Month: júlí 2016
Jæja þá eru þrjár vikur liðnar af upprisu númer 2 #ingaupprisa2.
Ég er nokkuð sátt – afhverju í fjandanum ég get ekki verið himinlifandi skil ég ekki nægar eru ástæðurnar.
+ 2,5 kg farin
+ úthald við dagleg störf aukist
+ svefn lagast
+ styrkur hefur mikið aukist
+ geðið er betra
En nei þá er þetta ekki nógu hröð létting – ég hefði svo sannarlega getað gert betur – og það er rétt. Ég hefði það. Ég hefði getað borðað skynsamlegar á kvöldin x3 síðustu viku. Og síðustu daga hefur brauð verið að kikka inn sem er nó nó.
En í fúlustu alvöru – ætla ég að einbeita mér að því að vera glöð með mig, þetta og lífið. Því allt er þetta gott.
Í dag var dásamlegur dagur hreyfingalegur. Fór 3 hringi í salnum og hjólaði í 12 mín.
Synti svo km á innan við 40 mín sem er gott á minn mælikvarða. Og mér líður frábærlega á eftir. Bara frábærlega.
Hitti margt skemmtilegt fólk sem er ægilega ánægt með að ég sé komin suður – ég fæ alls konar viðbrögð og hrós í íþróttaferðum mínum sem er hvetjandi og dásamlegt.
En….
Mataræðið mætti ganga betur – og ætti að ganga betur.
Markmiðið þar er að fækka þeim máltíðum sem etnar eru í snatri vegna tímaleysis – ruslfæði og eða brauð. Elda meira, fá sér Heralife – með ávöxtum, þá gengur þetta enn þá betur.
Borða minna, hreyfast meira og sofa betur. – Og drekka meira vatn!
Þetta eru svona helstu viðfangsefnin.
Hugur minn er annars við hroðaleg atburði gærdagsins í Nice – skelfing hve maðurinn getur verið vondur.

Það er eins og blóðið sé að ryðja sér leið – eða svona kannski frekar seitla um vöðvana – . Þeir eru farnir að vinna á ný – og verkir ekki svo ferlegir. Bakið aðeins að stríða mér annars bara góð – ónýt hné er ekkert nýtt.
Best að labba sem minnst og léttast sem hraðast.
Allt á réttri leið.
Hreyfing í dag var 1200 m sund í gær var gengið upp að bústaðnum – með Eiríki Inga, Skottu og Ragnheiði. Ekki amalegur félagsskapur það.
Í kvöld er svo nammidagur – og hana nú ekki orð um það meir!
Á morgun er það ræktin. Og einhverjar heimsóknir.
Það hef ég lært að ég þarf stuðning til þess að stíga upp. Og hann hef ég svo sannarlega.
Af öllum þeim sem áttu sinn þátt í því að ég náði árangri frá 2006 til 2012, var það sjúkraþjálfarinn sem skipti þar mestu – að öllum öðrum ólöstuðum. Og þó niðursveiflan hafi verið kröpp, lúrði það sem ég hafði lært og þjálfað og beið þess að vera nýtt á ný.
Það þurfti mikið til að leita til hans á ný, þyngri og þrekminni en þegar hann hafði mig síðast í meðferð. Miklu…. Um tíma gat ég hreinlega ekki hugsað mér að horfast í augu við hann – og þar með ósigur minn. En slíkur heigulsháttur dugir ekki. Til þess að sigur vinnist þarf að horfast í augu við sigur jafnt sem ósigur – og nú er ég komin undir hans hendur á ný. Og það finnst mér gott.
Fjölskyldan er mér líka stuðningur og hvatning. Hver vill ekki vera fær um að sinna barnabörnum sínum, ganga með þeim og sýna þeim náttúruna, kenna þeim um dásemdir náttúru, gróðurs sem staða? Minnka áhyggjur barna og maka? Það er íþyngjandi að hafa alvarlega offitusjúkling í fjölskyldunni – gleðin og stoltið sem sést í augum þeirra, þegar kerla kemur úr sundi eða ræktinni er umbun engri lík.
Vinir og kunningjar. Það er ótrúlegt hve mikil áhrif þetta fólk getur haft – líka kunningjarnir. Nú eftir að ég kom suður hafa margir komið að máli við mig, og marga hef ég hitt – oftast í sundinu – og þeir muna eftir dugnaðinum og eljunni og eru vissir um að ég muni upp rísa – sannfærðir því hugmyndir þeirra um mig eru þær. Dásamlegt að finna þetta – því það að vera innan um fólk sem hefur þekkt mig og þekkir mig er góð tilfinning. Virðir mig vegna þess sem ég er og geri. Ómetanlegt.
Góð íþróttaaðstaða. Nú er ég komin í áskrift hjá WorldClass og í sundlaugina. Það er algjörlega nauðsynlegt og aðstaðan hér á Selfossi er hreint frábær. Ég vonast til þess að komast í vatnsleikfimi í haust og vetur – ég mun keyra frá Laugalandi og aftur til baka með glöðu geði – tímanum frá sex að morgni vel varið!
Allt hefur sinn tíma – og oft er aðdragandinn ekki síður mikilvægur en upphafið sjálft.
Mín upprisa númer 2 hófst 1. júlí 2016 en leiðin að þeim degi er 13 mánaða gömul. Fram að því var niðursveifla sem endaði einmitt þá, í maí 2015.
Það er auðvelt að harma hið liðna, en ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það – mikilvægara er að þakka allt það sem ég hef lært á síðustu 4 árum, njóta þess og nýta.
Ekki þýðir að sýta kílóin, hreyfihömlunina – bakslagið. Það er ekki til neins. Því vegurinn liggur fyrir framan mig – beinn og breiður, bara ef ég vil sjá hann og fara þá leið.
Ég hef ákveðið það. Sannarlega og hjartanlega.


