Eftir langa bið og mikla niðursveiflu líkamlega hef ég nú farið í efnaskiptaaðgerð – gastric-bypass-surgery. Hjáveitu með öðrum orðum. Ég var skorin á miðvikudag og í dag er kominn laugardagur 1. des.

Ég hef beðið lengi eftir þessari aðgerð og tækifæri til þess að komast í hana. Það var erfitt fyrir norðan að vera í undirbúningi fyrir hana svo ég sótti um að komast í hann ári áður en ég hætti þar, en sú beiðni varð einhvern veginn að engu – en lifnaði við þegar ég forvitnaðist um stöðuna. Það var svo loksins tveimur árum rúmum síðar sem ég komst að hjá þeim á Reykjalundi og þau hafa hugsað um mig síðan af stakri snilld og á afskaplega einstaklingsmiðaðan hátt. Mikil breyting hefur orðið á mörgu í offitufræðunum síðan ég var þar um 2008 – það hefur greinilega komið fram mikið af nýrri þekkingu á offitu, eðli hennar og þróun.
En hvað um það – nú er ég hjá Ása bróður mínum og Jónu í þvílíkt góðu yfirlæti, í þessum skrifuðu orðum setur verkfræðingurinn 200 ml af súpu í dollur til að frysta og í dag munum við svo gera aðra tegund af súpu sem ég get svo tekið með mér heim í heiðardalinn! Mig langar heim á morgun – hef áhyggjur af hundunum og svona – Bjartur minn er einn og Stormur í vist hjá kvennakórnum okkar á Þúfur.
Ég var nokkuð verkjuð fyrst eftir aðgerðina og sérstaklega var ég aum eftir uppblásturinn, aftan við herðablöðin sem olli því að vont var að liggja á bakinu – í þeirri einu stellingu sem ég gat legið í 😉 en ég fékk ágæt efni og svo jafnaði þetta sig nú.
Eftir að ég kom hingað hef ég sofið vel og nærst ágætlega.