Einu sinni var ég úti að aka
– einhvern daginn miðsumars. Og ég var gjörsamlega búin á því. Alltaf með samviskubit yfir því að ég borði vitlaust, hreyfi mig ekki nóg og nefndu það bara – failure á ferð á hverjum einasta degi – hverjum einasta klukkutíma-í raun er aðdáunarvert hve miklum tíma mér tókst í að velta mér upp úr mistökum mínum endalaust og koma þó einhverju í verk. Ég gat þetta bara ekki lengur. Ég fann svo til í fótunum, mjöðmunum og var algjörlega búin að missa allt hugrekki til hreyfingar. Ég ætlaði bara að gefast upp. Lifa sæmilega sátt við mig og mitt og verða bara feitari en nokkru sinni ef leiðin bæri mig þangað. Gæti amk hvílt mig á þessari baráttu – uppgjöfin væri hvíld. Ég bara gat ekki meira – fannst mér.
Tilgangur – langanir og áform eða ákvörðun?
Og ég setti þetta upp fyrir mig og sá fléttuna fyrir mér. Ég þurfti nú ekki að hugsa mikið eða lengi til að sjá að þetta væri ekki það sem ég vildi. Onei. Fara í jólaboð og allir horfðu á mig með samúð í augunum en þó skilningi því verkefnið var náttúrulega óvinnandi – skiljanlegt að ég gæti ekki ráðið við það. úff ekki skemmtilegt en jafnvel enn verra þótti mér þó hugmyndin að því þegar ég myndi segja Baldri frá ákvörðun minni, -Já sæll Baldur, ég er nú búin að vera í svaka barningi og ég hef reynt og reynt en ég bara ræð ekki við þessa verki lengur – ég bara get þetta ekki. Já já það var nú eiginlega kornið sem fyllti málið, tilhugsunin um það hvað minn marpíndi sjúkraþjálfari myndi hugsa – því ég vissi að hann myndi ekki segja nokkurn skapaðan hlut. Já hann var svo sem búinn að sjá að ég ætlaði að gefast upp og réði ekki við þetta og ósigur væri svo sem óumflýjanlegur – já eða bara vonsvikinn.
Og þá bara FANN ég að þetta vildi ég ekki – hvað svo sem dómarar umhverfis míns segðu eða hugsuðu. Ég bara vildi ekki gefast upp – ég vildi losa mig við kílóin sem höfðu bæst við – ég vildi halda áfram og ég ákvað að gera það.
Reykjalundur og Baldur hafa gefið mér alls kyns verkfæri og ég fór í að nýta mér þau:
Matardagbók
Markmiðssetning
Hreyfingaáætlun
Leggja áherslu á mataræði
Vera í samfélagi við aðra í hreyfingunni – ekki vera of mikið ein, þannig nær maður að rífa sig niður án athugasemda.
Iðjuþjálfun – skipuleggja tíma sinn og þess vegna hef ég gert fullt í því að fækka verkefnum því ég bara fer of djúpt í málin. Það er bara þannig.
Nú hafa 3,4 kg farið á síðustu fjórum vikum – veit ekki hvernig hefur gengið síðustu viku en ég hef svo sannarlega reynt að standa mig og það er það sem skiptir máli.
Ég fer í iðjuþjálfun innan tíðar – ég tel að hún munu skipta mig mjög miklu máli
…og ég ætla að vara mig á skammdegisdrunganum.
Það er bara ein leið – áfram veginn.