Sumarbústaðalíf

Eftir ýmis skipbrot í annars vel skipulagðri árás á ofát og leti ákvað mín að koma sér í skjól og lifa lífi einsetukonunnar. Ég hef  hreiðrað um mig í sumarbústað – dregið að mér heilsusamlegar vistir, skóladót og prentara – og ætla nú að hefja skriftir. Smá setbakk í skipulaginu í dag – þarf að hugsa þetta eitthvað aðeins öðruvísi en ég hef gert – en klárt er að ég verð að fara að skrifa eitthvað af viti – ég get ekki vonast eftir þessu koma til mín með dúfu…

Ætli sé ekki best að lesa svoldið meira fyrst…

Ástæðan fyrir veru minni hér er fyrst og fremst mataræðið – þegar ég er ein þá gengur mér betur að borða það sem er mér hollt og eftir þær fréttir að brjóskið væri verulega eytt í mínu vinstra hné – veit að það er ekki björgulegt í því hægra heldur – þá bara veit ég að nú er komið að því.

Ég man enn hvar ég stóð og hvar Baldur stóð þegar hann var að reyna að fá mig til þess að taka átakið alvarlega – blása lífi í baráttuna við kílóin. Hann nefndi ýmsa þætti sem ég gæti nýtt mér – líðan, heilsuna, – hjarta og æðakerfi, liðina og reyndi að fá mig til þess að líkja þessu við reykingar….

Ég stóð þver og í afneitun – og sagði bara að mér liði ágætlega og ég gæti ekki nýtt mér neitt af þessu því þetta væri ekki raunverulegt fyrir mér – heldur svo sem bara vitneskja sem jú kannski dræpi mig á endanum en það bara var ekki nóg… Kannski ef mér væri illt í hnénu eða einhvers staðar myndi það hjálpa….

Og þar er ég nú stödd – ógöngufær að mestu – ófær um að fara í blak og hvað þá golfið í sumar ef ekki léttir verulega á. Og þá þarf bara að létta verulega á – litli ofvirki heilinn minn ræður ekki við hvunndaginn nema hann sé mjög einfaldur og því gefst þetta mér vel – amk er dagurinn í dag búinn að vera ágætur. Mikið vatn og soðið grænmeti í hádeginu. Perur og meira vatn ;).

Ég þarf nú samt alltaf að vera á einhverju Selfossrandi – þannig að það verður spennandi að sjá hvað ákvörðunin um að borða bara hollt (og í hæfilegu magni) er sterk…

Það er núna….

Færðu inn athugasemd