Ég held að það sé fátt sem ég hugsa minna um en framtíðina. Ég held einhvern veginn að hún verði ekki – það verði ekkert næsta ár, ekkert haust – ekkert. Ég hef samt engar áhyggjur af því að þetta verði ekki – að dagarnir renni ekki upp – heldur gengur mér illa að hugsa til þeirra, skipuleggja mig og ganga út frá því að markmið sé hægt að setja og ná. Ég lifi frá degi til dag – meira að segja enn þann dag í dag þó svo að margt hafi gerst með iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun síðustu árin.
Ég fór aðeins út að keyra í dag og hvað flaug í gegnum huga minn nema þessi einfalda setning – Draumar rætast – það var ekki einu sinni draumar geta ræst – heldur einfaldlega draumar rætast.
Það að ég hafi farið á Öldungamót í blak er draumur sem rættist – með ,,mitt“ blaklið. Ekki var nóg með það að við fórum, heldur skemmtum við okkur gríðarlega vel og lærðum þvílíkt að annað eins hefur varla sést. Þessi helgi í Vestmannaeyjum var draumur sem rættist. Í haust barst þetta í tal og ég talaði digurbarkalega um ferð á Öldung 2011 við stelpurnar – við keyptum búninga og höguðum okkur í alla staði eins og við værum að fara á blakmót – ekki bara Öldung heldur líka Kjörís, og þó við höfum allar verið ákveðnar þá held ég samt að innst inni höfum við sumar varla trúað að af þessu yrði. A.m.k. ekki þegar þetta kom fyrst upp í umræðunni í haust.
Eftir að hafa farið á Öldung, verið á mörgum æfingum þar á undan og upplifað algjört getuleysi í blaki, ótta við að boltinn stefndi á mig, sorg og umkomuleysi þess sem ekki getur hreyft sig eins og hana langar, blasti skipbrot við. Mér þótti þægilegra að vera á línunni en í leik í Eyjum. Minni kröfur, minni hætta á að verða sér að athlægi. Gott að vera á pöllunum og hvetja önnur lið en minna gaman að standa og taka á móti bolta – sem gæti mistekist. Skelfingin varð svo eiginlega algjör þegar Tröllaskagi fékk mótið næsta ár – ég hef gríðarlega lítinn áhuga á því að keyra fyrir Múlann – bara engan. Þó það séu komin göng þá eru þau svo hátt uppi að ég er sjö sinnum búin að fá taugaáfall áður en að þeim kemur! Púff….
En stóru fréttirnar eru þær að eftir að hafa verið til og upplifað síðustu vikur og mánuði í blakinu með þeim hápunkti sem Öldungur var, mætti ég heim, svellköld. 20 kíló skulu fara af fyrir næsta öldung.
Hvert er ráðið við endaulausum verkjum, svefnleysi og minni hreyfugeti en efni standa til – væl og vol, uppgjöf – afneitun, vangaveltur og pælingar, – vissulega margt sem ég hef reynt síðustu tvö árin. Og ég er viss um að allt þetta skilar mér því að ég er gjörsamlega svellköld í þessari ákvörðun. Nú fara 20 kíló (12 til vara) af fyrir maí 2012. Það er bara ekkert flóknara en það.
Það er vika síðan þessi ákvörðun skreið inn í kollinn minn – eiginlega eins og vissa – þetta gerðist algjörlega af sjálfu sér – áreynslulaust og án nokkurs efa eða ótta. Ég bara einfaldlega ætla og þess vegna mun ég.
Ég mun líka lenda í mótbyr og vondum dögum og vikum jafnvel – en ég kann öll ráðin í bókinni – ég er nánast doktor í breyttum lífsstíl – nú er bara að beita ráðunum á sjálfa mig.
Nú er vika liðin – ég hef staðið mig vel – enginn skyndimatur, engar kökur né sætindi, svolítið snakk og ídýfa í gær á Eurovison en ekkert Eurovison partý í dag – heldur bara hollusta og hóflegt mataræði.
Sumarið er framundan og þá verður mataræðið sett í forgrunn – ég ber ábyrgð á því og varpa því ekki á herðar Páls, ég sé um mig og minn mat og get ekki kennt öðrum um. Frumkvæðið og framkvæmdin er mín, burtséð frá því hvað aðrir gera. Því ég verð 20 kg léttari eftir 11 mánuði. Það þýðir næstum 2 kg á mánuði – vissulega metnaðarfullt – vissulega, en ég stend við það. Draumar rætast!
Það þarf e.t..v að leggja vinnu í þá, hlú að þeim og einsetja sér en Öldungur er dæmi um Draum sem rættist – 20 120 kíló er Draumur sem rætist og með því gerist margt í mínu líf. Ég hef nefnilega trú á því að 10 hveitipokar hægi svolítið á manni og séu íþyngjandi….