Hér er ég – ágætis dagur í skólanum, krakkarnir yndislegir. Ég held ég eigi eftir að sakna þeirra ofboðslega – ég ætlaði aldrei að fara frá þeim svona snemma. En það eru önnur börn annars staðar sem er líka gott að þykja vænt um. Þessi í Sunnulæk eru mér bara svo kær. Litlu grjónin mín sem ég næ aldrei að sinna eins vel og ég vil. En jamm – áfram veginn.
Ég var að lesa bloggin mín tvö um það þegar ég fór að stunda salinn – um fyrstu skiptin mín til Baldurs fyrir um ári síðan. Og what a difference a year makes…
Í framhaldi af því var svo svolítið sniðugt að Baldur spurði mig í nuddtímanum í dag hversu miklu hefði munað að ég mætti ekki í annan tímann til hans. Það er í sjálfu sér svolítið góð spurning. Og allrar athygli verð. Honum fannst ég svolítið vera eins og minkur í búri – hefði hreint ekki viljað vera í Styrk né hjá honum þar og þá. Það er líklega líka alveg rétt. Og hann var líka næstum viss um að ég myndi ekki endast eins lengi og raun ber vitni. Þar aftur á móti greinir okkur svolítið á í upplifun.
Ég vissi allan tímann sem hann var að spyrja mig um hvort ég væri farin að synda, ganga á morgnana, farið á hjólið eða hvað þetta hét allt saman sem hann var tilbúinn með handa mér í löngum bunum afhverju ég sagði nei. Það var af tveimur ástæðum:
Ég vissi að ef ég byrjaði myndi ég finna alls staðar til og þeir verkir hefðu svo áhrif á vinnu mína og tilvist – breytingar sem ég var ekki tilbúin að ganga í gegnum. Ég yrði að drepast í kálfunum, herðunum og hvar sem verða vildi og það þýddi að ég gæti ekki unnið eins mikið og ég vildi.
Ég vissi líka að ef ég byrjaði myndi ég vilja gera það af stæl og alvöru. Og ég var ekki tilbúin að breyta lífi mínu á þann hátt. Ég vildi einfaldlega hætta að finna til og vera með svona mikla vöðvabólgu. Lengra stóðu væntingar mínar til sambands míns við þennan nýfengna nuddara ekki. Þess vegna sagði ég alltaf, ítrekað og endalaust NEI. Og hann hélt áfram að spyrja.
Ég vissi hins vegar ekki að ég myndi halda þetta út því þetta var jafnvel heldur erfiðara en ég reiknaði með. Og þá ekki bara líkamlega – heldur frekar andlega. Baráttan var og er ansi hörð oft á tíðum.
Þegar ég svo byrjaði, þá vissi ég að það þyrfti að vera í ramma, gera af elju og ákveðni (frekar en áhuga eða vilja), breytingar yrðu óhjákvæmilegar á lífsmynstri mínu. Þetta vissi ég allt saman. Þess vegna stökk ég ekki til og hlýddi honum með að fara í salinn. Það var einfaldlega ekki kominn sá tími í mínu lífi – hvorki fyrst í febrúar þegar ég fór til hans né í apríl þegar ég byrjaði. En svo var ekki aftur snúið.
Ég kannski vissi ekki að ég yrði hér að ári. Ég vissi ekki að Baldur ætlaðist alltaf til meira og meira og myndi styðja mig every part of the way – alltaf endalaust. Ég vissi kannski ekki að það yrði hælspori og háls sem yrðu mér verstir – hélt það yrði ökklar og kálfar, bak og axlir. En ég vissi að ég var lögð af stað og þá er ekki svo auðveldlega aftur snúið. Líka afþví mér finnast íþróttir skemmtilegar. Ég þekkti svo sem þetta ferli allt saman úr sumarsundinu og þegar ég synti á vetrum. Ég þarf ramma og ég þarf að halda mig við hann. En kannski er úthaldið meira en ég ætlaði, ég einfaldlega hugsaði ekki fram á veginn heldur tók hvern dag, hverja æfingu, hverja göngu sem áfanga á þeirri leið að ná mér betur á strik.
Og ég held það sé að gerast núna.
þess vegna er gaman að velta því fyrir sér hve miklu munaði að ég færi ekki til Baldurs í annað sinn. Það munaði mjög litlu – það munaði eiginlega bara því að ég sá ekki fyrir mér að ég gæti beðið eftir því að komast að hjá öðrum nuddara – ný beiðni, ný læknisferð og hvað ætti ég svo sem að segja við Gylfa lækni: ,,Ég vil ekki fara til þessa Baldurs! Hann er vondur við mig? Skilur mig ekki!“
Einhvern tímann áður en tími tvö rann upp slæddist sú hugsun niður í kollinn minn að ég þyrfti kannski bara svona leiðinda gaur með mér í lið – sem væri ekki snarmeðvirkur og hæfilega sama um allt raus í mér og aðdáun á dugnaði mínum í starfi. Ég lokaði snögglega á þessa pælingu – fannst hún ljót og leiðinleg og ákvað að fara aldrei aftur í Styrk né til Baldurs. En fræinu hafði verið sáð. Ég vissi innst inni hvað til míns friðar heyrði – ég þurfti kannski bara á einum þverhaus að halda til að tjónka við mig – einhvern sem ég yrði ekki daginn að gera meðvirkan í vitleysunni minni. En ég ýtti því til hliðar reyndi að kæfa þetta litla fræ – en fór aftur því ég gat ekki hugsað mér að bíða annan hálfan mánuð eða þrjár vikur eftir öðrum nuddara. Ég gæti áreiðanlega beðið þennan af mér.
Þar hafði ég svo sem rangt fyrir mér. Ég skil ekki enn að hann hafi ekki gefist upp á mér löngu áður en apríl 2006 rann upp. Já eða einhvern tímann síðan þá. Kannski er bara engin ástæða til þess að gefast upp á mér. Hefur mér ekki bara gengið vel?
Það var þáttur hjá Opruh um daginn og þar spókuð sig konur sem höfðu lést um þau hin sömu 24 kg og ég og fengu mikið klapp að launum frá öllum viðstöddum – og aðferðin sem þær beittu var mikið til hin sama og ég. Breyta grunninum og huga að hreyfingu og mataræði. Þannig að líklega er þetta allt saman svolítið afrek.
Það er til 120 cm minna af mér en fyrir ári. Ég tek töluvert minna pláss í veröldinni fyrir vikið og er ekki eins íþyngjandi fyrir möttulinn ;-).
Það munaði öllu að ég fór í þennan annan tíma – sem ég var næstum búin að afboða. Það munaði ekki miklu það get ég svarið.
Í dag fór ég í 25 mín göngu í Hellisskógi með honum Bjarti mínum, vaggandi með framstæðan háls eins og hinar endurnar þar, fór í Styrk og var ótrúlega dugleg. Ég er farin að fara 24 mín á prógrammi á stigvélinni – þó þyngdarstigið sé bara á 3. En þvílíkt sem ég brenni á því og svitna. Það er rosalega erfitt mér enda er ég svo sem ekki nein léttavara. Var líka á 25 mín á ógeðstækinu og brenndi alls rúmlega 1200 hitaeiningum plús þessar 300 sem fóru á göngunni. Þar að auki fór ég í nudd – og það var nú svei mér gott og nauðsynlegt. Er með fyrirbyggjandi aðgerð í gangi – því gangan reynist mér og hálsi mínum svo erfið. Sjáum til hvað setur. Helgi framundan og allt í þessu fínasta. Life is good. Amk hreyfingin. Er ekki alveg viss með annað.