Jæja er ekki rétt að setja inn smá stöðumat nú í lok mánaðar og upphafs nóvember. Ég hef lést um tæp 4 kg síðan um miðjan ágúst – sem mér finnst lítið en veit hins vegar að er öldungiságætt – og ég saxa hægt og bítandi á það sem ég hef bætt á mig síðan um páska eða svo. Já svona er þetta – það eru ekki öll ár til fjár greinilega. Þýðir ekki að dvelja endalaust við það heldur hysja upp um sig brækurnar.
Ég spila blak tvisvar í viku í 90mínútur í senn – ýmsar æfingar með þar náttúrulega. Ég er farin að fara í salinn á Borg. Ég hafði nú aldrei trú á því að ég gæti notað þessa græju sem þar er – svona sambyggð lyftingagræja en þessi dásemdar sjúkraþjálfari minn – sem þjálfar líka hið ofurskemmtilega blaklið Hvatar við annan mann kom snemma einn daginn og kenndi mér á tækið og setti upp æfingahring sem við Alice kennari förum tvisvar sinnum í viku og erum 60 mín með hringinn og svo bætist upphitun við þann tíma.
Ég er algjörlega himinlifandi að vera byrjuð að lyfta þvílík sæla – það á svo vel við minn þunga skrokk. Það liggur við að ég finni mun eftir 3 skipti en þar spilar nú blakið inn í – það eru ansi góðar æfingar í upphitun þar líka. Þetta gera fjórar langar æfingar í viku og ég fer í pottinn á eftir og myki mig upp.
Bara dásamlegt.
Hið eina slæma sem hjáir mig er mín hægri mjöðm – hún er svakalega aum – ég get lyft meira en helmingi minni þyngd með henni en þeirri vinstri og er hún þó ekki alveg góð heldur. Úff – og ég finn í blakinu að þetta háir mér þvílíkt – næ ekki að spyrna mér af stað í hlaupum og svo er bara stundum eins og löppin ætli undan mér – en nú er ég farin í meðferð til Baldurs og æfingaprógrammið mitt tekur verulega á mjöðmnunum svo það er bara gott.
Annars er bara gott – næ engan veginn að halda heimilinu hreinu, vinn ekki nóg þó ég vinni rúmlega minn vinnutíma – vil helst alltaf vera í vinnunni en það má nú ekki. Ekki ef maður ætlar að hreyfa sig og eiga heimili…
Annars er einn stór vandi í mínu lífi – kvöldsvengd. Ég borða alltof mikið þegar ég kem heim eftir langar æfingar – er alveg botnlaus en ég tek á því með sjálfsaga og ákvarðanir að vopni 🙂