Inga bítur í skjaldarrendur

Jæja það er í nógu að snúast – útilega og hvur veit hvað.  Gera vagninn klárann og finna útilegudót sem var einhvern veginn dreift um allt hús og allar koppagrundir!  Maður ætlar einhvern veginn alltaf í eina útilegu enn – sem aldrei verður svo af og því er ekki alveg gengið frá hlutunum :-).  En vagninn kemur vel undan vetri – ilmandi fínn og flottur.  En í haust ætla ég að passa þetta betur, og skrifa niður hvað ég geri við hlutina og hvernig ástandið er í vagninum, hvað þarf að laga og svona.  Maður man ekki neitt orðið!

En þó mikið sé talað um útilegu hér og á fésinu þá mega þjófar alveg gleyma því – þar sem ég og Bjartur verðum hér heima við, hann verður áreiðanlega ekki til mikillar skemmtunar þarna og ef ég þekki fólk rétt þá verður eitthvað af lausum hundum og það þolir minn maður nú alls ekki.

Það gengur mjög vel hjá mér aðhaldið þó eitthvað rati nú inn fyrir mínar varir þá hef ég verið svo dugleg að hreyfa mig að það kemur ekki að sök.  Ég held áfram að stýra mataræðinu og rifja upp forna takta (sem eru nú ekki fornir því það er ekki eins og ég hafi hætt í öllu saman bara slegið af).  Ég kann, veit og get – og nú er ég meira að segja sannfærð um að ég VILJI – vilji er allt sem þarf, ákvarðanir segi ég.  Vera búin að ákveða – og bregða ekki útfrá þeim ákvörðunum.  Það er eiginlega mitt ráð.

Ég fór þrisvar á Kolgrafarhólinn í gær og ég bara átti ekki erfitt með það, fann hvorki til í hné – þökk sé stórkostlegri hnéhlíf sem mér áskotnaðist (var viss um að það fengist engin nógu sver á mig -gaf þá ekki blakfélagi minn mér eina sem lá ónotuð heima hjá henni!  ég á nú eftir að launa þann greiða!) – né í mjöðmum sem er nú enginn smá sigur.  Vöðvafesturnar þar eru bara nokkuð til friðs þessa dagana -það er hjólið og sundið sem bjargar öllu þar.  Og svo sit ég minna.  Síðan djöflaðist ég við að tjalda vagninum í gær og koma honum í stand þannig að hreyfingin var bara fín og rúmlega það þann daginn!

Í fyrradag fór ég litla Votmúla og synti svo á eftir – það var frábært – frábærast var hvað ég átti létt með það – hjólreiðarnar í vor hafa hjálpað eins og ég held ég hafi verið búin að monta mig af :-).

 Vigtin hrapar niður á við – og ég er búin að plana helgina, útilegur eru ekki sérlega léttings-vænar! Auðvelt að borða hvað sem er í þeim – aldrei eins og þá er mikilvægt að hreyfa sig – hnéhlífin og gönguskór,sundbolur og gleraugu verða skoho tekin með í sumar :-).

Sem sagt – ég er svaka ánægð með mig – aftur og enn búin að sýna mér að ég get víst það sem ég VIL: 

Ég vil ekki vera konan sem léttist um 40 kg og bætti því svo á sig aftur – með tilheyrandi niðurlægingu.
Ég vil ekki vera konan sem sprakk á limminu og gafst upp!
Ég vil ekki vera konan sem hætti að hreyfa sig og fór að lifa lífi verkjasjúklingsins.

Ég er nefnilega sú sem hugsa í lausnum og því ætla ég ekki að taka svona mörg verkefni að mér – það hljóta að vera til viðlíka frábærir einstaklingar og ég í veröldinni sem geta tekið eitthvað af þeim að sér 🙂

En nú er það söngheftagerð, skonsur, skúffukökur og pizzusnúðar fyrir ættarmótið.  Allt á fullu nema ryksugan og því er hér heldur mikið af hundahárum fyrir minn smekk 🙂  Þau bíða og verða hér á eftir líka  kem þeim út þá!

Færðu inn athugasemd