Bjargir

12495148_10205875965995361_618195820622227219_nÞað hef ég lært að ég þarf stuðning til þess að stíga upp. Og hann hef ég svo sannarlega.

Af öllum þeim sem áttu sinn þátt í því að ég náði árangri frá 2006 til 2012, var það sjúkraþjálfarinn sem skipti þar mestu – að öllum öðrum ólöstuðum. Og þó niðursveiflan hafi verið kröpp, lúrði það sem ég hafði lært og þjálfað og beið þess að vera nýtt á ný.

Það þurfti mikið til að leita til hans á ný, þyngri og þrekminni en þegar hann hafði mig síðast í meðferð. Miklu…. Um tíma gat ég hreinlega ekki hugsað mér að horfast í augu við hann – og þar með ósigur minn. En slíkur heigulsháttur dugir ekki. Til þess að sigur vinnist þarf að horfast í augu við sigur jafnt sem ósigur – og nú er ég komin undir hans hendur á ný. Og það finnst mér gott.

Fjölskyldan er mér líka stuðningur og hvatning. Hver vill ekki vera fær um að sinna barnabörnum sínum, ganga með þeim og sýna þeim náttúruna, kenna þeim um dásemdir náttúru, gróðurs sem staða? Minnka áhyggjur barna og maka? Það er íþyngjandi að hafa alvarlega offitusjúkling í fjölskyldunni – gleðin og stoltið sem sést í augum þeirra, þegar kerla kemur úr sundi eða ræktinni er umbun engri lík.

Vinir og kunningjar. Það er ótrúlegt hve mikil áhrif þetta fólk getur haft – líka kunningjarnir. Nú eftir að ég kom suður hafa margir komið að  máli við mig, og marga hef ég hitt – oftast í sundinu – og þeir muna eftir dugnaðinum og eljunni og eru vissir um að ég muni upp rísa – sannfærðir því hugmyndir þeirra um mig eru þær. Dásamlegt að finna þetta – því það að vera innan um fólk sem hefur þekkt mig og þekkir mig er góð tilfinning. Virðir mig vegna þess sem ég er og geri. Ómetanlegt.

Góð íþróttaaðstaða. Nú er ég komin í áskrift hjá WorldClass og í sundlaugina. Það er algjörlega nauðsynlegt og aðstaðan hér á Selfossi er hreint frábær. Ég vonast til þess að komast í vatnsleikfimi í haust og vetur – ég mun keyra frá Laugalandi og aftur til baka með glöðu geði  – tímanum frá sex að morgni vel varið!

Upprisan (2)

Allt hefur sinn tíma – og oft er aðdragandinn ekki síður mikilvægur en upphafið sjálft.

Mín upprisa númer 2 hófst 1. júlí 2016 en leiðin að þeim degi er 13 mánaða gömul. Fram að því var niðursveifla sem endaði einmitt þá,  í maí 2015.

Það er auðvelt að harma hið liðna, en ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það – mikilvægara er að þakka allt það sem ég hef lært á síðustu 4 árum, njóta þess og nýta.

Ekki þýðir að sýta kílóin, hreyfihömlunina – bakslagið. Það er ekki til neins. Því vegurinn liggur fyrir framan mig – beinn og breiður, bara ef ég vil sjá hann og fara þá leið.

Ég hef ákveðið það. Sannarlega og hjartanlega.

Don’t believe everything you think!

Það eru ákveðnar hugsanavillur í gangi hjá mér – já og svona ákveðin vafaatriði….

Einbeitingarleysi – afhverju?
Langar mig ekki í heilsbótina og kílóa-aflausnina? Jú ég verð að segja það. Vil að sjálfsögðu vera hraust – og good looking. Það væri áreiðanlega dásamlegt. Rétt að setja markið á það þá…

En leiðin að því að ná markmiðinu er einhvern veginn ekki mér að skapi. Stundum bara nenni ég þessu ekki. Þetta er ógnarinnar vesen og það er ekki einu sinni eins og kílóin hrynji af manni og heilsan sé alveg upp á glans. Heilsubótin lætur einhvern veginn bíða eftir sér….. Þó ég sé áreiðanlega ekki sama manneskjan og ég var. Áreiðanlega miklu betri – (ákveðins efa gætir þó í letrinu).

Trúi ég ekki að ég geti þetta?

Neibb – svo einfalt er það. Held að þetta sé glórulaust.

Þar er komin sú ruglaða hugmynd að Baldur eigi bara að gera þetta með mér og helst fyrir mig. Það er bara að ljúga að sjálfum sér að ætla öðrum að draga vagninn með mér. Enginn gerir þetta nema ég.

Einvera

Ég yrði ósköp glöð að hafa einhvern með mér í salnum. Gantast með og hlægja. Hvetja og berja mig áfram. Ipodinn getur verið einmanalegur félagi. Kannski hressir blakið upp á þá hlið…

Það er bara blekking að styðja sig við aðra. Það er bara blekking að horfast ekki í augu við það að ég léttist afskaplega hægt þessar vikurnar – og segja að þetta sé svo sem allt í fínum farvegi…

Ah kannski ekki….

Afsakanirnar hafa nú verið fínar síðar í vor: Skipsbrot í vinnunni, skipt um vinnustað, sýkingar í lungum og astmi (7 vikur af 13). Fótafúi dauðans. Sumarleyfi og ferðalög. Húsamálun…

En betur má ef duga skal – nú er að hrista af sér þessa berkjubólgu. Svona fyrst lappirnar eru ekki verri en þær eru…

Ég hef það nú bara ágætt og lifi fínu lífi. Ég set það á markmiðslistann minn að taka upp merkilega iðju þegar ég kem heim á kvöldin – ekki hlamma mér beint í sjónvarpsstólinn. Fara bara að snúa sér að handavinnu ha hu hummm?

Góða nótt

Ykkar Inga sem þrátt fyrir allt léttist örlítið þegar á heildina er litið og er virkilega að breyta um lífsstíl.

Kosningar, Evrovision, aðdáandi og prófagerð

…já og svo er einhver sjálfsmeðaumkvun þarna með líka! Hí hí það er sem sagt margt í mörgu.

Ég er pólitískt viðrini. Samfylkingarkona af lífi og sál og það allt saman – en mér finnst stundum ég sjái óþarflega margar hliðar á málunum. Er ekki nógu einstrengingsleg til að ná mér á almennilegt flug. En ég er krati af gamla skólanum.

Ég trúi á gildi og mátt almannatrygginga

Ég vil að samfélagið hugsi um þá sem minna mega sín og hlúi að þeim allt eftir því sem aðstæður hvers og eins bjóða upp á.

Ég vil hraðvirka og góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla og minnka kostnað fólks við hana. Það að fá blóðtappa í fótinn á ekki að kosta viðkomandi 18 þús krónur. Það finnst mér óforsvaranlegt.

Ég vil öflugt skólakerfi rekið af sveitarfélögum og ríki, þar sem áhersla er lögð á vellíðan nemenda, rólegt vinnuumhverfi og alúð sé lögð við hvern einstakling, hvort sem hann er nemandi eða starfsmaður.

Ég vil að skólinn sé vin í erli hversdagsins hjá börnum. Við þurfum að vega upp á móti flýtinum og stressinu í umhverfi þeirra með því að skapa þeim öryggar aðstæður þar sem samskipti skipta meginmáli. Í öryggi þroskumst við best þar sem við fáum krefjandi viðfangsefni og náum að láta ljós okkar skína. Í þessu finnst mér ýmislegt vanta í dag.

Skoðanirnar hér að ofan eru mér algjörlega inngrónar og ég hef skoðanir á mörgu fleiru. Ég hef hins vegar ekki leyft mér að fara á flug í stjórnmálunum því þá veit ég hvernig það myndi enda. Ég yrði stjórnmálanörd. Rétt eins og ég varð kennaranörd, bridgenörd eða F1 nörd – já eða líkamsræktarnörd. Ég nenni ekki að hafa áhuga á einhverju nema demba mér algjörlega í það. Þegar ég horfði á fótbolta þá sökkti ég mér algjörlega í það – þvældis á leiki hér og þar, og glápti á þennan fjanda í sjónvarpinu eins og ég kom því við. Úff sem betur fer gat ég bægt þeirri bakteríu frá mér og hef látið eins og hún sé ekki til – ætla að halda því sem allra mest áfram. Þarf samt að vera aðeins með á nótunum til að vera viðræðuhæf við krakkana!

Aumingja Palli fer illa út úr þessu ,,áhugaleysi“ mínu á stjórnmálum. Honum finnst svo gaman að tala um stjórnmál, fjargviðrast yfir stjórninni og þessar stefnu sem hefur fært ogkkur græðgi og aukið völd Mammons þannig að við erum eins strengjabrúður andskotans þegar kemur að peningum – og hjá okkur er eiginlega ekkert annað sem kemst að! Ég umla bara og humma og þverneita að nenna því að tala um þessi ósköp öll. Enda yrði ég líklega alveg vitlaus um leið.

Ég er nú svoldið spennt út af Evróvision – skyldi Eiki ná að koma okkur upp úr tapdeildinni? Hann hefur einhvern sjarma karlinn – ef honum tekst vel upp á sviðinu gæti vel farið svo – annars er ég orðin vonlítil með að við komumst nokkru sinni lengra en í undankeppnina. Það eru nokkur ágætis lög þarna innan um og saman við. Og ég elska þættina skandinavísku (hægt að líta á þá hér) sem eru á RUV – þvílík krútt sem þar eru saman komin. Eitt allra besta sjónvarpsefni síðari ára svei mér þá. Húrra fyrir þeim. Samfylkingin er með Evrovisonpartý á fimmtudaginn í Inghól – maður ætti kannski að skella sér? Annars skelli ég mér aldrei neitt…

Ég hitti aðdáenda minn á föstudaginn (vonandi má ég kalla hana það) Það var alveg frábært. Það er mjög gaman að vita að það sem ég skrifa geri einhverjum gott. Hún kom að máli við mig í Styrk og sagðist alltaf lesa bloggið mitt og það hvetti hana til að gera eitthvað í sínum málum. Ég var ótrúlega glöð að heyra það. Gaman að þessar langlokur mínar skipti einhverju agnarlitlu máli fyrir fleiri en mig. Þó ekki væri nema vegna einhvers skemmtanagildis. Baldur átti líka aðdáenda í henni. Amk vakti hann forvitni hennar ;-). Hann er vel þess virði að eiga aðdáendur – ég hefði aldrei farið af stað án hans tilstilli og ég hefði heldur ekki þraukað þetta án hans. Hann hefur hvatt mig áfram, stutt mig og sjúkrað. Það er mikilvægt að hafa einhvern með sér í þessu sem hefur áhuga á því sem er að gerast hjá manni. Komið ykkur í samband við einhvern. Kannski bara æfingafélaga, sjúkraþjálfara, einkaþjálfara eða verið í hóp – sumum finnst það gott. Þetta er í raun einfalt mál:

Þú þarft að taka frá tíma í hreyfinguna
Þú þarft að ætla þér að breyta
Þú þarft að fara aftur eftir fyrsta skiptið…
Þú þarft að fara aftur og aftur alveg sama hvað

Þú þarft ekki að vilja gera þetta
Þig þarf ekki að langa til að gera þetta
Þér þarf ekki einu sinni að þykja þetta skemmtilegt

Hið eina sem þarf er ákvörðunin: Ég ætla að gera þetta.

Við vitum öll að við eigum að hreyfa okkur og við erum jafnvel öll tilbúin til að trúa því að hreyfingin bæti líf okkar og auki lífslíkur. Sú almenna skynsemi sem við höfum öll til að bera dugar fyrsta kastið. Við vitum að við eigum að hreyfa okkur.

Þegar þú hefur brotist út úr vananum og er farin(n) að hreyfa þig reglulega þá kemur viljinn, markmiðin og áhuginn. Og ef ekki þá bara tough shit – þú verður bara að halda áfram samt. Sá munaður að halda að maður hafi val um að hreyfa sig eða hreyfa sig ekki, fleytir manni ekki áfram.

Það koma erfiðir tímar – þetta er stundum hundleiðinlegt og virðist ekki skila miklu, fyrir nú utan það að maður hefur bara engan tíma í þetta- og það er þá sem þarf að bretta upp ermarnar – og fara aftur og aftur alveg sama hvað. Og það besta við þetta allt saman er að þó eitthvað bregði útaf í mataræði eða hreyfingaráætlun þá er alltaf hægt að byrja aftur strax – maður bara stendur upp, dustar af höndunum rykið og heldur af stað á ný. Það er bara eðlilegt að hrasa. En það er líka gott að hafa einhvern til að styðja mann á fætur og blása á meiddið.

Við getum þetta öll, við finnum okkar takt og fetum okkur áfram veginn. Mér þótti hreint ekki skemmtilegt í Styrk fyrst og leið bara hroðalega illa þar. Ég vildi aldrei hitta Baldur aftur eftir að ég sá hann fyrst, Styrkur var óvinveittur staður og ég engdist um – eins og fiskur í neti. Eða minnkur í búri eins og upplifun Baldurs var af þessum fyrstu tímum okkar… Þessar aðstæður voru mér framandi og ógnvekjandi.

En einhvers staðar kraumaði svo vitneskja að ég yrði að gera eitthvað og kannski væri Baldur rétti maðurinn til þess að koma mér af stað – nógu dj… væri hann beinskeittur og lítt meðvirkur. Ég var lengi af stað en þessir 10 fyrstu nuddtímar þar sem Baldur rausaði og rausaði um hreyfingu var upphafið að ferðalaginu sem ekki sér fyrir endann á. Fyrst ég get þetta (ekki ef) þá getið þið það líka. Það er bara að ákveða að maður ætli að hreyfa sig, hvenær og hvernig. Ákvörðunin þarf að standa og hefur ekkert með vilja að gera – heldur common sense. Og svo er að mæta aftur og aftur og aftur þar til það er orðið manni eins eiginlegt og hitt – að mæta ekki.

Á einu ári hef ég misst 24 kg og 110 sentimetra af ummáli mínu. Ég hef styrkst, orðið yfirvegaðari, ekki eins stressuð og orðið meðvitaðari um sjálfa mig, þarfir mínar og mörk. Eftir ár verð ég búin að missa 48 kg og eftir tvö ár héðan í frá – eða þrjá ár alls verð ég búin að missa massa sem nemur eins og einni meðalkonu. Ég ætla ekki að hafa neitt ef í þessu en ég veit að kannski næst þetta ekki – kannski tekur það mig 4 ár að ná markmiði mínu og það verður þá bara allt í lagi. Ég hef nefnilega lært ýmsilegt um markmið líka á síðastliðnu ári.

We can do it.

Verum bara vel byrg af plástrum og öðrum björgum því stundum gefur á bátinn 😉
You go girl – aðdáandi minn. Það var ótrúlega hvetjandi að hitta þig og heyra frá þér. Takk fyrir það.

Hversu miklu munaði?

Hér er ég – ágætis dagur í skólanum, krakkarnir yndislegir. Ég held ég eigi eftir að sakna þeirra ofboðslega – ég ætlaði aldrei að fara frá þeim svona snemma. En það eru önnur börn annars staðar sem er líka gott að þykja vænt um. Þessi í Sunnulæk eru mér bara svo kær. Litlu grjónin mín sem ég næ aldrei að sinna eins vel og ég vil. En jamm – áfram veginn.

Ég var að lesa bloggin mín tvö um það þegar ég fór að stunda salinn – um fyrstu skiptin mín til Baldurs fyrir um ári síðan. Og what a difference a year makes…

Í framhaldi af því var svo svolítið sniðugt að Baldur spurði mig í nuddtímanum í dag hversu miklu hefði munað að ég mætti ekki í annan tímann til hans. Það er í sjálfu sér svolítið góð spurning. Og allrar athygli verð. Honum fannst ég svolítið vera eins og minkur í búri – hefði hreint ekki viljað vera í Styrk né hjá honum þar og þá. Það er líklega líka alveg rétt. Og hann var líka næstum viss um að ég myndi ekki endast eins lengi og raun ber vitni. Þar aftur á móti greinir okkur svolítið á í upplifun.

Ég vissi allan tímann sem hann var að spyrja mig um hvort ég væri farin að synda, ganga á morgnana, farið á hjólið eða hvað þetta hét allt saman sem hann var tilbúinn með handa mér í löngum bunum afhverju ég sagði nei. Það var af tveimur ástæðum:

Ég vissi að ef ég byrjaði myndi ég finna alls staðar til og þeir verkir hefðu svo áhrif á vinnu mína og tilvist – breytingar sem ég var ekki tilbúin að ganga í gegnum. Ég yrði að drepast í kálfunum, herðunum og hvar sem verða vildi og það þýddi að ég gæti ekki unnið eins mikið og ég vildi.

Ég vissi líka að ef ég byrjaði myndi ég vilja gera það af stæl og alvöru. Og ég var ekki tilbúin að breyta lífi mínu á þann hátt. Ég vildi einfaldlega hætta að finna til og vera með svona mikla vöðvabólgu. Lengra stóðu væntingar mínar til sambands míns við þennan nýfengna nuddara ekki. Þess vegna sagði ég alltaf, ítrekað og endalaust NEI. Og hann hélt áfram að spyrja.

Ég vissi hins vegar ekki að ég myndi halda þetta út því þetta var jafnvel heldur erfiðara en ég reiknaði með. Og þá ekki bara líkamlega – heldur frekar andlega. Baráttan var og er ansi hörð oft á tíðum.

Þegar ég svo byrjaði, þá vissi ég að það þyrfti að vera í ramma, gera af elju og ákveðni (frekar en áhuga eða vilja), breytingar yrðu óhjákvæmilegar á lífsmynstri mínu. Þetta vissi ég allt saman. Þess vegna stökk ég ekki til og hlýddi honum með að fara í salinn. Það var einfaldlega ekki kominn sá tími í mínu lífi – hvorki fyrst í febrúar þegar ég fór til hans né í apríl þegar ég byrjaði. En svo var ekki aftur snúið.

Ég kannski vissi ekki að ég yrði hér að ári. Ég vissi ekki að Baldur ætlaðist alltaf til meira og meira og myndi styðja mig every part of the way – alltaf endalaust. Ég vissi kannski ekki að það yrði hælspori og háls sem yrðu mér verstir – hélt það yrði ökklar og kálfar, bak og axlir. En ég vissi að ég var lögð af stað og þá er ekki svo auðveldlega aftur snúið. Líka afþví mér finnast íþróttir skemmtilegar. Ég þekkti svo sem þetta ferli allt saman úr sumarsundinu og þegar ég synti á vetrum. Ég þarf ramma og ég þarf að halda mig við hann. En kannski er úthaldið meira en ég ætlaði, ég einfaldlega hugsaði ekki fram á veginn heldur tók hvern dag, hverja æfingu, hverja göngu sem áfanga á þeirri leið að ná mér betur á strik.

Og ég held það sé að gerast núna.

þess vegna er gaman að velta því fyrir sér hve miklu munaði að ég færi ekki til Baldurs í annað sinn. Það munaði mjög litlu – það munaði eiginlega bara því að ég sá ekki fyrir mér að ég gæti beðið eftir því að komast að hjá öðrum nuddara – ný beiðni, ný læknisferð og hvað ætti ég svo sem að segja við Gylfa lækni: ,,Ég vil ekki fara til þessa Baldurs! Hann er vondur við mig? Skilur mig ekki!“

Einhvern tímann áður en tími tvö rann upp slæddist sú hugsun niður í kollinn minn að ég þyrfti kannski bara svona leiðinda gaur með mér í lið – sem væri ekki snarmeðvirkur og hæfilega sama um allt raus í mér og aðdáun á dugnaði mínum í starfi. Ég lokaði snögglega á þessa pælingu – fannst hún ljót og leiðinleg og ákvað að fara aldrei aftur í Styrk né til Baldurs. En fræinu hafði verið sáð. Ég vissi innst inni hvað til míns friðar heyrði – ég þurfti kannski bara á einum þverhaus að halda til að tjónka við mig – einhvern sem ég yrði ekki daginn að gera meðvirkan í vitleysunni minni. En ég ýtti því til hliðar reyndi að kæfa þetta litla fræ – en fór aftur því ég gat ekki hugsað mér að bíða annan hálfan mánuð eða þrjár vikur eftir öðrum nuddara. Ég gæti áreiðanlega beðið þennan af mér.

Þar hafði ég svo sem rangt fyrir mér. Ég skil ekki enn að hann hafi ekki gefist upp á mér löngu áður en apríl 2006 rann upp. Já eða einhvern tímann síðan þá. Kannski er bara engin ástæða til þess að gefast upp á mér. Hefur mér ekki bara gengið vel?

Það var þáttur hjá Opruh um daginn og þar spókuð sig konur sem höfðu lést um þau hin sömu 24 kg og ég og fengu mikið klapp að launum frá öllum viðstöddum – og aðferðin sem þær beittu var mikið til hin sama og ég. Breyta grunninum og huga að hreyfingu og mataræði. Þannig að líklega er þetta allt saman svolítið afrek.

Það er til 120 cm minna af mér en fyrir ári. Ég tek töluvert minna pláss í veröldinni fyrir vikið og er ekki eins íþyngjandi fyrir möttulinn ;-).

Það munaði öllu að ég fór í þennan annan tíma – sem ég var næstum búin að afboða. Það munaði ekki miklu það get ég svarið.

Í dag fór ég í 25 mín göngu í Hellisskógi með honum Bjarti mínum, vaggandi með framstæðan háls eins og hinar endurnar þar, fór í Styrk og var ótrúlega dugleg. Ég er farin að fara 24 mín á prógrammi á stigvélinni – þó þyngdarstigið sé bara á 3. En þvílíkt sem ég brenni á því og svitna. Það er rosalega erfitt mér enda er ég svo sem ekki nein léttavara. Var líka á 25 mín á ógeðstækinu og brenndi alls rúmlega 1200 hitaeiningum plús þessar 300 sem fóru á göngunni. Þar að auki fór ég í nudd – og það var nú svei mér gott og nauðsynlegt. Er með fyrirbyggjandi aðgerð í gangi – því gangan reynist mér og hálsi mínum svo erfið. Sjáum til hvað setur. Helgi framundan og allt í þessu fínasta. Life is good. Amk hreyfingin. Er ekki alveg viss með annað.

Back to the basics

Ég og Bjartur vöknuðum árla í morgun en í gærkveldi bjó ég til lista yfir allt það sem ég þarf að gera næstu 7 dagana – hefur vísast valdið því hve snemma ég vaknaði. Það er ýmislegt- húslegt og garðlegt. Hér í garðinum er mikið rusl saman komið – jukkiti júkk bara – bæði frá okkur og svo fýkur mikið hingað inn líka – mjög sóðalegt og ég verð að gera eitthvað í þessu í algjöru snarhasti. Ja kannski ekki algjöru snarhasti en svona nokkru snarhasti….

Nú en það sem ríður mest á er að komast í taktinn í lífinu sjálfu aftur eftir hálf einbeitingarlausa viku síðast. Það dugir ekki að horfa bara á það sem betur má fara og gera ekkert í því heldur barasta koma sér í gírinn á ný.

Gærdagurinn var afleitur matarlega séð – en ég var mjög dugleg í ræktinni en fór ekki sundleikfimina. Var bara einfaldlega of þreytt – en það er nokkuð sem einkenndi mig í liðinni viku. Svo erfitt að vera í páskafríi ;-).

En þar sem ég var minnt á það að ég ætti hjól í gær og að ég ætti að nota það brá ég undir mig betri fætinum og hjólaði í morgun til að koma brennslunni af stað. Það var nú ekki sérlega gott veður og rigningin æði köld á köflum en ég náði að hjóla góðan spotta á móti vindi sem er sérlega æskilegt því annars næ ég ekki púlsinum upp nema með mikilli langkeyrslu. Ég hjólaði í um 25 mínútur og er bara ánægð með það nú þegar ég hlusta á nauðið í vindinum og sé dropana falla skáhalt hér fyrir utan.

Í dag ætla ég að horfa á tímatökur í F1, baka bollur, taka til í ,,skrifstofugeymslunni“ minni og slappa svo vel af inn á milli. Stefni á svolítið hlaup í lauginni um fjögur leytið – þarf enn að brenna um 400 hitaeiningum til að vera á áætlun dagsins. Vantar umtalsvert upp á að bæta hreyfingaleysi mánudags en þar sem ég fer í Styrk á morgun þá lítur jafnan ekki afleitlega út og ég hef snúið vörn í sókn.

Nú er bara að huga vel að mataræðinu og taka sig í gegn þar sem því er ábótavant. Auka grænmetisátið, minnka brauðát – helst setja það alveg út og borða ekki neitt nema grænmeti eftir kl 20 á kvöldin. Þá er ég í góðum málum.

Bless í bili

Aðgerðaáætlun 1 – uppfærð 11:30

Nú þarf að grípa til breiðu spjótanna:
Borða páskaegg hratt og vel og eiga ekkert eftir á morgun!
Reyna að ákveða hvort það var gott eða slæmt að McLaren vann 1-2 í Malasíu!
Enn engin niðurstaða þar.
Fara a.m.k. 2 sinnum út að hjóla í dag.
Oh yeah – fór Votmúlahringinn og hann er skoho langur og við hjóluðum stanslaust í klst. 1000 hitaeiningar þar í yndislegu veðri, úða og logni. Hæfilega aum í rassinum en í mun betra standi en aumingja Pallarass ;-).
Þvo margar margar margar þvottavélar og það sem er ekki minna um vert – hengja upp úr þeim (held ég ætti kannski að safna mér fyrir þurrkara – það er ekki hemja að vera hvorki með þurrkaðstöðu né þurrkara!).
1 búin
Finnast alveg æðislegt að vera í fríi.
Gengur vel.
Hugsa sem fallegast um þriðjudaginn!
ohhhh vil ekki af honum vita!!!!
Halda áfram að taka til í geymslunni sem á að verða skrifstofa…
Bjóða tengdó í svínslæri ala Helga Sigurðar!
Mallar í ofninum
Hmm þetta er kannski fullmikið verkefni fyrir einn dag…
Sjáum til sjáum til það þarf víst ekki að ná öllum markmiðum – alltaf, strax…
En þetta með hjólið stendur!!!!

Slugs og vitleysa

Kannski vil ég ekkert hætta að vera kennari – eða kannski vil ég ekki hætt að vera í vinnu þar sem ég get hagrætt vinnutímanum mínum! Klárlega ekki.

Það er þemavika í skólanum í dag og það er eins og meðalvertíð. Segi það satt. Í tilefni á þvi hvernig mér leið í lok dags í gær gær þá ákvað ég að hætta ekki á neitt og fara ekki í sundleikfimina í morgun fyrir utan það að ég hefði varla náð að skera pappír og borða morgunmat áður en ballið byrjaði.

Ég fór því í Styrk eftir kennslu, því það er svo mikill kaloríubúskapur hjá okkur Polla að það má ekki detta út æfing. Og þar sem ég er orðinn svona merkilegur áskrifandi þá þarf maður ekki að vera að hugsa um hvenær maður er í sjúkraþjálfun(sem ég er hætt í skoho- nuddþættinum amk! – Alveg þangað til næst!) eða eyða stökum skiptum. Ég skuldaði sem sagt 600 frá því um morguninn og svo át ég kökusneið þó hún væri ekki mjög mikil þá var hún þess sætari og með meiri rjóma, Þannig að ég ákvað að brenna 1000 – hm einhver fugl sagði mér nú að kaka sem þessi væri 730 hitaeiningavirði og ég skulda því einn 330 en ég brenndi nú svolitlu að elta Bjart hér úti sem var uppi með áform um að drepa svartan kött – og það liggur við að ég skilji hann. Mikið er mér farið að leiðast kettir eins og ég var hrifin af þeim hér í den.

Annars eyddi ég seinni partinum í sundi og þótti það ekki slæmt í sólinni og blíðunni. Fór í heita pottinn í gærkveldi – ég er að rembast við að teygja og mýkja upp sinina undir fótunum svo ég verði nú göngufær einn daginn. Það gengur ekki afleitlega.

Gengur annars vel í danska fyrir utan kökuna sem jafnast bara út í brennslunni. Híhí.

Og páskafríið nálgast óðum og ég þarf ekki að læra í því – hóhíhí.

Einn munur á mér frá því fyrir ári síðan: Ég borða ótrúlega mikið fyrir kl 14 á daginn!

Dagur fullur af fyrirheitum

Það er svo merkilegt að stundum er bara hreinlega eins og það eigi fyrir manni að liggja að gera a. ekki neitt eða b. eitthvað.

Í dag er svona eitthvað dagur. Mér finnst einhvern veginn eins og það sé ár og dagur síðan ég hafi haft heila helgi fyrir framan mig og ég geti gert það sem mér sýnist við hana. Sú er þó auðvitað ekki raunin. Ég geri svo sem aldrei neitt um helgar og hef unun af því.

Ætli léttirinn felist ekki í því að stormviðri heilabúsins míns sé um garð gengið – um tíma amk. Ég hef verið að hugsa svo margt.

vinnuna mína
Launin mín
Nám eða ekki nám
Verkir
Fyrirkomulag æfinga
Skómál
Mataræði
Börnin mín
Heimilið
Sjúkraþjálfun/nudd

Sem sagt allt sem við öll erum með á okkar könnu – mér er bara lagið að gera svolítið vesen úr þessu

Vinnan. Á ég að kenna áfram? Hvað á ég að kenna? Verð ég ánægð ef ég a. hætti að kenna b. hætti umsjón? Er ég ánægð að kenna?

Finnst mér ásættanlegt að fá í laun fyrir fulla vinnu um 160 þús kr. næstu árin? Liggur minn metnaður þar?

Til hvers að læra eitthvað meira sem tengist kennslu? Í skólum er engin goggunarröð, annað hvort ertu bara kennari eða kennari. Þú getur líka orðið deildarstjóri en langar mig eitthvað að vera deildarstjóri? Og ekki langar mig að vera skólastjóri þannig að…

Fyrir mastersnám fær maður 12 þús kr launahækkun. Skólagjöldin kosta 45 þús krónur hvern vetur. Þetta tæki mann með vinnu um 6 ár. Maður er bara allnokkurn tíma að vinna sér upp í skólagjöldin. Fyrir masterinn fengi ég svo sem ekki neitt, mig langar helst að vera kennsluráðgjafi starfandi innan skóla eða semja námsefni og það er hreint ekki á vísan að róa í þeim efnum. Mér sýnist ekki að kennsluráðgjöf sé á leið inn í skólanum og námsefnisgerð er í besta falli ókönnuð lönd.

Verkir eru slítandi. Sá sem finnur alltaf til verður alltaf lélegri og lélegri að þola þá – alveg öfugt við það sem mætti ætla. Hálsinn er skaplegur en býsna snúinn oft og úthaldið ekki sérlega mikið í herðum og hálsi. Þar býr spennan mín og af henni á ég víst nóg. Hælsporarnir eru orðnir tveir eða amk eru þeir orðnir einn og hálfur. Vöðvakerfin í fótunum eru að ibba sig – sundfimin ýtir við þeim og þreytan liðir við mig. Verkir stundum, teygjur og tog virðist duga upp að ákveðnu marki en svo tekur bara stirðleikinn við. Nenni ég þessu? Er þetta það sem ég vil? Já var og er svarið nokkuð einarðlega.

Er ég að æfa of mikið? Er ég að æfa rétt? Er ég að gera æfingar sem mér finnast skemmtilegar? Er ég á réttu róli í þessu öllu? Svarið var já – með áherslu á að fara að hjóla þegar veðrið batnar. Ég hlakka til þess.

Skórnir blandast svo inn í þetta alls staðar og allt um kring – ekkert verður úr neinu nema vera í góðum skóm og þeir kosta sitt. Hvernig skóm á ég að vera í, inniskór kosta líka ógó mikið 😉 og óþarflega langt í mánaðarmót en ég fann nú lausn á þessu sem betur fer. Vonandi líður mér betur í fótunum fljótlega.

Mataræði er klassískt. Ég verð að taka það fastari tökum til að ég verði ánægðari með mig. Ég verð að vera einbeittari – það er kannski helst spurning um það. Það gekk ágætlega þessa viku en betur má ef duga skal. Ég lít þó á það með stóískri ró að það er vel ásættanlegt að hafa lést um 2o kg eða svo á ári. Það er minn hraði og sá hraði sem ég ætla að halda mér við. Það væri amk allnokkuð í mínum huga ef það hefði bæst á mig á liðnu ári. Á þessum hraða lifi ég því lífi sem ég vil og hef ánægju af. Matur skiptir jú máli og gefur mér gleði. Fjölbreytnin mætti hins vegar aukast og einbeitnin varðandi sumt sömuleiðis. Enda hver er fullkominn en to tre?

Börnin mín og börnin mín. Hver hugsar ekki um börnin sín?

Heimilið er allt í voða og vitleysu og nú þarf ég að fara að gera eitthvað í því. Ég geri það kannski í dag og svo í páskafríinu 😉 – ásamt því að fara í allnokkrar fermingar.

Sjúkraþjálfun og nudd? Þarf ég á því að halda? Ég þarf amk á sjúkraþjálfaranum mínum að halda. Enginn í veröldinni hjálpar mér að halda kúrsi eins vel og hann og ég veit nú ekki alveg hve góð ég væri í því að halda honum óstudd. Ég er alveg orðin sannfærð um að þessu verkefni dugir ekki að vera einn. Samspilið er svo kannski eitthvað sem maður bara lætur þróast. Rétt eins og það hefur þróast. Stundum þarf svo kannski að koma til nudd og eitthvað til að laga það sem fer úr lagi. Kannski hjálpar það bara ekki neitt, hreyfingin dugar. En nú er ég sem sagt að minnka nuddið og þar með fækkar fundunum með sjúkra þó Baldur sé ótrúlega duglegur að tala við mig þegar ég er í salnum að bauka. Eftir ár er líklega kominn tími til að standa á eigin fótum og horfast í augu við það að vöðvabólgan þarfnast ekki nudds við heldur hreyfingar, slökunar og skynsemi. Ég verð líklega að skríða upp úr vasanum á honum og standa á eigin fótum 😉

Annars var ég að reyna eina æfingu í gær sem Valgerður kenndi mér úr jóganu – halla höfðinu og láta það hvílast á milli herðablaðanna (sem ég veit núna hvar eru á mér ;-)), hún sagði að það væri svo ægilega gott og ég horfði á hana gera þetta – virtist ekki vera mikið eða merkilegt en afskaplega afslappandi og fínt. Prófaði þetta svo í gær og ég kom höfðinu varla hálfhring án þess að hálf drepa mig. Púff það er sem sagt ekki alveg farið vesenið í herðunum og klárlega ekki í hálsinum en það er ekkert víst að neitt nudd bjargi því. Einhver sagði mér að nudd væri hvort sem er alveg tilgangslaust ;-). Ég gæti hugsað mér að trúa því næstu dagana meðan ég er í afnuddeitrun ;-))

Og nú ætla ég annað hvort í sund eða taka til í einhverjum skápum hér á heimilinu. Nóg er af draslinu í þeim.

Þá er bókhaldi yfir líf Ingveldar lokið að sinni. Helgin bíður ekki lengur og ég þarf að nýta tímann vel ef ég ætla að brenna 600 hitaeiningum í dag, taka til, hugsa um þvottinn, hundinn, börnin og sjálfa mig :-). Á morgun eru það 1400 hitaeiningar, vinna og kannski meiri tiltekt og í kringum þetta allt er svo eldamennskan ljúfa.

Og ég held ég sakni hans Palla bara svolítið. Já mikið verð ég fegin þegar ég fer í páskafrí það segi ég satt.

Mín að átta sig

Jæja nú er ég búin að prófa að vera ekki í ræktinni í 4 daga – sleppa tveimur skiptum sem sagt. Svo er ég búin að bera þessi ,,sinnaskipti“ mín undir ýmsa og fengið mjög einsleit viðbrögð ;-).

Ja að vísu er eins og sumir taki ekki alveg mark á mér en hinum finnst þetta arfavitlaus hugmynd og eru ekki til í að ræða hana á nokkurn hátt. Henni er svona ýtt til hliða með orðum eins og Inga sem fer ekki í heilsuræktina sé ekki nein kona sem þau þekki, eða já það er nú ekki í boði að hætta að hreyfa sig og svona nokkuð!

Mótrþróaþrjóskuröskunin rjátlaðist af mér eftir því sem leið á gærdaginn (en hún stóð nú samt í fjóra daga sem er nú met held ég – nema hvað Baldri finnst ég alltaf vera illa haldin af henni sem ég skil ekki því ég geri bókstaflega allt sem maðurinn segir mér að gera – utan einu sinni!).

En sem sagt Björk og Baldur náðu nú eiginlega í sameiningu að stilla kúrsinn hjá mér – auk mín náttúrulega en ég tel það reyndar mjög mikilvægt að skoða hug sinn vel og íhuga afhverju maður gerir hlutina og ekki síður – hvernig maður geri þá. Nú og ég var sem sagt að því. Og nú er komið nokkuð nýtt plan.

Ég er sko hundleið á því að vera alltaf illt í fótunum en ég ætla að hvíla mig þessa viku nokkuð vel – bara fara í sundleikfimina. Á móti ætla ég að passa mataræðið sérlega vel og borða vel af grænmeti og skyri – skyr er ógeðslega sniðugut megrunafæði ef maður kemur því niður á annað borð!

Ég ætla að kaupa mér nýja skó því dempararnir eru búnir í þeim gömlu og því held ég að mér sé svona illt í ristunum og ökklunum og finn svona fyrir hælsporanum mínum nýja hægra megin! Sá eldri í vinstri hælnum lætur lítið fyrir sér fara flesta daga orðið.

En sem sagt ég ætla bara að vera aum í fótunum áfram því það er eiginlega alveg jafn slæmt að hreyfa sig ekki því seturnar og það helv… er alveg eitur fyrir mig svo ég get allt eins verið heilsufrík eins og sófa og stóladýr.

Ég ætla að reyna nei ég ætla að borða mikið grænmeti og sleppa frönskum og djúpsteiktum mat sem ég hef stundum laumað inn fyrir mínar varir. Hugsa svolítið meira um annars gjörbreytt mataræði.

Svo ætla ég að reyna að vera ánægð með 22 kg mín sem eru farin frá því í endaðan apríl í fyrra. Annað er náttúrulega bara bilun. Ég hef lifað sældarlífi, borða bara flest og hef gaman af. Já í raun hefur líf mitt bara batnað síðasta árið á ýmsan hátt og ég er betur áttuð á sjálfri mér. Ég samt ekkert betri manneskja eða gjörbreytt en svolítið öðruvísi er mér þó sagt ;-). Ég hef svo sem ekki skoðun á því hvernig ég hef breyst. Ég veit þó að ég sit beinni í baki í stólnum við tölvuna. Þvílíkt sem ég er komin með fína bakvöðva til þess að ná því. Svo vagga ég minna í göngulagi – vonandi er hálsinn ekki eins framsettur og því minni ég minna á gæs… Ja ég vona það amk. Baldur vill meina að ég sé rólegri og yfirvegaðri – skil nú ekkert hvað hann hefur fyrir sér í því! Og svo veit ég að ég er ógó sterk – sá það í kassaburðinu hjá Ástu.

Sem sagt áfram með smjörið. Hjól, sund, ganga, Styrkur, og hvað þetta heitir allt. Já og vitið þið hvað – ég þarf að fá mér nýja sundboli – þeir gömlu eru bara eiginlega ekki hægt lengur. Skemmtilegt ekki satt 😉

Og ég ætla að vinna fram á kvöld – og lífið er bara harla gott þrátt fyrir allskonar blankheit og bölmóð inn á milli. Peningamálin reddast fyrr eða síðar, tekur því ekki að vera á bömmer yfir þeim lengi eða ítrekað.

Engu nær um hverjum ég eigi að halda með í Formúlunni – er ekki bara fínt að geta skipt á milli Kimi og McLaren? Jamm held það bara að sinni ;-).