Ég undra mig á athafnaleysi mínu dag hvern og oft á dag. En reyni svo að segja mér að fyrst mér líði eins og hvíldar sé þörf, þá sé nokkuð eðlilegt að bregðast við þeirri líðan með hvíld. Fyrirgefa mér það.
Ég reyni þó að paufast hér heima í einu og einu viðviki, það er jólaskrautið núna – en mér vex allt í augum.
Ég held að geðið sé ekki upp á sitt besta þessa dagana.
Þá er gott að minnast þeirra orða að gott er að líta niður í tómið og virða það fyrir sér, fylgjast með og rísa svo með hægðinni upp og dusta af sér sortann smám saman. Ekkert gerist með offorsinu í þeim efnum.
Sundleikfimin er ekki komin af stað því það var náttúrulega eins og við manninn mælt – sundlaugin bilaði um leið og ég ætlaði að nota hana – en þannig hefur það verið frá upphafi sundiðkunar minnar hér, og hvekkt mig mikið því ég þoli alls ekki að vera í kaldri sundlaug – það fer alveg með alla liði.
Morgunleikfimin á ruv gengur lítið betur og ekki er það hitastiginu að kenna – heldur hinu fyrrnefnda, en þar er nú alltaf góðra frétta að vænta. – Það er bara að ýta á play takkann. Annað kemur af sjálfu sér!
Mataræðið gengur hins vegar ágætlega – ég er svo slæm í maganum að ég þoli hvorki mikið né fjölbreytt – en held þó að ég sé að lagast eftir mikla magakveisu á föstudagskvöldið – það minnti á gamla tíma!
Vinnan – já vinnan 😉 þar er nóg að gera – ég á voðalega fínan lista þar sem bara lengist og lengist. Það kannski skýrir líðanina að einhverju leyti.