Ég veit það satt að segja ekki… Það er bara eitthvað við þennan strák sem mér finnst algjört æði. Hann rennir sér í hlutina og maður getur ekki annað en haldið að einmitt svona eigi að gera þetta – algjörlega eins og bráðið smér. Og manni finnst það jafn eðlilegt þegar hann hviss bamm bang sprengir vélina – auðvitað gat vélin ekki þolað þetta áreynsluleysi ökumannsins sem náttúrulega var nákvæmlega ekki það heldur ofurkraftur þess sem hefur ekkert gert og um ekkert annað hugsað annað en að keyra þar til druslan springur – eða þar til hann stendur á miðpallinum. Hvort heldur sem gerist fyrst.
BMW Sauber gengur vel – rétt eins og Palli var búinn að spá. Ég lét hann nú samt hafa all Ferrari line up í liðssstjóranum en sjálf fékk ég mér Sauber bíl – svona getur maður nú látið :-S.
Baldur þverskallast hins vegar að sýna mér liðið sitt – og hann er ekki búinn að bíta úr nálinni með það!
Og ég nenni ekki enn að hugsa um mataræðið (alveg síðan kl 20 í gærkveldi) Ætla sko ekki að fá mér hollan morgunmat – onei. Ég bara ét það sem mér sýnist. Ég trúi því nú ekki að ég ætli að þverskallast við og detta í það matarlega séð en mér finnst það alveg koma til greina…
Ég þykist vera að hugsa um mataræðið en léttist ekki neitt. Horfi bara í andakt á vöðva sem eru að kíkja undan fitulaginu – heilu sinfoníunum reyndar… Ég held ég vilji ekkert endilega gera það sem þarf til að léttast. Ég vil bara hreyfa mig og skemmta mér við það – og þessi aðdáun annarra sem fylgir er bara ágæt.
Ég hef ekki tíma til þess að elda allan þann mat sem þarf í danska – fyrir nú utan að ég hef ekki efni á þeim ósköpum öllum! Ég hef ekki einu sinni ráð og rænu til að taka með mér nesti í skólann – er alltaf í einhverjum reddingum þar því matarlaus get ég ekki verið nú orðið framan af degi sem er náttúrulega framför.
Ef ég nenni ekki að stússast í þessum matarmálum ætti ég þá ekki bara að vera heiðarleg og segja það og hætta að þykjast – detta bara á rassgatið og sprikla svo í Styrk eins og mér sýnist best henta?
Þetta er hvort sem bara hundlélegur árangur að léttast um 20 kg á ári eða svo miðað við öll ósköpin sem ég er búin að leggja á mig í ræktinni – ég get sagt ykkur það að engin fitubolla í mínum þyngdarflokki hefur hreyft sig meira eða oftar en ég á liðnu ári. Svo fer fólk í danska og léttist um það sama og ég á hálfu ári. Það er allt í lagi að léttast um 1 kg á viku en ég geri það nú ekki neitt – læt mér nægja þetta hálfa kíló!!!!
Æ ég er svo dauðþreytt á þessu lífi. Og vil ég eitthvað vera með umsjón á næsta ári? Nei! En vertu viss ég tek hana að mér og einhverja fleiri vitleysu líka! Og fer ég að hugsa um eitthvað nám og breyta lífsmynstrinu sem ýtir mér oftar og oftar í einhverja þunglyndisdýfu – nefnilega því mynstri að kennslan gefur mér ekki það sem hún gerði! Nei örugglega ekki því ég breyti aldrei neinu – ég er svo stöðnuð manneskja að ég líkist helst volvo föstum í skafli!
Og ég get ekki einu sinni verið glöð yfir því að Kimi var á ráspól!
Og ég er að drepast í hálsinum! Og ég er ekki í fýlu eða þunglyndisblús – bara almennt hunduppgefin á því að vera sú sem ég er 😉