Kimi minn og hællinn







Kimi minn – hann er flottur á þessum myndum.

Óþarflega rauður en maður þarf nú ekkert að halda með Ferrari þó maður haldi með Kimi – er búin að læra það ;-). Og ef ég slysast til að taka eftir rauða litnum þá er hann nú uppáhaldsliturinn minn svo…

Jæja ég hef verið fótlama í dag – var heima með fótinn á klaka í allan dag. Nú svo tók þessi dásemdar sjúkraþjálfari mig upp á sína arma og stakk þessum viðbjóðslegu tveimur nálum í mig – eftir að ég var búin að hjóla – neitaði að gera það fyrr! Hjólaði á Zetornum í Styrk og komst nú í gegnum það – vísast betra en ekki neitt… Og nú sit ég fótinn upp í loft með ís á hælnum og ég vonast til að verða þokkaleg eftir frystinguna 😀

Nú og svo á ég eftir að tala um dásemdar skírnina sem ég fór í gær – þar var bónorð og ALLT en það verður ekki gert í væl pistli ;-).

Formúla 1 og líkamsrækt

Það er nú meira klúðrið með Styrk og Formúlu 1 á sunnudögum! En F1 verður að herða sig ef hún ætlar ekki að bíða lægri hlut fyrir líkamsræktinni því satt að segja finnst mér það sem ég lagði á mig í morgun ekki alveg vera að gera sig fyrir þessa druslu Bahrain braut. Málið er nefnilega það að það er búið að búa til tvær ,,stórglæsilegar“ brautir á síðustu árum – Kína og Bahrain en að það sé hægt að taka þar fram úr – svo ekki sé minnst á Malasíu sem kom litlu áður – ég bara skil ekki afhverju það má ekki búa til braut sem býður upp á framúrakstur – það er ekki glæta að fara út úr aksturslínunni á þessum brautum og beygjurnar svo ólíkar að þetta er allt í einhverju málamiðlunar fári – þá vil ég nú bara fá brautir eins og Spa takk fyrir.

En sem sagt til þess að ég næði ræsingunni kl 11:30 varð ég að fara í styrk kl 10 í stað 12. Nú til þess að ná að gera allan æfingahringinn þá þurfti ég líka að fara út að hjóla og taka upphitunina þannig svo þetta yrði nú allt í góðum gír.

Veðrið var viðbjóður, frekar kalt, haglél á köflum og rok eftir því! Þannig að þegar ég kom í Styrk var ég hundblaut og hrakin og varð að koma yl í skrokkinn á mér með því að bæta aðeins við upphitunina. En það var nú voða gaman í æfingunum sem voru fyrir efri hlutann í þetta sinnið – sem þýðir að þær eru léttari. Ég tók svo 24 mín á Stigvélinni á programmi oh yeah – voða gaman, híhí.

Jamm svo þurfti ég að drífa mig heim – fara í rennblautann hjólagallann – hroll hroll… sitja svo í svitastorknum ógeðsfötunum og horfa á kimi hanga fyrir aftan McLaren bíl, Massa með forystu og hver hefur nú á huga á að hann vinni? Ekki ég svo mikið er víst og mér leiðist Alonso líka svei mér þá. Þannig að í raun er mér slétt sama hvort liðið vinnur – fer bara eftir því hvað ég er með í liðsstjóranum svei mér þá.

En hvernig sem allt fer er ég búin að baka bollurnar 😉 og ég ætla líka í sundpottana á eftir. Veitir ekki af að fara í sturtu það get ég svarið!

En sem sagt F1 verður að bæta sig – gera eins og Heidfeld þegar hann fór fram á Alonso!!!! Það var skoho flott. Er að hugsa um að halda með Sauber bara.

Annars var ég að lesa bloggið mitt og þar er æði oft talað um að ég verði að taka mig á í mataræðinu. Nú held ég að það sé komið að því að hætta að tala um það og gera eitthvað í því.

Aðgerðaáætlun 1 – uppfærð 11:30

Nú þarf að grípa til breiðu spjótanna:
Borða páskaegg hratt og vel og eiga ekkert eftir á morgun!
Reyna að ákveða hvort það var gott eða slæmt að McLaren vann 1-2 í Malasíu!
Enn engin niðurstaða þar.
Fara a.m.k. 2 sinnum út að hjóla í dag.
Oh yeah – fór Votmúlahringinn og hann er skoho langur og við hjóluðum stanslaust í klst. 1000 hitaeiningar þar í yndislegu veðri, úða og logni. Hæfilega aum í rassinum en í mun betra standi en aumingja Pallarass ;-).
Þvo margar margar margar þvottavélar og það sem er ekki minna um vert – hengja upp úr þeim (held ég ætti kannski að safna mér fyrir þurrkara – það er ekki hemja að vera hvorki með þurrkaðstöðu né þurrkara!).
1 búin
Finnast alveg æðislegt að vera í fríi.
Gengur vel.
Hugsa sem fallegast um þriðjudaginn!
ohhhh vil ekki af honum vita!!!!
Halda áfram að taka til í geymslunni sem á að verða skrifstofa…
Bjóða tengdó í svínslæri ala Helga Sigurðar!
Mallar í ofninum
Hmm þetta er kannski fullmikið verkefni fyrir einn dag…
Sjáum til sjáum til það þarf víst ekki að ná öllum markmiðum – alltaf, strax…
En þetta með hjólið stendur!!!!

Úff páskar

Ja hérna hér – það er ekkert mál að vera í jólafríi miðað við að vera í páskafríi! Úff púff og þrjár fermingaveislur, mega letikast og sérkennilega mikil þörf til að éta allt sem tönn á festir er bara meira en ég ræð við!

Það gengur ekkert hjá mér með neitt. Skrifstofuaðstaðan er alveg jafn glötuð og hún var fyrir 4 dögum. Draslið hér í kringum mig eykst heldur en hitt. Ég hef hvorki hjólað, synt, gengið eða farið í Styrk og hef ekki nein áform uppi um það! Gæti ákveðið að njóta lífsins og verið nett sama um allt það sem ég ætti að vera að gera – og er að hugsa um að gera það. Er of tímafrekt að gera eitthvað af því sem ég ætti að gera ;-).

Iss piss – ég er áreiðanlega bara svo þreytt að mér veitir ekkert af að hvíla mig og maður þarf ekkert alltaf að vera að hreyfa sig! Geri það bara í næstu viku og vikunni þar á eftir – já alveg fram að næstu páskum bara.

Ferrari sprækir í Malasíu og McLaren ótrúlega flottir. Ætla að ákveða með hverjum ég held eftir keppnina – híhí.

Vigtaði mig fyrir páskana – er hrædd um að gleðileg tala þá verði eitthvað svartari eftir helgina. Sigh en svona er lífið – og maður verður bara að takast á við verkefnin og þroska með sér skynsemi og sjálfsaga um leið. Ja það væri það!

Ég held að Polli gefi mér ekki bikar þessa viku nema ég taki mig á. Hve mikið langar mig í bikar?

Kimi á ráspól og er ég glöð?

Ég veit það satt að segja ekki… Það er bara eitthvað við þennan strák sem mér finnst algjört æði. Hann rennir sér í hlutina og maður getur ekki annað en haldið að einmitt svona eigi að gera þetta – algjörlega eins og bráðið smér. Og manni finnst það jafn eðlilegt þegar hann hviss bamm bang sprengir vélina – auðvitað gat vélin ekki þolað þetta áreynsluleysi ökumannsins sem náttúrulega var nákvæmlega ekki það heldur ofurkraftur þess sem hefur ekkert gert og um ekkert annað hugsað annað en að keyra þar til druslan springur – eða þar til hann stendur á miðpallinum. Hvort heldur sem gerist fyrst.

BMW Sauber gengur vel – rétt eins og Palli var búinn að spá. Ég lét hann nú samt hafa all Ferrari line up í liðssstjóranum en sjálf fékk ég mér Sauber bíl – svona getur maður nú látið :-S.
Baldur þverskallast hins vegar að sýna mér liðið sitt – og hann er ekki búinn að bíta úr nálinni með það!
Og ég nenni ekki enn að hugsa um mataræðið (alveg síðan kl 20 í gærkveldi) Ætla sko ekki að fá mér hollan morgunmat – onei. Ég bara ét það sem mér sýnist. Ég trúi því nú ekki að ég ætli að þverskallast við og detta í það matarlega séð en mér finnst það alveg koma til greina…
Ég þykist vera að hugsa um mataræðið en léttist ekki neitt. Horfi bara í andakt á vöðva sem eru að kíkja undan fitulaginu – heilu sinfoníunum reyndar… Ég held ég vilji ekkert endilega gera það sem þarf til að léttast. Ég vil bara hreyfa mig og skemmta mér við það – og þessi aðdáun annarra sem fylgir er bara ágæt.
Ég hef ekki tíma til þess að elda allan þann mat sem þarf í danska – fyrir nú utan að ég hef ekki efni á þeim ósköpum öllum! Ég hef ekki einu sinni ráð og rænu til að taka með mér nesti í skólann – er alltaf í einhverjum reddingum þar því matarlaus get ég ekki verið nú orðið framan af degi sem er náttúrulega framför.
Ef ég nenni ekki að stússast í þessum matarmálum ætti ég þá ekki bara að vera heiðarleg og segja það og hætta að þykjast – detta bara á rassgatið og sprikla svo í Styrk eins og mér sýnist best henta?
Þetta er hvort sem bara hundlélegur árangur að léttast um 20 kg á ári eða svo miðað við öll ósköpin sem ég er búin að leggja á mig í ræktinni – ég get sagt ykkur það að engin fitubolla í mínum þyngdarflokki hefur hreyft sig meira eða oftar en ég á liðnu ári. Svo fer fólk í danska og léttist um það sama og ég á hálfu ári. Það er allt í lagi að léttast um 1 kg á viku en ég geri það nú ekki neitt – læt mér nægja þetta hálfa kíló!!!!
Æ ég er svo dauðþreytt á þessu lífi. Og vil ég eitthvað vera með umsjón á næsta ári? Nei! En vertu viss ég tek hana að mér og einhverja fleiri vitleysu líka! Og fer ég að hugsa um eitthvað nám og breyta lífsmynstrinu sem ýtir mér oftar og oftar í einhverja þunglyndisdýfu – nefnilega því mynstri að kennslan gefur mér ekki það sem hún gerði! Nei örugglega ekki því ég breyti aldrei neinu – ég er svo stöðnuð manneskja að ég líkist helst volvo föstum í skafli!
Og ég get ekki einu sinni verið glöð yfir því að Kimi var á ráspól!
Og ég er að drepast í hálsinum! Og ég er ekki í fýlu eða þunglyndisblús – bara almennt hunduppgefin á því að vera sú sem ég er 😉