Gengið

Jæja hreyfingin er að komast í nokkuð fastar skorður – í dag fórum við Áslaug fimm sinnum upp á Kolgrafarhól og nutum okkar í veðurblíðunni þó að á köflum væri nokkuð vindasamt.  En þá er markmiðinu náð að fara fimm sinnum þarna upp – þá er hægt að taka næsta hól – hólar eru fínir til að æfa þolið.  Í gær fór ég í göngu í um klst með Reykjalundargenginu mínu dásamlega um Þrastarskóg en í gærmorgun synti ég 400 m til að liðka mig eftir hjólreiðarnar og ekki síður fyrir gönguna.

Á morgun fer ég síðan með afbragðskonum í hjólatúr niður í Gaulverjabæ – það er fín spá og þetta verður bara gaman!  Líklega þarf ég nú samt að taka það svo rólega um helgina – það eru svo sem komnir smá verkir hér og þar í kroppinn, herðar aumar og úlnliðurinn aumur eftir stafina í gær og í dag – en það munar helling að ganga með þá bæði brennslulega séð og svo er stuðningur af þeim í brekkum.

Mataræði gengur ekki nógu vel.  ÉG er alltaf svöng og síhugsandi um mat.  Einu syndir mínar í dag eru samt smjörát – annað hef ég að mestu látið í friði, ah… jú smá nammi.  Dj… sem það ætlar að vera erfitt að hanga á beinu brautinni.  Ég þarf að fækka þessum dögum verulega sem ég læt undan þörfum mínum í sætindi.  Ég er ekkert alveg svartsýn a að það takist.  Amk er ég í fínu standi – get gengið auðveldlega í 60 mínútur og kemst upp nokkurn bratta – þetta lítur ekkert svo illa út.  Þessir svaka verkjadagar verða bara að láta sig hverfa – verkirnir minnka við sund og hjólreiðar.  Það er bara að ofgera sér ekki.

En forgangsatriði er náttúrulega ásamt því að hreyfa sig að huga verulega að því að telja ofan í sig stig og verða þannig meðvitaðri um það sem ég set ofaní mig.  Ég þarf að prenta út matardagbók – það er líka alveg klárt.

Og ég verð held ég að eignast Klovn seríurnar.  Ég segi það satt

Færðu inn athugasemd