láta ljós okkar skína. Í þessu finnst mér ýmislegt vanta í dag.
Skoðanirnar hér að ofan eru mér algjörlega inngrónar og ég hef skoðanir á mörgu fleiru. Ég hef hins vegar ekki leyft mér að fara á flug í stjórnmálunum því þá veit ég hvernig það myndi enda. Ég yrði stjórnmálanörd. Rétt eins og ég varð kennaranörd, bridgenörd eða F1 nörd – já eða líkamsræktarnörd. Ég nenni ekki að hafa áhuga á einhverju nema demba mér algjörlega í það. Þegar ég horfði á fótbolta þá sökkti ég mér algjörlega í það – þvældis á leiki hér og þar, og glápti á þennan fjanda í sjónvarpinu eins og ég kom því við. Úff sem betur fer gat ég bægt þeirri bakteríu frá mér og hef látið eins og hún sé ekki til – ætla að halda því sem allra mest áfram. Þarf samt að vera aðeins með á nótunum til að vera viðræðuhæf við krakkana!
Aumingja Palli fer illa út úr þessu ,,áhugaleysi“ mínu á stjórnmálum. Honum finnst svo gaman að tala um stjórnmál, fjargviðrast yfir stjórninni og þessar stefnu sem hefur fært ogkkur græðgi og aukið völd Mammons þannig að við erum eins strengjabrúður andskotans þegar kemur að peningum – og hjá okkur er eiginlega ekkert annað sem kemst að! Ég umla bara og humma og þverneita að nenna því að tala um þessi ósköp öll. Enda yrði ég líklega alveg vitlaus um leið.
Ég er nú svoldið spennt út af Evróvision – skyldi Eiki ná að koma okkur upp úr tapdeildinni? Hann hefur einhvern sjarma karlinn – ef honum tekst vel upp á sviðinu gæti vel farið svo – annars er ég orðin vonlítil með að við komumst nokkru sinni lengra en í undankeppnina. Það eru nokkur ágætis lög þarna innan um og saman við. Og ég elska þættina skandinavísku (hægt að líta á þá hér) sem eru á RUV – þvílík krútt sem þar eru saman komin. Eitt allra besta sjónvarpsefni síðari ára svei mér þá. Húrra fyrir þeim. Samfylkingin er með Evrovisonpartý á fimmtudaginn í Inghól – maður ætti kannski að skella sér? Annars skelli ég mér aldrei neitt…
Ég hitti aðdáenda minn á föstudaginn (vonandi má ég kalla hana það) Það var alveg frábært. Það er mjög gaman að vita að það sem ég skrifa geri einhverjum gott. Hún kom að máli við mig í Styrk og sagðist alltaf lesa bloggið mitt og það hvetti hana til að gera eitthvað í sínum málum. Ég var ótrúlega glöð að heyra það. Gaman að þessar langlokur mínar skipti einhverju agnarlitlu máli fyrir fleiri en mig. Þó ekki væri nema vegna einhvers skemmtanagildis. Baldur átti líka aðdáenda í henni. Amk vakti hann forvitni hennar ;-). Hann er vel þess virði að eiga aðdáendur – ég hefði aldrei farið af stað án hans tilstilli og ég hefði heldur ekki þraukað þetta án hans. Hann hefur hvatt mig áfram, stutt mig og sjúkrað. Það er mikilvægt að hafa einhvern með sér í þessu sem hefur áhuga á því sem er að gerast hjá manni. Komið ykkur í samband við einhvern. Kannski bara æfingafélaga, sjúkraþjálfara, einkaþjálfara eða verið í hóp – sumum finnst það gott. Þetta er í raun einfalt mál:
Þú þarft að taka frá tíma í hreyfinguna
Þú þarft að ætla þér að breyta
Þú þarft að fara aftur eftir fyrsta skiptið…
Þú þarft að fara aftur og aftur alveg sama hvað
Þú þarft ekki að vilja gera þetta
Þig þarf ekki að langa til að gera þetta
Þér þarf ekki einu sinni að þykja þetta skemmtilegt
Hið eina sem þarf er ákvörðunin: Ég ætla að gera þetta.
Við vitum öll að við eigum að hreyfa okkur og við erum jafnvel öll tilbúin til að trúa því að hreyfingin bæti líf okkar og auki lífslíkur. Sú almenna skynsemi sem við höfum öll til að bera dugar fyrsta kastið. Við vitum að við eigum að hreyfa okkur.
Þegar þú hefur brotist út úr vananum og er farin(n) að hreyfa þig reglulega þá kemur viljinn, markmiðin og áhuginn. Og ef ekki þá bara tough shit – þú verður bara að halda áfram samt. Sá munaður að halda að maður hafi val um að hreyfa sig eða hreyfa sig ekki, fleytir manni ekki áfram.
Það koma erfiðir tímar – þetta er stundum hundleiðinlegt og virðist ekki skila miklu, fyrir nú utan það að maður hefur bara engan tíma í þetta- og það er þá sem þarf að bretta upp ermarnar – og fara aftur og aftur alveg sama hvað. Og það besta við þetta allt saman er að þó eitthvað bregði útaf í mataræði eða hreyfingaráætlun þá er alltaf hægt að byrja aftur strax – maður bara stendur upp, dustar af höndunum rykið og heldur af stað á ný. Það er bara eðlilegt að hrasa. En það er líka gott að hafa einhvern til að styðja mann á fætur og blása á meiddið.
Við getum þetta öll, við finnum okkar takt og fetum okkur áfram veginn. Mér þótti hreint ekki skemmtilegt í Styrk fyrst og leið bara hroðalega illa þar. Ég vildi aldrei hitta Baldur aftur eftir að ég sá hann fyrst, Styrkur var óvinveittur staður og ég engdist um – eins og fiskur í neti. Eða minnkur í búri eins og upplifun Baldurs var af þessum fyrstu tímum okkar… Þessar aðstæður voru mér framandi og ógnvekjandi.
En einhvers staðar kraumaði svo vitneskja að ég yrði að gera eitthvað og kannski væri Baldur rétti maðurinn til þess að koma mér af stað – nógu dj… væri hann beinskeittur og lítt meðvirkur. Ég var lengi af stað en þessir 10 fyrstu nuddtímar þar sem Baldur rausaði og rausaði um hreyfingu var upphafið að ferðalaginu sem ekki sér fyrir endann á. Fyrst ég get þetta (ekki ef) þá getið þið það líka. Það er bara að ákveða að maður ætli að hreyfa sig, hvenær og hvernig. Ákvörðunin þarf að standa og hefur ekkert með vilja að gera – heldur common sense. Og svo er að mæta aftur og aftur og aftur þar til það er orðið manni eins eiginlegt og hitt – að mæta ekki.
Á einu ári hef ég misst 24 kg og 110 sentimetra af ummáli mínu. Ég hef styrkst, orðið yfirvegaðari, ekki eins stressuð og orðið meðvitaðari um sjálfa mig, þarfir mínar og mörk. Eftir ár verð ég búin að missa 48 kg og eftir tvö ár héðan í frá – eða þrjá ár alls verð ég búin að missa massa sem nemur eins og einni meðalkonu. Ég ætla ekki að hafa neitt ef í þessu en ég veit að kannski næst þetta ekki – kannski tekur það mig 4 ár að ná markmiði mínu og það verður þá bara allt í lagi. Ég hef nefnilega lært ýmsilegt um markmið líka á síðastliðnu ári.
We can do it.
Verum bara vel byrg af plástrum og öðrum björgum því stundum gefur á bátinn 😉
You go girl – aðdáandi minn. Það var ótrúlega hvetjandi að hitta þig og heyra frá þér. Takk fyrir það.








Enda sjáið þið að þetta er tóm sæla og ekkert annað. Tóm sæla. Hélt nú annars að Baldur ætlaði einhvern tímann að koma með mér en hann hefur nú eiginlega alveg svikið mig um það! Þorir kannski ekki, tíhíhí!