Fyrsti gírinn

Jæja ég fór í sundið – borðaði hollt og gott og ekki mikið af því. Ég var mjög aum í hægri mjöðminni eftir sundið – þessa fimm hundruð metra eða svo, en það er nú ekkert miðað við það sem var hér á árum áður 😉 enda kannski ekki viðlíka hreyfing.

En já margt að hugsa, margt að gera – minna gert samt. En við skulum bara halda áfram og hvur veit nema það séu fleiri gírar í kassanum!

Með systkinum mínum í 50 ár

systkini

Það var ákveðið í vor (2015), að ekki væri á fjölskyldu mína og vini það leggjandi að ferðast í afmælisteiti mitt sem haldið var í apríl í tilefni þeirra fimmtíu ára sem nú teljast vera að baki og því þótti mér ekki vitlaust að slá tvær flugur í einu höggi og fagna þessum áfanga með ykkur hér. Sem nú er orðin raunin!

Líf okkar allra er undarlegt ferðalag en undarlegastur af öllu er þó tíminn. Það má held ég tala um innri og ytri tíma manneskjunnar – rétt eins og í bókmenntunum – innri tíminn líður einhvern veginn allt öðruvísi en sá ytri – um leið og hann líður hratt þá stendur hann samt einhvern veginn í stað – eða rétt silast áfram: Ég er miklu yngri en Steini var til dæmis þegar hann varð fimmtugur – þá fannst mér hann nokkuð kominn við aldur, 25 ára rétt að verða tveggja barna móðir. Ég er næstum viss um að Steina hafi liðið eins þegar hann var 25 ára og ég kom í heiminn; pabbi hefur væntanlega ekki verið neitt unglamb í hans huga þá 55 ára. Og allt í einu eru börnin mín orðin 25 ára og jafnvel þaðan af meira – og hugsa væntanlega hið sama; mamma er komin af léttasta skeiði – sem reyndar sannar sig í ýmsum athugasemdum sem ég fæ t.d. við aksturinn eða viðureign mína við fjarstýringar og aðra þá hluti sem krefjast sjónar af öðru tagi en ég hef – ýmsar meinlegar athugasemdir eiga það til að falla í minn garð frá þeim blessuðum þar sem þau gefa það í skyn að eitthvað sé farið að láta undan.

12495148_10205875965995361_618195820622227219_nVið misjafnar undirtektir mínar. Og jafnvel háværar mótbárur. Enda ekki degi eldri en þau á tímabelti hins innri tíma.

Ég fæddist í apríl 1965, 11. barn móður minnar sem þá var orðin 48 ára en pabbi var eins og fyrr segir þá orðinn 55 ára.

Steini var 25 ára, Hildur 18, Mummi 10 og Ási sex. Hin fimm eru svo þarna inn á milli og næst mér er hún Dísa. Sú sem kenndi mér muninn á að gleyma og vita. Sú sem uppgötvaði sér til skelfingar að krakkinn kunni ekki faðir vorið og tók að sér að kenna mér það dimmt vetrarkvöld á Þingvöllum þegar við fengum að sofna í mömmu rúmi. Systirin sem kýldi stráka sem píndu mig á skólalóðinni í 2. bekk. Dísa sem teiknaði svo vel að ég ákvað snemma að best væri að sleppa því að reyna að jafna þann árangur – og snéri ég mér þá að klippimyndum sem ég hef að mestu haldið við mig síðan. Þar var allur samanburður mun erfiðari. Dísa sem hefur mig undir væng sínum, alltaf.

Og þannig eiga systkini mín hvert og eitt sér sinn sess í lífi mínu.  Steini er fyrirmynd mín sem skólastjóri – ótal nemendur hans hafa sagt mér sögur af leikni hans sem skólamanns – sonur okkar er skírður í höfuðið á honum og segir það all nokkuð.

Þegar ég var agnarspons þá var Nonni mikið á Þingvöllum að vasast og nokkrum sinnum fór ég til hans fyrstu árin, eða þar til hann flutti til Englands með fjölskyldu sína – þá kom nokkurt gat í samskiptin en það gerði mig þó ekki minna stolta af stóra bróður mínum sem veit manna mest um jarðlög á Tjörnesi – og sitthvað fleira – bæði að eigin mati og klárlega annarra sömuleiðis. Og ekki fær hann minna lof nemenda sinna en Steini og ekki væri amalegt að feta í fótspor hans í þeim efnum.

Hildur hefur alla tíð verið eins og mín önnur móðir. Tengsl okkar hafa einhvern veginn legið bæði ofan og neðan jarðar – strengur sem styrkir tilveru mína mjög.

Og svona getum ég upp talið; Gústa setti mér viðmið í myndarskap og röggsemi; stundum hefur gefið í seglin, þeirri yngstu finnst hún vera á stundum nokkuð hvöss – en allt jafnar það sig í þeirru vissu að Gústa vill engum nema allt hið besta.

Jónína vakti með mér mína fyrstu tilvistarspurningu um sex ára aldurinn en þá tók ég allnokkurt pirringskast yfir því að hafa ekki fæðst hún heldur ég. En mér þótti hún hafa mun fleiri til að bera en aðrar manneskjur og fannst afar ósanngjarnt að ég væri ekki hún. Með þetta vandamál mitt fór ég með til pabba og vildi fá útskýringar á þessum mistökum þeirra mömmu. Við þessari tilvistarspurningu minni fengustu ekki nein viðhlítandi svör – ekki frekar hjá mannkyni öllu en það er víst óumflýjanleg staðreynd að öll spyrum við okkur þessarar spurningar á fyrstu árum okkar. Og ekkert okkar fær svar – en Nína er eins og öll hin systkini mín, mér mikil og góð fyrirmynd, seiglu, æðruleysi og hlýju.

Maggi hefur alltaf reynst mér nokkuð erfiður bróðir og lengi vel elduðum við mjög grátt silfur enda er hann á hápunkti unglingaveikinnar – ef rétt er að kalla þær hormónabreytingar veiki, þegar ég stika mín fyrstu skref – enn eitt systkinið, ég kom þegar flestum þótti vera komið nóg. Lengi vel forðaðist ég Magga. Og ég á nokkrar dagbókarfærslur um hann í þó þeim dagbókum sem ég hef ekki þegar hent – færslur sem tæpast eru jafn pent orðaðar og dagbókarskrif Nonna og Mumma um lífið og tilveruna. En með árunum hafa samskiptin heldur slípast til og í dag skil ég vel hví pabbi bað Magga um að líta til með mér í framtíðinni – í símtali, síðustu jólin sem hann lifði. Vísast átti ég nú ekki að heyra þetta símtal – og hvað þá þessa bón hans – en ég man alltaf eftir henni – og skil betur í dag en nokkru sinni hví pabbi valdi Magga til þess að verða minn verndarengill – hann er a bit rough around the edges blessaður – en með hjarta úr gulli.

Mummi skipar ætíð sérstakan sess í mínu lífi. Mummi er sá sem smíðaði búið fyrir mig – ég veit ekki hvers vegna, – hvort hann tók það upp hjá sjálfum sér, þá kannski 17 ára eða svo – en ja hérna hér hve sá kofi varð mér dýrmætur. Hann var mitt skjól á sumrin fyrir endalausum gestum – Bjarkarlundurinn, en það nafn gaf ég honum varð leiksvæði mitt frá morgni til kvölds og aðeins útvaldir fengu að dvelja þar hjá mér. Þar með var hann kominn á stall sem hann hefur ekki farið af síðan.

Að lokum er það hann Ási – Ási og Dísa voru eitt. Þar sem Ási var þar var Dísa en þegar þau eltustu urðu nokkur skil og ég fékk stundum að njóta samveru hans – meðal annars við músarannsóknir í Valhöll á vetrum, stærðfræðiverkefni ýmis konar – skutlugerð meðal annars en honum þótti ég helst til vitlaus til að tefla við og baðst undan því – þótti ég helst til fljótfær. Ási kom mér í gegnum stúdentspróf í stærðfræði með einkunnina 8,5 þar sem ég þó varð að sleppa 10% af prófinu vegna tímaskorts – en slíkar voru framfarirnar hjá mér að ML setti af stað sérstaka rannsókn á þessum skyndilega árangri mínum í stærðfræði – en kennari minn Guðmundur Ólafsson hagfræðingur hafði gefið það út snemma vetrar á mínu öðru ári í ML  – að ég ætti heima í fiski og skyldi hætta að gæla við allt bóklegt nám – enda höfðu einkunnir mínar ekki verið upp á marga fiska, ég skyldi hins vegar ekki hví hann nefndi sérstaklega fiskvinnslu, hafði ekki alist upp við að það væri neitt sérstakt skammarlegra starf en annað. Ási er fyrir mér eins og öryggisbelti í bíl.

Eftir því sem árin liðu kynntist ég mökum þessara ágætu systkina minna, sem eru mér öll fyrirmyndir í lífinu. Guðrún, Sjöfn, Hreggviður, Snorri, Gulli, Ástþóra, Dagmar, Jóna, Nóni og Garðar hafa öll fylgt mér í gegnum árin – sum í öll þau 50 ár sem ég hef lifað, nokkur í jafnvel 40 ár og önnur skemur en öll hafa þau gefið lífi mínu aukið gildi hvert á sinn hátt.

Í gegnum árin hafa þau bæst við systkinabörnin – Björk er mér sem sjötta systirin og margt var brallað með henni, Eiríki sem er ekki nema árinu yngri en ég, og mörg af krökkunum passaði ég í lengri eða skemmri tíma þó ég hafi í raun aldrei litið á það sem pössun heldur samveru – og hvert og eitt af þessum krökkum eru ótrúlega stór hluti af lífi mínu – ég á ótal minningar tengdar þeim – um jól, á sumrin á Þingvöllum, í Borgarfirðinum, norður á Blönduósi – ótal minningabrot sem sýna að ytri tíminn lætur ekki að sér hæða og mun líklega hafa betur en minn innri tími þegar upp verður staðið – eða niður verður laggst öllu heldur.

Við Ási og Dísa erum Þingvallakrakkarnir – þau sem eru uppalin öll sín bernsku og unglingsár á Þingvöllum. Við erum þau sem hlustum á endalausar sögur um Núp og Dýrafjörð – við erum þau sem vitum að þó Þingvellir séu e.t.v. á Heimsminjaskrá þá eru þeir ekki með tærnar þar sem Núpur hefur hælana. Ég ólst upp með þá mynd í kollinum að Dýrafjörður væri sæluríki engu líkt – og ég skyldi hafa mig bara hæga með mína Þingvelli.

Þá er búið að laga gírkassann

…ekkert annað að gera en reyna að finna fyrsta gírinn!

Nokkrir bjartir punktar eftir tíðindalausan vetur í upprisunni – sem þó varð ekki að falli!

  1. nokkrum kílóum léttari en síðast liðið haust!
  2. Andleg líðan á uppleið.
  3. Ég veit hvað ég vil hvað varðar starfsvettvang.

Að ógleymdum börnum og barnabörnum eiginmanni og hundum!

Í gær gerði ég plan.

Í dag stóð ég við planið!

Í kvöld geri ég plan.

Á morgun stend ég við það.

Þannig er það nú bara!