Verkefnið Lífsstílsbreyting Ingveldar

Baldur er stundum að reyna að koma vitinu fyrir mig – alltaf jafnvel og reynir að finna ýmis rök og líkingar máli sínu til stuðnings. Stundum er Ingveldur alveg mát í upphafi tafls og því þarf hann að byrja á því að raða mönnunum upp fyrir hana á ný. Það gerir hann stundum með líkingunni við barn sem er að læra að ganga. En á betri dögum vísar hann til maraþonhlauparans sem þarf að hafa ákveðna áætlun til að hlaupa eftir – ákveðin markmið til skemmri og lengri tíma – það er ekki byrjað á því að demba sér til New York og hlaupa hjá þeim Björk og Grími!

Í mörg horn að líta

Eftir því sem hefur liðið á haustið hefur mér orðið það betur og betur ljóst að þetta verkefni mitt – lífsstílsbreytingin, er ekkert sérlega auðvelt. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að mæta í ræktina, einblína á að léttast og það allt saman – ég hef gert það – en það sem er erfitt er að halda út, missa ekki sjónar á því hvert skal haldið – vera viss um að maður vilji ná þangað. Mesta erfiðið er að breyta lífsmynstri sínu frá a til ö from now until eternity. Það er ekki bara mataræðið, heimilislífið, áhugamálin, lífssýnin – heldur það sem mér reynist kannski hve erfiðast – viðhorfið til vinnunnar. Þar þarf meira en lítið að ganga á, áður en ég næ lendingu. Ef maður er ófullnægður á einu sviði smitast það yfir á önnur svið. Maður getur sett upp augnhlífar eins og dráttarklárarnir einblínt á þyngdina, æfingarnar og saltað allt hitt en það kemur þá bara í hausinn á mér seinna. Það er bara ein leið til að gera þetta – og það er með því að taka á öllum hliðum mínum og þær eru margar, margbreytilegar og snúnar sumar hverjar. Kannski eins og hjá okkur flestum. Mesta kúnstin er þó að ætla sér ekki að gera það allt á sama tíma – og á sem skemmstum tíma!

Líkt er Ingveldi og íþróttamanni á leið á ÓL
The Mind Makes a Champion

Nú síðast þegar við Baldur spjölluðum þá var hann mér alveg sammála um það að verkefnið Lífsstílsbreyting Ingveldar væri vissulega erfitt – tröllaukið. Það var ákveðin fróun í sjálfu sér að fá staðfestingu á því fannst mér. Það væri ekki bara minn vesaldómur sem héldi því fram. Af því tilefni benti hann mér á að þetta væri eins og íþróttamaður ákveddi að fara á ÓL. Og mér fannst það nógu merkilega viðlíking til að hugnast hún vel ;-). Lífsstilbreytingin verður mín vegferð til Olympíu.

Það þarf að taka þátt í mörgum mótum, ná mörgum áföngum, þjálfa líkama og kannski ekki síður huga áður en settu marki er náð. Það eina sem truflar mig við þessa líkingu er að líklega hefur íþróttamaður sem ætlar sér stóra hluti traustari undirstöðu fyrir sinni ákvörðun en ég varðandi lífsstílsbreytinguna– ja að því gefnu að hann eigi eitthvað erindi á mótið – geti eitthvað í sinni grein en sé ekki eins og hvert annað nutcase!

Mér finnst ég bara hafa verið ferlega klár að hafa ekkert gert í mínum málum á skalanum almennilega fyrr – ekki eins klár að hafa látið hlutina þróast eins og þeir gerðu á bilinu 15 – 30 en um það er oft seint að fást núna. Ég hefði ekki komist úr sporunum ein – þetta er ekki eins manns verk það er alveg klárt og ekki heldur einhver hugdetta sem manni finnst eins og gæti verið sniðugt að framkvæma! Á einhvern undarlegan hátt hefur mér ekki dottið í hug fram að þessu að snúa ferlinu við, fara úr kyrrstöðu fíkilsins yfir á heilbrigða helminginn. Fyrir vikið er ég þó ekki með 100 skipsbrot á bakinu og veit blessunarlega lítið hvað bíður mín – annars gæti nú hörmungarhyggjan náð yfirhöndinni af enn meiri krafti en fyrir er! Ég hef sem sagt ekki skýra mynd af því að mistakast þetta verkefni í huganum – engin fyrirframgefin úrslit byggð á biturri reynslu.

Grunnurinn skiptir máli

En aftur að grunninum sem ég nefndi áður. Minn grunnur andlega er ekkert sérlega sterkur held ég ef við lítum til þess sem ég þarf að horfast í augu við. Lengi vel hef ég lítið leitt hugann að ókostum mínum og brestum. Hef haldið áfram á því sem ég hef talið mínar sterkar hliðar- falið hitt í algleymi þess sem þykist ekkert vilja af þeim vita nema þegar myrkirð sækir að. Þegar birtir er aftur horft fram á veginn og brestirnir víkja fyrir hinu sem ég get gert. Það þykir orðið nokkuð ljóst að ég er fíkill – það verður víst enginn svona feitur eins og ég nema hann sé fíkill. Mér finnst að vísu ekkert fínt að vera fíkill – myndi gjarnan vilja sleppa við þann stimpil en ég skal alveg venja mig við hann – tækla málin útfrá því. Er ég þá ekki komin með eina afsökunina enn? Ah mér er nú ekki sjálfrátt og því ætla ég bara að fá mér svolítið nammi og ,,njóta“ lífsins? Ég tek því svo bara af þolinmæði og umburðarlyndi og geri eitthvað í því þegar ég er í betra standi til að berjast við fíknina? Fíklum er jú oft á tíðum ekki sjálfrátt!

Ekki er nóg með að ég sé fíkill heldur er ég óþolinmóð og óvægin. Ég skal alveg kaupa það að ég sé óþolinmóð og flumbra. Ég t.d. sleit í sundur jólaseríu í fyrrakvöld bara af því mér hugkvæmdist ekki að athuga afhverju hún væri föst – heldur væri ráðið bara að toga fastar. Meira vinnur vit en strit hjá hinum þolinmóðu trúi ég en mér. En ég held ekki óþolinmæðin stjórni lífi mínu, og hún er líka ákveðinn drifkraftur. Og hún er hluti af persónuleika mínum og ég vil helst ekkert breytast mikið í grunninn heldur vera færari um að takast á við sjálfa mig – og þá þarf víst þessa margfrægu þolinmæði og títtnefnt umburðarlyndi.

Glíman núna er sem sagt að finna þennan meðalveg í umburðarlyndinu. Ég held mér sé ekki hollt sérlega mikið umburðarlyndi. En ég má heldur ekki skjóta mig í tánna í hvert eitt sinn sem mér verða á mistök en einhvern veginn finnst mér þau vera óleyfileg hvað mig varða – í sumu að minnsta kosti.

Ofan á allt annað er ég móðursjúk – sem mér finnst nú kannski verst af þessu öllu því það vil ég síst af öllu vera. Sáli reyndi þó að útskýra fyrir mér að þessi móðursýki fælist í næmni fyrir umhverfi mínu og slík en ekki almennri hysteríu – og mér finnst það nú ekki vera neitt ljótt eða slæmt, nema náttúrulega þegar maður verður fyrir slæmum áhrifum vegna þessa. Ég tel hins vegar að þessi næmni sem ég hef – og ég hef mikið af henni það skal viðurkennast, geri mig að góðum kennara en hún getur líka verið slítandi. Og svo nemur maður ekki alltaf allt rétt. Það er náttúrulega ekki gott – þá verður maður kannski svolítið móðursjúkur!

Ég efast um að íþróttamaður sem ætlar sér í fremstu röð hafi þessi ósköp öll, – nema þau séu þá hluti af styrk hans og þori – hann hafi lært að nýta sér skrattakollana sína sér til framdráttar og það er það sem mig langar að gera. Þess vegna fór ég til sálfræðings og þess vegna tel ég mig hafa fullt erindi þangað.

En ég hef líka kosti sem hjálpa: Ég get séð skondnu hliðarnar á málunum, ég er úrræðagóð, ég horfi á heildina, ég hef kroppinn í verkefnið, ég hef líka keppnisskap þó ég vilji helst ekki viðurkenna það og kunni lítið með það að fara! Ég get hrundið ótrúlegustu verkefnum af stað og það sem meira er ég get fylgt þeim eftir (ef ekki áður þá héðan í frá ;-)). Ég er dugleg!

Meðganga lífsstílsbreytingarinnar

Það eru komnir 9 mánuðir – heil meðganga síðan ég fór fyrst í salinn. Það telst ekki langur tími af mannsævinni og það er ekki langur tími í samanburði við þann tíma sem ég eyddi utan ræktarinnar.

Mér finnst þetta samt vera langur tími – og mér finnst eins og mér hafi átt að miða lengra en raun ber vitni. Ég sit hér og hef ekkert hreyft mig í síðustu viku – hvorki gengið úti, farið í salinn, né synt. Ét sælgæti núna – þó skammturinn hafi átt að vera etinn í gær og það sem verra er mér finnst eins og ég standi frammi fyrir þeim valkosti að halda áfram að éta nammi og hætta að hreyfa mig. Mér finnst það raunverulegur möguleiki að hætta að leggja þetta á mig – það sé hreinlega ekki framkvæmanlegt að gera þetta hvort sem er og því sé það í boði að halda áfram fyrri háttum, vinna, reyna að bæta mataræðið og hreyfa mig á sumrin.
Ég veit samt alveg hvað ég vel – ég vel að hreyfa mig og halda áfram að róa með í átt að bættri heilsu en afhverju er ég að sökkva? Og hvenær hefst ferðin upp á yfirborðið?

Ætti ég að hafa farið vigtina – mér finnst eins og hún veiti ákveðið aðhald og ekki veitir mér af aðhaldinu? Eða á ég að hugsa um að ná mér á flot og ekki vera að lemja á mér fyrir það sem ég veit að er ekki í lagi – einbeita mér að því að laga það og sækja svo fram og hafa þá vigtina með mér í sókninni frekar en að hafa hana sem andstæðing eins og staðan er óneitanlega núna?

Mér finnst hver dagur sem ég léttist ekki, hver vika sem ég stend mig ekki vera nagli í líkistuna – sönnun þess að ég geti þetta ekki. Sé ekki fær um að breyta mínum háttum. Sé aumingi. Ég horfi til þess að ég ætti að vera orðin 24 kílóum léttari 1. apríl 2007 en ég var 1. apríl 2006. Hvað ef ég verð það ekki? Þá hef ég fullkominn stimpil á rassinum sem á stendur auli!

En um leið og ég skrifa þetta þá kannski finnst mér nú kannski að ég nái þessu… 2 kg á mánuði og það eru kannski farin 15 – 20 kg þá kannski á ég möguleika. Þegar ég set dæmið svona upp…
Kannski bara get ég þetta? Kannski er ég bara fær um að gera eitthvað í mínum málum eftir allt saman! Kannski gengur þetta bara svona – niðursveifla og íhugun, sókn og dirfska.

Nú stend ég bara frammi fyrir því hvort ég fer í Styrk á eftir eður ei á eftir. Eða nei – ég stend ekki frammi fyrir því. Ég stend frammi fyrir því að ég fer í Styrk á eftir. (Fór ekki þar sem ég sofnaði fram á lyklaborðið eða því sem næst. Annað stendur óbreytt – óhaggað. Fyrri einbeitni verður tekin upp!)Næsta vika bíður með hreyfingu og vonandigóðri líðan. Vonandi fær Bjartur að njóta góðs af því – hann er búinn að vera í hálfgerðri einangrun því enginn labbar með hann ef ég geri það ekki. Ef ég næ ekki að hreyfa mig eins og hér segir hafa markmiðin verið of mörg. Markmið þar næstu viku gætu verið önnur bæði með tilliti til þess hvernig gengur að ná þessum en þó ekki síður breyttar aðstæður, jólafrí og það allt saman.

Markmið

Sem sagt markmið næstu viku:
Sofa – sem hefur vel að merkja gengið vel síðustu 3 nætur eða svo þó ég vakni ótrúlega oft sérstaklega fyrri partinn.
Slaka á í vinnunni – Róm var ekki byggð á einum degi
Huga vel að mataræði – muna 1 nammidag!
Svona ætla ég að hreyfa mig því ég ætla að vera dugleg næstu viku – ekkert múður.
Sunnudagur – Styrkur
Mánudagur – morgunbrennsla – helst ganga með Bjart.
Þriðjudagur – spinning
Miðvikudagur – morgunbrennsla og/eða
Fimmtudagur – morgunbrennsla

Föstudagur – salur

Já já er það ekki bara

´

ÉG þekki sko klárlega einhvern sem er þessi skór. Ég þekki svo margar blúndur. Hildur systir væri ein. Og svonan lítil falleg kona einhver, hmmmm já – tileinka hann bara öllum litlum fínlegum konum. Þær eiga nú skilið að fá sína athygli hér á þessu bloggi líka :-).

Heyrið þið mig. Ég fór í nudd í gær sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi – er búin að vera þar í 8 mánuði slétta núna. Nema nú er minn kæri nuddari farinn að dútla sér á alveg nýjan hátt við herðarnar á mér og hálsinn. Oh my god – frekar vont verð ég að segja og ég er nú bara alveg helaum í dag eftir átökin í gær. Ég þarf náttúrulega að finna til tevatnsins þar sem kálfarnir eru úr sögunni í bili að minnsta kosti.

Og ekki tók svo betra við í dag. Ég hjólaði í gær um allt eins og berserkur þrátt fyrir mikið rok og kulda fór ekki heim fyrr en að verða 22 eftir að hafa föndrað smá jólaföndur frá 20 en fram að því hafði ég nú bara verið að vinna. Nú í morgun fór ég líka út að labba eins og í gærmorgun (heyriði og sunnudaginn en þá fór ég nú í klst göngutúr um Selfoss með Páli og Bjarti!) og svo á hjólið í sama dómadags rokinu að viðbættum svakalegum kulda – eiginlega fyrsta kuldanum í haust. Og þar sem ég hjólaði í Styrk í hádeginu og gatinu mínu þá bara hélt ég stundum að ég væri stopp en hvað um það – er sem sagt búin að hjóla heilmikið í strekking í gær og dag. Svo bætast við 11 mín á stigvélinni, ógeðstækið og fótaæfingar dagsins og saman gerir þetta þessar líka dómadags harðsperrur og strengi. Þetta er nú í alfyrsta skipti lengi lengi ef nokkurn tímann sem ég er bókstaflega eins og kvika frá toppi til táar. Ætti ég ekki bara að sleppa morgungöngunni í fyrramálið – ég meina vá.

En á móti kemur er ég hrædd um brennsluna. Er ég ekki eitthvað búin að minnka hana því ég er að hjóla – kannski er ég bara ekkert að brenna nóg. Kannski er það þess vegna sem Baldur er farinn að tala um spinning? Oh my god. Svona getur þetta verið…. Oh my god endalaust.

En jæja – enn að reyna að vera jákvæð eftir miklar sveiflur undanfarið – og sveiflurnar flestar verið niður á við… Ég meina hversu óánægður getur maður verið við sín og sín verk? Töluvert I tell you. Og þá er nú gott að eiga vesenislausar vörður til að leiða sig áfram.

Sem minnir mig á að ég er að fara að klára verkefnið mitt hjá Ingvari – hinum vesenislausa manninum í mínu lífi.

Sigh barasta

Jæja gott fólk. Ekki gengur nú of vel að fá fólk til að skrifa á fallega ljúfa póstinn minn en þeir sem hafa gert það veit ég að sumir hverjir hafa verið undrandi á því hvað þetta er erfitt. Ég er t.d. enn að hugsa eitthvað fallegt um mig til að setja þarna inn. Finnst það einhvern veginn ekki auðvelt og ég hélt ég væri að drepast úr sjálfumgleði. Og kannski er ég það – en gleðin sú er þá byggð á heldur veikri undirstöðu.

Ég er á bílnum í vinnunni í dag því ég ætla að vinna svo ótrúlega lengi að það verður komið kolniðamyrkur þegar ég fer heim! Tíhíhí. Verð að vinna upp allan vinnutímann minn sem ég ,,skulda“ Maður má náttúrulega ekki láta eiga inni hjá sér – eins og mesta hættan sé á því.

En nú skal segja af hreyfingaáætlun Ingveldar. Sem kunnugt er gekk nú ekki sem best að hreyfa sig í síðustu viku og ekki var nú helgin hjá Gústu – og í hennar húsi sérlega kræsileg heldur varðandi hreyfingu og mataræði.

Ég borðaði t.d. heilan poka af Nóa rindlum eða vindlum eða hvað það heitir á leiðinni norður og svo heim. Svolítið af lakkrís og 15 makkinstosh mola um helgina en meira var það ekki. Jú 10 walkers karamellur á leiðinni norður líka. Ok ok svoldið mikið nammi verð ég að segja – en það verður bara að taka á í vikunni til að losa sig við það.

Ég eldaði þó ógeðslega hollan mat í gærkveldi þegar ég kom heim og borðaði mikið grænmeti með. Og borðaði ekkert eftir 21 og bara popp fram að því. Svoho þessi vonda helgi var nú ekki verri en þetta. Labbaði 20 mín með Trýnu litla grjónið. Hefði átt að labba með hana í gær líka en geri það síðar ;-).

Ok svo nú er ég búin að setja upp æfingaprógramm fyrir vikuna því nú þarf að taka á því:

Mánudagur:

Labba með Bjart í Hellisskógi – gekk vel

Fara í fulla brennslu í Styrk og heilan fótaæfinga hring og svo í nudd – Dásamlegt nema hvað ég var í svo ótrúlega sleipum buxum að ég hélst varla á hjólinu svo brennslan var 17 mín á hjólinu, 10 mín á ógeðstækinu (sem reyndi helling á hælinn vel að merkja en það lagaðist er á leið) og 10 mín á stigvélinni – yeah – samtals 37 mín – er í 13 mín skuld.

Þriðjudagur

Labba með Bjart kl 7 í Hellisskógi
Hjóla í vinnuna eins snemma og ég get göngunnar og hafragrautsins vegna
Hjóla í 15 mín amk og fara í styrk kl 12:10 og taka efrihlutaæfingar og taka 10 mín sprett á ógeðstækinu (og stigvél (ef ég er nógu spræk))
Hjóla svo í skólann í 10 mín. Samtals brennsla 30 – 40 mín. Dugir vegna þess að ég er á hjólinu í skólanum.

Hjóla heim fyrir myrkur (fínt aðhald)

Miðvikudagur

Labba með Bjart
Hjóla í vinnuna og heim
Hjóla í sund og synda 400 metra með blöðkum mest

Fimmtudagur

Labba með Bjart og hjóla í skólann ef það er gott veður.
Ef ég hjóla ekki fara þá og hjóla í Styrk í 25 mín.

Föstudagur

Labba með Bjart í Hellisskógi
Fara á hjólinu í skólann ef ég mögulega get vegna veður
Fara á hjólinu í Styrk og bæta við túr um hólahverfið til að lenga túrinn eða Tjarnirnar.
Taka rosalegan fótapakka 🙂
Hjóla heim og fara svo á Súbbanum til Rvk og sækja Pallann minn.

Svo myndi ég gera það að tillögu minni að ég fengi skáp í Styrk – þessi burður á sjampói, handklæðum, og alls kyns drasli er alveg að gera mig vitlausa!

Helga Dögg getur þú ekki bara tekið að þér að hugsa um handklæðin mín. Vera að drösla þessu hægri vinstri hér um allan bæ. Frekar lítið spennandi verð ég að segja.

Svo verður konan að hvíla svoldið um helgina. Ætli það sé samt ekki hægt að labba í morgunsárið báða dagana? Er það of mikið?

Hmmm ætti kannski að spyrja að því þar sem ég hef ekki sérlega mikið vit á eigin mörkum.

Hvernig á kona eins og ég að hafa tíma til að hugsa um bæ, börn og vinnu? Vitlaust að ætlasts til þess bara verð ég að segja!

En mér finnst þið frábær, ég er líka frábær amk er ég með fallegar tær ;-). Ég verð að finna upp eitthvað fleira sem ég er góð í og er gott við mig. Ég er bara á þessu stigi ekki alveg nógu góð manneskja eitthvað… Þarf að endurhugsa þetta vel og vandlega

Ég bara get ekki ákveðið mig…

hvort það sé eitthvað vit að fara norður í land á sumardekkjunum… Palli sagði við mig að ég ætti barasta að gera það – væri engin vorkunn á 4×4 með alls konar spólvarnir og gripstýringu og hvað þetta heitir allt saman og náttúrulega sem þessi ofurbílstjóri sem ég er! Elsku karlinn alltaf með óbilandi trú á tækjunum – jafnvel þó það sé farin hjólalega í Hvalfjarðargöngunum eða eitt dekkið sé svo vírslitið að það nálgast að vera á stærð við tunglið undir bílnum, já eða dekkin með svo misjafnt loft að Ingveldur átti í fullu fangi með að hitta á brýr og ristahlið – alltaf segir Palli að allt sé í lagi, verði í lagi og ég eigi bara að hætta að hafa þessar ægilegu áhyggjur það sé allt í lagi með bílinn og allar aðstæður. Ég hef nú komist að öðru og trúi honum ekki alveg. Ég held ég biðji Birgi um að líta á veðurspánna og segja mér hvað ég eigi að gera. Ég held hann skilji hvað ég er viðkvæm sál og ráði ekki við heila heiði – já eða Bólstaðarhlíðarbrekkuna oh my god, í hálku á sumardekkjum. Það er svo flókið að vera ég! Og ekki er ég nú neitt að einfalda málið á stundum!

Nú jæja ég finn eitthvað út úr þessu. Það er amk brjáluð blíða núna – og ég labbaði í morgun! Og ég er í gati og allt! Það þýðir ekkert að vinna í þeim ég er alveg búin að sjá það. Best að nota tímann í andlega íhugun, pælingar og að blogga í þessu tilfelli! Tíhíhí.

Ég er sko búin að vera að hugsa um líf mitt og tilveru. Ég er búin að fatta (tímabundið amk) að ég verð að treysta á mitt hyggjuvit í þessu varðandi mataræðið og góð ráð frá völdum aðilum. Ég bara get ekki verið að taka inn á mig hvað öðrum finnst um hvað ég léttist hægt og lítið að þeirra mati.

Ég á eftir að vera í þessu svo lengi og þurfa að halda dampi í svo langan tíma að flestum óar við. Þetta er ekki 6 vikna átak sem öllu á að breyta – þetta er ekki einu sinni sex mánaða átak né heldur sex ára. Ég þarf áreiðanlega að stússast í þessu alla mína hunds og kattartíð og það er allt í lagi – ég vorkenni mér það ekki neitt. En ég verð að finna taktinn. Ég get ekki hugsað mér að hætta öllu því sem er gott að borða eða gleður mitt geð og maga í matarmálum. Það verður að líta raunsætt á þetta og þegar maður er ég þá fer ég ekki að neita mér um alla hluti. Það þætti mér svo leiðinlegt.

En ég eldaði hollustuhamborgara í gær fyrir okkur Aðalstein og franskar fyrir hann en ég borðaði soðnar gulrætur með – og fannst það bara gott. Eftir það borðaði ég ekki nokkurn hlut eða fra´19:30 og ég fór út og sá undurfagra sólarupprás í morgunsárið. Lífið er gott og ég hef fínan stuðning frá mörgum mörgum. Og jafnvel frá mér sjálfri.

Ég massaði Bónusferð

..

Ég hef reyndar ekki sagt ykkur frá því að ég vaknaði eiginlega ný og ,,betri“ kona í gærmorgun. Dagurinn þar á undan var sko frekar heavy í vitleysunni varðandi bæði hugsanagang og framkvæmd matarhliðarinnar í lífi mínu. Ég held reyndar að ég hafi svolítið gengið fram af mér…
Þetta var sem sagt dagur horrendus
Nú breytingin á laugardagsmorgni var nefnilega sú að ég áttaði mig á því að líklega þarf ég ekki að hafa miklar áhyggjur af æfingunum mínum þessa dagana því fyrst ég mæti í Styrk, hjóla, syndi og labba ALLA morgna með stingandi hælspora þá er ég líklega nokkuð einbeitt í þeim málum. Þó auðvitað þurfi maður að halda vöku sinni og það allt saman þegar átt er við atvinnusvindlara eins og mig sjálfa.
Nú jæja sem sagt breytingin… Ég sá að ég get ekki alltaf ýtt því að versla í matinn og elda aftur fyrir allt. Ég get t.d. ekki gert eins og dagsprógrammið hljóðaði hjá mér í upphafi fyrir daginn í dag: Horfa á F1, labba með Bjart í Þrastarskógi, vinna vel og lengi og fara svo í sund.
Ef ég hefði haft þennan háttinn á hefði ég ekki farið í Bónus – ekki átt neinn mat fyrir kvöldið, ekki neitt nesti fyrir næstu viku í skólann og ekki nenni ég að fara í Bónus í miðri viku – svo langt er ég nú ekki komin í dásemdunum.
Ég fór því – þvert á allt það sem mér er í blóð borið – því það að fara í Bónus er ekki bara leiðinlegt það er óyfirstígilega óbærilega hroðalega leiðinlegt! Ég bara er ekki fær um það! Afber það ekki. En mín fór nú bara og verslaði og verslaði – fór svo heim í staðinn fyrir að láta allt góssið vera í bílnum og skemmast á meðan ég vann, gekk frá öllu og ég veit ekki hvað og hvað.
Nú á ég svolítið nesti – fullt af mat og Aðalsteinn þarf ekki að svelta heilu hungri. Flott hjá mér ekki satt?
Ég hef sem sagt uppgötvað og því miður var það heilmikil uppgötvun, að ég get ekki bara ýtt öllu til hliðar fyrir æfingarnar – ég verð líka að hafa mataræðið í forgrunni. Það verður að vra skipulag á því eins og öðru.
Kannski er ég bara tilbúin til að taka næsta skref varðandi þetta. Vonandi. En amk er til matur – nú þarf bara að hafa rænu á að taka út úr frysti – elda og borða og útbúa svo nesti.
Og ég er strax orðin uppgefin við tilhugsunina eina saman.
En ég MASSAÐI Bónus og er nú farin í sund. Það er líka of gott veður til að láta þetta fram hjá sér fara.
Lof jú Inga bónusgella

Holy moly fótaóeirð

Þetta er nú cirka ljótasti skór ever – eða að minnsta kosti óIngulegasti skór ever. Oh my god. Mér finndist hann þó áreiðanlega sniðugur á öðrum fæti en mínum. En ekki fyrir mig takk. Svona cirka eins og ég sjálf. Ég er ekki fyrir mig!

Mér leiðist ég.

Ég gerir bara tóma vitleysu.

Og ég nenni ekki að hlusta á að það sé bara ég sjálf sem eigi að redda því og breyta. er of vitlaus til þess að standa í því. Í augnablikinu amk.

Er með fótapirring dauðans. Fæ þetta stundum en var að lesa á doktor.is að ég verð áreiðanlega dauð úr þessu innan skamms en Gauti á hlaup.is (já ég fór aftur þangað inn omg) vill meina að of geyst sé farið. Ja það skyldi þó ekki vera…

Þetta jafnar sig samt alltaf hjá mér -og er ekki á háu stigi. en pirrandi er það maður minn. Drep… Gott að fá nýtt nú þegar hælsporinn minn er að lagast eftir einhverjar bylgjur og nudd dauðans á kálfana 2 sinnum í viku. Sigh…

Ég vildi að ég væri önnur en ég er þegar kemur að matar-ÆÐI. Ég er glötuð. Gjörsamlega.

Dagurinn er í dag er svo vitleysislegur að ég þverneita að opinbera hann hér.

Sigur dagsins er nú samt sá að hafa farið út að labba í morgun þó ég hafi tekið því fagnandi að Bald sagði að ég ætti að hvíla göngurnar um helgina og synda í staðinn og föstudagur er náttúrulega eiginlega helgi sko. Ætlaði því að sofa lengur og dúlla mér bara því ég er ekki að kenna í fyrsta tíma og þá dugir mér að mæta bara um 8. En ég fór og ég hjólaði líka í skólann með bakpokann fullan af Styrkdóti, þvottagræjum, hreinni treyju og ég veit ekki hverju og hverju. Það er rosalegt hvað ég er skipulögð orðin. En hrikaleg í mataræðinu. Christ… Afhverju er þetta ekki bara í lagi hjá mér alltaf?

Ég held ég fari að sofa

……

…er þetta ekki svefnlegur skór. En megaflottur mar! Ég er svo syfjuð að ég er að kafna.
Enda sef ég aldrei meira en 5 – 6 tíma á nóttu og ég þverneita að það sé nóg. Bara þverneita því. Enda bæti ég mér það oft um helgar sem er ekki minn stæll hingað til.
En sem sagt ég borðaði síðast kl 20 – og nú er bara að sjá hvað ég ét fram til miðnættis. Vonandi ekkert nema ibufen og vatn. Það væri óskastaðan…
Ég fór með Bjart í morgun og komst að því að ég vorkenni Eyjafjallajökli. Það er bara fínasta fjall – en hann býr við hliðina á þvílíkri dívu að ekkert annað kemst að. Hekla sjálf. Í morgun var sólin akkúrat á bak við Heklu þegar ég fór í hellisskóginn. Og vitið þið það – það var töfrum líkast. Appelsínugulur heimur og blá fjöll – blárri en allt. Mér fannst ég sjá inn um gluggan hjá þeim í Eyvík – svo vel sá ég Hestfjall.
Ég var alveg staðráðin í því að fara ekki að labba í morgun þegar ég fór að sofa í gær – ég var svo þreytt – en mér fannst ég ekki geta sjálfsvirðingar minnar vegna (já og sjálfrar mín) sleppt því. Og við Bjartur sáum ekki eftir því. Frábær stund.
Svo hjólaði ég í skólann og heim aftur – og ég snerti ekki bílinn nema allra fyrst á morgnana upp í skóg. Geðveikt.
Krakkarnir í skólanum eru svo stoltir af mér að það er yndislegt. Þau eru algjörlega bergnumin af dugnaðinum í mér og þeirri fáránlegu hugmynd að kona eins og ég hjóli um allt og sé með hjálm eins og þeirra. Yndisleg. Hreinlega. Og dagurinn í dag var svo yndislegur að það var ótrúlegt að maður væri að kenna í strikklotu frá 8:10 – að verða þrjú. Þetta eru bara meistarar. Var svo að vinna til rúmlega sjö og gat gert heilmikið. Ég er svo glöð með þetta sem ég kemst yfir í skólanum þó ég myndi vilja að það væri miklu meira. Maður getur alltaf gert betur – það er áreiðanlegt.
En jæjæ ef ég hendist ekki í að éta eitthvað eftir að ég ætti að vera sofnuð þá er þetta bara flottur dagur:
7 hafragrautur og 100 gr blóðmör – 9:30 ab og hafraflögur einhverjar – 11:30 appelsína 13 saltkjöt og rófa+uppstúfur. 19 rækjur, brauð og grænmeti og svo 6″ subway.
Góður hver dagurinn er það ekki?
Kveðja frá hjólreiðadísinni 🙂

Fagurblátt og blúsað

Ha ha ha – þetta stígvél mar. Veit ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta! En amk þá er hællinn flottur en nokkuð ómanneskjulegur. Kannski eitthvað fyrir Ástu Björk og Sædísi ofurgellur!

Nú en sem sagt. Enn í svolítilli fýlu. Tek greinilega svona fýluköst…

En nú er þriðjudagur og þeir eru nú alltaf svolítið spari sko. Ég hef komist að því að það er ekki hægt að vinna í götunum mínum tveimur þannig að ég fer gjarnan í Styrk á þessum tíma og er þá lengur fram eftir í staðinn. Sú varð raunin í dag.

Ég fór í lítið labb í morgun í Hellisskógi með dúlluna mína og snúð hann Bjart, fór svo heim og braut um það heilann hvort ég ætti að fara í Styrk í gatinu eður ei og ákvað að gera það ekki – ég kæmi hvort eð er aldrei nestinu (yeah tók með mér nesti skoho í skólann), handklæðunum, íþróttafötunum og treyjunni minni í bakpoksgreyið. Setti það svo í backupplanið að ég gæti nú vel komið hér við og náð í íþróttafötin ef mér snérist hugur. Yfir þessu gat ég svo væflast í morgun – Styrkur eða ekki Styrkur eða kannski bara hjólatúr? Sigh

Ákvað á endanum að fara í Styrk – brunandi á mínu hjóli því ég hafði nú farið á því í vinnuna eins og hjólreiðakappa sæmir – var ekki nema 7 mín að fara göturnar (nenni ekki þessum göngustígsfársferðum). Sótti fötin, hjólaði í 12 mín í viðbót á gólffasta hjólinuvið þessar 15 sem mér hafði tekist að koma ferðinni í Gagnheiðina í með hoppum og skoppum í Heimahaganum. Tók svo bara vel á í efri – hluta líkamans æfingunum og teygði vel og lengi. Og leið svo þetta líka dáindis vel í kennslunni á eftir og var að vinna alveg til hálf átta þegar ég þorði ekki annað en fara heim þar sem engin lukt er komin á hjólið. Og ég stend á öndinni af undrun að ég geti bara yfirleitt komið sjálfri mér úr stað á hjólinu.

Og vonandi er ég nú að lagast í hælnum – ég er amk ekki að nota hann eins mikið og áður. Tók íbufen áður en ég fór að sofa í gær og gat þá sofið fyrir fótapirringnum.

Pirringurinn á sálinn er hins vegar töluverður og vigtin lætur eins og asni – eins og ég. Og ekki er ég farin að borða kvöldmat enn. En nú fer ég líka í það! Svoldið seint ha? Mataræðið er sem sagt ekki í sérlega góðum málum.

það er hins vegar veðrið…

Næturblues


Tvíbentur þessi skór. Það er þetta yndislega myrkur sem fylgir haustinu – kertin og það allt saman. Ummmm dásemd. Svo eru það morgnarnir þegar máninn víkur fyrir sólinni – og birtan þá er engu lík! Það sáum við Bjartur í morgun í Hellisskógi rétt um hálf sjö. Sólaruppkoman var yndisleg. Loforð um góðan dag.
En svo er þessi skór eins og rennibraut – rennibraut beint til fj… í mínu tilfelli amk. Ég át sko eitthvað nammistykki sem lá hér fyrir framan mig skyndilega og allt í einu dag – og það nammi þótti mér ekki einu sinni gott.
Og ég sem var svo glöð á laugardaginn þegar ég vissi ekki einu sinni hvar nammið er lengur í Bónus. Nú ekki var nóg með það að ég æti þetta nammistykki með húð og hári heldur át ég líka tvo mola í kvöld með kaffinu af einhverju sem ég gat snapað hjá Dísu – Þýskt gæða handgert konfekt – ummmmm
En í dag var ég eins og Pétur postulu – afneitaði því innvirðulega að ég borðaði nokkurn tímann nammi nema á laugardögum – ekki bara einu sinni heldur tvisvar – Sigh.
Matarmálin mín eru ekki í nógu góðu málum. Og svo sagði einhver við mig ef hann hreyfði sig svona mikið eins og ég yrði viðkomandi orðinn að engu á no time… Jamm það var nú svei mér gaman að fá upplýsingar um það… Svoldið grátlegt bara… Ég meina er þetta bara til einhvers…
Ég verð aldrei búin að þessu – ég verð búin að fá taugaáfall sjö sinnum af depurð og vanmætti held ég áður en ég kemst hálfa leið. Ásamt svo öllu öðru sem er að gera útaf við mig í hinum daglega amstri – hversdagsleikanum. Hann er ekkert sérlega skemmtilegur verð ég að segja…
Í dag gengu matarmálin svona fyrir sig:
7 hafragrautur og 100 gr blóðmör
9:30 Ab mjólk og weetabix flögur einhverjar
11:30 Appelsína
15 Banani
17 Súkkulaðibar
18:30 pasta rækjur og grænmeti – 2 heilhveitibrauðsneiðar
20 Appelsína
21 2 nammimolar og 2 kaffibollar
23 – 2 hlaupmolar – SIGH
Hreyfing:
6:30 20 mín labb í Hellisskógi
7:20 6 mín hjólr. út í Sunnulæk
15:00 10 – 15 mín Svaðilför á hjólinu eftir nýjum vegi sunnan Hólahverfis – úff margir vörubílar, gröfur, holur og lausamöl – hefði átti að fá áhættuþóknun
70 mín vinna í Styrk
Dásemdar nudd – það er held ég það sem kemur mér í gegnum þetta. Ég gæti þetta bara ekki án þess. Nógu er ég í miklu skralli annars…
17 hjólað heim –
Og ég léttist ekki neitt – er hálfu kílói þyngri en ég var í síðustu viku. Ok ok ekki gáfulegasta vika – svoldið um drykkju, osta og svona sitthvað fleira slæmt. – og voðalega lítið grænmeti borðað. Úff og er nema von að sumir segist myndu léttast svo mikið að þeir hyrfu á nó tæm. Sérlega skemmtilegt að geta ekki gert neitt af viti þó maður sprikli sig vitlausan!
Reyndar er mér skapi næst að fara ekkert í Styrk á morgun heldur hvíla mig bara. Er hvort eð er að drepast í fótunum, hælnum, hnjánum og ég er með svo mikinn fótapirring á nóttunni að ég sef ekki. Endaði á að taka 2 bréf af panodil hot um miðja nótt svo ég fengi einhvern frið.
Já þetta er náttúrulega tóm sæla sem skilar svona sirka kannski engu miðað við það sem hún ætti að gera! Það er amk ekki slæmt að fá verk í hnén líka í ofanálag við allt annað.
Ætti ég ekki bara að fara að éta verkja og bólgueyðandi lyf. Maður bara getur þetta ekki lyfjalaust held ég svei mér þá!
Ég veit svo sem ekki hvað ég er að hugsa. – Eða held að ég sé…
Þarf held ég að skríða inn í hýði og vera þar í nokkrar vikur bara…
You’ll be the first to know
En afhverjur kommenterar enginn neitt! Ég er held ég á bömmer.

Life goes on

Ha ha ha góður á honum hællinn þessum :D. Styður vel við sinina undir fætinum sem heitir meira að segja eitthvað… P… hmm man það ekki 😀 enda algjör óþarfi. Er sko bara nýbúin að læra að það er sin þar. Hafði alveg fundist það möguleiki að þar væri ekkert að finna nema bara mannakjöt. Neibb ekki aldeilis bara það, sin, fitupúði og hvur veit hvað. Maður er með allskonar allt mögulegt, um allan líkamann. Hugsið ykkur það!
Við Bjartur fórum í undurfagra veröld Þrastarskógar í morgun í hita, logni og sól svo fagra að hugurinn verður uppnuminn og hamingjan allsráðandi. Og þá er eins og maður sjái leiðir út úr ýmsum vanda sem maður ratar í á rigningardögum.
Ég t.d. veit að nú þarf ég að fara að klára verkefnið hjá honum Ingvari – ég er loksins tilbúin til þess. Þarf bara að fá mér sumarbústað og lúra þar og njóta lífsins, vinna og vera ein með skruddunum. Best að ljúka því sem fyrst – fyrr en varir byrjar jólaundirbúiningurinn og allt sem honum fylgir og ekki viljum við vera á síðasta snúning þar ;-).
Ég er heldur ekki frá því að ég sé að lagast í hælnum. Ég fór í sund/pottana í gær og teygði og bretti mig og fetti þar, og ég fór líka í sund (að synda) á föstudag og teygði rosavel þá. Eins hef ég verið að teygja alls staðar þar sem ég sé tröppur og ég held það sé að skila sér auk þess sem ég hef náttúrulega ekkert verið á skíðunum, göngubrettunum né í nokkru labbi að ráði síðan um síðustu helgi.
Þar að auki finnst mér eins og teygjan sem kemur í kálfann þegar ég hjóla hjálpi svolítið til – mér líður alltaf aðeins betur eftir að ég hjóla.
Ég ætlaði nú annars ekki að komast í Þrastarskóg fyrir hungri, ég var svo óbærilega svöng að ég hef sjaldan lent í öðru eins. Ég lá í rúminu – ég veit ekki hvað ég svaf lengi – amk var Bjartur alveg orðinn sótvondur yfir þessari leti í kerlingunni og gerði margar og ítarlegar tilraunir til að koma mér fram úr með AFAR litlum árangri. En sem sagt ég var hálf sturluð úr hungri – meira að segja greip með mér banana í skóginn til að borða strax og göngunni væri lokið – og I tell you people það er ekki oft sem ég hef fyrirhyggju í svoleiðis lagað.
Eldaði mér svo hafragraut og fékk mér slátur með – ummmmmm lof itt, þegar ég kom heim. Og enn er ég að borða – vínber (og helv… afganginn af kókosbollunni síðan í gær (og vel að merkja er ég farin að borða alltof margar kókosbollur á nammidegi!!)). Alltaf þarf maður að skemmileggja allt…
Sigh….
Ég er ekkert að standa mig sérlega vel í mataræðinu. Ég stend mig ágætlega í flestu öðru (nema náttúrulega að taka til hér heima (ægilega leiðinlegt)). Það er bara greinilega ekkert voða auðvelt að breyta þessu – ég hef ekki sjálfsagann í það. Fljót að missa tökin – hætta að elda, borða lítið grænmeti og þetta allt. En hver sagði að þetta yrði auðvelt.
Ég er með þessar fínu harðsperrur eftir hjólatúrinn aftan á lærunum – teygði víst ekki alveg nóg þar, og marblett rétt fyrir ofan úlnliðinn eftir að troða bakpokanum á mig alltaf hreint. Ótrúlega sérkennilegar aðfarir verð ég að segja. Þau eru af ýmsum toga meiðslin ;-).
En nú ætla ég að fara að brjóta saman þvott og hver veit nema ég skrifi eitthvað meira – mér finnst svo ægilega gaman að skrifa. Er á því flippinu núna ;-). Maður verður að láta sér bloggið duga þar til maður verður orðinn fullorðinn og getur orðið rithöfundur 🙂