Sunnudagur í rólegheitum

Eftir notalega fjölskyldustund með systkinum og mökum þeirra í gær hjá Hildi nenni ég engu í dag – þvæ bara þvotta því þvottavélin mín kom úr viðgerð – það er svakalegt að vera þvottavélalaus maður minn -úff púff. Þá á eftir að þurrka en þetta hús mitt er nú ekki sérlega vel gert til þess arna.

Það er kalt úti en bjart – ég held ég ætti kannski bara að gera einmitt ekki neitt og hvíla mig bara fyrir átök vikunnar. Kannski smá handavinnu – tiltekt í dótinu mínu sem gæti nú alveg heitið drasl um þessar mundir ;-).

En allra best er nú bara að þurfa ekki að gera nokkurn skapaðn hlut nema bara það sem manni sýnist – og reyna að éta ekki mjög mikið á meðan hehehe 🙂

Staðan á minni

Jæja er ekki rétt að setja inn smá stöðumat nú í lok mánaðar og upphafs nóvember. Ég hef lést um tæp 4 kg síðan um miðjan ágúst – sem mér finnst lítið en veit hins vegar að er öldungiságætt – og ég saxa hægt og bítandi á það sem ég hef bætt á mig síðan um páska eða svo. Já svona er þetta – það eru ekki öll ár til fjár greinilega. Þýðir ekki að dvelja endalaust við það heldur hysja upp um sig brækurnar.

Ég spila blak tvisvar í viku í 90mínútur í senn – ýmsar æfingar með þar náttúrulega. Ég er farin að fara í salinn á Borg. Ég hafði nú aldrei trú á því að ég gæti notað þessa græju sem þar er – svona sambyggð lyftingagræja en þessi dásemdar sjúkraþjálfari minn – sem þjálfar líka hið ofurskemmtilega blaklið Hvatar við annan mann kom snemma einn daginn og kenndi mér á tækið og setti upp æfingahring sem við Alice kennari förum tvisvar sinnum í viku og erum 60 mín með hringinn og svo bætist upphitun við þann tíma.

Ég er algjörlega himinlifandi að vera byrjuð að lyfta þvílík sæla – það á svo vel við minn þunga skrokk. Það liggur við að ég finni mun eftir 3 skipti en þar spilar nú blakið inn í – það eru ansi góðar æfingar í upphitun þar líka. Þetta gera fjórar langar æfingar í viku og ég fer í pottinn á eftir og myki mig upp.
Bara dásamlegt.

Hið eina slæma sem hjáir mig er mín hægri mjöðm – hún er svakalega aum – ég get lyft meira en helmingi minni þyngd með henni en þeirri vinstri og er hún þó ekki alveg góð heldur. Úff – og ég finn í blakinu að þetta háir mér þvílíkt – næ ekki að spyrna mér af stað í hlaupum og svo er bara stundum eins og löppin ætli undan mér – en nú er ég farin í meðferð til Baldurs og æfingaprógrammið mitt tekur verulega á mjöðmnunum svo það er bara gott.

Annars er bara gott – næ engan veginn að halda heimilinu hreinu, vinn ekki nóg þó ég vinni rúmlega minn vinnutíma – vil helst alltaf vera í vinnunni en það má nú ekki. Ekki ef maður ætlar að hreyfa sig og eiga heimili…

Annars er einn stór vandi í mínu lífi – kvöldsvengd. Ég borða alltof mikið þegar ég kem heim eftir langar æfingar – er alveg botnlaus en ég tek á því með sjálfsaga og ákvarðanir að vopni 🙂

Mjöðmin af hjá Páli en mín hangir

…og er til tómra vandræða! Djöf… Nú er ég farin að lyfta á ný og ég gerði fullt af fótaæfingum í gær með henni Alice, og viti menn eftir stöðvar á blakæfingunni í dag þá bara bwamm var ég búin að vera og komin með staurfót. Sem sagt heldur skart farið af stað!

Oh ég sem hélt ég væri orðin þokkaleg – ég held reyndar að Baldur eigi að sjá til þess að mér hætti að vera illt í mjjöðminni…

Hann Bjartur átti sér nú fjöruga æsku

Í ágúst byrjun 2005
Jæja, nú er Bjartur orðinn opinberlega útilegu hundur – fór í Galtalæk um helgina.  Búinn að fara á Akureyri, Þingborg, sumarbústað og hver veit hvað.  Það hefur nú gengið á ýmsu en með hverri ferðinni verður hann prúðari og hann sýnir margar góðar hliðar.  Það þarf bara svolítið að taka á þessu með að hoppa upp á fólk og gelta.  En meira að segja það er að koma, því Bjartur er jú svo snjall 😀
Í lok júní 2005
Sagan um sýningarferð Bjarts og foreldra!
Það var með blendnum tilfinningum sem fjölskyldan í Heimahaga 8 tók að sér nýjan hvolp eftir að hin elskaða Trítla yfirgaf jarðlífið södd lífdaga.  Við stóðumst hins vegar ekki mátið þegar svo virtist sem hundur biði hreinlega eftir okkur í Miðengi.  Helgu virtist piltur ætla að verða nokkuð atorkusamur og bíræfinn á köflum.  Já þetta leit vissulega vel út.  Við vildum jú öll svolítinn skaphvolp.  Og það var svo sannarlega það sem við fengum.
Snemma kom í ljós að Bjartur var sannarlega atorkusamur og bíræfinn.  Mikla hörku og þó lempni þurfti til að láta litla kvikindið hætta að bíta í okkur og fá far með öllum buxnaskálmum í húsinu.  Heldur dró af krílinu þegar hann var næstum dauður – enda fyrr má nú vera.  Jafnvel harðsvíruðust óþekktarormar geta bugast.  En Bjartur sótti í sig veðrið á ný.  Skór, fægiskóflur, bastkörfur, sokkar og hvað annað – sérstaklega úr plasti fékk að finna fyrir tönnum hans og stærstu hlutir hafa nánast horfið.  Ekki næst að anna eftirspurn eftir leikföngum en hann er mjög klár að leika með hundadót – boltar, snúrur og annað dót sérhannað fyrir hunda í huga er notað til hins ítrasta.
Gönguferðir gengu svona og svona – ekki alltaf víst hver fór út með hvern, hundur eða maður.  En allt fór þetta nú að lagast  – fólk fór að þora í heimsókn til okkar og við fórum með Bjart í önnur hús til þess að þjálfa hann í mannlegum samskiptum (sem hann var ekki sérlega góður í).  Smám saman fór blessað litla hvolpabarnið okkar að verða í húsum hæft, en ekki var hann nú þægur.  En yndislega glaður, kelinn, baldinn og skynsamur.  Fyrir utan það að vera næstum með fallegast hundaandlit í heimi svona að okkar mati a.m.k. huhummmm.
Þá fékk Kersins Helga þá hugmynd að við yrðum að fara með litla skrípið okkar á sýningu, Orri færi og jafnvel Lukka, og strax settist efinn að í kollinum á mér.  Litla himpigimpið gæti nú aldrei hagað sér almennilega á sýningu!  Ég hafði nú séð myndir frá svona sýningum og þetta var allt óskaplega fínt og flott.  Ég reyndi því að draga úr þessu en það var engin undankoma – Helga var alveg staðráðin í því að þetta væri afbragðshugmynd.  Og jú jú það svo sem gæti verið nógu gaman að fá á krílið dóm – hann er jú voða fallegur blessaður!
Og hófst nú þjálfunin.  Hundaskóli einu sinni í viku, pulsuþjálfun, gönguferðir, NEI hróp og hver veit hvað undirlagði líf Bjarts.  Sitja, liggja, vera kyrr, ekki gelta, ekki stökkva upp á komumenn o.s.f.v.  Við þetta bættist svo sýningarþjálfun sem eiginlega enginn gat sinnt, Ragnheiður í sumarskóla, Páll farinn á taugum í þessu uppeldi öllu saman og Inga hálf utanveltu eftir annir í skólanum. 
Páll harðneitaði að sýna hundinn, fannst hann hreint ekki vera maður til þess og því var Ragnheiður dubbuð upp í hlutverkið, og reyndi hvað hún gat síðustu dagana að ná sambandi við óþekktarorminn.  Og svo fór með hjálp Kersins – Lindu að nokkur árangur náðist í að hemja kvikindið.  Og stóri dagurinn rann upp.
Um leið og Bjartur steig út úr bílnum varð hann vitlaus – tapaði glórunni.  Gelti, hljóp og togaði, vildi slást við allt og alla og var svona um það bil eins slæmur og hann verstur getur orðið.  Þetta leit vel út eða hitt þó heldur!  Enn kom Linda til bjargar og Bjartur náðist niður úr hæstu hæðum.  Um tíma leit þetta hreint ekki svo illa út.  En þá atvikaðist það þannig að sýningunni seinkaði og Bjartur sem getur í besta falli verið stilltur í klukkutíma missti alla einbeitingu og fór bara aftur að láta eins og kjáni!
Svo fór, að þegar aumingja Ragnheiður fór inn í hringinn þá gelti Bjartur sem aldrei fyrr, hljóp með lappirnar út og suður, og var í stuttu máli eins óþekkur og einn hundur getur verið á sýningu.  Sigh….  Ragnheiður blessunin fór náttúrulega algjörlega á taugum sem hafði ekki sérlega góð áhrif á Bjart og þó henni tækist að láta hann standa kyrran í andartak var Bjartur með hugann við allt annað en gera það með einhverjum klassa eða stæl.   Erfitt var fyrir dómarann að kíkja upp í hann og ekki sást mikið til allrar þessara dásamlegu fegurðar því Bjartur gretti sig og geiflaði, gelti og gólaði sem mest hann mátti.  Ég var úti og sá ekki atganginn, en ég heyrði í litla mínum langt út á bílastæði, ojá.  Ég fór síðan inn til að taka á móti Ragnheiðir og það stóð á endum, hún hentist út úr hringnum með hundinn, með grátstafinn í kverkunum og hafði aldrei – og höfum við þótt eitt og annað sé til kauða, upplifað aðra eins óþægð.  Og samt hafði allt gengið svo ágætlega á síðustu æfingum.
Úlla la, það má því eiginlega segja að það sé merkilegt hvaða dóm krílið okkar fékk, hann byggðist að minnsta kosti ekki á þokka Bjarts á sýningarstað eða glæsilegum hreyfingum (sem hann á nú vel að merkja til) svo mikið er víst. Við urðum 3. og  síðust í rakka-hvolpa hópnum og Ragnheiður vill meina að við hefðum alltaf orðið neðst því Bjartur hafi verið ólýsanlega óþægur!  Við verðum bara að ylja okkur við árangur Orra sem varð annar besti hvolpur sýningar og vonast eftir þægar hundi á næstu sýningu. 
Hvað höfum við ekki einhverja mánuði til stefnu :-S  En allt er þetta gaman eftir á, og við vissum svo sem alveg að Bjartur væri varla sýningarhæfur, okkur þótti hann renglulegur og grannur – ef ekki bara horaður.  Hann er svona svolítið eins og unglingsstrákur sem hefur vaxið um 20 sm á nokkrum mánuðum  – veit ekki hvar hann byrjar eða endar hreyfingarnar eftir því.  Tíhíhí.  En mikið þykir okkur vænt um greyið og ómælda skemmtun veitir hann okkur með leikjum sínum og uppátækjum og svo kemur hann bara og kyssir mann ef honum finnst vera komið nóg af skömmum eða veit að hann þarf að jafna út eitthvert syndaregistur!
Dómurinn hans Bjarts – er nú þrátt fyrir allt líklega eins góður og hann getur orðið miðað við dagsformi 😀
Very good type.  Ex. head, ex, ears, dark eyes.  Good mouth, good neck and back.  The tail has double twist but could be better placed.  Good chest, enough angel.  He tuskes front feet out a little.  One double and one single dew claw.   Good coat texture.  Noisey!!! 
Mjög góður hundur.  Afbragðs gott höfuð, afbragðs góð eyru og dökk augu.  Góður munnur, háls og bak.  Skottið er tvíhringað en gæti verið betur staðsett.  Góð bringa og nægur vinkill.  Hann er svolítið útskeifur.  Einn spori öðru megin og tveir hinum megin.  Góður feldur.  Hávaðasamaur!!! 
Við erum bara hæst-ánægð með litla skinnið.
Orri sem var annar besti hundur sýningar fékk þennan dóm – við erum mjög stollt af honum:
Ex type Ex masculine head good ears , Dark eyes, Ex Expression good mouth , ex neck, and topline, good tail, enough chest, good angulat. (vinklar) good mover, dew claws are double but should be stronger , good temperment.
Afbragðs hundur.  Afabragðs gott og karlmannlegt höfuð, góð eyru og dökk augu.  Afbragðs góður svipur, afbragðs háls og efri lína, gott skott, næg bringa, góðir vinklar, fínar hreyfingar, sporarnir eru tvöfaldir en ættu að vera sterkari.  Gott geðslag.
25. júní 2005
Jæja nú er það opinbert.  Ég er very good type!  Ég fór á hundasýningu með henni Ragnheiði – þar sem ég fékk dóm.  Ég gekk nú næstum frá Ragnheiði með óþægð og dómarinn gat ekki annað en farið bara að hlæja – en Ragnheið var svo sem ekki hlátur í huga enda lét ég svolítið kjánalega – meira að segja á minn mælikvarða.  Ég gerði ekkert af því sem búið er að kenna mér á síðustu vikum, gelti og gelti þannig að þakið notraði á höllinni, hljóp út og suður enda þótti fótaburðurinn svolítið sérkennilegur.  En þetta gengur nú betur næst.  Ég fékk nú samt fína dóma – þó ég hefði ekki verið til neinnar fyrirmyndar þegar ég var dæmdur.  Það var Orri bróir hins vegar  – hann er voðalega fínn hundur og var í 1. sæti og kannski hefur hann komist áfram.  Helga segir að Inga og Palli séu of lin við mig – en hún skilur bara ekki hvað ég er óþægur – segja þau – þau hafa bara eiginlega ekki lent í öðru eins. 
Karl Erik Johansson dæmdi mig svona þann 25. 06.05
Very good type.  Ex. head, ex, ears, dark eyes.  Good mouth, good neck and back.  The tail has double twist but could be better placed.  Good chest, enough angel.  He tuskes front feet out a little.  One double and one single dew claw.   Good coat texture.  Noisey!!! 
Svo mörg voru þau orð.  Það hefur verið staðfest, ég er hrikalega sætur!!!  Ég veit ekki hvort ég eigi nokkurn tímann eftir að vera eins kjánalegur aftur – allajafna gelti ég nú ekki mikið og ég er orðinn mjög góður að ganga með augnsamband en…. svona sýningar eru bara ekki my cup og tea….  Svoldið taugastrekkjandi satt að segja.  Spyrjið bara Ragnheiði!
12. júní 2005
Úff hvað tíminn flýgur.  Ég er orðinn 7 mánaða, ærslabelgur.  Hann Skafti afinn á heimilinu sagði einu sinni við Ingu og Palla að hans tilfinning væri nú sú að allur aldur væri erfiður þegar börn væru annars vegar.  Það ræki eitt annað í veseninu og vandræðunum.  Inga hefur nú ekki verið fjarri því að vera sammála þeim gamla í þessu og aldrei sem nú þegar unglingarnir eru orðnir þrír á heimilinu – nóg þótti henni um þegar þeir einu sem voru á unglingsárum hér voru þau Ragnheiður og Aðalsteinn.  Nú hef ég bæst í hópinn!!
Ég er jafnvel óþægari en nokkru sinni – ég fer bara svolítið betur með það.  Ég ét samt ennþá skó, ærslast í bólinu á morgnana – hoppa og skoppa á þeim sem horfa á sjónvarpið, kollsigli gesti og læt bara yfirhöfuð alveg eins og mér sýnist best henta.  Foreldrar mínir örmagna sjá þó einhver batamerki – ég hlýði nú stundum, naga aðeins minna og gelti bara næstum ekki neitt – a.m.k. ekki miðað við hvað mig langar oft að gelta mikið og lengi í einu.  Tíhíhí…
Ég er búinn að fara í 3 tíma á hundanámskeið, er mjög fljótur að læra – er sko ekki bara fallegur heldur gáfaður líka, og ég geri flest fyrir pylsubita.  Ég stend mig kannski ekkert sérlega vel í tímunum en næ mér á nokkuð gott strik hérna með Palla heima á daginn.  Ég er líka búinn að læra að ég á að ganga á gangstéttum en ekki götunni, kem oftast þegar er kallað á mig get haldið í mér næstum endalaust.  Sem sagt fyrirmyndarhundur.
Eftir hálfan mánuð á skunda með mig á hundasýningu – fá dóm.  Eins og þess þurfi, ég hef alltaf sagt að ég sé fallegasti og flottasti hundur ever og mér finnst bara að fólk eigi að trúa því.  Ég held að hann Orri bróðir minn fari líka – það verður nú gaman að hitta hann og ærslast við hann fyrir framan fullan sal af merkum hundum og dómurum.  Ojá….. Ég verð áreiðanlega góður í þeim bransa…..
Bestu kveðjur að sinni – myndir koma innan tíðar,
ykkar einlægur Bjartur Kátsson
24. apríl 2005
Jæja kæru aðdáendur!
Af mér er allt gott að frétta.  Ég dafna vel og er alveg steinhættur að vera horrengla – ég er tryggður upp í topp og búið er að skrá mig á hundanámskeið.  O já svona er nú að vera merkilegur hundur!  Og trúið mér – það er ég.  Það er hald manna að ég sé sá fallegasti sem hefur sést – en dómararnir ku víst ekki alveg vera hlutlausir.  Mér finnst ég þó algjört æði.  Ég er búinn að fatta nágrannana – Dimma er flottust af þeim en svo er þarna líka stelpa sem er sérlegur aðdáandi íslenska fjárhundsins þannig að ég er í góðu yfirlæti.  Verst hvað hún Dimma er vel upp alin, hún fer ekki yfir í minn garð og ég er rígbundinn þannig að þetta er svoldið spælandi.  En ég vonast eftir frekari kynnum í sumar!
Annars er minn helsti galli sá að ég get ekki verið einn heima – bara afber það ekki!  Nú er Ragnheiður að læra alla daga í skólanum til sex, Inga er vinnuóð og Palli ekkert skárri.  Ég og Aðalsteinn eigum svo sem ekki alveg samleið, þó hann reyni að sinna mér þegar hann er ekki of upptekinn við önnur verkefni.  Ég ætti eiginlega að vera í dagvistun segir Inga, – og ég er alveg sammála henni. 
Kveðjur úr Heimahaganum
Ykkar Bjartur
27. mars 2005
Ég og foreldrar mínir fórum um daginn að hitta aðra fjölskyldumeðlimi mína þ.e. í hundaheimum. Við fórum í Bakkatjörnina til Harðar og Stínu til að hitta hann hund föður minn – Kát.  Þar býr líka hún Lukka – litla systir mín og Katla – sem er ægilega frekur gamall hundur – svona að mínu mati, þó hún vekji ánægju hjá mannfólkinu.  Ég mátti eiginlega ekkert gera fyrir henni og á endanum varð ég bara dauðhræddur við hana og faldi mig á bakvið Ingu til að þurfa ekki að takast á við þetta skass!
Sezar kom líka í heimsókn til Káts og það er nú meiri boltinn. Ég er nú ósköp rýr eftir ælupestina og hálf lystarlaus – borða bara helminginn af dagskammtinum mínum (sem Inga hefur ægilegar áhyggjur af) og þó ég sé jafn hár og Sezar þá kæmist ég inn í hann og meira að segja Lukka sem er svo pen og fín er aðeins feitari en ég. 
Það hefur gjarnan verið haft á orði á mínu heimili að ég sé óþægur en það umtal hefur snarþagnað eftir heimsóknina í Bakkatjörn þar sem Ingu var bent á að ég væri mjög penn og fínn hundur í samanburði við suma aðra ekki eins pena hunda tíhíhíihí (Lukka og Sezar eru samt æði sko). 
En daginn eftir þessa heimsókn var ég ægilega slappur og Inga hentist með mig á dýraspítalann og sagði farir okkar ekki sléttar í fóðurmálum og holdafari.  Dýralæknirinn var nú alveg sammála að ég væri rýr þó hún vildi nú ekki meina að ég væri horaður.  Þeim leist samt ekkert á þetta lystarleysi mitt, gáfu mér ormalyf og Zulak og svo á að bíða og sjá.  Í dag vil ég helst ekkert borða, fékk smá skinku í morgun og vatnssopa.  Inga og Palli ætla að gera átak í að fara með mig út, kannski hreyfi ég mig bara ekki nóg.  Hver veit.  Helga í Miðengi skammaði nú Ingu svoldið fyrir að vera ekki búna að tryggja mig en ég held hún dröslast til þess eftir helgina.  Þrátt fyrir þetta allt saman er ég alveg hreint yndislegt dýr, blíður, kelinn og frábærlega skynsamur og fjölskyldan öll er að verða heltekin af mér.  Ég tala nú ekki um eftir að ég varð svona duglegur að fara út og pissa og kúka – sem gerðist nú eiginlega bara í gær – þá fattaði ég að maður getur látið þetta fólk opna fyrir sér og allt!  Frábært lið!
14. mars 2005
Ég fæddist 9. nóvember 2004 í faðmi fjölskyldunnar í Miðengi.  Mamma mín heitir Brella – en í fínum pappírum heitir hún Melkorku Brenda.  Pabbi minn er Ýrar-Akkur – en dagsdaglega heitir hann Kátur.  Eðli málsins samkvæmt eru báðir foreldrar mínir afskaplega myndarlegir hundar.
Ég flutti búferlum þann 1. janúar 2005 til Ingu, Palla, Ragnheiðar og Aðalsteins.  Þar undi ég hag mínum hið besta – allt þar til ég fékk heiftarlega ælupest.  Grunur leikur á að ég hafi éti chili pottrétt – nokkuð sem ég ráðlegg ekki nokkrum hvolpi að gera.  Ég var nú bara næstum dauður skal ég segja ykkur.  Þetta var óskapleg reynsla.  Ég fór meira að segja á spítala og fékk næringu í æð.  Í heila viku þar á undan og eftir þurfti að koma ofan í mig einhverri ógeðsblöndu í ml. sprautu.  Þarna mátti nú ekki miklu muna skal ég segja ykkur.  En ég er harður í horn að taka og hristi þetta af mér.
Síðan hef ég veri óþægar og atorkumeiri en nokkru sinni.  Mér finnst nefnilega alveg ótrúlega gaman að leika mér.  Ég á alls konar dót – uppáhaldið mitt er bolti með bandi í, sem hringlar – og svo á ég tannbursta sem ég naga mikið og er í fullkomnu andlegu sambandi við.  Verst hvað ég týni honum oft – en þá naga ég bara skó og sokka á meðan.  Maður verður nú að bjarga sér skal ég segja ykkur.
Ég tel mig vera afskaplega gáfaðan hund og foreldrar mínir eru sammála því – en þeim líst samt ekki á hvað ég pissa og kúka mikið inni – þau ættu bara sjálf að prófa að pissa úti þessum kulda sem er alltaf þarna úti – auj bara.
Ég á fullt af myndarlegum systkinum en ég segi ykkur nánar frá þeim seinna – enda hafið þið nóg að gera með mig til að byrja með.  (Hér er nú engu að síður slóð að myndum af okkur öllum pínulitum – þið þekkið mig áreiðanlega úr – ég er sá sætisti (bara grín)).
02. 02.2005
Hluti af sjúkrasögunni minni – en ég var mjög langt leiddur og það þurfti svo sannarlega að halda í mér lífinu.
Aðeins farinn að drekka
Bjartur byrjaði að æla um hádegisbil á miðvikudegi.  Hann var mjög slappur og svaf bara.  Hætti að borða um svipað leyti.  Fórum með hann til öryggis til Ásdísar dýralæknis en þá var hann ekki farinn að þorna neitt að ráði.  Hún ráðlagði okkur að gefa honum hunangssoð með meiru.  Bjartur var mjög slappur og versnaði heldur á fimmtudag.  Um kvöldið skeit hann ógurlega hér inni þannig að meira minnti á brunaslöngu en tæplega tveggja mánaða hund.  Heldur hresstist hann í kjölfarið og hann fékk sér smá fiskbita og drakk.  Þá héldum við, að við værum hólpin og uggðum ekki að okkur.  Um hádegisbil á föstudegi var allt komið í sama farið, hann ældi öllu sem hann átti til og meira en það.  Varð máttfarnari og máttfarnari.  Okkur var alveg hætt að lítast á þetta og brunuðum enn til Ásdísar.  Ekki leist henni nú alveg á pilt og sagði okkur að halda vel að honum ógeðsblöndunni, Zulaki og sprauta bara ofaní krílið.  Ef honum batnaði ekki ættum við að koma með hann á laugardaginn og láta hann fá vökva.
Á föstudagkvöld varð hann veikar og veikari – þó erfitt hafi verið að ímynda sér að það væri hægt.  Aðfaranótt laugardags ákváðum við að skipta með okkur nóttinni og vaka yfir honum og vökva hann reglulega.  Hann ældi öllu sem sett var ofaní hann (vökvanum) og kúgaðist mikið.  Við ákváðum því að gefa honum mjög lítið í einu og reyna frekar að láta hann halda því niðri ef þess væri nokkur kostur.
Við fórum svo með hann á dýraspítalann og Ásdís ákvað að halda honum og setja upp nál hjá honum. Þar var hann á laugardaginn, og kom svo heim – heldur hressari en það hallaði fljótt undan fæti hjá honum. Aðfaranótt sunnduags vöktum við Páll til skiptis ot við héldum hreinlega að krílið væri að kveðja – sem var óþyrmilega líkt því að missa Trítluna okkar. Við hringdum í Guðrúnu og Hörð og spurðum þau ráða en þau höfðu fengið pavró sýkingu í hvolpa einu sinni. Guðrún sagði okkur að gefa honum 2,5 ml um leið og hann væri búinn að æla og halda því áfram í hvert sinn sem hann ældi – því fyrr sem vökinn færi ofan í hann því lengur yrði hann þar – og við gerðum þetta – við vöktum til skiptis og vökvuðum hann mörgum sinnum á klst og á endanum tók hann að hjarna við og sýna smá lífsmark. Hann fór aftur á spítalann og fékk næringu í æð á sunnudeginum og þegar hann kom heim hélt hann smávegis niðri og hélt áfram að hjarna við en var áfram mjög veikur og við þurftum að vaka yfir honum fram á mánudagskvöld.