Ekki veit ég hvað ég er að sýsla hér um hánótt nema svefntími minn og annarra hér á heimilinu á það til að rekast á – þegar ég sef vaka aðrir og vekja svo mig með bauki sínu… svolítið lýjandi satt að segja. Og þá fer mín á fætur, fær sér næturnasl eða annað verra… t.d. að fara í tölvuna sem maður á skilyrðislaust að láta vera um nætur!
Öxlin er heldur að lagast – en ég er enn mjög aum og ekki eru hnén heldur alveg í lagi en ég hef hafið mikla nuddherferð með Forever hitakreminu sem bjargaði mér frá beinhimnubólgunni – og vonast til að ná úr þeim nokkrum bólgum – það hefur oft virkað að nudda :-).
Annars er ég búin að sinna blakinu í dag – finna út kostnað og slíkt í kringum Öldung og búninga.Þetta tekur allt tíma og svo er námsmatið að byrja – þeas að ganga frá því. Ég er nú búin að leggja mest af því fyrir. Svo er það bara lokaspretturinn. Skipuleggja tímann vel svo eitthvað náist út úr hópnum og byrja svo bara að pakka og koma sínu dóti úr skólanum hingað heim. Ji minn ætli ég þurfi nú ekki heilt herbergi í viðbót undir allt heilaklabbið 🙂 ji minn.
Nú er ég að upplifa það í fyrsta sinn að langa til að léttast og sjá einhvern tilgang í því annan en gríðarlega skynsemi, og viðmið alls hins gáfulega – nefnilega þann að til þess að geta spilað blak þarf ég að léttast – og mig langar ekki til þess að vera dragbítur á stelpurnar. Hver veit nema löngun nái að hjálpa til. Kannski fer að bera á smá sjálfsstjórn…
En nú ætti ég að skríða í bólið og sjá hvort ég sofni nú ekki aftur…
