Kosningar, Evrovision, aðdáandi og prófagerð

…já og svo er einhver sjálfsmeðaumkvun þarna með líka! Hí hí það er sem sagt margt í mörgu.

Ég er pólitískt viðrini. Samfylkingarkona af lífi og sál og það allt saman – en mér finnst stundum ég sjái óþarflega margar hliðar á málunum. Er ekki nógu einstrengingsleg til að ná mér á almennilegt flug. En ég er krati af gamla skólanum.

Ég trúi á gildi og mátt almannatrygginga

Ég vil að samfélagið hugsi um þá sem minna mega sín og hlúi að þeim allt eftir því sem aðstæður hvers og eins bjóða upp á.

Ég vil hraðvirka og góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla og minnka kostnað fólks við hana. Það að fá blóðtappa í fótinn á ekki að kosta viðkomandi 18 þús krónur. Það finnst mér óforsvaranlegt.

Ég vil öflugt skólakerfi rekið af sveitarfélögum og ríki, þar sem áhersla er lögð á vellíðan nemenda, rólegt vinnuumhverfi og alúð sé lögð við hvern einstakling, hvort sem hann er nemandi eða starfsmaður.

Ég vil að skólinn sé vin í erli hversdagsins hjá börnum. Við þurfum að vega upp á móti flýtinum og stressinu í umhverfi þeirra með því að skapa þeim öryggar aðstæður þar sem samskipti skipta meginmáli. Í öryggi þroskumst við best þar sem við fáum krefjandi viðfangsefni og náum að láta ljós okkar skína. Í þessu finnst mér ýmislegt vanta í dag.

Skoðanirnar hér að ofan eru mér algjörlega inngrónar og ég hef skoðanir á mörgu fleiru. Ég hef hins vegar ekki leyft mér að fara á flug í stjórnmálunum því þá veit ég hvernig það myndi enda. Ég yrði stjórnmálanörd. Rétt eins og ég varð kennaranörd, bridgenörd eða F1 nörd – já eða líkamsræktarnörd. Ég nenni ekki að hafa áhuga á einhverju nema demba mér algjörlega í það. Þegar ég horfði á fótbolta þá sökkti ég mér algjörlega í það – þvældis á leiki hér og þar, og glápti á þennan fjanda í sjónvarpinu eins og ég kom því við. Úff sem betur fer gat ég bægt þeirri bakteríu frá mér og hef látið eins og hún sé ekki til – ætla að halda því sem allra mest áfram. Þarf samt að vera aðeins með á nótunum til að vera viðræðuhæf við krakkana!

Aumingja Palli fer illa út úr þessu ,,áhugaleysi“ mínu á stjórnmálum. Honum finnst svo gaman að tala um stjórnmál, fjargviðrast yfir stjórninni og þessar stefnu sem hefur fært ogkkur græðgi og aukið völd Mammons þannig að við erum eins strengjabrúður andskotans þegar kemur að peningum – og hjá okkur er eiginlega ekkert annað sem kemst að! Ég umla bara og humma og þverneita að nenna því að tala um þessi ósköp öll. Enda yrði ég líklega alveg vitlaus um leið.

Ég er nú svoldið spennt út af Evróvision – skyldi Eiki ná að koma okkur upp úr tapdeildinni? Hann hefur einhvern sjarma karlinn – ef honum tekst vel upp á sviðinu gæti vel farið svo – annars er ég orðin vonlítil með að við komumst nokkru sinni lengra en í undankeppnina. Það eru nokkur ágætis lög þarna innan um og saman við. Og ég elska þættina skandinavísku (hægt að líta á þá hér) sem eru á RUV – þvílík krútt sem þar eru saman komin. Eitt allra besta sjónvarpsefni síðari ára svei mér þá. Húrra fyrir þeim. Samfylkingin er með Evrovisonpartý á fimmtudaginn í Inghól – maður ætti kannski að skella sér? Annars skelli ég mér aldrei neitt…

Ég hitti aðdáenda minn á föstudaginn (vonandi má ég kalla hana það) Það var alveg frábært. Það er mjög gaman að vita að það sem ég skrifa geri einhverjum gott. Hún kom að máli við mig í Styrk og sagðist alltaf lesa bloggið mitt og það hvetti hana til að gera eitthvað í sínum málum. Ég var ótrúlega glöð að heyra það. Gaman að þessar langlokur mínar skipti einhverju agnarlitlu máli fyrir fleiri en mig. Þó ekki væri nema vegna einhvers skemmtanagildis. Baldur átti líka aðdáenda í henni. Amk vakti hann forvitni hennar ;-). Hann er vel þess virði að eiga aðdáendur – ég hefði aldrei farið af stað án hans tilstilli og ég hefði heldur ekki þraukað þetta án hans. Hann hefur hvatt mig áfram, stutt mig og sjúkrað. Það er mikilvægt að hafa einhvern með sér í þessu sem hefur áhuga á því sem er að gerast hjá manni. Komið ykkur í samband við einhvern. Kannski bara æfingafélaga, sjúkraþjálfara, einkaþjálfara eða verið í hóp – sumum finnst það gott. Þetta er í raun einfalt mál:

Þú þarft að taka frá tíma í hreyfinguna
Þú þarft að ætla þér að breyta
Þú þarft að fara aftur eftir fyrsta skiptið…
Þú þarft að fara aftur og aftur alveg sama hvað

Þú þarft ekki að vilja gera þetta
Þig þarf ekki að langa til að gera þetta
Þér þarf ekki einu sinni að þykja þetta skemmtilegt

Hið eina sem þarf er ákvörðunin: Ég ætla að gera þetta.

Við vitum öll að við eigum að hreyfa okkur og við erum jafnvel öll tilbúin til að trúa því að hreyfingin bæti líf okkar og auki lífslíkur. Sú almenna skynsemi sem við höfum öll til að bera dugar fyrsta kastið. Við vitum að við eigum að hreyfa okkur.

Þegar þú hefur brotist út úr vananum og er farin(n) að hreyfa þig reglulega þá kemur viljinn, markmiðin og áhuginn. Og ef ekki þá bara tough shit – þú verður bara að halda áfram samt. Sá munaður að halda að maður hafi val um að hreyfa sig eða hreyfa sig ekki, fleytir manni ekki áfram.

Það koma erfiðir tímar – þetta er stundum hundleiðinlegt og virðist ekki skila miklu, fyrir nú utan það að maður hefur bara engan tíma í þetta- og það er þá sem þarf að bretta upp ermarnar – og fara aftur og aftur alveg sama hvað. Og það besta við þetta allt saman er að þó eitthvað bregði útaf í mataræði eða hreyfingaráætlun þá er alltaf hægt að byrja aftur strax – maður bara stendur upp, dustar af höndunum rykið og heldur af stað á ný. Það er bara eðlilegt að hrasa. En það er líka gott að hafa einhvern til að styðja mann á fætur og blása á meiddið.

Við getum þetta öll, við finnum okkar takt og fetum okkur áfram veginn. Mér þótti hreint ekki skemmtilegt í Styrk fyrst og leið bara hroðalega illa þar. Ég vildi aldrei hitta Baldur aftur eftir að ég sá hann fyrst, Styrkur var óvinveittur staður og ég engdist um – eins og fiskur í neti. Eða minnkur í búri eins og upplifun Baldurs var af þessum fyrstu tímum okkar… Þessar aðstæður voru mér framandi og ógnvekjandi.

En einhvers staðar kraumaði svo vitneskja að ég yrði að gera eitthvað og kannski væri Baldur rétti maðurinn til þess að koma mér af stað – nógu dj… væri hann beinskeittur og lítt meðvirkur. Ég var lengi af stað en þessir 10 fyrstu nuddtímar þar sem Baldur rausaði og rausaði um hreyfingu var upphafið að ferðalaginu sem ekki sér fyrir endann á. Fyrst ég get þetta (ekki ef) þá getið þið það líka. Það er bara að ákveða að maður ætli að hreyfa sig, hvenær og hvernig. Ákvörðunin þarf að standa og hefur ekkert með vilja að gera – heldur common sense. Og svo er að mæta aftur og aftur og aftur þar til það er orðið manni eins eiginlegt og hitt – að mæta ekki.

Á einu ári hef ég misst 24 kg og 110 sentimetra af ummáli mínu. Ég hef styrkst, orðið yfirvegaðari, ekki eins stressuð og orðið meðvitaðari um sjálfa mig, þarfir mínar og mörk. Eftir ár verð ég búin að missa 48 kg og eftir tvö ár héðan í frá – eða þrjá ár alls verð ég búin að missa massa sem nemur eins og einni meðalkonu. Ég ætla ekki að hafa neitt ef í þessu en ég veit að kannski næst þetta ekki – kannski tekur það mig 4 ár að ná markmiði mínu og það verður þá bara allt í lagi. Ég hef nefnilega lært ýmsilegt um markmið líka á síðastliðnu ári.

We can do it.

Verum bara vel byrg af plástrum og öðrum björgum því stundum gefur á bátinn 😉
You go girl – aðdáandi minn. Það var ótrúlega hvetjandi að hitta þig og heyra frá þér. Takk fyrir það.

Til hamingju með 1. maí Páll og fleiri

Palli verkamaðurinn minn er nú að vinna í dag í Færeyjum blessaður karlinn. Ekki fríinu fyrir að fara hjá honum. Ég hlakka mjög til að fá hann heim á föstudaginn. Vonandi snjóar ekki mikið þegar ég næ í hann ;-).

Við Bjartur vöknuðum eldsnemma – meira hann en ég samt. Hann langar svolítið út að labba en ég er svo steikt í fótunum að ég held ég komist ekki. Það voru nefnilega 2400 hitaeiningar sem fuku í gær í: Morgungöngu, morgunhjólreiðum, hjólatúr með krökkunum hálfan Votmúlahringinn, smá meira hjólaríi og einni Styrkferð. Ágætis afrek fyrir einn dag en ég er líka þreytt í morgunsárið. Ristabeinin eru að hrekkja mig eitthvað en það jafnar sig nú.

Ég þarf að taka til í dag smávegis. Langar svolítið að þrífa gólfin. Svo þarf ég að athuga hvort sá einstaki maður sé að vinna á N1 sem gat skipt um perur í bílnum mínum hér um árið. Það virðist hafa verið algjör snillingur því aðrir menn klóra sér bara í hausnum og segja mér að fara með bílinn á verkstæði. Það er svolítið hvimleitt að perurnar fara með nokkurra daga millibili og hviss búmm þá er bíllinn bara ljóslaus á dagljósum. Kannski er eitthvað bilað þó mér finnist eðlilegra að líftími pera sé bara nákvæmlega jafn langur. Mér finnst samt skrítið að þurfa að skipta þetta oft um perur, held á tæplega árs fresti… En það er kannski bara líka eðlilegt.

En hvað um það – ætli það séu einhverjar búiðir opnar í dag? Það er allt hálf matarlaust og ef ég man rétt þá ætlaði ég að vera svo dugleg í mataræðinu þessa vikuna. Það er varla að það hafi farið grænmeti inn fyrir mínar varir síðan á … já síðan einhvern tímann!

Vigtun á föstudaginn. Ég hef ekkert svindlað og farið á vigtina – á ekki von á góðri tölu. Ég hef verið mjög dugleg í hreyfingunni en hálf einbeitingarlaus í mataræðinu þó slysin hafi kannski ekki verið stórkostlega að stærð þá eru þau bún að vera nokkuð reglubundin.

En það er alltaf hægt að bæta sig. Ég hef enn töluvert svigrúm í því hvað mataræðið varðar :-).

p.s. Fann flottar myndir hér – gamlar og fallegar.

Skaðvaldurinn fundinn

…illa lyktandi bollu-limesneið sem hafði laumað sér hér í eitt hornið undir innréttingunni og spjó svo út úr sér allskonar ógeðseindum sem menguðu fyrir mér loftið. Fuss og svei! Drap kvikindið og kom því út í tunnu en þessi lime sneið var fölsk og viðsjárverð og hafði látið sér ryksugun, sópun og skúringu fram hjá sér fara. Eins og hún var falleg og ljúf á föstudaginn tuttugasta – þá var hún eins og þessi hér að ofan. Mynd af ófétinu í dag verður ekki látin fylgja!

Búin að fara í hjólatúr, Styrk og meira hjól í dag. Hreyfingaáætlun þessarar viku stóðst með ágætum. Það kemur svo í ljós á föstudag með afganginn. Það verður bara að taka hraustlega á í grænmetisáti og heilbrigðu líferni næstu viku. Maður er alltaf að reyna, alltaf að reyna. Og stundum tekst manni svo ljómandi vel upp!

Góðviðri

Það er sama hvort það rignir eldi og brennisteini, snjói eða skafi; það er komið vor. Þegar ég kom út í morgun þá bara hviss bang búmm. Grasið orðið grænt og hlýindi í lofti. Ekki slæmt.

Af þessu tilefni hef ég hengt þvott út á snúrur. Verst að það er ekki sérlega mikið sem þarf að þvo að þessu sinni – en það skemmir svo sem ekki að sleppa við þvotta. Ég sé til hvort ég finni ekki einhver rúmföt og teppi og slíkt sem gaman væri að þvo ;-). Yndislegt að geta hengt út og látið þorna þar nú þegar maður er þurrkaralaus. En hvað um það.


Ég fór í sund og buslaði í 30 mínútur og brenndi 550 hitaeiningum þannig að dagskyldan er að baki þar. Ég er á góðu róli varðandi markmiðin. Með styrkferðinni á morgun þá er ég í 1200 í plús sem er ágætt því sundleikfimin er dottin út en morgungangan 5 daga vikunnar ætti að vinna það upp – sérstaklega ef ég lengi hana svolítið. Best er að vera kominn upp í skóg rétt rúmlega sex þá hefur maður góðan tíma þegar heim er komið að finna til nesti og borða morgunmat.

Nýjustu fréttir að vöðvauppbyggingu er að nú er bakið að taka við sér. Það hefur breyst gríðarlega nú undanfarið, herðablöðin farin að standa út eins og á venjulegu fólki – og ég farin að sjá til þeirra í fyrsta skipti í áratugi held ég að ég megi segja. Vöðvarnir sem liggja við hrygginn – yfir rifbeinin og við mittið eru líka sprækir. (verður gaman að fá nýja tölu yfir mittisbreidd mína – ég hlýt að vera grennast þar svolítið um þessar mundir). Þetta gengur sem sagt rosa vel og ég fór ekki á vigtina í gær – onei og ætla ekki fyrr en á föstudaginn. Það verður bara að koma í ljós hvað stendur á henni þá. Kannski að víndrykkja og eitthvað slugs sé nóg til að skemma fyrir – en á móti kemur að ég hef verið nokkuð dugleg í mataræðinu – kvöldmaturinn er samt svolítið vesen, þarf að halda áfram að vinna að betrumbótum þar.

Í dag ætla ég að njóta lífsins, safna kröftum, fókusa, syrgja Sunnulæk og að þessu öllu loknu get ég farið að horfa til framtíðar. Hún bíður þarna með útilegur, göngur og sprikl. Ég hlakka mjög til að ári þegar vonandi verða farin 24 kg í viðbót. Ég verð ekki nein léttavara þó svo fari – en ég verð allt önnur trúi ég. Við þetta bætist allt að ég hef ekki bara grennst heldur hefur holningin á mér gjörbreyst. Manneskja sem æfir af sama kappi og ég hlýtur að hafa öðlast mikinn styrk og breytta líkamsbyggingu eftir 12 mánaða hörku púl. Ég held meira að segja að ég sé farin að finna það á eigin skinni.

Formúla 1 og líkamsrækt

Það er nú meira klúðrið með Styrk og Formúlu 1 á sunnudögum! En F1 verður að herða sig ef hún ætlar ekki að bíða lægri hlut fyrir líkamsræktinni því satt að segja finnst mér það sem ég lagði á mig í morgun ekki alveg vera að gera sig fyrir þessa druslu Bahrain braut. Málið er nefnilega það að það er búið að búa til tvær ,,stórglæsilegar“ brautir á síðustu árum – Kína og Bahrain en að það sé hægt að taka þar fram úr – svo ekki sé minnst á Malasíu sem kom litlu áður – ég bara skil ekki afhverju það má ekki búa til braut sem býður upp á framúrakstur – það er ekki glæta að fara út úr aksturslínunni á þessum brautum og beygjurnar svo ólíkar að þetta er allt í einhverju málamiðlunar fári – þá vil ég nú bara fá brautir eins og Spa takk fyrir.

En sem sagt til þess að ég næði ræsingunni kl 11:30 varð ég að fara í styrk kl 10 í stað 12. Nú til þess að ná að gera allan æfingahringinn þá þurfti ég líka að fara út að hjóla og taka upphitunina þannig svo þetta yrði nú allt í góðum gír.

Veðrið var viðbjóður, frekar kalt, haglél á köflum og rok eftir því! Þannig að þegar ég kom í Styrk var ég hundblaut og hrakin og varð að koma yl í skrokkinn á mér með því að bæta aðeins við upphitunina. En það var nú voða gaman í æfingunum sem voru fyrir efri hlutann í þetta sinnið – sem þýðir að þær eru léttari. Ég tók svo 24 mín á Stigvélinni á programmi oh yeah – voða gaman, híhí.

Jamm svo þurfti ég að drífa mig heim – fara í rennblautann hjólagallann – hroll hroll… sitja svo í svitastorknum ógeðsfötunum og horfa á kimi hanga fyrir aftan McLaren bíl, Massa með forystu og hver hefur nú á huga á að hann vinni? Ekki ég svo mikið er víst og mér leiðist Alonso líka svei mér þá. Þannig að í raun er mér slétt sama hvort liðið vinnur – fer bara eftir því hvað ég er með í liðsstjóranum svei mér þá.

En hvernig sem allt fer er ég búin að baka bollurnar 😉 og ég ætla líka í sundpottana á eftir. Veitir ekki af að fara í sturtu það get ég svarið!

En sem sagt F1 verður að bæta sig – gera eins og Heidfeld þegar hann fór fram á Alonso!!!! Það var skoho flott. Er að hugsa um að halda með Sauber bara.

Annars var ég að lesa bloggið mitt og þar er æði oft talað um að ég verði að taka mig á í mataræðinu. Nú held ég að það sé komið að því að hætta að tala um það og gera eitthvað í því.

Hmm allt komið í vitleysu

Sögulegu hámarki hefur verið náð í þyngdaraukningu en það var svo sem við því að búast eftir páskana – það er nú meiri hátíðin og fermingaveislurnar voru síst til þess að bæta úr. Páskaeggið ekki heldur…. og allt sem því fylgdi. Og því ætlaði ég að spýta í lófana þessa viku en það hefur nú ekki tekist:

Mánudagur: Engin hreyfing
Þriðjudagur: Engin hreyfing
Miðvikudagur: Brennsla í 45 mín – hey og ég var í 25 mín samfleytt á stigvélinni – oh yeah
Fimmtudagur: Ekkert
Föstudagur: Ja það er sko eins gott – það er þó ekki sundleikfimi því í hana fór ég sko bara ekki neitt.

Mataræði: Gott en með alvarlegum misbrestum þó! Einbeitingin ekki í lagi.

Afraksturinn bullandi hálsverkir – sem líklega komu á undan hreyfingaleysinu og ég virðist ætla að láta þá stoppa mig að þessu sinni. Svefnleysi hefur verið viðvarandi þessa viku og alls konar böggl á næturnar enda þarf ég að setjast upp í hvert skipti sem ég sný mér þar sem ég get ekki snúið herðum og hálsi.

Ég man núna hvað var leiðinlegt að finna til í hálsinum!

Og nú þarf að spýta í lófana. Ég þarf helst að léttast um 2 kg þessa vikuna…

Verkefnið Lífsstílsbreyting Ingveldar

Baldur er stundum að reyna að koma vitinu fyrir mig – alltaf jafnvel og reynir að finna ýmis rök og líkingar máli sínu til stuðnings. Stundum er Ingveldur alveg mát í upphafi tafls og því þarf hann að byrja á því að raða mönnunum upp fyrir hana á ný. Það gerir hann stundum með líkingunni við barn sem er að læra að ganga. En á betri dögum vísar hann til maraþonhlauparans sem þarf að hafa ákveðna áætlun til að hlaupa eftir – ákveðin markmið til skemmri og lengri tíma – það er ekki byrjað á því að demba sér til New York og hlaupa hjá þeim Björk og Grími!

Í mörg horn að líta

Eftir því sem hefur liðið á haustið hefur mér orðið það betur og betur ljóst að þetta verkefni mitt – lífsstílsbreytingin, er ekkert sérlega auðvelt. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að mæta í ræktina, einblína á að léttast og það allt saman – ég hef gert það – en það sem er erfitt er að halda út, missa ekki sjónar á því hvert skal haldið – vera viss um að maður vilji ná þangað. Mesta erfiðið er að breyta lífsmynstri sínu frá a til ö from now until eternity. Það er ekki bara mataræðið, heimilislífið, áhugamálin, lífssýnin – heldur það sem mér reynist kannski hve erfiðast – viðhorfið til vinnunnar. Þar þarf meira en lítið að ganga á, áður en ég næ lendingu. Ef maður er ófullnægður á einu sviði smitast það yfir á önnur svið. Maður getur sett upp augnhlífar eins og dráttarklárarnir einblínt á þyngdina, æfingarnar og saltað allt hitt en það kemur þá bara í hausinn á mér seinna. Það er bara ein leið til að gera þetta – og það er með því að taka á öllum hliðum mínum og þær eru margar, margbreytilegar og snúnar sumar hverjar. Kannski eins og hjá okkur flestum. Mesta kúnstin er þó að ætla sér ekki að gera það allt á sama tíma – og á sem skemmstum tíma!

Líkt er Ingveldi og íþróttamanni á leið á ÓL
The Mind Makes a Champion

Nú síðast þegar við Baldur spjölluðum þá var hann mér alveg sammála um það að verkefnið Lífsstílsbreyting Ingveldar væri vissulega erfitt – tröllaukið. Það var ákveðin fróun í sjálfu sér að fá staðfestingu á því fannst mér. Það væri ekki bara minn vesaldómur sem héldi því fram. Af því tilefni benti hann mér á að þetta væri eins og íþróttamaður ákveddi að fara á ÓL. Og mér fannst það nógu merkilega viðlíking til að hugnast hún vel ;-). Lífsstilbreytingin verður mín vegferð til Olympíu.

Það þarf að taka þátt í mörgum mótum, ná mörgum áföngum, þjálfa líkama og kannski ekki síður huga áður en settu marki er náð. Það eina sem truflar mig við þessa líkingu er að líklega hefur íþróttamaður sem ætlar sér stóra hluti traustari undirstöðu fyrir sinni ákvörðun en ég varðandi lífsstílsbreytinguna– ja að því gefnu að hann eigi eitthvað erindi á mótið – geti eitthvað í sinni grein en sé ekki eins og hvert annað nutcase!

Mér finnst ég bara hafa verið ferlega klár að hafa ekkert gert í mínum málum á skalanum almennilega fyrr – ekki eins klár að hafa látið hlutina þróast eins og þeir gerðu á bilinu 15 – 30 en um það er oft seint að fást núna. Ég hefði ekki komist úr sporunum ein – þetta er ekki eins manns verk það er alveg klárt og ekki heldur einhver hugdetta sem manni finnst eins og gæti verið sniðugt að framkvæma! Á einhvern undarlegan hátt hefur mér ekki dottið í hug fram að þessu að snúa ferlinu við, fara úr kyrrstöðu fíkilsins yfir á heilbrigða helminginn. Fyrir vikið er ég þó ekki með 100 skipsbrot á bakinu og veit blessunarlega lítið hvað bíður mín – annars gæti nú hörmungarhyggjan náð yfirhöndinni af enn meiri krafti en fyrir er! Ég hef sem sagt ekki skýra mynd af því að mistakast þetta verkefni í huganum – engin fyrirframgefin úrslit byggð á biturri reynslu.

Grunnurinn skiptir máli

En aftur að grunninum sem ég nefndi áður. Minn grunnur andlega er ekkert sérlega sterkur held ég ef við lítum til þess sem ég þarf að horfast í augu við. Lengi vel hef ég lítið leitt hugann að ókostum mínum og brestum. Hef haldið áfram á því sem ég hef talið mínar sterkar hliðar- falið hitt í algleymi þess sem þykist ekkert vilja af þeim vita nema þegar myrkirð sækir að. Þegar birtir er aftur horft fram á veginn og brestirnir víkja fyrir hinu sem ég get gert. Það þykir orðið nokkuð ljóst að ég er fíkill – það verður víst enginn svona feitur eins og ég nema hann sé fíkill. Mér finnst að vísu ekkert fínt að vera fíkill – myndi gjarnan vilja sleppa við þann stimpil en ég skal alveg venja mig við hann – tækla málin útfrá því. Er ég þá ekki komin með eina afsökunina enn? Ah mér er nú ekki sjálfrátt og því ætla ég bara að fá mér svolítið nammi og ,,njóta“ lífsins? Ég tek því svo bara af þolinmæði og umburðarlyndi og geri eitthvað í því þegar ég er í betra standi til að berjast við fíknina? Fíklum er jú oft á tíðum ekki sjálfrátt!

Ekki er nóg með að ég sé fíkill heldur er ég óþolinmóð og óvægin. Ég skal alveg kaupa það að ég sé óþolinmóð og flumbra. Ég t.d. sleit í sundur jólaseríu í fyrrakvöld bara af því mér hugkvæmdist ekki að athuga afhverju hún væri föst – heldur væri ráðið bara að toga fastar. Meira vinnur vit en strit hjá hinum þolinmóðu trúi ég en mér. En ég held ekki óþolinmæðin stjórni lífi mínu, og hún er líka ákveðinn drifkraftur. Og hún er hluti af persónuleika mínum og ég vil helst ekkert breytast mikið í grunninn heldur vera færari um að takast á við sjálfa mig – og þá þarf víst þessa margfrægu þolinmæði og títtnefnt umburðarlyndi.

Glíman núna er sem sagt að finna þennan meðalveg í umburðarlyndinu. Ég held mér sé ekki hollt sérlega mikið umburðarlyndi. En ég má heldur ekki skjóta mig í tánna í hvert eitt sinn sem mér verða á mistök en einhvern veginn finnst mér þau vera óleyfileg hvað mig varða – í sumu að minnsta kosti.

Ofan á allt annað er ég móðursjúk – sem mér finnst nú kannski verst af þessu öllu því það vil ég síst af öllu vera. Sáli reyndi þó að útskýra fyrir mér að þessi móðursýki fælist í næmni fyrir umhverfi mínu og slík en ekki almennri hysteríu – og mér finnst það nú ekki vera neitt ljótt eða slæmt, nema náttúrulega þegar maður verður fyrir slæmum áhrifum vegna þessa. Ég tel hins vegar að þessi næmni sem ég hef – og ég hef mikið af henni það skal viðurkennast, geri mig að góðum kennara en hún getur líka verið slítandi. Og svo nemur maður ekki alltaf allt rétt. Það er náttúrulega ekki gott – þá verður maður kannski svolítið móðursjúkur!

Ég efast um að íþróttamaður sem ætlar sér í fremstu röð hafi þessi ósköp öll, – nema þau séu þá hluti af styrk hans og þori – hann hafi lært að nýta sér skrattakollana sína sér til framdráttar og það er það sem mig langar að gera. Þess vegna fór ég til sálfræðings og þess vegna tel ég mig hafa fullt erindi þangað.

En ég hef líka kosti sem hjálpa: Ég get séð skondnu hliðarnar á málunum, ég er úrræðagóð, ég horfi á heildina, ég hef kroppinn í verkefnið, ég hef líka keppnisskap þó ég vilji helst ekki viðurkenna það og kunni lítið með það að fara! Ég get hrundið ótrúlegustu verkefnum af stað og það sem meira er ég get fylgt þeim eftir (ef ekki áður þá héðan í frá ;-)). Ég er dugleg!

Meðganga lífsstílsbreytingarinnar

Það eru komnir 9 mánuðir – heil meðganga síðan ég fór fyrst í salinn. Það telst ekki langur tími af mannsævinni og það er ekki langur tími í samanburði við þann tíma sem ég eyddi utan ræktarinnar.

Mér finnst þetta samt vera langur tími – og mér finnst eins og mér hafi átt að miða lengra en raun ber vitni. Ég sit hér og hef ekkert hreyft mig í síðustu viku – hvorki gengið úti, farið í salinn, né synt. Ét sælgæti núna – þó skammturinn hafi átt að vera etinn í gær og það sem verra er mér finnst eins og ég standi frammi fyrir þeim valkosti að halda áfram að éta nammi og hætta að hreyfa mig. Mér finnst það raunverulegur möguleiki að hætta að leggja þetta á mig – það sé hreinlega ekki framkvæmanlegt að gera þetta hvort sem er og því sé það í boði að halda áfram fyrri háttum, vinna, reyna að bæta mataræðið og hreyfa mig á sumrin.
Ég veit samt alveg hvað ég vel – ég vel að hreyfa mig og halda áfram að róa með í átt að bættri heilsu en afhverju er ég að sökkva? Og hvenær hefst ferðin upp á yfirborðið?

Ætti ég að hafa farið vigtina – mér finnst eins og hún veiti ákveðið aðhald og ekki veitir mér af aðhaldinu? Eða á ég að hugsa um að ná mér á flot og ekki vera að lemja á mér fyrir það sem ég veit að er ekki í lagi – einbeita mér að því að laga það og sækja svo fram og hafa þá vigtina með mér í sókninni frekar en að hafa hana sem andstæðing eins og staðan er óneitanlega núna?

Mér finnst hver dagur sem ég léttist ekki, hver vika sem ég stend mig ekki vera nagli í líkistuna – sönnun þess að ég geti þetta ekki. Sé ekki fær um að breyta mínum háttum. Sé aumingi. Ég horfi til þess að ég ætti að vera orðin 24 kílóum léttari 1. apríl 2007 en ég var 1. apríl 2006. Hvað ef ég verð það ekki? Þá hef ég fullkominn stimpil á rassinum sem á stendur auli!

En um leið og ég skrifa þetta þá kannski finnst mér nú kannski að ég nái þessu… 2 kg á mánuði og það eru kannski farin 15 – 20 kg þá kannski á ég möguleika. Þegar ég set dæmið svona upp…
Kannski bara get ég þetta? Kannski er ég bara fær um að gera eitthvað í mínum málum eftir allt saman! Kannski gengur þetta bara svona – niðursveifla og íhugun, sókn og dirfska.

Nú stend ég bara frammi fyrir því hvort ég fer í Styrk á eftir eður ei á eftir. Eða nei – ég stend ekki frammi fyrir því. Ég stend frammi fyrir því að ég fer í Styrk á eftir. (Fór ekki þar sem ég sofnaði fram á lyklaborðið eða því sem næst. Annað stendur óbreytt – óhaggað. Fyrri einbeitni verður tekin upp!)Næsta vika bíður með hreyfingu og vonandigóðri líðan. Vonandi fær Bjartur að njóta góðs af því – hann er búinn að vera í hálfgerðri einangrun því enginn labbar með hann ef ég geri það ekki. Ef ég næ ekki að hreyfa mig eins og hér segir hafa markmiðin verið of mörg. Markmið þar næstu viku gætu verið önnur bæði með tilliti til þess hvernig gengur að ná þessum en þó ekki síður breyttar aðstæður, jólafrí og það allt saman.

Markmið

Sem sagt markmið næstu viku:
Sofa – sem hefur vel að merkja gengið vel síðustu 3 nætur eða svo þó ég vakni ótrúlega oft sérstaklega fyrri partinn.
Slaka á í vinnunni – Róm var ekki byggð á einum degi
Huga vel að mataræði – muna 1 nammidag!
Svona ætla ég að hreyfa mig því ég ætla að vera dugleg næstu viku – ekkert múður.
Sunnudagur – Styrkur
Mánudagur – morgunbrennsla – helst ganga með Bjart.
Þriðjudagur – spinning
Miðvikudagur – morgunbrennsla og/eða
Fimmtudagur – morgunbrennsla

Föstudagur – salur

Magavöðvar og leti

Sko – það er ekki hægt að skilja þetta mannslíkamadót og alls ekki þá minn. Ég vil bara fá svona einhverja einfalda mynd af vöðvum mannslíkamans en það er eins og það sé verið að drepa þetta internet með því að biðja um það!

Hvað er að þessum íslensku heilsufríkum að hafa ekki almennilega síðu um þetta einhvers staðar. Nú sem sagt þarf ég að fara að læra um þessa vöðva all by myself og það er ekki eins og ég skilji eitthvað í þessu! Veit ekki einu sinni að ég er með vöðva nema þá í kálfunum og ekki veit ég hvernig þeir liggja eða hvers vegna! Dj…

Svo bara allt í einu og skyndilega er ég með einhverja ,,verki“ í maganum og kemst ekki að neinni annarri niðurstöðu en að þetta séu harðsperrur eftir gríðarlegar magaæfingar á sunnudaginn og þennan líka litla spinningtíma dauðans á þriðjudag!

En veit ég og trúi að það sé til vöðvi innan í mér sem liggur þvert á kviðinn og inn í mig einhvern veginn! Vissi ég að það væru vöðvar þversum í mér inn að … einhverju? 1 cm breiður eða svo? Nei það vissi ég ekki! OG VEIT EKKI ENN því þetta internet getur ekki sýnt mér neitt um þetta þannig að ég skilji það! Sigurlín segir að það sé til svoleiðis harðsperrur og þá líklega vöðvi! Trúi henni nú ekki alveg – vil sjá almennilega mynd af þessu svo ég haldi ekki að ég sé með samgróninga ;-).

Ég geri áreiðanlega aldrei nóg – ég fæ svo sjaldan harðsperrur – en ég vil nú meina að það sé vegna þess að ég sé svo dugleg að teygja!
´
Afrekaskráin mín í dag:

nennti ekki í búð
Fór ekki í morgunbrennslu
alls ekki í spinning
ekki í afternoon brennslu
ekki út með hundinn sem er í stofufangelsi
Mataræði – eplakaka með rjóma,kjúklingabitar, franskar, hmmmm já og nammi á kennarafundi! Borðið fulla lúku af súkkulaðirúsínum í gær – já og svolítið af piparkökum í dag!

Brilliant og ég get ekki einu sinni sagt með sæmilegri festu að mér þyki það miður. Ég er búin að missa alla einurð og einbeitingu – fer í Styrk ef ég man eftir því – hmm hvar eru íþróttabuxurnar? Já eða skórnir – iss piss geri bara það sem mér sýnist. Lífið er hvort sem er svo snúið um þessar mundir ha hu hummm

OG ÉG VAR AÐ FREGNA AÐ STYRKUR ER LOKAÐUR FRÁ 20 DES TIL GUÐ MÁ VITA HVAÐ! Christ og ég sem ætlaði að vera svo dugleg um jólin!

shit

Og svo get ég ekki einu sinni sagt að afköstin í vinnunni séu svo mjög gasaleg!

Lengi lifi Coke lite – vatn er vont og nammi gott! Elda er óþarfi og Bónus er óvinur númer 1 – 100. Jább hún Inga litla er á góðri leið með bros á vör og kampakát. Ætlar í bólið snemma og láta sem ekkert sé því það koma hvort sem er alltaf svona tímabil þar sem hlutirnir ganga ekki vel – og það er bara eðlilegt og ekki er hægt að halda sama tempói alltaf og það er bara í lagi að slaka aðeins á – Maður má nú ekki ofgera sér. Já og nóvember er nú erfiðasti mánuðurinn í kennslu!

oh í svona niðursveiflu er svo mikilvægt að halda haus og vera umburðarlyndur og þolinmóður!

Oh yeah

Er ekki bara kaffi krús eftir skóla á morgun og enginn Styrkur? Tjú tjú trallalala

Life is a wonderful thing

Fíkn, offita, þunglyndi, móðursýki, orkuleysi, búseta í skýjaborgum, kenna öðrum um, allt eru þetta gjafir sem svo gaman er að vinna með – styrkja persónuleikann, auka manni umburðarlyndi og þroska. þetta er allt lífsreynsla.

En kvíðn er konan ekki og það er nú fyrir mestu!

Ég hef samt eiginlega engan áhuga á því að verða umburðarlynd og þolinmóð – ég meina hver yrði ég þá? Ekki hún Inga og ég hef svo sem engan áhuga á að segja skilið við hana.

En nú er ég farin í bólið að leas bók um óþolinmæði!

Og ég bara verð að fara að setja hann Bjart ofar í forgangsröðina – þetta er ekki að gera sig!

Og auðvitað fer ég í Styrk og eitthvað fleira sem ég man ekki í augnablikinu af markmiðslistanum – en mig rámar í að mér hafi verið bent á að bæta svefninn. Nú fer ég í það.

Lof jú still

Inga

Ein ég sit hér og bíð

Búin að drekka kaffi þannig að það bunar út um eyrun á mér, láta eins og fífl á kennarafundi, svíkja sjálfan mig á því að vinna það sem ég ætlaði að gera í vinnunni – mér miðar ekkert með það. Ég er bara orðin letihaugur og er samt enn í vinnunni en er nú formlega hætt að vinna enda farin að blogga!

Ég er að fara í spinning! Og ég held ég kvíði því svolítið þó ég segi mér að þessi tími verði betri en sá síðasti – ég meina þetta er ekkert svo erfitt – bara erfitt 🙂

Enda sjáið þið að þetta er tóm sæla og ekkert annað. Tóm sæla. Hélt nú annars að Baldur ætlaði einhvern tímann að koma með mér en hann hefur nú eiginlega alveg svikið mig um það! Þorir kannski ekki, tíhíhí!

Heyrið þið mig – ég er búin að búa mér til markmið og ég ætla að setja þau hér inn því ég svoldið eftir að gleyma þeim held ég – ekki alveg búin að tileinka mér þau – enda á maður víst að gera það smám saman! Þau eiga ekki að nást á fyrsta degi heldur með æfingunni. Maður er bara alltaf að læra skoho.

Og nú ætla ég líka að anda svolítið – því ég er svoooo stressuð út af þessu spinning dæmi – þessari sælu og því!

En Ingveldur hér eru markmiðin þín og hana nú!

Markmið:
Skammtímamarkmið sem yrðu nú fín lífstiðarmarkmið fyir kaos-istann Ingveldi

Rautt er erfiðastbleikt er svoldið erfitt

Ljósblátt er minnsta málið (kannski auðvelt en ekki ægilegt)dökkblátt aðeins erfiðara.

Matur
Versla reglulega inn
(það fer um mig hrollur)
Elda (er einfaldara ef maturinn er til – þá er ég ekki svo slæm í því sko)
Vera komin heim ekki seinna en 18 til að elda
Borða skyr – jukk
Útbúa nesti og eiga eitthvað gáfulegt í skólanum
Endurskoða nammidagana – eitthvað annað en nammi!

Hreyfing
Fara í Styrk alla sunnudaga
Fara í morgunbrennslu/göngu með Bjart á mánudögum
Spinning á þriðjudögum
Hvíld á miðvikudegi
Morgunbrennsla á fimmtudegi (og mig langar gasalega prófa að fara tvisvar í viku í spinning við og við en það verður nú svoldið í það – miðtímamarkmið kannski ;-))
Föstudagur er uppáhaldið í Styrk.
Og svo er kominn sunnudagur enn á ný.
Ganga með Bjart á laugardegi og helst á sunnudegi líka. Þarf ekki endilega að vera mjög langt en amk 20 – 40 mín.

There you are!

Kvíðalistinn minn og drög að leiðarlokum

Námsmat í mörgum liðum – búið
drög að einstaklingsáherslum í stærðfræði – langt komin
Lestrarprófa búið
Útbúa gátlista í stærðfræði langt komið
Aðalverkefni í námskrárfræðum hvað var það aftur?
Þvottur ha er einhver þvottur?
Útbúa tvo stutt málfundarinnlegg sem ég held ég eigi að flytja í næstu viku! Annar búinn
Fara í bæinn á mánudag til sála og í dekur tíhíhí því ég er svona næstum því búin að missa 20 kg búið fannst ég ekki eiga það skilið!
Fara svo aftur í bæinn á þriðjudag að tala við kennara í Grandaskóla búið
Elda góðan og hollan mat Örlar ekki á því
Hugsa um Aðalstein er rifrildi ekki að vilja vel?
Vera góð við Ragnheiði Hver er hún?
Labba með Bjart ha – hvert á ég að labba með hann?
Stunda líkamsrækt sko það er mjög mikið að gera hjá mér og spinning tekur mjög á og ég þarf að vinna mikið foreldradagur og námsmat og svona, Palli að koma heim, fundir, þið vitið hvernig þetta getur verið!

Hætt við að birta það sem ég setti hér áðan!