Nú er ég komin í Hveragerði í fyrsta sinn á ævinni. Öll í skralli náttúrulega, fer ekki fyrr!
En hvaða bindi eru þetta? Ef við segjum að sagan endalausa hafi byrjað í febrúar 2006 þá er annað bindi hennar Reykjalundur, hið þriðja er hið heldur leiðinlega tímabil sem tók við skömmu eftir Reykjalund- en þó ekki alslæmt. Þá kemur skólastjórabindið og nú erum við komin með lesendur til Hveragerðis. Ég komin í sjúkraleyfi og stefni á að gera sumarið 2015 að miklu uppreisnartímabili.
Allt hefur þetta nú gerst hratt – á þriðjudag athugaði ég með hvort eitthvað væri að frétta og þá var mér sagt að ég gæti komið á mánudaginn (í dag) eða í júlí ellegar ágúst….
Nú voru góð ráð dýr – skólastjórinn saup hveljur og ákvað í kjölfarið að hugsa sinn gang nokkuð. Til þess fékk hann sólarhring. Og þið sjáið hvert við erum komin!
Í dag hef ég svo sem ekki gert margt, heldur innritað mig fengið verkefnalista fyrir morgundaginn og keypt mér íþróttatösku, nú þarf bara að finna Polla junior og skella sér í söguskrifin!
Á morgun er það morgunmatur afar árla, þá læknisheimsókn, þá ætla ég að fara í sund og svo hitti ég sjúkraþjálfara og næst á eftir er þá matur og ég ætla að fara svo aftur í sund með afmælisbarni morgundagsins, honum Palla mínum!