Þar er langur gangur

og lengri gangar sömuleiðis.

„Það er langur gangur fyrir hann svanga Manga
að bera þang í fangi fram á Langatanga.“
Ég leyfi mér hér að breyta langa tanga í Langatanga því ég ímyndaði mér alltaf að þetta væri Maggi bróðir að skælast fram Langatanga með veiðistöngina og ekkert í veiðitöskunni nema sært stolt. 
En hér eru sem sagt gangar – margir og langir. Þeir eru frekar leiðinlegir fyrir konu í ásigkomulagi eins og ég er, hnéð mitt, þrek og þol er ekki alveg að meika þetta! En þá er ráðið að skipuleggja sig og leggja ekki upp í neinar óvæntar ferðir vegna gleymsku eða annars óskipulags!
Ég hitti lækni í morgun, steig á vigt – reyndist mér furðu auðvelt og líklega var blákaldur sannleikurinn heldur verri en ég bjóst við – en hann útskýrir líka margt! Það þýðir ekki að gráta Björn bónda heldur safna liði – og það höfum við nú hér gert. 
Ég svaf mjög illa, og því lagði ég mig eftir læknaheimsóknina, tók þá strauið á ný og hitti sjúkraþjálfara, þaðan lá leiðin í sund – og pott. 1000 kal. brenndar í dag þó ekki sé öll ganga dagsins tekin með. Ánægð með það. – Þær eru þá líklega um 1500 sem hafa farið.
 Palli minn kom aðeins, með fleiri handklæði, perur og appelsínutopp. Það er cold Turkey á pepsi max, kaffið var komið út að stórum hluta og sætindi nema ávexti. Á degi tvö er þetta bara í lagi ;). 
Verst var að ég missti af hádegisverðinum í dag en það slapp svo sem alveg til. Lúrarnir í daga hafa verið þrír, stuttir en góðir og ég vonast til að sofa vel í nótt albúin að fara í vatnsleikfimi, fyrirlestur, í tækjasal og fræðslu. Þetta gætu orðið 4 ferðir fram í gömlu álmu! Fór tvær í dag og þótti nóg um! En allt mun þetta nú gerast – og það er hægt að setjast niður á leiðinni ;).

Færðu inn athugasemd