…og þar sem maður er farinn að léttast þá…

...er nú best að éta bara hvað sem er því það virkar svo vel! Ég er nú alveg ferleg. Síðasta vika hefur ekki verið góð matarlega séð. Ég verð að taka með mér shake í vinnuna til þess að þetta gangi – maður er svo fljótur að ná upp í einhvern stigafjölda sem er ekki viðráðanlegur ef maður étur bara það sem fyrir manni verður. Það þarf því að eiga hrein hristiglös og soyja mjólk til að þetta gangi :-). Og láta ekki allt eftir sér alltaf.

En annars á ég mér það til málsbóta að ég synti á föstudaginn eftir vinnu en eitt af markmiðum mínum er að nota þessa  yndilsegu sundlaug meira sem er bara nokkra metra frá kennslustofunni minni. Ég mun því kaupa fullt af miðum þar um næstu mánaðarmót. Ég þarf svo bara að fá góða og rólega kennslu á þessi tæki uppfrá til þess að ég geti lyft líka t.d. á föstudögum. Kannski gæti ég fengið einn ´tima hjá Baldri í fjarsjúkraþjálfun næst þegar hann kemur að þjálfa okkur. Myndi ekki saka að spyrja a.m.k. 
Ég er búin að vera frábær í fótunum – en er aftur orðin verri, ristin að plaga mig og aum í öllum vöðvum – hélt samt að ég myndi halda mér góðri með því að vera dugleg að fara í sund og teygja. En betur má ef duga skal greinilega.
Við Palli erum að paufast við að taka hér til í ýmsum hornum og gengur nú ekki svaka vel því við verðum að hvíla okkur svaka mikið ;-). Það er bara ágætt að geta hvílt sig og hafa gaman að því. 
Ég byrja svo á spænsku námskeiði á morgun – það verður nú gaman – það er þá einhver smuga að maður geti  miðlað því til barnanna sem maður hefur lært.
Markmið næstu viku er að skrifa matardagbókina fínu í excel bara og reikna út jafn óðum.
Undirbúa alla kennslu vel og ná sem mestu út úr hverri kennslustund.
Hafa allt tilbúið spikk og span og ekki endilega hafa flækjustigið sem hæst heldur bara græja allt þokkalega.
Ef tími er til þá væri gaman að útbúa nokkur námsmatsblöð og fara yfir með krökkunum.
Nýta tímann vel og hlú að sjálfri sér.

Reyna að nýta verkina til jákvæðra hugsana gagnvart mataræðinu.

Tilgangur – langanir og áform eða ákvörðun?

Einu sinni var ég úti að aka 
 – einhvern daginn miðsumars.  Og ég var gjörsamlega búin á því. Alltaf með samviskubit yfir því að ég borði vitlaust, hreyfi mig ekki nóg og nefndu það bara – failure á ferð á hverjum einasta degi – hverjum einasta klukkutíma-í raun er aðdáunarvert hve miklum tíma mér tókst í að velta mér upp úr mistökum mínum endalaust og koma þó einhverju í verk. Ég gat þetta bara ekki lengur. Ég fann svo til í fótunum, mjöðmunum og var algjörlega búin að missa allt hugrekki til hreyfingar. Ég ætlaði bara að gefast upp. Lifa sæmilega sátt við mig og mitt og verða bara feitari en nokkru sinni ef leiðin bæri mig þangað. Gæti amk hvílt mig á þessari baráttu – uppgjöfin væri hvíld. Ég bara gat ekki meira – fannst mér.

Og ég setti þetta upp fyrir mig og sá fléttuna fyrir mér. Ég þurfti nú ekki að hugsa mikið eða lengi til að sjá að þetta væri ekki það sem ég vildi. Onei. Fara í jólaboð og allir horfðu á mig með samúð í augunum en þó skilningi því verkefnið var náttúrulega óvinnandi – skiljanlegt að ég gæti ekki ráðið við það.  úff ekki skemmtilegt en jafnvel enn verra þótti mér þó hugmyndin að því þegar ég myndi segja Baldri frá ákvörðun minni, -Já sæll Baldur, ég er nú búin að vera í svaka barningi og ég hef reynt og reynt en ég bara ræð ekki við þessa verki lengur – ég bara get þetta ekki. Já já það var nú eiginlega kornið sem fyllti málið, tilhugsunin um það hvað minn marpíndi sjúkraþjálfari myndi hugsa – því ég vissi að hann myndi ekki segja nokkurn skapaðan hlut. Já hann var svo sem búinn að sjá að ég ætlaði að gefast upp og réði ekki við þetta og ósigur væri svo sem óumflýjanlegur – já eða bara vonsvikinn. 
Og þá bara FANN ég að þetta vildi ég ekki – hvað svo sem dómarar umhverfis míns segðu eða hugsuðu. Ég bara vildi ekki gefast upp – ég vildi losa mig við kílóin sem höfðu bæst við – ég vildi halda áfram og ég ákvað að gera það.
Reykjalundur og Baldur hafa gefið mér alls kyns verkfæri og ég fór í að nýta mér þau:
Matardagbók
Markmiðssetning
Hreyfingaáætlun
Leggja áherslu á mataræði
Vera í samfélagi við aðra í hreyfingunni – ekki vera of mikið ein, þannig nær maður að rífa sig niður án athugasemda.
Iðjuþjálfun – skipuleggja tíma sinn og þess vegna hef ég gert fullt í því að fækka verkefnum því ég bara fer of djúpt í málin.  Það er bara þannig.
Nú hafa 3,4 kg farið á síðustu fjórum vikum – veit ekki hvernig hefur gengið síðustu viku en ég hef svo sannarlega reynt að standa mig og það er það sem skiptir máli.
Ég fer í iðjuþjálfun innan tíðar – ég tel að hún munu skipta mig mjög miklu máli
…og ég ætla að vara mig á skammdegisdrunganum.
Það er bara ein leið – áfram veginn.

Reykjalundur að baki – í bili

Já sæll  – Inga litla fór á Reykjalund í dag – úff, með öll sín aukakíló síðan síðast.  Skandall náttúrulega.  Lífið varð þó bærilegra vegna þess að ég er búin að taka verulega á undanfarið og missa 3,4 kg, skrifa matardagbók og hreyfa mig markvisst – já og ég hef sagt mig frá mörgum verkum.

Ég fékk tíma hjá iðjuþjálfara innan tíðar sem ætlar að hjálpa mér með að vinna áfram að því sem stendur í mér.  Það verður frábært.

Það var líka gott að þó ég sé 8 kg þyngri en þegar ég var síðast á Reykjalundi – þá hef ég bætt á mig vöðvum en ekki bara fitu – og gönguprófið kom mjög vel út – þannig að það eru margir punktar – og öllum fannst ég líta vel út og vera hressileg.  Það er líka flott – meira að segja læknirinn talaði um að ég liti svo miklu betur út en fyrst þegar hann sá mig. Ég er líka ánægð.

Ég hef ekki verið betri í fótunum síðan hún Hildur var sextug – ég er ekki að grínast!



Og auðvitað er það bara alveg stórkostlegt.  Og kílóin MUNU FARA!


Og við erum komin með blakþjálfara!

Af Ingu og hennar bauki

Sælinú  Hér er linkur að grein eftir Andra Snæ – sem mér finnst að allir eigi að lesa -og ekki nóg með það heldur getur hún orðið grunnur að einhverju meira – útgangspunktur:

En eftir að hafa unnið frá sunnudegi til miðvikudags 16 tíma hvern dag var mín nú orðin svolítið uppgefin – en þá voru eftir tveir samtalsdagar sem voru vel að merkja yndislegir.En ég fór líka að sofa klukkan fimm á föstudaginn – með smá hléi til þess að horfa á ástralska mynd um meðferð innfluttra á börn innfæddrar konu og hvíts karlmanns.  Það er nú meira – það átti að hreinsa allt – gera innfædda að þessum glæsilega hvíta kynstofni – þetta var gert við indjána, þar voru börnin sett á heimili þar sem var reynt að afeitra þau – láta þau ekki haga sér eins og villimenn, þetta gerðu Danir við Grænlendinga – þetta þótti fínt.  Höfum við eitthvað lært?  Hefur eitthvað breyst.- held að margir haldi að fjöldinn þurfi að verða eins og þeir…

En sem sagt.  Ég er nú búin að vera í nokkuð stífu aðhaldi í 4 vikur og það hefur ekki skilað sérlega miklu (reyndar er ég svo vanþakklát að mér finnst ekkert vera nema það sé mælt í kg á viku eða eitthvað álíka rugl)- en þó hefur meðvitund aukist og skráning í matardagbók er í sókn.  Hreyfing er ekki ýkja mikil enda er ég alltaf í vinnunni.  Én ég hef sagt mig úr kvenfélaginu, ég hef sagt mig úr náminu í bili og ég veit ekki hvað og hvað – það hlýtur að gefa mér færi á að hafa tíma til einhverra hluta.

Vonandi…

Bendi á http://www.matarvefurinn.is þar er auðvelt að reikna út kal í öllu því sem maður borðar.