Bjargir

12495148_10205875965995361_618195820622227219_nÞað hef ég lært að ég þarf stuðning til þess að stíga upp. Og hann hef ég svo sannarlega.

Af öllum þeim sem áttu sinn þátt í því að ég náði árangri frá 2006 til 2012, var það sjúkraþjálfarinn sem skipti þar mestu – að öllum öðrum ólöstuðum. Og þó niðursveiflan hafi verið kröpp, lúrði það sem ég hafði lært og þjálfað og beið þess að vera nýtt á ný.

Það þurfti mikið til að leita til hans á ný, þyngri og þrekminni en þegar hann hafði mig síðast í meðferð. Miklu…. Um tíma gat ég hreinlega ekki hugsað mér að horfast í augu við hann – og þar með ósigur minn. En slíkur heigulsháttur dugir ekki. Til þess að sigur vinnist þarf að horfast í augu við sigur jafnt sem ósigur – og nú er ég komin undir hans hendur á ný. Og það finnst mér gott.

Fjölskyldan er mér líka stuðningur og hvatning. Hver vill ekki vera fær um að sinna barnabörnum sínum, ganga með þeim og sýna þeim náttúruna, kenna þeim um dásemdir náttúru, gróðurs sem staða? Minnka áhyggjur barna og maka? Það er íþyngjandi að hafa alvarlega offitusjúkling í fjölskyldunni – gleðin og stoltið sem sést í augum þeirra, þegar kerla kemur úr sundi eða ræktinni er umbun engri lík.

Vinir og kunningjar. Það er ótrúlegt hve mikil áhrif þetta fólk getur haft – líka kunningjarnir. Nú eftir að ég kom suður hafa margir komið að  máli við mig, og marga hef ég hitt – oftast í sundinu – og þeir muna eftir dugnaðinum og eljunni og eru vissir um að ég muni upp rísa – sannfærðir því hugmyndir þeirra um mig eru þær. Dásamlegt að finna þetta – því það að vera innan um fólk sem hefur þekkt mig og þekkir mig er góð tilfinning. Virðir mig vegna þess sem ég er og geri. Ómetanlegt.

Góð íþróttaaðstaða. Nú er ég komin í áskrift hjá WorldClass og í sundlaugina. Það er algjörlega nauðsynlegt og aðstaðan hér á Selfossi er hreint frábær. Ég vonast til þess að komast í vatnsleikfimi í haust og vetur – ég mun keyra frá Laugalandi og aftur til baka með glöðu geði  – tímanum frá sex að morgni vel varið!

Upprisan (2)

Allt hefur sinn tíma – og oft er aðdragandinn ekki síður mikilvægur en upphafið sjálft.

Mín upprisa númer 2 hófst 1. júlí 2016 en leiðin að þeim degi er 13 mánaða gömul. Fram að því var niðursveifla sem endaði einmitt þá,  í maí 2015.

Það er auðvelt að harma hið liðna, en ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það – mikilvægara er að þakka allt það sem ég hef lært á síðustu 4 árum, njóta þess og nýta.

Ekki þýðir að sýta kílóin, hreyfihömlunina – bakslagið. Það er ekki til neins. Því vegurinn liggur fyrir framan mig – beinn og breiður, bara ef ég vil sjá hann og fara þá leið.

Ég hef ákveðið það. Sannarlega og hjartanlega.

Kimi á ráspól og er ég glöð?

Ég veit það satt að segja ekki… Það er bara eitthvað við þennan strák sem mér finnst algjört æði. Hann rennir sér í hlutina og maður getur ekki annað en haldið að einmitt svona eigi að gera þetta – algjörlega eins og bráðið smér. Og manni finnst það jafn eðlilegt þegar hann hviss bamm bang sprengir vélina – auðvitað gat vélin ekki þolað þetta áreynsluleysi ökumannsins sem náttúrulega var nákvæmlega ekki það heldur ofurkraftur þess sem hefur ekkert gert og um ekkert annað hugsað annað en að keyra þar til druslan springur – eða þar til hann stendur á miðpallinum. Hvort heldur sem gerist fyrst.

BMW Sauber gengur vel – rétt eins og Palli var búinn að spá. Ég lét hann nú samt hafa all Ferrari line up í liðssstjóranum en sjálf fékk ég mér Sauber bíl – svona getur maður nú látið :-S.
Baldur þverskallast hins vegar að sýna mér liðið sitt – og hann er ekki búinn að bíta úr nálinni með það!
Og ég nenni ekki enn að hugsa um mataræðið (alveg síðan kl 20 í gærkveldi) Ætla sko ekki að fá mér hollan morgunmat – onei. Ég bara ét það sem mér sýnist. Ég trúi því nú ekki að ég ætli að þverskallast við og detta í það matarlega séð en mér finnst það alveg koma til greina…
Ég þykist vera að hugsa um mataræðið en léttist ekki neitt. Horfi bara í andakt á vöðva sem eru að kíkja undan fitulaginu – heilu sinfoníunum reyndar… Ég held ég vilji ekkert endilega gera það sem þarf til að léttast. Ég vil bara hreyfa mig og skemmta mér við það – og þessi aðdáun annarra sem fylgir er bara ágæt.
Ég hef ekki tíma til þess að elda allan þann mat sem þarf í danska – fyrir nú utan að ég hef ekki efni á þeim ósköpum öllum! Ég hef ekki einu sinni ráð og rænu til að taka með mér nesti í skólann – er alltaf í einhverjum reddingum þar því matarlaus get ég ekki verið nú orðið framan af degi sem er náttúrulega framför.
Ef ég nenni ekki að stússast í þessum matarmálum ætti ég þá ekki bara að vera heiðarleg og segja það og hætta að þykjast – detta bara á rassgatið og sprikla svo í Styrk eins og mér sýnist best henta?
Þetta er hvort sem bara hundlélegur árangur að léttast um 20 kg á ári eða svo miðað við öll ósköpin sem ég er búin að leggja á mig í ræktinni – ég get sagt ykkur það að engin fitubolla í mínum þyngdarflokki hefur hreyft sig meira eða oftar en ég á liðnu ári. Svo fer fólk í danska og léttist um það sama og ég á hálfu ári. Það er allt í lagi að léttast um 1 kg á viku en ég geri það nú ekki neitt – læt mér nægja þetta hálfa kíló!!!!
Æ ég er svo dauðþreytt á þessu lífi. Og vil ég eitthvað vera með umsjón á næsta ári? Nei! En vertu viss ég tek hana að mér og einhverja fleiri vitleysu líka! Og fer ég að hugsa um eitthvað nám og breyta lífsmynstrinu sem ýtir mér oftar og oftar í einhverja þunglyndisdýfu – nefnilega því mynstri að kennslan gefur mér ekki það sem hún gerði! Nei örugglega ekki því ég breyti aldrei neinu – ég er svo stöðnuð manneskja að ég líkist helst volvo föstum í skafli!
Og ég get ekki einu sinni verið glöð yfir því að Kimi var á ráspól!
Og ég er að drepast í hálsinum! Og ég er ekki í fýlu eða þunglyndisblús – bara almennt hunduppgefin á því að vera sú sem ég er 😉

Verkefnið Lífsstílsbreyting Ingveldar

Baldur er stundum að reyna að koma vitinu fyrir mig – alltaf jafnvel og reynir að finna ýmis rök og líkingar máli sínu til stuðnings. Stundum er Ingveldur alveg mát í upphafi tafls og því þarf hann að byrja á því að raða mönnunum upp fyrir hana á ný. Það gerir hann stundum með líkingunni við barn sem er að læra að ganga. En á betri dögum vísar hann til maraþonhlauparans sem þarf að hafa ákveðna áætlun til að hlaupa eftir – ákveðin markmið til skemmri og lengri tíma – það er ekki byrjað á því að demba sér til New York og hlaupa hjá þeim Björk og Grími!

Í mörg horn að líta

Eftir því sem hefur liðið á haustið hefur mér orðið það betur og betur ljóst að þetta verkefni mitt – lífsstílsbreytingin, er ekkert sérlega auðvelt. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að mæta í ræktina, einblína á að léttast og það allt saman – ég hef gert það – en það sem er erfitt er að halda út, missa ekki sjónar á því hvert skal haldið – vera viss um að maður vilji ná þangað. Mesta erfiðið er að breyta lífsmynstri sínu frá a til ö from now until eternity. Það er ekki bara mataræðið, heimilislífið, áhugamálin, lífssýnin – heldur það sem mér reynist kannski hve erfiðast – viðhorfið til vinnunnar. Þar þarf meira en lítið að ganga á, áður en ég næ lendingu. Ef maður er ófullnægður á einu sviði smitast það yfir á önnur svið. Maður getur sett upp augnhlífar eins og dráttarklárarnir einblínt á þyngdina, æfingarnar og saltað allt hitt en það kemur þá bara í hausinn á mér seinna. Það er bara ein leið til að gera þetta – og það er með því að taka á öllum hliðum mínum og þær eru margar, margbreytilegar og snúnar sumar hverjar. Kannski eins og hjá okkur flestum. Mesta kúnstin er þó að ætla sér ekki að gera það allt á sama tíma – og á sem skemmstum tíma!

Líkt er Ingveldi og íþróttamanni á leið á ÓL
The Mind Makes a Champion

Nú síðast þegar við Baldur spjölluðum þá var hann mér alveg sammála um það að verkefnið Lífsstílsbreyting Ingveldar væri vissulega erfitt – tröllaukið. Það var ákveðin fróun í sjálfu sér að fá staðfestingu á því fannst mér. Það væri ekki bara minn vesaldómur sem héldi því fram. Af því tilefni benti hann mér á að þetta væri eins og íþróttamaður ákveddi að fara á ÓL. Og mér fannst það nógu merkilega viðlíking til að hugnast hún vel ;-). Lífsstilbreytingin verður mín vegferð til Olympíu.

Það þarf að taka þátt í mörgum mótum, ná mörgum áföngum, þjálfa líkama og kannski ekki síður huga áður en settu marki er náð. Það eina sem truflar mig við þessa líkingu er að líklega hefur íþróttamaður sem ætlar sér stóra hluti traustari undirstöðu fyrir sinni ákvörðun en ég varðandi lífsstílsbreytinguna– ja að því gefnu að hann eigi eitthvað erindi á mótið – geti eitthvað í sinni grein en sé ekki eins og hvert annað nutcase!

Mér finnst ég bara hafa verið ferlega klár að hafa ekkert gert í mínum málum á skalanum almennilega fyrr – ekki eins klár að hafa látið hlutina þróast eins og þeir gerðu á bilinu 15 – 30 en um það er oft seint að fást núna. Ég hefði ekki komist úr sporunum ein – þetta er ekki eins manns verk það er alveg klárt og ekki heldur einhver hugdetta sem manni finnst eins og gæti verið sniðugt að framkvæma! Á einhvern undarlegan hátt hefur mér ekki dottið í hug fram að þessu að snúa ferlinu við, fara úr kyrrstöðu fíkilsins yfir á heilbrigða helminginn. Fyrir vikið er ég þó ekki með 100 skipsbrot á bakinu og veit blessunarlega lítið hvað bíður mín – annars gæti nú hörmungarhyggjan náð yfirhöndinni af enn meiri krafti en fyrir er! Ég hef sem sagt ekki skýra mynd af því að mistakast þetta verkefni í huganum – engin fyrirframgefin úrslit byggð á biturri reynslu.

Grunnurinn skiptir máli

En aftur að grunninum sem ég nefndi áður. Minn grunnur andlega er ekkert sérlega sterkur held ég ef við lítum til þess sem ég þarf að horfast í augu við. Lengi vel hef ég lítið leitt hugann að ókostum mínum og brestum. Hef haldið áfram á því sem ég hef talið mínar sterkar hliðar- falið hitt í algleymi þess sem þykist ekkert vilja af þeim vita nema þegar myrkirð sækir að. Þegar birtir er aftur horft fram á veginn og brestirnir víkja fyrir hinu sem ég get gert. Það þykir orðið nokkuð ljóst að ég er fíkill – það verður víst enginn svona feitur eins og ég nema hann sé fíkill. Mér finnst að vísu ekkert fínt að vera fíkill – myndi gjarnan vilja sleppa við þann stimpil en ég skal alveg venja mig við hann – tækla málin útfrá því. Er ég þá ekki komin með eina afsökunina enn? Ah mér er nú ekki sjálfrátt og því ætla ég bara að fá mér svolítið nammi og ,,njóta“ lífsins? Ég tek því svo bara af þolinmæði og umburðarlyndi og geri eitthvað í því þegar ég er í betra standi til að berjast við fíknina? Fíklum er jú oft á tíðum ekki sjálfrátt!

Ekki er nóg með að ég sé fíkill heldur er ég óþolinmóð og óvægin. Ég skal alveg kaupa það að ég sé óþolinmóð og flumbra. Ég t.d. sleit í sundur jólaseríu í fyrrakvöld bara af því mér hugkvæmdist ekki að athuga afhverju hún væri föst – heldur væri ráðið bara að toga fastar. Meira vinnur vit en strit hjá hinum þolinmóðu trúi ég en mér. En ég held ekki óþolinmæðin stjórni lífi mínu, og hún er líka ákveðinn drifkraftur. Og hún er hluti af persónuleika mínum og ég vil helst ekkert breytast mikið í grunninn heldur vera færari um að takast á við sjálfa mig – og þá þarf víst þessa margfrægu þolinmæði og títtnefnt umburðarlyndi.

Glíman núna er sem sagt að finna þennan meðalveg í umburðarlyndinu. Ég held mér sé ekki hollt sérlega mikið umburðarlyndi. En ég má heldur ekki skjóta mig í tánna í hvert eitt sinn sem mér verða á mistök en einhvern veginn finnst mér þau vera óleyfileg hvað mig varða – í sumu að minnsta kosti.

Ofan á allt annað er ég móðursjúk – sem mér finnst nú kannski verst af þessu öllu því það vil ég síst af öllu vera. Sáli reyndi þó að útskýra fyrir mér að þessi móðursýki fælist í næmni fyrir umhverfi mínu og slík en ekki almennri hysteríu – og mér finnst það nú ekki vera neitt ljótt eða slæmt, nema náttúrulega þegar maður verður fyrir slæmum áhrifum vegna þessa. Ég tel hins vegar að þessi næmni sem ég hef – og ég hef mikið af henni það skal viðurkennast, geri mig að góðum kennara en hún getur líka verið slítandi. Og svo nemur maður ekki alltaf allt rétt. Það er náttúrulega ekki gott – þá verður maður kannski svolítið móðursjúkur!

Ég efast um að íþróttamaður sem ætlar sér í fremstu röð hafi þessi ósköp öll, – nema þau séu þá hluti af styrk hans og þori – hann hafi lært að nýta sér skrattakollana sína sér til framdráttar og það er það sem mig langar að gera. Þess vegna fór ég til sálfræðings og þess vegna tel ég mig hafa fullt erindi þangað.

En ég hef líka kosti sem hjálpa: Ég get séð skondnu hliðarnar á málunum, ég er úrræðagóð, ég horfi á heildina, ég hef kroppinn í verkefnið, ég hef líka keppnisskap þó ég vilji helst ekki viðurkenna það og kunni lítið með það að fara! Ég get hrundið ótrúlegustu verkefnum af stað og það sem meira er ég get fylgt þeim eftir (ef ekki áður þá héðan í frá ;-)). Ég er dugleg!

Meðganga lífsstílsbreytingarinnar

Það eru komnir 9 mánuðir – heil meðganga síðan ég fór fyrst í salinn. Það telst ekki langur tími af mannsævinni og það er ekki langur tími í samanburði við þann tíma sem ég eyddi utan ræktarinnar.

Mér finnst þetta samt vera langur tími – og mér finnst eins og mér hafi átt að miða lengra en raun ber vitni. Ég sit hér og hef ekkert hreyft mig í síðustu viku – hvorki gengið úti, farið í salinn, né synt. Ét sælgæti núna – þó skammturinn hafi átt að vera etinn í gær og það sem verra er mér finnst eins og ég standi frammi fyrir þeim valkosti að halda áfram að éta nammi og hætta að hreyfa mig. Mér finnst það raunverulegur möguleiki að hætta að leggja þetta á mig – það sé hreinlega ekki framkvæmanlegt að gera þetta hvort sem er og því sé það í boði að halda áfram fyrri háttum, vinna, reyna að bæta mataræðið og hreyfa mig á sumrin.
Ég veit samt alveg hvað ég vel – ég vel að hreyfa mig og halda áfram að róa með í átt að bættri heilsu en afhverju er ég að sökkva? Og hvenær hefst ferðin upp á yfirborðið?

Ætti ég að hafa farið vigtina – mér finnst eins og hún veiti ákveðið aðhald og ekki veitir mér af aðhaldinu? Eða á ég að hugsa um að ná mér á flot og ekki vera að lemja á mér fyrir það sem ég veit að er ekki í lagi – einbeita mér að því að laga það og sækja svo fram og hafa þá vigtina með mér í sókninni frekar en að hafa hana sem andstæðing eins og staðan er óneitanlega núna?

Mér finnst hver dagur sem ég léttist ekki, hver vika sem ég stend mig ekki vera nagli í líkistuna – sönnun þess að ég geti þetta ekki. Sé ekki fær um að breyta mínum háttum. Sé aumingi. Ég horfi til þess að ég ætti að vera orðin 24 kílóum léttari 1. apríl 2007 en ég var 1. apríl 2006. Hvað ef ég verð það ekki? Þá hef ég fullkominn stimpil á rassinum sem á stendur auli!

En um leið og ég skrifa þetta þá kannski finnst mér nú kannski að ég nái þessu… 2 kg á mánuði og það eru kannski farin 15 – 20 kg þá kannski á ég möguleika. Þegar ég set dæmið svona upp…
Kannski bara get ég þetta? Kannski er ég bara fær um að gera eitthvað í mínum málum eftir allt saman! Kannski gengur þetta bara svona – niðursveifla og íhugun, sókn og dirfska.

Nú stend ég bara frammi fyrir því hvort ég fer í Styrk á eftir eður ei á eftir. Eða nei – ég stend ekki frammi fyrir því. Ég stend frammi fyrir því að ég fer í Styrk á eftir. (Fór ekki þar sem ég sofnaði fram á lyklaborðið eða því sem næst. Annað stendur óbreytt – óhaggað. Fyrri einbeitni verður tekin upp!)Næsta vika bíður með hreyfingu og vonandigóðri líðan. Vonandi fær Bjartur að njóta góðs af því – hann er búinn að vera í hálfgerðri einangrun því enginn labbar með hann ef ég geri það ekki. Ef ég næ ekki að hreyfa mig eins og hér segir hafa markmiðin verið of mörg. Markmið þar næstu viku gætu verið önnur bæði með tilliti til þess hvernig gengur að ná þessum en þó ekki síður breyttar aðstæður, jólafrí og það allt saman.

Markmið

Sem sagt markmið næstu viku:
Sofa – sem hefur vel að merkja gengið vel síðustu 3 nætur eða svo þó ég vakni ótrúlega oft sérstaklega fyrri partinn.
Slaka á í vinnunni – Róm var ekki byggð á einum degi
Huga vel að mataræði – muna 1 nammidag!
Svona ætla ég að hreyfa mig því ég ætla að vera dugleg næstu viku – ekkert múður.
Sunnudagur – Styrkur
Mánudagur – morgunbrennsla – helst ganga með Bjart.
Þriðjudagur – spinning
Miðvikudagur – morgunbrennsla og/eða
Fimmtudagur – morgunbrennsla

Föstudagur – salur

Ég massaði Bónusferð

..

Ég hef reyndar ekki sagt ykkur frá því að ég vaknaði eiginlega ný og ,,betri“ kona í gærmorgun. Dagurinn þar á undan var sko frekar heavy í vitleysunni varðandi bæði hugsanagang og framkvæmd matarhliðarinnar í lífi mínu. Ég held reyndar að ég hafi svolítið gengið fram af mér…
Þetta var sem sagt dagur horrendus
Nú breytingin á laugardagsmorgni var nefnilega sú að ég áttaði mig á því að líklega þarf ég ekki að hafa miklar áhyggjur af æfingunum mínum þessa dagana því fyrst ég mæti í Styrk, hjóla, syndi og labba ALLA morgna með stingandi hælspora þá er ég líklega nokkuð einbeitt í þeim málum. Þó auðvitað þurfi maður að halda vöku sinni og það allt saman þegar átt er við atvinnusvindlara eins og mig sjálfa.
Nú jæja sem sagt breytingin… Ég sá að ég get ekki alltaf ýtt því að versla í matinn og elda aftur fyrir allt. Ég get t.d. ekki gert eins og dagsprógrammið hljóðaði hjá mér í upphafi fyrir daginn í dag: Horfa á F1, labba með Bjart í Þrastarskógi, vinna vel og lengi og fara svo í sund.
Ef ég hefði haft þennan háttinn á hefði ég ekki farið í Bónus – ekki átt neinn mat fyrir kvöldið, ekki neitt nesti fyrir næstu viku í skólann og ekki nenni ég að fara í Bónus í miðri viku – svo langt er ég nú ekki komin í dásemdunum.
Ég fór því – þvert á allt það sem mér er í blóð borið – því það að fara í Bónus er ekki bara leiðinlegt það er óyfirstígilega óbærilega hroðalega leiðinlegt! Ég bara er ekki fær um það! Afber það ekki. En mín fór nú bara og verslaði og verslaði – fór svo heim í staðinn fyrir að láta allt góssið vera í bílnum og skemmast á meðan ég vann, gekk frá öllu og ég veit ekki hvað og hvað.
Nú á ég svolítið nesti – fullt af mat og Aðalsteinn þarf ekki að svelta heilu hungri. Flott hjá mér ekki satt?
Ég hef sem sagt uppgötvað og því miður var það heilmikil uppgötvun, að ég get ekki bara ýtt öllu til hliðar fyrir æfingarnar – ég verð líka að hafa mataræðið í forgrunni. Það verður að vra skipulag á því eins og öðru.
Kannski er ég bara tilbúin til að taka næsta skref varðandi þetta. Vonandi. En amk er til matur – nú þarf bara að hafa rænu á að taka út úr frysti – elda og borða og útbúa svo nesti.
Og ég er strax orðin uppgefin við tilhugsunina eina saman.
En ég MASSAÐI Bónus og er nú farin í sund. Það er líka of gott veður til að láta þetta fram hjá sér fara.
Lof jú Inga bónusgella